1995-12-22 00:47:01# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[24:47]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. meiri hluta fjárln. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1996.

Nefndin hefur haft fjárlagafrv. til athugunar frá því að 2. umr. fór fram 14. des. sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hluta stofnana, þ.e. Ríkisútvarpsins, Lánasjóðs ísl. námsmanna. Fulltrúar efnahagsskrifstofu fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frv. og horfur í þjóðarbúskapnum.

Í máli fulltrúa Þjóðhagsstofnunar kom fram að horfur í efnahagsmálum eru hagstæðari en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun sem lögð var fyrir Alþingi í haust.

Þjóðhagsstofnun áætlar að þjóðarútgjöld aukist um 4,9% á árinu. Afgangur af viðskiptajöfnuði stefnir í að verða minni á þessu ári en gert var ráð fyrir. Reiknað væri með að afgangurinn væri 2 milljarðar á þessu ári í staðinn fyrir 4,7 milljarða samkvæmt þjóðhagsspá. Þjóðhagsstofnun gerir nú ráð fyrir að hagvöxtur á árinu verði 2,6% í stað 3,2% í þjóðhagsáætlun og spáð er 3,2% hagvexti á næsta ári og aukningu þjóðartekna um 3,7%.

Vegna aukinna umsvifa í þjóðarbúskapnum er gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki á árinu 1996 og verði 4% í stað 5% eins og þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þjóðhagsstofnun telur líklegt að verðbólga aukist nokkuð á næsta ári og er spáð að neysluverð hækki um 2,75% á milli ára.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu mála og mun minni hlutinn skila sérstöku nefndaráliti. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hann stendur að og gerðar eru tillögur um á sérstökum þingskjölum. Tillögur meiri hluta nefndarinnar, er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs, leiða til hækkunar útgjalda um 829,6 millj. kr.

Niðurstöður eru að heildargjöld verði 124,8 milljarðar og heildartekjur 120,9 milljarðar sem leiðir til þess að halli ríkissjóðs verði um 3,9 milljarðar þannig að markmið sem sett voru í fjárlagafrv. um halla hafa náð fram að ganga.

Ég mun nú skýra þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til við 4. gr. frv. en fyrir breytingunum er einnig gerð grein í nefndarálitinu þannig að ég mun stikla á stóru og svara fyrirspurnum ef fram koma í umræðunni á eftir.

Æðsta stjórn ríkisins. Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka fjárveitingu til viðhalds fasteigna Alþingis um 20 millj. kr. vegna endurbóta á húseignum Alþingis. Fjárhæðin er ætluð til að hefja síðasta áfanga endurgerðar húsanna við Kirkjustræti.

Forsrn., aðalskrifstofa. Lagt er til að framlag til aðalskrifstofunnar hækki tímabundið um 6 millj. kr. en frá næstu áramótum tekur Ísland við formennsku í EFTA og stendur hún allt næsta ár. Formennskunni fylgir m.a. að Íslendingar þurfa að taka að sér forustu í fleiri nefndum innan EFTA en nú er og nauðsynlegt er að auka starfsemi í sömu nefndum til að gera EES-starfið virkara. Lausleg áætlun bendir til að kostnaður geti numið 8--10 millj. kr. en viðkomandi ráðuneyti verða að einhverju leyti sjálf að standa undir þessum kostnaði. Eins og áður er sagt er lagt til að veittar verði 6 millj. til þessa verkefnis og ráðuneytisstjórum forsrn. og utanrrn. verði falið að taka umsóknum einstakra ráðuneyta um framlög af þessum lið og gera tillögur til forsrh. og utanrrh. um úthlutun.

Ýmis verkefni vegna 1000 ára afmælis kristnitöku. Nefnd skipuð forseta Íslands, forsrh., forseta Alþingis og biskupi er að störfum við að undirbúa hátíðahöld árið 2000 til að minnast 1000 ára afmælis kristnitöku á Íslandi. Eftir tillögu nefndarinnar er lagt til að veittar verði 4 millj. kr. til undirbúnings.

Byggðastofnun. Lagt er til að framlag til stofnunarinnar verði hækkað um 8 millj. kr. vegna sérstakra aðgerða til stuðnings ferðaþjónustu.

Menntmrn. Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka framlag til Háskóla Íslands um 15 millj. kr. Hækkunin er að hluta til vegna fjölgunar nemenda og nýrra verkefna. Lagt er til að hækka fjárveitingu til Háskólans á Akureyri um 1,5 millj. kr. vegna nýrra verkefna.

Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til Kvikmyndasjóðs verði hækkað um 9,3 millj. kr. og verði 98 millj. kr. sem er svipuð fjárveiting og í fjárlögum þessa árs. Lagt er til að framlag Íslensku óperunnar verði hækkað um 6,8 millj. kr. og verður framlag þá sambærilegt við það sem er í fjárlögum 1995. Á næstunni verða hafnar viðræður við Íslensku óperuna um endurskoðun á þeim samningi sem í gildi er milli óperunnar annars vegar og menntmrn. og fjmrn. hins vegar.

Meiri hluti fjárln. leggur til að tekinn verði nýr liður þar sem framlag til Hins íslenska bókmenntafélags verður 12 millj. kr. Í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 var ákveðið að ráðast í útgáfu Sögu Íslands og annast hið íslenska bókmenntafélag í ritstjórn og útgáfu verksins. Gert var samkomulag um að umsjónarkostnaðurinn yrði greiddur úr ríkissjóði en hann yrði síðan endurgreiddur með hlutdeild í söluandvirði útgefinna rita. Tekjur af sölu ritanna hafa ekki orðið þær sem vænst var. Forsrn. mun gera nýjan samning við félagið vegna ritunar á útgáfu þeirra binda sem eftir eru. Verður gert ráð fyrir að ríkið styrki útgáfu þeirra með beinum hætti.

Lagt er til að framlag til Íþróttasambands fatlaðra hækki um 4 millj. kr. vegna ólympíuleika fatlaðra á næsta ári. Færist þetta undir ýmis íþróttamál. Einnig er lagt til að hækka framlag til Menntastofnunar Íslands og Bandaríkjanna um 2 millj. kr. og verður heildarframlag þá 7,5 millj. kr.

Utanrrn., aðalskrifstofa. Um miðjan nóvember sl. var skipuð samstarfsnefnd um verkefnaútflutning og fjárfestingu íslenskra fyrirtækja erlendis. Lagt er til að kostnaði af starfi nefndarinnar verði skipt á þrjú ráðuneyti, utanrrn., sjútvrn. og iðnrn. og hækkar framlag til hvers þeirra um 3 millj. kr. Verkefnið er unnið í samvinnu við Útflutningssjóð, Þróunarsjóð sjávarútvegsins og Iðnþróunarsjóð.

Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til Þróunarsamvinnustofnunar muni hækka um 5 millj. kr. en framlag til aðstoðar Íslands á svæðum Palestínumanna í Ísrael lækki um sömu fjárhæð. Síðastnefndi liðurinn var einnig lækkaður við 2. umr. fjárlaga en eins og fram kom í ræðu minni hefur komið í ljós að framlag Íslands eins og það er áætlað í fjárlagafrv. er hærra en loforð íslenskra stjórnvalda kváðu á um.

Landbrn. Brtt. er varðar aðalsskrifstofu landbrn. er vegna stöðu ritara við ráðuneytið. Lagt er til að taka inn nýjan lið vegna Stóra-Ármóts og er framlag 1,5 millj. kr. Í fjárlögum 1994 og 1995 var 1,5 millj. kr. framlag til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins sem ætlað var til að mæta afborgunum af lánum vegna framkvæmda við Tilraunastöðina á Stóra-Ármóti. Nú er lagt til að þessi fjárveiting verði sérmerkt.

Í frv. til fjárlaga var gert ráð fyrir að starfsemi RALA, sem er nú til húsa í straumfræðihúsinu á Keldnaholti, yrði flutt yfir í húsnæði Veiðimálastofnunar í Kollafirði. Vegna kýlaveiki sem kom þar upp verður ekki af flutningunum. Áætlað hafði verið að þessi flutningur mundi spara 4 millj. kr. í rekstrarkostnað en þar sem þessi áform ganga ekki eftir er gerð tillaga um að hækka framlag um 4 millj. kr. en á móti á að lækka framlag um 1,5 millj. kr. vegna tilflutnings á fjárveitingu til Stóra-Ármóts eins og ég gat um að framan.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka framlag um 8,1 millj. kr. vegna endurgreiðslu stimpilgjalda á grundvelli skriflegrar yfirlýsingar fyrrv. fjmrh. frá 11. maí 1990.

Sjútvrn. Lagt er til að framlag til aðalskrifstofunnar hækki um 3 millj. kr. vegna samstarfsnefndar um verkefnaflutning sem ég gerði grein fyrir í umfjöllun minni um utanrrn.

