Umferðarlög

Fimmtudaginn 21. desember 1995, kl. 12:51:33 (2314)

1995-12-21 12:51:33# 120. lþ. 75.6 fundur 259. mál: #A umferðarlög# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur


[12:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er gjörsamlega ófullnægjandi. Ég vek athygli á því að í greininni sjálfri segir að ráðherra setji reglur um innheimtu gjaldsins og um skil þess í ríkissjóð. Hvað segir í greinargerð með greininni í þessu afar stutta og ómerkilega frumvarpi, skrölta litla? Þar segir:

,,Í 1. gr. er lagt til að sérstakt umferðaröryggisgjald, sem sett var á með lögum nr. 15/1992, hækki úr 100 kr. í 200 kr. Er þessi breyting lögð til í tengslum við fyrirhugaða breytingu á 18. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996.``

Hvað er þarna verið að segja? Það er verið að segja að þessar 100 kr. sem eiga að leggjast ofan á skoðunargjöld bifreiða séu eyrnamerktar því að standa undir kostnaði vegna laga um ábyrgð ríkisins á greiðslum bóta til þolenda afbrota. Ég hef nú ýmislegt séð um dagana en svona hlutir held ég að taki öllu fram. Það er verið að segja það hér að vegna þess að ríkisstjórnin lét undan þrýstingi og dró aðeins úr skerðingu þeirra lagaákvæða, og það kostar viss útgjöld að sjálfsögðu umfram það sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir, þá verði alls óskyldur tekjustofn hækkaður og því fé varið í þessu skyni. Eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir, þá er sú breyting ekki tímabundin eða bundin við afgreiðslu fjárlaga þessa árs eins og málum er hér skipað ef marka má greinargerð með skrölta.

Ég segi það alveg eins og er, herra forseti, að það er alveg óviðunandi að fá ekki skýringar á þessu máli og þessu verði þá breytt og það komi a.m.k. einhvers konar yfirlýsing sem hafi lögskýringargildi gagnvart framtíðinni í þessum efnum. Ég tel eitt vera hvernig menn ganga frá þessu máli vegna fjárlagaársins 1996 út af fyrir sig, þó það sé ekki beinlínis áferðarfallegt að hafa svona hrossakaup skjalfest. En látum það nú vera. En að ætla sér með það inn í framtíðina án frekari skýringa, það gengur ekki. Svo óska ég eftir því og ítreka að ég vil fá að heyra eitthvað frá þeim sem fara með umferðaröryggisþátt málsins, hæstv. ráðherra eða hv. 6. þm. Reykv.