1995-12-22 01:35:40# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., Frsm. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[25:35]

Frsm. minni hluta fjárln. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frhnál. minni hluta fjárln., sem lagt hefur verið fram á þskj. 488.

Eins og fram kom í máli framsögumanns meiri hluta fjárln. hefur nefndin frá því að 2. umr. lauk haft frv. til meðferðar og hefur hún farið yfir tekjuhlið þess, fjallað um B-hluta stofnanir og 6. gr. frv. og afgreitt mál sem meiri hluti fjárlaganefndar og ríkisstjórn ákváðu að fresta afgreiðslu á til 3. umr. Þar er að finna heilbrigðispakkann að mestu leyti. Þá hefur meiri hlutinn lagt til breytingar á nokkrum þáttum frumvarpsins, m.a. með tilliti til endurskoðaðrar þjóðhagsspár en hún var kynnt á fundi fjárlaganefndar 14. des. sl.

Í inngangi nál. minni hlutans er þess getið að minni hlutinn telur að upplýsingar um fyrirhugaðan sparnað í heilbrigðiskerfinu séu vægast sagt mjög óljósar og að gögn sem hafa borist frá heilbrigðisráðuneytinu séu óskýr og gefi á engan hátt heildarmynd af vandanum. Fram á síðustu stundu hafa nefndarmenn minni hlutans verið að biðja um gögn til upplýsinga frá heilbrrn. um stöðuna en það verður að segjast eins og er að fleiri gögn hafa ekki skýrt málið að neinu leyti. Það virðist ekki vanþörf á töluglöggu fólki í heilbrrn. eða einhverjum sem kann að setja hlutina upp á mannamáli. Öðruvísi er vægast sagt erfitt að átta sig á vandanum sem við blasir og ómögulegt að átta sig á stöðu einstakra stofnana.

Framsögumaður meiri hlutans gerði nokkra grein fyrir forsendum endurskoðaðrar þjóðhagsspár í ræðu sinni. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar eru horfur á hagvexti á næsta ári betri en búist var við og reiknað er með að hann verði 3,2% í stað 2% í þjóðhagsáætlun. Það er því svo komið að a.m.k. forsendur Framsfl. fyrir því að uppfylla kosningaloforðin um 12.000 ný störf, ásamt öllum hinum loforðunum, eru nú til staðar því ef ég man rétt þá var boðsakpurinn fyrir kosningar matreiddur þannig að hann væri unnt að framkvæma við þau skilyrði að hagvöxtur væri 3%.

Víkjum aftur að endurskoðaðri þjóðhagsspá. Áður hafði Þjóðhagsstofnun áætlað að þjóðarútgjöld ykjust um 2,8% á næsta ári, þannig að endurskoðuð áætlun tvöfaldar vöxtinn. Ástæðan er annars vegar framkvæmdir vegna stækkunar álvers og hins vegar aukin einkaneysla frá því sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu. Áhrifin verða jákvæð að því leyti að atvinnuleysi minnkar úr 4,8% í 4,4% og ríkissjóður hefur verulegar tekjur af veltuaukningunni eða um 1.500 millj. kr. Hins vegar mun viðskiptajöfnuður verða neikvæður á næsta ári og aukinn þrýstingur verður næstu mánuði á vaxtastigið til hækkunar.

Forsendur endurskoðaðrar þjóðhagsspár gefa okkur tilefni til að álíta að nú sé bjartara fram undan í íslenskum efnahagsmálum en verið hefur um langt skeið. En hvað skyldu þessar björtu horfur annars skila þeim sem bágust hafa kjörin? Hefur hæstv. ríkisstjórn í huga að bæta kjör þess fólks á einhvern hátt? Hefur hún hugsað sér að skila einhverju af þessu til þeirra sem lægst hafa laun eða til þeirra sem hafa skertar tekjur vegna örorku eða eru atvinnulausir? Nei, það lítur ekki út fyrir það. Þvert á móti er meiningin að gæta áframhaldandi aðhalds gagnvart þessum hópum.

Alþýðusamband Íslands ályktaði í gær um atlögu ríkisstjórnarinnar að velferðarkerfinu. Þar er mótmælt harðlega tillögu ríkisstjórnarinnar um verulegan niðurskurð og aukna gjaldtöku í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Miðstjórn ASÍ lýsir þeim sem einhverri alvarlegustu atlögu að velferðarkerfinu sem nokkur ríkisstjórn hefur kynnt í seinni tíð. Það eru stór orð. Blekið á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að tryggja frið á vinnumarkaði er varla þornað þegar stærstu launamannasamtök landsins hafa séð ástæðu til að semja harðorða ályktun þar sem stórum orðum er farið um fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og atlögu að velferðarkerfinu.