Ýmis verkefni. Mannréttindaskrifstofa Íslands. Við 2. umr. var lagt til að stofna nýjan lið með fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Lagt er til að hækka þennan lið enn frekar eða um 1 millj. kr. og verður heildarframlag 4 millj. kr.

Bætur brotaþola. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að fresta gildistöku laga um bætur úr ríkissjóði til þolenda afbrota. Af þeim sökum var ekki gert ráð fyrir fjárveitingu í fjárlagafrv. Gerðar hafa verið breytingar á þessu í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og leiða þær til þess að heildarkostnaður vegna laga um bætur til brotaþola verði 40 millj. kr. á næsta ári. Meiri hluti fjárln. leggur til að stofnaður verði nýr liður og fjárveiting verði 45 millj. kr.

Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka sértekjur Umferðarráðs um 13 millj. kr. en við það lækkar ríkisframlagið um sömu fjárhæð.

Í frv. til fjárlaga miðuðust fjárveitingar til fjögurra sýslumannsembætta í Bolungarvík, Ísafirði, Ólafsfirði og á Akureyri við að leggja embættin í Bolungarvík og á Ólafsfirði niður. Fjárveitingar til þeirra voru lækkaðar en fjárveitingar embættanna á Ísafirði og Akureyri hækkaðar þar sem fyrirhugað var að kosta lögregluvarðstofur í Bolungarvík og Ólafsfirði af þeim liðum. Nú hefur verið fallið frá þessum áformum en þess í stað hyggst dómsmrh. skipa nefnd til að endurskoða starfssvið og rekstur allra sýslumannsembætta. Breytingartillögur meiri hluta fjárln. miða því að færa fjárveitingar umræddra fjögurra embætta til fyrra horfs.

Lagt er til að framlag til sýslumannsins í Keflavík hækki um 9 millj. kr. og er þar um að ræða millifærslu frá fjárlagalið Gjaldheimtu Suðurnesja. Sá liður er felldur niður vegna breytts fyrirkomulags á innheimtu opinberra gjalda á Suðurnesjum.

Undir félmrn. er lögð til 17,4 millj. kr. hækkun til Sólheima í Grímsnesi og verður heildarfjárveiting 98,8 millj. kr. Útgreiðsla þessarar hækkunar er skilyrt því að gengið verði frá þjónustusamningi milli félmrn. og Sólheima sem byggist á þeirri fjárveitingu sem ofar greinir.

Að venju þarf að endurskoða framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þegar endurskoðuð tekjuáætlun liggur fyrir en framlag ríkisins til sjóðsins samanstendur á 1,4% af skattheimtu ríkisins, fjárveiting í stað landsútsvars sem hefur verið lagt niður, og 35 millj. kr. framlagi vegna átaks um sameiningu sveitarfélaga.

Við 2. umr. fjárlaga var lagt til að lækka óskiptan lið vinnumála um 10 millj. kr. Meiri hluti fjárln. hefur endurskoðað þessa ákvörðun og leggur til að hækka liðinn aftur um 6 millj. kr.

[25:00]

Lagt er til að lækka Atvinnuleysistryggingasjóð um 400 millj. kr. og skýrist það af þremur þáttum. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að bætur atvinnuleysistrygginga hækki um 2.700 kr. á mánuði frá 1. jan. 1996 sem eykur útgjöld sjóðsins um 15 millj. kr. Þá gerir endurskoðuð þjóðhagsspá ráð fyrir 0,4% minna atvinnuleysi sem lækkar útgjöld sjóðsins um 300 millj. kr. Loks er gerð tillaga um að færa 250 millj. kr. framlag af fjárlagalið Atvinnuleysistryggingasjóðs yfir á fjárlagaliðinn Eftirlaunasjóður aldraðra í heilbrrn. Með þessu er verið að létta af Atvinnuleysistryggingasjóði kostnaði vegna eftirlauna aldraðra sem sjóðurinn hefur samkvæmt lögum borið hingað til. Þess í stað mun hlutur sjóðsins framvegis verða greiddur beint úr ríkissjóði. Þessi breyting tengist ákvörðun um að skipta tryggingagjaldi, atvinnutryggingagjaldi og almennu tryggingagjaldi. Atvinnutryggingagjaldinu er alfarið ætlað að standa undir kostnaði við Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Lagt er til að hækka óskipt framlag til félagasamtaka en sundurliðun hefur verið birt sem sérstakt yfirlit og lagði fjárln. fram brtt. um þennan lið við 2. umr. fjárlaga. Auk þess að hækka liðinn er lögð til leiðrétting á sundurliðun liðsins þannig að inn komi nýr undirliður sem er 2 millj. kr. framlag til Blindrafélagsins.

