1995-12-22 01:33:47# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[25:33]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hyggst ekki eyða tíma hér á næturfundi í allsherjarsamanburð milli ráðherra eða rifja upp einhverjar ræður frá síðasta kjörtímabili. Það má vel vera að (Gripið fram í.) framsóknarmenn hafi verið vígreifir í gagnrýni sinni, ef hv. þm. vildi hafa hljóð örstutta stund. (Gripið fram í.) Það eru nú kaup kaups. Menn ganga nú fram nokkuð vígalegir núna til þess að gagnrýna hæstv. heilbrrh. sem er að reyna að koma böndum á útgjöld í heilbrigðiskerfinu og nýta þar peninga. Þeir gefa sér fyrir fram að það sé allt saman unnið fyrir gýg. Ég held að eitt stærsta verkefnið sem við stöndum nú frammi fyrir í íslenskum stjórnmálum sé að tryggja ramma heilbrigðiskerfisins þannig að allir fái notið góðrar heilbrigðisþjónustu. Það er mergurinn málsins og að því verða allir að vinna af fullum heilindum. En ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ekki alltaf sanngjörn sú gagnrýni sem hæstv. heilbrrh. fær á sig í þeim erfiðu verkefnum sem hún stendur í þessa dagana.