Í 2. umr. um fjárlagafrv. var varað stórlega við fyrirhugaðri aftenginu greiðslna úr almannatryggingakerfinu og atvinnuleysistryggingakerfinu við almenna launaþróun í landinu. Bent var á að slík aðför að réttindum þeirra hópa sem njóta greiðslna úr þessum kerfum þýddi í raun erfiðleika í komandi kjarasamningum. Þar var m.a. fullyrt að slíkar aðgerðir mundu einungis hafa í för með sér harðari átök við gerð kjarasamninga í framtíðinni þar sem verkalýðshreyfingin mundi eftir sem áður sjá til þess að þessum hópum verði tryggðar sambærilegar launabreytingar og öðrum félagsmönnum hreyfingarinnar. Margir stóðu reyndar í þeirri trú að með því að semja um hækkunina nú um áramótin án þess að ganga frá því að tengingin yrði tryggð í framtíðinni væri verkalýðshreyfingin að falla frá þeirri kröfu að bætur úr tryggingakerfinu fylgdu almennri launaþróun. Það hefur nú komið á daginn að það var aldrei ætlun verkalýðshreyfingarinnar og kemur það mér reyndar ekki á óvart þar sem hér er um margra ára baráttumál að ræða. Í yfirlýsingu ASÍ kemur nefnilega kýrskýrt fram að miðstjórnin lýsir sig algerlega andsnúna áformum ríkisstjórnarinnar um að afnema þessar tengingar og ekki er haft í hyggju að gefa neitt eftir af þessum sjálfsögðu réttindum.

Nú hefur verið gerð breyting á þeim ákvæðum bandormsins sem snúa að launaviðmiðun tryggingabótanna. Áfram er gert ráð fyrir að Alþingi endurskoði fjárhæðirnar við fjárlagagerð hverju sinni en nú skal það gert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.

Þá er breytt ákvæði 35. gr. bandormsins er snýst um bætur almannatryggingabóta, nú á þá lund að það skal aðeins gilda til ársloka 1997. Hefur afnámið því aðeins gildi til bráðabirgða. Ég tel að hrossakaupin sem í þessu felast séu varasöm. Hins vegar verður að skilja breytinguna á bandorminum svo að reglan um að atvinnulausir og bótaþegar almannatrygginga eigi rétt á því að fá hækkanir til samræmis við það sem samið er um á vinnumarkaði sé virt. Í ljósi þess trausts samþykktu a.m.k. margir stjórnarandstöðuþingmenn breytinguna.

Það fór svo að lokum að 3. umr. um fjárlögin fór fram fyrir jól. Það er reyndar þrekvirki út af fyrir sig þar sem allt sem heitir lýðræðisleg umræða um einstök atriði fjárlaga hefur verið algjört aukaatriði og mikilvægum ákvörðunum hefur verið skellt á borð þingmanna eftir dúk og disk. Ég hef velt því fyrir mér hvort þessi seinagangur stafi af því að stjórnarflokkarnir hafi ekki vitað fyrr en í gær hvað þeir ætluðu að gera í mikilvægum málum eða hvort hann stafi af því að ákvörðunum hafi vísvitandi verið haldið frá stjórnarandstöðunni. Ofan á allt saman fer svo umræðan fram um miðja nótt svo tryggt sé að sem flestir hv. þm. séu horfnir heim og þar af leiðandi fer væntanlega lítil umræða fram um málið.

Í stjórnskipunarrétti lærir maður að fjárveitingavald þjóðþingsins sé forsenda þingræðis. Því sá aðili sem hafi fjárveitingavaldið í hendi sér hafi einnig í reyndinni aðalráð um framkvæmastjórn ríkisins almennt. Með fjárstjórnarrétti sínum hafa þjóðþingin í raun réttri tryggt sér lyklavöldin að þjóðarbúinu, sagði Ólafur Jóhannesson í riti sínu Stjórnskipun Íslands. Þingleg meðferð fjárstjórnarinnar er ekki síður nauðsynleg í því skyni að hún sé opinber og fólk eigi þess kost að fylgjast með ráðstöfunum hins opinbera og gagnrýna þær ef því er að skipta. Þá er það eðlilegur hluti lýðræðisins að þeir sem með fjárstjórnarvaldið fara þurfa að standa fólkinu í landinu skil á ráðsmennsku sinni annað slagið og leggja umboð sitt í vald þess, enda þykir það sjálfsagt í lýðræðisríkjum að fjárforræði ríkisins sé hjá þjóðþingunum. En hvers vegna er ég að rifja upp kafla úr stjórnskipunarrétti? Jú, mér flaug það í hug við þessa fjárlagagerð hvar þessum grundvallarsjónarmiðum væri nú fyrirkomið við fjárlagagerð íslenska ríkisins.

Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum nú á milli 2. og 3. umr. Langur tími hefur liðið á milli funda í fjárln. og síðan voru allar stóru tillögurnar kynntar sama daginn eða að kvöldi 18. des., sl. mánudag. Stjórnarandstaðan fékk sáralítinn tíma til að kynna sér tillögur meiri hlutans áður en henni var boðið upp á að spyrja fulltrúa heilbrrn. út úr einstökum efnisatriðum plaggs í 16 liðum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að stjórnarandstaðan var ekki í stakk búin til að spyrja neinna stórra spurninga eftir að hafa rennt augum lauslega yfir plaggið. Þá fór minni hluti nefndarinnar fram á að forsvarsmenn ýmissa stofnana svo sem Sjúkrahúss Reykjavíkur og Háskóla Íslands kæmu aftur fyrir nefndina en þessar stofnanir hafa borið sig mjög illa undan þeim tillögum sem frv. felur í sér. Ekki var unnt að verða við þessum beiðnum, enda svo langt liðið á frestinn sem ákveðið var að gefa stjórnarandstöðunni til að skoða málið að það var orðið of seint. Svona vinnubrögð eru ekki til sóma. Það er ekki viðunandi að fjárlaganefndarmenn þurfi að fara af fundum trekk í trekk með ósvaraðar spurningar í farteskinu um mikilvæg málefni, enda er það hlutverk þeirra þingmanna sem þar sitja að kynna sér vel það mál sem til umfjöllunar er hverju sinni og leysa það eftir bestu getu eða greiða atkvæði á þann veg sem hver telur best. Hvernig eiga hv. þm. að geta sinnt þessari skyldu sinni ef málum er svona háttað?

Nefndarmenn í fjárln. fóru fram á skýringar á tillögum heilbrrn. og óskuðu eftir upplýsingum um það hvernig ætlunin væri að ná fram sparnaði í kerfinu. Fulltrúar ráðuneytisins virtust litlar hugmyndir hafa um það og greinargerðin sem fyrir nefndina var lögð um óskir heilbr.- og trmrn. um atriði sem skyldi koma að við 3. umr. frv. var svo óljós að ómögulegt var að átta sig á því hvað hún þýddi. Þá fóru nefndarmenn stjórnarandstöðunnar fram á að fá skýringar á þessum hlutum með tilliti til þess hvað þær þýddu fyrir einstaka bótaflokka almannannatrygginga. Svörin sem þá bárust frá hinu háa ráðuneyti eru enn síður upplýsandi.

Herra forseti. Er hæstv. heilbrrh. í húsinu?

[25:45]

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. heilbrrh. er í húsinu og skal gera ráðstafanir til þess að hann komi í þingsal.)

Það kemur reyndar fram varðandi aukna gjaldtöku á heilsugæslustöðvum að vegna reglna um afsláttarkort, greiðsluþök á ári og lítilla upplýsinga sem fyrir liggja um aldursskiptingu einstaklinga sem koma á heilsugæslustöðvar, er mikil vinna fyrir höndum í ráðuneytinu áður en hægt verður að segja hvernig hægt er að ná fram sparnaðinum um 50 millj. kr. eins og áætlað er vegna þessara liða. Ég tel mikilvægt að minna hið háa heilbrrh. á að til þess að unnt sé að framkvæma umrædda reglugerð þannig að hún skili svo og svo miklum tekjum í ríkissjóð er nauðsynlegt að fá samþykki fjárveitingavaldsins. Og fjárveitingarvaldið þarf jú auðvitað að vita hvað það er að gera ef það á að samþykkja breytinguna. Það ætti ekki að vera þörf á slíkri áminningu en ég tel með ólíkindum hversu óljósar tillögur ráðuneytisins um sparnað eru þegar þær eru lagðar fyrir hið háa Alþingi.