Heilbr.- og trmrn. Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjaramála var ákveðið að hækka bætur almannatrygginga um 450 millj. kr. Hluti þeirrar hækkunar kemur á bætur laga um félagslega aðstoð sem hækka um 50 millj. kr. Þá er fjárhagsrammi hækkaður um 30 millj. kr. vegna þess að áform um lækkun heimildarbóta í fjárlagafrv. munu ekki ganga að fullu eftir eins og ráðgert hafði verið.

Gerð er tillaga um að framlag til lífeyristrygginga hækki samtals um 460 millj. kr. Stærstur hluti þess er vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um hækkun bóta sem skiptist á lífeyristryggingar og bætur félagslegrar aðstoðar. Lífeyristekjutrygging, örorkubætur og örorkustyrkur, auk fæðingarorlofs, mun því hækka um 3,5% 1. jan. 1996. Hækkun bóta er heldur meiri en felst í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Samhliða hækkun bóta er fallið frá því að fella svonefndar eingreiðslur inn í grunnfjárhæðir bóta og verða eingreiðslur þess í stað greiddar með hliðstæðum hætti og áður.

Fyrirsjáanlegt er að áform um að telja fjármagnstekjur með tekjugrunni við ákvörðun tekjutengdra bóta mun ekki taka gildi fyrr en 1. sept. 1996 og veldur það 200 millj. kr. minni sparnaði en ráðgert var.

Lagt er til að framlag til sjúkratrygginga lækki um 135 millj. kr. Í fyrsta lagi lækkar framlagið um 120 millj. þar sem fallið er frá gjaldtöku vegna dvalar á sjúkrahúsum. Í upphaflegum tillögum heilbrrh. var áætlað að gjaldið skilaði 200 millj. kr. tekjum til sjúkrahúsanna. Við lokafrágang tillagnanna var áformunum breytt þannig að gjaldið átti að skila 100 millj. kr.

Í samræmi við ákvæði í lögum um almannatryggingar er lagt til að útgerðarmenn greiði sérstakt iðgjald í slysatryggingar vegna kaups og aflahlutar sjómanna. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði ákveðið í reglugerð og innheimt af Tryggingastofnun ríkisins. Samtals er áætlað að gjaldið skili 110 millj. kr. tekjum á árinu 1996 og er gerð tillaga um að framlag ríkissjóðs til slysatrygginga lækki um sömu fjárhæð.

Gerð er tillaga um að fjárveiting til eftirlauna aldraðra hækki um 250 millj. kr. Er það í samræmi við þær breytingar sem ráðgerðar eru á fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Meiri hluti fjárln. leggur til að framlag til landlæknis verði hækkað um 2 millj. kr. og er hækkunin af tvennum toga. Annars vegar til að kosta átak til að draga úr lyfjaávísunum. Hins vegar er framlagið ætlað til að hrinda af stað fræðsluherferð til að kynna almenningi hvernig megi draga úr líkum á beinþynningu.

Málefni fatlaðra. Gerð er tillaga um nýjan lið, Gigtarráð, og eru færðar á þann lið 2 millj. kr. en á móti lækkar liðurinn Málefni fatlaðra, ýmis starfsemi, um sömu fjárhæð.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að framlög til sjúkrahúsa utan Reykjavíkur og Reykjaness lækki um 50 millj. kr. Heildarfjárveitingar til sjúkrahúsanna voru lækkaðar um 100 millj. kr. og þar af voru 50 millj. kr. settar á sérstakan fjárlagalið til útdeilingar síðar. Hér er gerð tillaga um úthlutun á 48 millj. kr. til 11 sjúkrahúsa, eins og fram kemur í nál., og lækkar fjárveiting á liðnum 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.

Gerð er tillaga um að framlag til Sjúkrahússins á Akranesi hækki um 13,6 millj. kr. Þar af eru 7,6 millj. kr. færðar á rekstrarhagræðingarlið, samanber það sem fram kom að framan, og 6 millj. kr. eru vegna þess að fallið var frá gjaldtöku vegna dvalar á sjúkrastofnunum. Gerð er tillaga um að framlag til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hækki um 37 millj. kr. Þar af er 22,5 millj. kr. úthlutað af rekstrarhagræðingarlið og 4,5 millj. kr. eru vegna nýrrar stöðu sérfræðings í geðlækningum og lækkar fjárveiting á liðnum 370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi um sömu fjárhæð. Gerð er tilfærsla milli launa og sértekna þannig að fjárveiting til launa hækkar um 15 millj kr. og sértekjur hækka að sama skapi. Að síðustu er gert ráð fyrir að sértekjur lækki um 10 millj. kr. þar sem fallið er frá gjaldtöku vegna dvalar á sjúkrahúsum.

