1995-12-22 02:24:24# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[26:24]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og við var að búast hefur margt breyst síðan við ræddum frv. við 2. umr. Ég gagnrýndi það harðlega þá, sem og aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar, að frv. væri tekið til 2. umr. án þess að fyrir lægju tillögur um útgjaldafrekasta kaflann, þ.e. heilbrigðismálin nánast eins og þau lögðu sig. Ég vil ítreka þá gagnrýni hér og nú. Það er vitanlega ekki boðlegt að þingmenn hafi svo skamman tíma til að gaumgæfa þær fjölmörgu tillögur til breytinga sem síðan hafa komið fram við þann kafla og allt of lítið svigrúm til umfjöllunar, bæði í nefnd og í þingsölum. En nánar um þann þátt síðar.

Eins og ég benti á við 2. umr. er ljóst og viðurkennt að tekjuhlið frv. var verulega vanáætluð. Ég nefndi þá töluna 700 millj. kr. a.m.k. og raunar líklegra að hún yrði allt að einum milljarði. Það hefur gengið eftir. Niðurstaðan er að breyttar forsendur auki tekjur ríkissjóðs um hartnær milljarð eða nánar tiltekið 976 millj. kr. Sú niðurstaða ræðst af spá um meiri hagvöxt en áður var reiknað með. Hann er nú áætlaður um 3,2% í stað 2% í þjóðhagsáætlun.

Atvinnuleysi er talið verða nokkru minna en áður var ætlað og kaupmáttur heimilanna heldur meiri og þannig munu aukin umsvif skila sér í auknum tekjum til ríkissjóðs. Að mínum dómi er varlega áætlað. M.a. er ekkert tillit tekið til vænlegri horfa í sjávarútvegi, líkur á aflabrögðum eru í þokkalegu meðallagi, og viðunandi fiskverði á erlendum mörkuðum. Skuggahlið dæmisins er hins vegar að viðskiptajöfnuður mun væntanlega snúast úr afgangi í halla, en viðskiptajöfnuður hefur verið jákvæður nú síðustu árin. Þá er hugsanlegt að verðlag hækki umfram það sem æskilegt getur talist og verðbólga aukist umfram spár. En að öllu samanlögðu tel ég þessa hækkun á tekjuhlið frv. ekki ofáætlaða, fremur í hina áttina.

Á móti eru lagðar fram fjölmargar tillögur um aukin útgjöld þannig að niðurstöðutölur eiga ekki að leiða til meiri halla en lagt var upp með í frv. Hvort þær standast tímans tönn er svo aftur annað mál. Ég hef miklar efasemdir um það. Mér finnst miklu líklegra að við eigum eftir að afgreiða verulegar breytingar með fjáraukalögum næsta árs, bæði tekju- og gjaldamegin, eins og venjan hefur verið, en sú umræða bíður síns tíma. Það er deginum ljósara eða morgunljóst, eins og hæstv. samgrh. hefur nú upplýst að menn segi fyrir norðan, að stjórnarandstaðan hefði viljað hafa afgreiðslu þessa frv. að mörgu leyti á annan veg, bæði tekju- og gjaldamegin. Ég for nokkuð ítarlega í hugmyndir okkar kvennalistakvenna við 2. umr. um frv., bæði um tekjur, sparnað og útgjöld. Ég stend að nál. minni hlutans við 2. umr. málsins, svo og frhnál. við þessa umræðu. Þar er tekið á ýmsum þáttum sem við höfum orðið ásátt um að leggja áherslu á og vekja athygli á.

Þær áherslur koma einnig fram í sameiginlegum brtt. okkar á þskj. 485 þar sem við leggjum til 75 millj. kr. hækkun til Háskóla Íslands, 150 millj. kr. hækkun til Ríkisspítalanna, 100 millj. kr. hækkun til Sjúkrahúss Reykjavíkur og loks er tillaga um 60 millj. kr. til að standa við lögin um greiðslu bóta til þolenda ofbeldisbrota eins og þau voru samþykkt á Alþingi í mars sl.

Einhver kann að áfellast okkur fyrir að leggja fram tillögur um hækkun útgjalda sem nema samtals 385 millj. kr. en spá mín er sú að bregðist Alþingi ekki jákvætt við þessum tillögum minni hlutans þá munum við engu að síður sjá þær á þskj. frá meiri hlutanum við afgreiðslu fjáraukalaga á næsta ári. Svo augljós er fjárvöntun til þessara liða og svo rækilega má rökstyðjar þessar beiðnir að annað er að mínum dómi óraunhæft.