Hér að framan var getið um ályktun ASÍ um áform ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum og drepið á nokkrum vafasömum aðgerðum sem fyrirhugaðar voru, t.d. auknum gjaldtökum á heilsugæslustöðvum og hjá sérfræðilæknum, afnámi tenginga bóta í almanna- og atvinnuleysistryggingakerfinu við launaþróun og aukningu á tekjutilliti grunnlífeyris elli- og örorkulífeyrisþega úr 25% í 35%. Nú hefur til allra lukku verið fallið frá hluta þessara áforma eftir mikinn þrýsting frá stjórnarandstöðunni og eru breytingarnar vissulega til batnaðar.

Varðandi heilbrigðismálin vill minni hlutinn benda á ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu en þar segir:

,,Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.``

Fjárlög þau, sem nú er verið að afgreiða á Alþingi, eru skilaboð um að draga eigi úr lækningum og þau skilaboð eru fyrst og fremst ætluð hátæknisjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu.

Í samtölum fjárln. við forsvarsmenn spítalanna hefur komið fram að miðað við óbreyttar fjárveitingar liggja fyrir lokanir fleiri deilda, fækkun starfsfólks og lenging biðlista. Stjórnendur spítalanna á höfuðborgarsvæðinu bera sig svo illa undan tillögunum sem fyrir liggja um fjárveitingar að það vekur mann til umhugsunar um það hvort ekki sé komið að leiðarlokum í handahófskenndum sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Undanfarin ár hefur athyglin beinst mjög að útgjöldum til heilbrigðismála og því að nauðsynlegt sé að halda aftur af útgjöldum á þessu sviði. Er þar nefnt til að annars vegar séu þau mjög mikil og hins vegar að þau muni aukast verulega næstu árin að óbreyttu. Ekki er dregið úr því að aðhalds er þörf á þessu sviði og að það er stöðugt verkefni að vinna að sparnaði og ráðdeild í þessum mikilvæga málaflokki.

Á hinn bóginn telur minni hlutinn nauðsynlegt að minna á ákveðnar staðreyndir svo að menn gleymi sér ekki í umræðunni um þörf á niðurskurði í heilbrigðismálum. Ég vísa í þeim efnum til fylgiskjals með nál. sem geymir upplýsingar fengnar frá Þjóðhagsstofnun.

Í fyrsta lagi kemur það fram að útgjöld til heilbrigðismála hafa ekki aukist um nema tæplega 3% af ríkisútgjöldum á tólf ára tímabili. þ.e. frá árinu 1984 til 1996.

Í öðru lagi sýna upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun að á síðasta ári voru gjöld hins opinbera til heilbrigðismála 16,85% af heildarútgjöldum en 17,72% árið 1984. Þetta þýðir að vöxtur í öðrum útgjöldum hins opinbera hafði á tímabilinu verið meiri en aukningin í heilbrigðismálunum.

Í þriðja lagi er bent á að heildarkostnaður við heilbrigðisútgjöld er á síðasta ári áætlaður 8,09% af vergri landsframleiðslu í stað 6,89% árið 1984, þar af er hlutur hins opinbera 6,77% af vergri landsframleiðslu í stað 5,98% fyrir 12 árum.

Að lokum vill minni hlutinn vekja athygli á því að Ísland er einungis í 13. sæti af ríkjum OECD í útgjöldum til heilbrigðismála. Mikilvægt er að halda þessum staðreyndum til haga í umræðum um sparnað í heilbrigðiskerfinu.

Minni hluta fjárlaganefndar er fullljóst að grípa þarf til nýrra úrræða í heilbrigðiskerfinu og að setja verður fram tillögur um stefnumótun til framtíðar. Nauðsynlegt er að móta heildstæða stefnu um uppbyggingu, starfsemi og rekstrarfyrirkomulag sjúkrahúsa landsins í framtíðinni. Það er hlutverk heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hafa forgöngu um mörkun þeirrar stefnu og dugir þá skammt að fela sjúkrahússtjórum að skera niður og hagræða, án þess að fyrir liggi pólitísk ákvörðun um hvar eigi að skerða þjónustuna. Minni hlutinn vekur athygli á að eitt af hlutverkum stjórna sjúkrahúsa er að gera áætlanir varðandi rekstur og þróun. Þetta er hins vegar ekki mögulegt á meðan niðurskurður á fjárlögum er svo handahófskenndur sem raun ber vitni. Uppbygging eitt árið þýðir kannski niðurskurð það næsta og þannig verða áætlanir vart marktækar.