Framlag til Sjúkrahússins á Suðurnesjum er lækkað um 5 millj. kr. sem eiga að renna í sérstakan sjóð sem notaður verður til að koma á aukinni og hagkvæmari verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi. Sjúkrahúsið hefur átt við mikinn rekstrarvanda að stríða á þessu ári og hefur sérstakur tilsjónarmaður skilað tillögum um lausn á þeim vanda. Til að létta vandann er sérstök fjárveiting í fjáraukalögum fyrir árið 1995 sem getur að hluta til komið á móti uppsöfnuðum halla frá fyrri árum. Fjárveitingin verður greidd út eftir því hvernig stjórnendum sjúkrahússins tekst til við að ná tökum á rekstri spítalans.

Gerð er tillaga um að liðurinn Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi hækki um 195,5 millj. kr. Hækkunin stafar af 200 millj. kr. framlagi sem tekið er af sjúkrahúsunum í Reykjavík og Reykjanesi og nota á til að auka verkaskiptingu og koma á meira hagræði í skipulagi sjúkrahúsþjónustu á svæðinu. Heilbrrh. mun ráðstafa fénu með hliðsjón af ráðstöfunum til að koma rekstri sjúkrahúsanna í lag og verður gerð úttekt á rekstri sjúkrahúsa með fjölþætta starfsemi með það fyrir augum að marka stefnu þeirra til næstu ára. Fjárln. verði kynntar niðurstöður þegar þær liggja fyrir.

Gerð er tillaga um að framlag til Ríkisspítalanna lækki samtals um 23 millj. kr. frá frv. eftir 2. umr. Í fyrsta lagi lækkar fjárveiting til spítalanna um 120 millj. kr. sem er framlag í sérstakan sjóð undir fjárlagaliðnum Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi, eins og þegar hefur komið fram. Í öðru lagi lækka sértekjur um 82 millj. kr. þar sem hætt hefur verið við gjaldtöku vegna dvalar á sjúkrahúsum og hækka því framlög til spítalanna um sömu fjárhæð. Loks hækkar fjárveiting um 14,5 millj. kr. sem flytjast á sjúkratryggingum. Ríkisspítalar eiga við verulegan vanda að stríða á þessu ári en halli á rekstri spítalanna er áætlaður um 400 millj. kr. í árslok. Til að lækka skuldastöðu spítalanna er gert ráð fyrir 150 millj. kr. framlagi í fjáraukalögum fyrir árið 1995. Gert er ráð fyrir að Ríkisspítalarnir fái framlag af liðnum Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi til að styrkja reksturinn í tengslum við samvinnu sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi.

Gerð er tillaga um 37,7 millj. kr. hækkun á framlagi til Sjúkrahúss Reykjavíkur. Lagt er til að framlag spítalans í sjóð vegna sjúkrahúsanna í Reykjavík og Reykjanesi verði 70 millj. kr. og lækkar fjárveiting til hans að sama skapi. Þar sem fallið hefur verið frá gjaldtöku vegna dvalar á sjúkrahúsum lækka sértekjur spítalans um 97 millj. kr. og framlög frá ríkissjóði hækka að sama skapi. Loks hækka sértekjur spítalans um 10,7 millj. kr. vegna neyðarvaktar á Reykjavíkursvæðinu en eins og þegar hefur komið fram í umfjöllun um sjúkratryggingar er um tilfærslu frá Tryggingastofnun ríkisins að ræða. Gert er ráð fyrir að Sjúkrahús Reykjavíkur fái framlög á liðnum Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi til að styrkja reksturinn í tengslum við samvinnu sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Reykjanesi. Fjárln. leggur áherslu á aukið samstarf þessara sjúkrahúsa og væntir árangurs af því í betri nýtingu fjármuna.

Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka framlag til tækjakaupa á liðnum Sjúkrahús og læknisbústaðir um 2 millj. kr. Hækkun þessi er ætluð til hópslysabúnaðar á Sjúkrahúsinu á Ísafirði.

