1995-12-22 02:09:18# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[26:09]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að hafa orð á því að hér hefur fólk verið við vinnu undanfarna sólarhringa frá morgni til kvölds og enn skal haldið áfram og meira að segja er það þannig að fólk er farið að draga sig til baka frá eðlilegri umræðu og umfjöllun um mál vegna þess tíma sem er tekinn í þingstörfin.

(Forseti (GÁ): Forseti vill taka fram að þetta er allt gert í fullu samkomulagi milli flokka.)

Herra forseti. Mér er kunnugt um að það er gert í samkomulagi en samt sem áður er ástæða til að geta þess hvernig vinnulagið er. Ég tel að fyllsta þörf sé á að breyta því. Ég tala ekki um að þegar maður er farin að velta þessu fyrir sér, þá kemur náttúrlega ekki til greina annað en að flytja málið a.m.k. að nokkru. Ég hafði undirbúið mig undir að flytja mál mitt ítarlega í klukkutíma eða svo en við nánari íhugun sé ég ekki tilganginn vegna þess að hæstv. forsrh. bar þá gæfu að ná málinu varðandi Spöl fram á réttum tíma þannig að fókusinn af fjárlagaræðunni fór á Spöl í staðinn fyrir fjárlagaumræðuna sem er mikilvægasta mál sem við ræðum hverju sinni. (Forsrh.: Þetta er allt spurning um tímasetningu.) Það er rétt, herra forsrh., þetta er allt saman spurning um tímasetningu. (Gripið fram í: Og forgangsröð.)

Fjárln. hefur á þeim fáu dögum sem liðnir eru milli umræðna haft frv. til fjárlaga fyrir árið 1996 til meðferðar og skoðunar. Fulltrúar fjmrn. hafa rætt tekjuhlið frv. við nefndina og kynnt óbreytta stöðu hvað varðar halla. Hækkun um litlar 100 millj. eða svo. Tekjuhliðinni hefur verið lyft sem útgjaldaauka nemur. Það liggur fyrir að um verulega meiri tekjur er að ræða út frá þeirri aukningu sjávarafla sem gerð hefur verið tillaga um frá því að frv. var lagt fram. Nú ber svo við, herra forseti, að fjmrn. notar forsendur öðruvísi en á haustdögum. Um það er auðvitað ekkert að segja annað en að hæstv. fjmrh. ætlar að eiga varasjóð upp í erminni án þess að gera grein fyrir því hversu mikið það er miðað við útreikninga á haustmánuðum. Um er að ræða upphæðir sem nema að líkindum 1--1,5 milljörðum kr. Í frv. er ekki að finna tilhneigingu hæstv. ríkisstjórnar til kerfisbreytinga á neinn hátt nema á þann að níðast á þeim sem lakast eru settir í íslensku þjóðfélagi.

Ég get ekki látið hjá líða að ræða örlítið um vinnubrögð og starfshætti. Minni hluti fjárln. hefur ekki neitað að koma til funda hvort sem um hefur verið að ræða að nóttu eða degi, virka daga eða um helgar. Það er undarlegt í meðferð fjárlaganna að til þess að vinnu verði komið áfram hefur orðið að taka við málum frá ráðuneytum í stikkorðastíl í mörgum tilvikum og ýmis mál hafa komið til nefndarinnar símleiðis og hafa síðan verið staðfest með tilskrifum eftir á. Hringlandaháttur í einstaka málum af þessum sökum hefur vakið aðhlátur, ekki bara minni hlutans. Mál hefur borið þannig að að þau hafa verið sett inn með brtt. símleiðis, dregin til baka með bréfi og síðan sett aftur inn með tilskipan ráðuneytis. Ég ætla ekki að tilgreina málin en svona hefur þetta samt gengið fyrir sig.