Miðað við þær upplýsingar sem minni hlutinn hefur fengið lítur út fyrir að óleystur sé stór hluti vanda sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi upplýsingar koma fram í erindum Ríkisspítalanna fyrir fjárln. Í samanburði sem gerður er á fjárveitingum og rekstrarkostnaði fyrir árið 1995 kemur fram að vöntun spítalans er 275 millj. kr. Enn fremur kemur fram að uppsafnaður halli vegna áranna 1994 og 1995 stefnir í 350--400 millj. kr. Tillaga er gerð um fjárveitingu í fjáraukalögum 1995 upp á 150 millj. kr. til að koma til móts við þennan vanda. Ljóst er að sú fjárhæð nægir engan veginn. Fjárvöntun samkvæmt erindi Ríkisspítala vegna ársins 1996 er 558 millj. kr. og fyrirsjáanlegur halli virðist vera 267 millj. kr.

Það kemur fram í erindi Ríkisspítalanna að forsvarsmenn spítalans telja að til að ná fram sparnaðaráformum sem áætluð eru í frv. þurfi miklar breytingar á skipulagi sjúkrahúsþjónustunnar til að slíkt sé yfirleitt mögulegt. Meiri hluti fjárln. gerir tillögu um að heildarframlög lækki um 23,5 millj. kr. Ef við lítum hins vegar á Sjúkrahús Reykjavíkur kemur þar fram að framlag á fjáraukalögum 1995 er hækkað um 83,3 millj. kr. vegna samninga um lífeyrisskuldbindingar og í tillögum meiri hlutans vegna afgreiðslu fjárlaga 1996 hækka heildarframlög til sjúkrahússins af þessum sökum um 37,7 millj. kr. Sjúkrahúsið hefur listað upp beiðni um viðbótarútgjöld að fjárhæð um 620 millj. kr. sem virðast miðast við óbreyttan rekstur ársins 1995 þar sem ekki er tekið tillit til áforma um sparnað, samanber samstarf stóru sjúkrahúsanna og fleira. Virðist eiginleg fjárþörf Sjúkrahúss Reykjavíkur vera að lágmarki um 300 millj. kr. á árinu 1996 samkvæmt erindum sjúkrahússins.

Eins og fram kom í máli framsögumanns meiri hluta fjárln. er gert ráð fyrir að á móti fjárvöntun þessara sjúkrahúsa komi svokallaðir pottar, samanber fjárlagaliðinn Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi, að fjárhæð 195,5 millj. kr. auk potts sem vistaður er undir fjmrn. undir heitinu Sparnaður í ríkisrekstri, að fjárhæð 150 millj. kr. Ég vil biðja hæstv. heilbrrh. um að hlusta því ég hyggst leggja fyrir hana fyrirspurn von bráðar.

Ég minntist á pott upp á 150 millj. kr. sem vistaður er undir fjmrn. undir heitinu Sparnaður í ríkisrekstri en ætla má að eitthvað af þeirri fjárhæð verði ráðstafað til stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Þessar hugmyndir voru að minnsta kosti kynntar varðandi síðastnefnda pottinn í fjárln. í tengslum við fjárhagsvanda sjúkrahúsanna. Því vil ég leggja fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um það hve mikið hennar ráðuneyti sé ætlað úr pottinum og hve miklum hluta sé þá meiningin að verja til sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Þær stofnanir sem hér er fjallað um eru lykilstöðvar lækninga á Íslandi og því er brýnt að starfseminni þar sé haldið í sómasamlegu ástandi. En því miður virðist langt í land miðað við þær hugmyndir sem fyrir liggja úr hinu háa heilbrrn.

Í Morgunblaðinu í gær, 20 desember er vakin athygli á vandamálum Sjúkrahúss Reykjavíkur og að auki fær ríkisstjórnin ákúrur í leiðara fyrir handahófskenndan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Meira að segja Morgunblaðið telur að lengra verði ekki gengið í þessum efnum. Ég leyfi mér að vitna í leiðara blaðsins, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Flatur niðurskurður getur, þegar hart er í ári, haft einhver áhrif í skamman tíma. Þegar er ljóst orðið að ekki verður gengið lengra í þeim efnum, að því er varðar niðurskurð til heilbrigðismála og menntamála.``

Þá segir í umfjöllun sama blaðs um fjárveitingu til Sjúkrahúss Reykjavíkur að verði fjárveiting til sjúkrahússins óbreytt, verði að reka 140--200 manns og leggja niður 4--5 deildir sem hefðu 25--30 sjúklinga hver. Þá segir einn forstöðulækna spítalans í viðtali við blaðið að þau ráð sem grípa þyrfti til svo endar næðu saman væru í raun eins og ógreiddur víxill og sjúklingarnir hyrfu ekki þótt deildum væri lokað eða starfsfólki fækkað.