Gerð er tillaga um hækkun á styrk til reksturs Krýsuvíkurskóla um 2 millj. kr. og verður styrkurinn því 14 millj. kr. Heildarframlög til St. Jósefsspítala, Hafnarfirði, er óbreytt frá frv. en þær breytingar eru lagðar til að framlag spítalans í sjóð til að auka hagkvæmni á sjúkrahúsunum í Reykjavík og á Reykjanesi verði 5 millj. kr. Framlag til spítalans hækkar um 5 millj. kr. vegna þess að hætt hefur verið við gjaldtöku vegna dvalar á sjúkrahúsum. Verulegur rekstrarvandi hefur verið hjá spítölum á þessu ári og undanfarin ár. Til að taka á þeim vanda var skipaður tilsjónarmaður yfir spítalann. Til að létta vandann er sérstök fjárveiting í fjáraukalögum fyrir árið 1995. Hluta hennar er ætlað að koma á móti uppsöfnuðum halla frá fyrri árum og er hún færð á fjárlagaliðinn 370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi. Fjárveitingin verður greidd út í samræmi við væntanlegt samkomulag við spítalann og framgöngu stjórnenda hans við að koma rekstrinum til samræmis við fjárlög.

Sjálfsbjörg. Tryggingastofnun ríkisins hefur gefið Sjálfsbjörgu tvo valkosti varðandi fyrirkomulag sjúkraþjálfunar: Að keypt verði þjónusta af sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfurum eða stofnunin reki sjálf sjúkraþjálfun og fái aðeins 60% taxta sem greiddur hefur verið fyrir þjónustuna hingað til. Við þessa breytingu lækka laun um 17 millj. kr. en sértekjur lækka á móti um 17 millj. þannig að heildaráhrif á fjárveitingu Sjálfsbjargar eru engin. Hins vegar lækka önnur gjöld nokkuð og leggur meiri hluti fjárln. til að komið verði til móts við stofnunina með 3,3 millj kr. úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárliðnum 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.

Lagt er til að liðurinn Heilsugæslustöðvar almennt lækki um 5 millj. kr. Fénu verður ráðstafað til heilsugæslustöðvanna í Efra-Breiðholti, Mjódd og Seltjarnarnesi og fjölgar um eina stöðu læknis á hverri stöð. Meiri hluti fjárln. leggur til að hækka framlag til heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri um 0,7 millj. kr. vegna heimahlynningar.

Heilsugæslustöðinni á Suðurnesjum var settur sérstakur tilsjónarmaður vegna mikils uppsafnaðs rekstrarvanda. Heilbrrn. lagði til að fjárveiting til heilsugæslustöðvarinnar yrði hækkuð að fengnum tillögum tilsjónarmanns. Meiri hluti fjárln. féllst á þessa tillögu og leggur til 8 millj. kr. fjárveitingu. Þar er m.a. gert ráð fyrir ráðningu heilsugæslulæknis.

Gerð er tillaga um 50 millj. kr. hækkun á tekjum heilsugæslustöðva og hefur skiptingu teknanna verið dreift í brtt. Gert er ráð fyrir að komugjöld til stöðvanna hækki þannig að þegar tekið hefur verið tillit til innheimtu og afsláttarkjara þar sem stöðvarnar fá að halda sjálfar í sjóði verði nettótekjuauki þeirra 50 millj. kr.

Að lokum er gerð sú tillaga um breytingu hjá heilbr.- og trmrn. að framlag til liðar 950 Rekstrarhagræðing lækki um 40,6 millj. kr. Eins og fram hefur komið lækkar framlagið um 48 millj. kr. vegna þess að ráðstafað var á safnlið til ýmissa sjúkrahúsa. Gerð er tillaga um að framlag hækki um 7,4 millj. kr. vegna tilraunaverkefnis ríkis og Hornafjarðarbæjar um yfirtöku heilsugæslu á grundvelli laga um reynslusveitarfélög.

[25:15]

Fjármálaráðuneyti. Óskað hefur verið eftir 2 millj. kr. millifærslu milli tveggja fjárlagaliða. Af þeim sökum hækkar framlag til Skattstofu Reykjaness en framlag til óskipts liðar vegna skattaeftirlits lækkar um sömu fjárhæð. Lagt er til að liðurinn Gjaldheimta á Suðurnesjum verði felldur niður og fjárveiting flutt til sýslumannsins í Keflavík, eins og áður hefur komið fram. Áætluð greiðsla til lífeyrisþega sem eiga aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og öðrum lífeyrissjóðum sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir hafa verið endurmetnar í kjölfar kjarasamninga og úrskurðar Kjaradóms og kjaranefndar. Niðurstaða er sú að endurgreiðslur ríkissjóðs vegna uppbótar á lífeyri verða 90 millj. kr. hærri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.

Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að ná jafnvægi í ríkisfjármálum á árinu 1997. Af því tilefni hefur ríkisstjórnin samþykkt að hefja nú þegar starf er miði að því að lækka rekstrarútgjöld A-hluta ríkissjóðs um 6% eða 3 milljarða kr. á árinu 1997. Fyrirhugað er að það verkefni verði unnið á ábyrgð og undir forustu ráðherranefndar um ríkisfjármál. Ráðinn verði sérstakur verkefnisstjóri nefndinni til aðstoðar. Ráðgert er að með verkefnisstjóranum starfi ráðgefandi verkefnisstjórn auk samráðsnefndar skipaðri einum fulltrúa frá hverju ráðuneyti. Til að auðvelda framgang verkefnisins á næsta ári er lagt til að verði veittar 150 millj. kr. á fjárlagaliðinn Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum og verði á þeim lið sett á sérstakt viðfangsefni sem heitir Sparnaður í ríkisrekstri. Fjárveitingin verði nýtt til að kosta verkefnið og til að létta undir með ríkisstofnunum sem draga úr sinni starfsemi, t.d. með því að taka þátt í hugsanlegum miðlunargreiðslum.

Samönguráðuneytið hefur óskað eftir því að sértekjur Siglingamálastofnunar lækki þar sem þeir telja ekki unnt að hækka gjaldskrá stofnunarinnar. Meiri hluti fjárln. fellst á þetta sjónarmið og leggur til að áætlaðar sértekjur næsta árs verði lækkaðar um 2 millj. kr.

Við 2. umr. var lögð til 3 millj. kr. hækkun til Ferðamálaráðs vegna rannsókna á sviði ferðamála og markaðssetningar í Bandaríkjunum og Kanada. Í ljós hefur komið að fjárveiting þessi var færð á rangan lið og hér er gerð tillaga um að leiðrétta það. Að auki leggur meiri hluti fjárln. til 1 millj. kr. hækkun vegna samstarfssamnings Grænlands og Færeyja á sviði ferðamála.

Lagt er til að framlag til aðalskrifstofu iðnrn. hækki um 3 millj. kr. vegna samstarfsnefndar um verkefnaútflutning sem ég gerði grein fyrir í umfjöllun um utanrrn. og er samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta.

Aðalskrifstofa viðskrn. hækkar um 5 millj. kr. vegna ákvæða frv. til laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu.

Nefndin gerir tillögu um nokkrar breytingar á heitum liða í fjárlögum og er gerð grein fyrir þeim í lok umfjöllunar um 4. gr. í nefndaráliti. Hér er einungis um leiðréttingu að ræða en ekki neinar efnisbreytingar og því eru ekki fluttar um þær sérstakar breytingartillögur.

Fjárln. ræddi við nokkrar B-hluta stofnanir og fór yfir þann hluta fjárlaga sem fjallar um B-hlutann. Það má geta þess að tillögur fjárln. gera ekki ráð fyrir gjaldskrárhækkunum í B-hluta en hins vegar gerir meiri hluti fjárln. tillögu um breytingar á sjö áætlunum í B-hluta. Þar er fyrst að nefna Lánasjóð íslenskra námsmanna en áætlanir sjóðsins hafa verið endurskoðaðar. Það leiðir til þess að útlán verða um 2.790 millj. kr. sem er um 40 millj. kr. hækkun frá fjárlagafrv. Í frv. var framlag ríkisins miðað við 51% af áætluðum útlánum en nú er gert ráð fyrir að hlutfallið hækki í 52%.

Þá er gerð leiðrétting á Sinfóníuhljómsveit Íslands í B-hluta en í A-hluta var framlag til hljómsveitarinnar hækkað um 3 millj. kr. vegna tónleikaferðar.

Í þriðja lagi er áætlað að veita 30 millj. kr. til Bjargráðasjóðs en sjóðurinn hefur bótaskyldu vegna tjóna á túnum og mannvirkjum af völdum snjóþunga, kals og aurskriða sem hann getur ekki staðið við nema fá aukið framlag úr ríkissjóði.

Atvinnuleysistryggingasjóður er leiðréttur með tilliti til þeirra tillagna um sjóðinn sem ég hef þegar gert grein fyrir í skýringum mínum um málefni sjóðsins.

Póst- og símamálastofnun. Breytingartillögum má skipta í fernt. Í fyrsta lagi gerðu forsendur fjárlagatillagna stofnunarinnar ekki ráð fyrir launabreytingum eða verðlagsbreytingum milli áranna 1995 og 1996. Í breytingartillögum er hins vegar gert ráð fyrir 12% hækkun launa auk almennra verðlagsbreytinga og hækka því laun um 460 millj. kr. og önnur rekstrargjöld um 224 millj. kr.