Ég kann meiri hluta nefndarinnar og formanni bestu þakkir fyrir samstarfið. Það er ekki þeirra að svona skuli gengið til verka. Ég veit að það er vilji til að breyta þessu vinnulagi en til þess verður að breyta starfsháttum í ríkisstjórn og ráðuneytum. Það sem ég á við er að gögn voru að berast fram á síðustu stund og fyrir liggur að það verður að taka ýmsar fjárheimildir þegar til athugunar og inn á fjáraukalög fyrir árið 1996. Þetta ber auðvitað þess merki að ekki er nægjanlega vel að málum staðið. Fjárln. hefur ekki gefist nægur tími til að fjalla um mál svo sem þyrfti. Ekki þarf annað en vísa til þess frv. sem nefnt er bandormur og afkvæmi hans, fylgifrv. sem er hálfgerður ánamaðkur ásamt öllu því sem steypt er saman í skerðingum og öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar með hæstv. fjmrh. með sleifina við pottinn að útbúa þann kattarláfujafning sem kallast fjárlagafrv.

[26:15]

Fjárlög hvers árs eru mikilvægastasta málið sem fjallað er um hverju sinni. Þess vegna ber að gagnrýna vinnubrögð sem birtast í því sem áður er lýst, með handahófskenndum vinnubrögðum við framlagningu, samanber ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Herra forseti. Ég fór við 2. umr. um fjárlög yfir skuldastöðu ríkissjóðs og hvernig hallinn hefur verið innbyggður í rekstrarkerfi hans. Hann hefur leitt til áframhaldandi skuldasöfnunar og veldur verðbólguáhrifum og vaxtahækkunum. Skuldastaða ríkissjóðs og ríkisstofnana hefur farið hríðversnandi undanfarin ár og ég tel rétt að gera enn grein fyrir því að skuldir ríkissjóðs hafa aukist úr 11,7 milljörðum árið 1985 í 126,7 milljarða árið 1994 eða um það bil 1000%. Skuldir sveitarfélaga hafa aukist úr 7,4 milljörðum í 36,8 milljarða eða um það bil 500%. Skuldir heimilanna hafa á sama tíma aukist um 700% en skuldir fyrirtækjanna, sem betur fer kannski, ekki nema um 260%. Afborganir af skuldum ríkissjóðs eru nú um 34,2 milljarðar fyrir næsta ár.

Herra forseti. Afborganir og vextir íslensku þjóðarinnar eru gífurlegar. Afborganir nema sem svarar öllum útgjöldum menntmrn., öllum útgjöldum félmrn. og öllum útgjöldum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þessar skuldir verða ekki greiddar í einni svipan en það verður að gera á skipulegan hátt, vinna á skuldum og minnka afborganir og vexti. Og vel að merkja, herra forseti, vaxtagreiðslurnar einar saman eru hærri en allar greiðslur til framhaldsskóla, grunnskóla og sérskóla. Ég bið menn að taka eftir því, þær eru hærri einar sér en allar greiðslur til framhaldsskóla, grunnskóla og sérskóla.

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að ræða örlítið um stöðuna í heilbrigðismálunum. Við 2. umr. um fjárlagafrv. var gerð lítillega grein fyrir aðgerðum sem fyrirhugaðar voru vegna þess vanda sem er í heilbrigðiskerfinu. En það er nú ljóst, þegar 3. umr. fer fram, að ekkert hefur verið leyst úr þeim vanda sem fyrir liggur. Lög nr. 59/1983 kveða á um að allir landsmenn skuli eiga rétt á þeirri fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndunar andlegri og líkamlegri heilbrigði. Það er langt frá því að við þetta lagaákvæði sé staðið. Vandinn í heilbrigðiskerfinu er yfirstíganlegur og ekki ætti að vera þörf á að grípa til þeirra óyndisúrræða sem nú blasir við að framkvæmd verði, miðað við uppstillt fjárlög ríkisstjórnarinnar.