Í samræmi við það sem hér hefur komið fram leggur minni hlutinn fram brtt. um aukin framlög til sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu en leggur jafnframt áherslu á að í ráðuneyti heilbrigðismála sé mótuð skýr stefna í málefnum alls heilbrigðiskerfisins. Brtt. eru á þskj. 485. Þar er lagt til að framlög til Ríkisspítala verði hækkuð um 150 millj. kr. og til Sjúkrahúss Reykjavíkur um 100 millj. kr.

Í frhnál. minni hluta fjárln. er vikið nokkrum orðum að menntamálum. Minni hlutinn gerði ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til menntamála við 2. umr. um frv. og vísar til þeirrar umræðu. Þó er talin ástæða til að vekja athygli á nokkrum atriðum er tengjast menntun og menningu.

Í nál. 1. minni hluta fjárln. við 2. umr. var varað sérstaklega við því ástandi sem ríkir varðandi flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Var bent á að enn væri ekki séð fyrir endann á kostnaðarþættinum þrátt fyrir að lögum um grunnskólann væri ætlað að taka gildi 1. ágúst 1996. Dregist hefur úr hófi að þær nefndir, sem fjalla um flutninginn, skili niðurstöðum og er það miður. Minni hlutinn ítrekar þessar áhyggjur og vekur athygli á ályktun Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags þar sem bent er á seinagang málsins og kennarasamtökin lýsa því yfir að ekki geti orðið af flutningnum á tilætluðum tíma ef lausir endar verði ekki hnýttir í málinu fyrir miðjan janúarmánuð næstkomandi. Ályktun kennarasamtakanna fylgir með nál. minni hluta fjárln.

Það er vissulega áhyggjuefni hversu dregist hefur úr hófi að ganga frá nauðsynlegum hlutum varðandi flutning grunnskólans eins og bent er á í ályktuninni. Það er ekki óeðlilegt að nauðsynlegar breytingar á lögum og samningar um réttindamál kennara liggi fyrir nokkrum mánuðum áður en breytingin tekur gildi enda þurfa skólarnir væntanlega að ráða kennara með einhverjum fyrirvara og þá er jú nauðsynlegt að vitað sé á hvaða kjörum það eigi að vera. Eins og staðan er núna er þetta óljóst. Réttindamál kennara eru í óvissu og kostnaðarþátturinn vegna flutnings grunnskólan einnig

Minni hlutinn leggur áherslu á áhyggjur sínar af stöðu mála í Háskóla Íslands og fer um það nokkrum orðum í nál. sínu. Fjárhagur skólans er með þeim hætti að nauðsynlegt mun reynast að skerða gæði kennslunnar, en eins og forsvarsmenn skólans bentu fjárlaganefnd á þegar fyrir 2. umr. vantar 70 millj. kr. upp á að kennslan geti orðið sambærileg við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.

Alls námu beiðnir Háskóla Íslands um 130 millj. kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í frv. í upphafi og því er ljóst að vandi skólans er gífurlegur. Vandi háskólans hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fréttum upp á síðkastið og fjölmargir hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa, bæði forsvarsmenn skólans, stúdentar og velunnarar aðrir.

Ég vil enn vitna í Morgublaðið í gær, þann 20. desember, en þar lýsti háskólarektor því yfir að ef ekkert yrði að gert vegna fjárhagsvanda skólans, væri ástæða til þess að óttast að skólinn kæmist í greiðsluþrot. Þá bendir hann á þann vanda sem skólinn stendur frammi fyrir, að vera sífellt uppálagt að spara á meðan honum er skylt skv. lögum að taka við öllum sem stúdentsprófi ljúka og sækja um. Þá bendir rektor á að skólinn þurfi mun meira fé til að standa undir vaxandi fjölda nemenda. Enn fremur vekur hann athygli á því hversu uppsafnaður vandinn er enda eru takmörk fyrir því hversu lengi er hægt að svelta stofnun eins og Háskóla Íslands.

Meiri hluti fjárln. gerir reyndar tillögu um 15 millj. kr. framlag til háskólans er gangi að hluta til nýrra verkefna en að 2 3 vegna fjölgunar nemenda. Þessar tillögur eru til bóta en minni hlutinn bendir á að þessi fjárhæð leysir ekki vandann sem fyrir er í málefnum skólans þar sem skólinn gerir ráð fyrir að 70 millj. vanti upp á að kennslan geti orðið sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndum auk annars vanda er skólinn stendur frammi fyrir.