Í öðru lagi var í frv. til fjárlaga gert ráð fyrir að stofnunin greiddi 810 millj. í arð til ríkissjóðs en samkeppnissviðið 50 millj. kr. Lagt er til að samkeppnisreksturinn beri stærri hlut af þessari arðgreiðslu eða 125 millj. kr. og annar rekstur greiði 735 millj. kr. Í þriðja lagi er fjárfesting stofnunarinnar áætluð 10 millj. kr. lægri en áður vegna millifærslna.

Í fjórða lagi blasir við að rekstrarniðurstaða stofnunarinnar árið 1995 verður betri en ráð var fyrir gert þegar fjárlagatillögur hennar voru frágengnar. Af þessum sökum hækkar greiðsluafgangur frá fyrra ári um 169 millj. kr. hjá samkeppnissviðinu og um 250 millj. kr. hjá öðrum hluta stofnunarinnar.

Við 2. umr. fjárlaga var framlag í A-hluta Hafnabótasjóðs lækkað um 27,6 millj. kr. Var þetta gert til að mæta auknum framlögum til hafnarmannvirkja. Áætlun í B-hluta er breytt á þann hátt að veitt lán Hafnabótasjóðs lækka úr 45 millj. kr. í 17,4 millj. kr.

Þá er að lokum komið að iðnaðarráðuneyti. Raforkukerfi fyrirtækisins, Rafmagnsveitna ríkisins, urðu fyrir töluverðu tjóni á þessu ári vegna óveðurs og ísingar. Lagt er til að fyrirtækinu verði heimilað að taka ný lán að fjárhæð 200 millj. kr. til framkvæmda í viðbót við þær 450 millj. kr. sem í fjárlagafrv. voru áætlaðar til að fjármagna kaup á veitum og greiðslu skammtímalána. Er þetta gert til að flýta framkvæmdum við lagningu jarðstrengs á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti vegna ísingar á síðustu árum. Annars vegar er um að ræða 100 millj. kr. sem verður varið til lagningar jarðstrengs sem komi í stað helmings línunnar frá Kópaskeri til Brúarlands í Þistilfirði, en framkvæmdin var ráðgerð 1998. Hins vegar er um að ræða 100 millj. kr. til lagningar jarðstrengja í sveitum, en þar af eru um 50 millj. kr. til að flýta framkvæmdum sem voru áformaðar 1997.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir breytingartillögunum en auk þess vil ég taka fram eftirfarandi:

Í viðræðum fjárln. við forsvarsmenn sveitarfélaga hefur komið í ljós að ýmsir þeirra telja sig eiga óuppgerðar eldri skuldir við ríkissjóð vegna stofnkostnaðar sjúkrahúsa og annarra heilsustofnana. Meiri hlutinn leggur til að heilbrrn. gangi frá endanlegu samkomulagi um uppgjör þessara skulda og tillögu að greiðsluáætlun og leggi fyrir fjárln. fyrir mitt næsta ár.

Við 2. umr. var lögð til hækkun, 5 millj. kr., á liðnum 989, Ýmsar endurgreiðslur, undir fjmrn. vegna björgunarbúnaðar. Tekið skal fram að hækkunin er vegna flotvinnugalla. Þá leggur meiri hluti fjárln. til að fjmrn. gangist fyrir viðræðum í samvinnu við menntmrn. um hvernig að uppgjöri og verklokum við Húsið á Eyrarbakka skuli staðið, en fram hefur komið að sveitarfélögin í Árnessýslu hafa tekið við húsinu og telja að eftir standi krafa á ríkissjóð til að ljúka byggingunni. Nauðsynlegt er að samkomulag takist um niðurstöðu í þessu máli. Auk þess fjallaði fjárln. um heimildargrein fjárlaga, 6. gr., og er hún lögð fram á sérstöku þskj., eða þær breytingartillögur sem nefndin gerir við 6. gr. Þessar brtt. skýra sig sjálfar og vísa ég í þskj. nr. 462 í því sambandi.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir góða og málefnalega vinnu milli 2. og 3. umr. fjárlaga. Samstarfið í fjárln. hefur verið óvenjulipurt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og það hefur haldist svo við alla þá vinnu sem við höfum lagt í fjárlagafrv. Öllu starfsliði sem með okkur vann þessa annasömu daga þakka ég lipurð og vel unnin störf.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.