Fjárlögin sem nú er verið að keyra í gegnum Alþingi eru skilaboð um að draga eigi úr lækningum. Þessi skilaboð eru fyrst og fremst til hátæknisjúkrahúsa höfuðborgarsvæðisins. Þau úrræði, sem rekstraraðilum er ætlað að framkvæma, gera það að verkum að fyrir liggja lokanir fleiri deilda, fækkun starfsfólks og lenging biðlista á öllum sviðum. Sérfræðingarnir hafa bent á að kostnaður vegna sjúkra á Íslandi sé með því lægsta sem þekkist í löndum sem við berum okkur saman við. En þeir benda jafnframt á að með hækkandi aldri þjóðarinnar og vaxandi tækni og sérhæfingu við læknisaðgerðir muni kostnaður aukast verulega. Þess vegna, herra forseti, er óásættanlegt að ekki sé leyst úr þeim uppsafnaða vanda sem enn er í heilbrigðiskerfinu vegna halla sem nemur a.m.k. 500 millj. kr.

Herra forseti. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að 49 milljörðum 196 millj. 300 þús. kr. verði varið til heilbrigðis- og tryggingamála. Hækkunartillögur á milli umræðna til málaflokksins eru um það bil 247,5 millj. og það leiðir, eins og áður sagði, af sér að enn er óleystur halli upp á 450--500 millj. kr. Það verður að bæta miðað við stöðuna eins og hún var kynnt í fjárln. Minni hluti fjárln. harmar að ekki skuli vera gerð áætlun um lausn þess bráða vanda sem eftir stendur í heilbrigðiskerfinu. Málefni Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur eru hvað alvarlegust. Þessir spítalar hafa ekki fengið þær leiðréttingar sem verður að gera. Þessar stofnanir eru lykilstöðvar lækninga á Íslandi. Þar fara fram sérhæfðustu aðgerðirnar, vegna þess búnaðar og aðstöðu sem þar er að finna. Og af þessari ástæðu þarf sérstaka fjármálaaðgerð vegna þessara spítala sem framkvæma aðgerðir sem eru ekki framkvæmdar á sjúkrahúsum landsbyggðarinnar. Herra forseti. Ég vísa til tillagna minni hluta fjárln. varðandi þessi atriði.

Ég mun nú gera grein fyrir brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 484 sem eru frá undirrituðum og öðrum þingmönnum Alþfl. Fyrri tillagan er við 3. gr. um nýjan lið, nr. 415, fjármagnstekjuskatt frá 1. sept. 1996 upp á 420 millj. kr. Hér er gengið út frá því að núverandi tekjuskattskerfi verði beitt á fjármagnstekjurnar með ákveðnu frítekjumarki en síðan verði lagt á samkvæmt sérstöku skatthlutfalli sem er 30%. Þetta gæti gefið tæplega 1,3 milljarða kr. í tekjur yfir heilt ár. Eins og hér sést er ekki unnið út frá þeirri reglu að setja flatan staðgreiðsluskatt á fjármagnstekjur heldur því að nýr fjármagnstekjuskattur falli sem best að gildandi tekjuskattskerfi en ekki þurfi að búa til nýtt kerfi fyrir hann.

Í öðru lagi. Við 4. gr. fjárlaga, við liðinn 05-204 Fiskistofa eða sértekjur. Í staðinn fyrir 112 millj. kr. kemur 912 millj. kr. Hér er lagt til, herra forseti, að Fiskistofa inniheimti veiðileyfagjald til að standa straum af kostnaði við rekstur sinn, svo og Hafrannsóknastofnunar. Afgangurinn renni í ríkissjóð til að mæta kostnaði við aðrar stofnanir sjávarútvegsins. Lagt er til að innheimt verði 1,65 kr. á hvert kg af lönduðum fiski, umreiknuðum í þorskígildi. Það mun ekki láta fjarri að það hafi verið tæplega 490 þús. tonn á síðasta ári og þannig fæst umrædd upphæð.

Herra forseti. Ég hef lítillega farið yfir málin eins og þau ber að hjá mér og gert grein fyrir tillögum frá Alþfl. sem eru fyrirliggjandi og með því læt ég máli mínu lokið.