Minni hlutinn vill vekja sértaka athygli á viðvörunum stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem segir, m.a., með leyfi forseta:

,,Ef fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fer óbreytt í gegn verða afleiðingarnar þessar:

Meiri og róttækari niðurskurður í kennslu og námsframboði heldur en 1992.

Nýráðningar og nýmæli koma ekki til greina.

Enn meiri samdráttur í endurráðningum, sem jafnframt hefur í för með sér að draga verður úr rannsóknum innan skólans.

Háskólinn getur ekki greitt skuldir sínar.``

Ályktun stúdentaráðs Háskóla Íslands fylgir með áliti þessu sem fylgiskjal.

[26:00]

Þeim háskólamönnum barst reyndar óvæntur liðsauki í leiðara margtilvitnaðs Morgunblaðs í gær en þar fær ríkisstjórnin ádrepu fyrir niðurskurð sinn til Háskóla Íslands. Í leiðaranum segir, með leyfi forseta:

,,Háskóli Íslands hefur farið fram á að við afgreiðslu fjárlaga verði framlag til skólans aukið um 70 milljónir króna til að tryggja að ,,kennsla verði með viðunandi hætti``. Stjórnvöld verða að tryggja starfshæfni háskólans og átta sig á þeirri staðreynd, að menntun er fjárfesting til framtíðar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Fjárframlög til menntamála eru ekki óarðbær útgjöld.``

Síðar segir: ,,Það er stóralvarlegt mál að fjárhagsvandi háskólans, æðstu menntastofnunar þjóðarinnar, sé orðinn slíkur að stjórnendur hans eru farnir að óttast greiðsluþrot. Ljóst er að ýmsar deildir háskólans búa við slíkan fjár- og tækjaskort, að þær rísa vart undir nafni, sem sjálfstæðar háskóladeildir.``

Minni hlutinn gerir tillögu um aukin framlög til Háskóla Íslands sem nemur 75 millj. kr. aukningu frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Er þá miðað við að 5 millj. sé ætlað að verja til nýrra verkefna en 70 millj. til grunnkennslu.

Minni hlutinn telur sérstaka ástæðu til að vekja athygli á nýjum lið í frumvarpinu, 02-983 Ýmis fræðistörf, viðfangsefni 123, Hið íslenska bókmenntafélag. Undir hann eru settar 12 millj. kr. en að auki er lagt til að 6 millj. kr. gangi til félagsins á fjáraukalögum 1995 samkvæmt tillögum meiri hluta fjárlaganefndar við fjáraukalögin.

Ekkert skriflegt erindi hefur borist fjárln. vegna þessa liðar heldur virðist sem munnleg tilmæli hafi komið frá forsrn. um fjárveitingar þessar.

Minni hluti fjárlaganefndar hefur leitað eftir skýringum á því að ríkisstjórnin skuli nú óska eftir að styrkja bókaútgáfu á þennan hátt og með svo rausnarlegum framlögum sem raun ber vitni. Hefur sú skýring ein fengist að hér sé um að ræða greiðslu til félagsins vegna þjóðhátíðarútgáfu á Sögu Íslands í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974. Þessi rausnarskapur að 21 ári liðnu kemur minni hlutanum í opna skjöldu á sama tíma og framlög til menntunar og menningarmála eru skorin við nögl og grundvallarmenntastofnanir í landinu lýsa yfir neyðarástandi vegna fjárskorts.

Minni hlutinn vísar í nefndarálit 1. og 2. minni hluta við 2. umr. um almennar athugasemdir um félagsmál. Sérstaklega þykir þó ástæða til að vekja athygli á nokkrum atriðum. Eins og bent er á í kaflanum um breyttar efnahagsforsendur er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,4% á næsta ári í stað 4,8% eins og þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá verða töpuð ársverk 5.800 í stað 6.400 miðað við fyrri spá. Þetta hefur í för með sér að hægt er að gera ráð fyrir minna fé til atvinnuleysistrygginga en áætlað var og hefur þó verið tekið tillit til hækkunar bóta atvinnuleysistrygginga samkvæmt nýlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við aðgerðir á vinnumarkaði. Minni hlutinn vill vekja athygli á því að komið hefur í ljós að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs voru verulega vanáætluð í fjárlagafrumvarpinu. Hefur verið vakin athygli á þessu í fjárln. Samkvæmt áætlunum vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins var, miðað við forsendur þjóðhagsáætlunar fyrir árið 1996, gert ráð fyrir að útgjöld sjóðsins yrðu 4.003.672.224 kr. á árinu en í fjárlagafrumvarpinu var í upphafi gert ráð fyrir að útgjöldin yrðu aðeins 3.760.000.000 kr. Nú gerir meiri hluti fjárlaganefndar tillögur um skerðingu á framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár en tekur ekki tillit til skekkjunnar sem falin er í upphaflegum tölum frumvarpsins eftir því sem ég best fæ séð og fengið upplýsingar um. Hér virðist því vera um vanáætlað fjármagn til atvinnuleysismála að ræða og lýsir minni hlutinn furðu sinni á því að þetta hafi ekki verið leiðrétt í meðförum fjárln.

Minni hlutinn harmar að ekki skuli hafa verið fallist á tillögu um aukið framlag til Félagsmálaskóla alþýðu og lýsir yfir furðu sinni á því að ríkisstjórnin skuli skera niður framlög til þessa málaflokks á meðan þörf fyrir fullorðinsmenntun og menntun atvinnulausra hefur síst minnkað. Þá vill minni hlutinn lýsa yfir vanþóknun sinni á þeirri skerðingu sem orðið hefur á lið 07-981 Vinnumál, viðfangsefni 190, Ýmislegt. Framlög samkvæmt þessum lið hafa að mestu gengið til aðila vinnumarkaðarins í þágu þeirra samfélagslegu verkefna sem þeir sinna og er síst minni þörf en áður fyrir þá mikilvægu starfsemi sem fram fer hjá þessum samtökum.

Að lokum greinir minni hlutinn í áliti sínu frá því að mjög margir útgjaldaliðir frv. hafi verið til athugunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. svo sem sjá má af brtt. meiri hlutans. Minni hlutinn tók þátt í þeirri afgreiðslu og styður margar tillagnanna en ekki allar. Því varð að ráði að meiri hlutinn flytti þær en ekki öll nefndin.

Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja eftir brtt. sem fram kunna að koma.

Minni hlutinn fór fram á að áætlanir ríkisstjórnarinnar um skerðingu bótagreiðslna til þolenda afbrota yrðu að fullu dregnar til baka. Ekki virðist vilji hjá ríkisstjórninni fyrir því og harmar minni hlutinn það. Ríkisstjórnin boðaði í upphafi þings tillögu um frestun á gildistöku laganna um bótagreiðslur til þolenda afbrota um eitt ár og að auki að afturvirkni þeirra flyttist fram um eitt ár. Hörð viðbrögð utan sem innan þings leiddu til nýrra tillagna um frestun gildistökunnar um hálft ár án þess að það hefði áhrif á afturvirknina. Jafnframt voru lagðar til breytingar á bótafjárhæðum sem leitt hefðu til stórfelldrar lækkunar frá því að lögin voru samþykkt í mars sl. Útilokað var að sætta sig við þær breytingar og hefur síðan verið unnið að því með öllum ráðum að fá meiri hlutann til að hætta við þau áform. Nú hefur enn þokast í baráttunni gegn þessari hróplega óréttlátu lagasetningu við 2. umr. laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Eins og fram kom í nefndarálitum, ræðum og breytingartillögum við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið lagði minni hlutinn áherslu á að Alþingi tryggði með fjárlögum það framlag sem þarf til þess að staðið verði við lögin í einu og öllu, og mun minni hlutinn enn freista þess að tryggja framkvæmd laganna eins og þau voru afgreidd á Alþingi rétt fyrir síðustu kosningar þótt til þess séu reynar ekki miklar líkur eftir að lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum hafa verið samþykk.

Herra forseti. Minni hlutinn vekur að lokum í nál. sínu athygli á hækkun til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, til Mannréttindaskrifstofu Íslands og til Krýsuvíkurskólans þótt hér séu ekki stórkostlegar fjárveitingar á ferð. Þá má nefna 500 þús. kr. hækkun á liðnum 08-399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi, en sú upphæð er ætluð til fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir. Allt eru þetta liðir sem minni hlutinn hefur lagt áherslu á og þótt hér sé um smáar upphæðir að ræða er víst að þær koma í góðar þarfir.

Herra forseti. Undir nál. rita Bryndís Hlöðversdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Gísli S. Einarsson og Kristín Halldórsdóttir.