[26:30]

Ég vildi aðeins bæta við þetta. Framganga stjórnarflokkanna er ekki til vitnis um mikinn siðferðisstyrk. Ég á þar m.a. við afgreiðslu meiri hlutans á fjárveitingum til Háskóla Íslands. Hún er ekki í neinu samræmi við fyrirheit allra stjórnmálaflokkanna í síðustu kosningabaráttu um aukinn stuðning, brýna nauðsyn á auknum stuðningi við menntun og rannsóknir í landinu, aukið framlag um 15 millj. kr. verður ekki til að leysa vanda æðstu menntastofnunar þjóðarinnar sem lagt hefur fram rækilega rökstuddar beiðnir um aukið framlag til kennslu og raunar einnig 60 millj. kr. til rannsókna og framhaldsnáms. Ég tel stefnu stjórnarflokkanna eins og hún birtist í fjárlagafrv. og þessum breytingartillögum beinlínis stefna framtíð æðri menntunar í landinu í hættu. Ég skora á hv. stjórnarliða að íhuga það vandlega að bæta sitt ráð.

Herra forseti. Ég benti á strax á við 1. umr. um frv. til fjárlaga 1996 að ekki færi mikið fyrir kvenvinsamlegum áherslum í frv. til fjárlaga 1996. Raunar má segja að þar sé sitthvað kvenfjandsamlegt og ber þar hæst áformin um frestun gildistöku laganna um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda ofbeldisbrota sem ég hef margsinnis rætt og gagnrýnt hvar sem færi hefur gefist.

Kvennalistakonur hafa öll sín ár á hv. Alþingi lagt fram fáar en stefnumarkandi tillögur til breytinga á fjárlagafrv. og lagt þar áherslu á mál sem teljast einkennandi fyrir hlutverk okkar í íslenskum stjórnmálum. Við settum fram fáeinar breytingartillögur við frv. við 2. umr., fáar og tiltölulega hógværar en af þeim má marka á hvern veg við mundum setja svip á fjárlög ef við réðum ferðinni. Allar lutu þær að því markmiði að bæta hag kvenna og tryggja þeim jöfnuð til athafna, til bótagreiðslna og launa. Fjórar þeirra voru felldar af stjórnarliðum og var svo sem ekki við öðru að búast. Svo að ég aðeins rifji þær upp voru þær í fyrsta lagi um aukið framlag til Námsgagnastofnunar í því skyni að gera stofnuninni kleift að endurskoða og yfirfara námsbækur með hliðsjón af jafnréttislögum, en kannanir hafa sýnt að þar er víða pottur brotinn. Það er ekki við því að búast að vel gangi að koma á margnefndri viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu ef menn láta það áfram viðgangast ár eftir ár að skólabörn fái skekkta mynd af þjóðfélaginu í námsbókum en stjórnarliðar felldu þá tillögu allir sem einn.

Í öðru lagi lögðum við til 5 millj. kr. framlag til UNIFEM á Íslandi sem hefur unnið gagnmerkt starf í þágu kvenna í þróunarlöndunum og hafði fengið munnleg vilyrði ráðherra fyrir fjárstuðningi til styrktar athyglisverðu verkefni í Andesfjöllum. Meiri hluti fjárln. lagði til 2,5 millj. kr. til þessa liðar og sú niðurstaða varð ofan á.

Í þriðja lagi varð svo tillaga um aukið framlag til atvinnumála kvenna sem hefði verið sanngjarnt, m.a. með tilliti til þess að fram undan er talsverð aukning starfa sem karlar hafa hingað til einkum sótt í og menn munu svo vafalaust gera áfram svo og ekki síður vegna þess að reynslan af þessu framlagi ríkisins er mjög góð og hefur varðað miklu. Framlag af þessum lið hefur orðið konum um allt land hvatning til þess að hrinda af stað hugmyndum um atvinnusköpun af ýmsu tagi, að vísu allt í frekar smáum stíl enda ekki um háar upphæðir að ræða í þessum sjóði. Þessi liður í frv. nemur aðeins 19,6 millj. kr. og verður svo áfram. Stjórnarliðar felldu tillögu okkar um hækkun þess liðar upp í 50 millj. og verð ég að segja að skilningsleysið hjá stjórnvöldum á sérstökum aðstæðum kvenna ríður ekki við einteyming. Við kvennalistakonur höfum með ýmsu móti reynt að breyta viðhorfum í þessum efnum og lagt fram margar tillögur á hv. Alþingi í því skyni. Smásálarlegt framlag ríkisins til atvinnumála kvenna eru skilaboð til þeirra um að það þyki ekki ómaksins vert að leggja neitt verulegt af mörkum til að styðja viðleitni þeirra á þessu sviði. Það er annað uppi á teningnum þegar rétta þarf hlut atvinnugreina sem samkvæmt hefðum og venjum njóta þar náðar og skilnings og er þar vitaskuld um hefðbundnar karlagreinar að ræða.

Í fjórða lagi lögðum við til að Alþingi samþykkti 200 millj. kr. framlag sem merkt yrði átaki til þess að jafna launamun kynjanna. Sú tillaga var í samræmi við áætlun sem Kvennalistinn hefur kynnt um aðgerðir til að afnema launamisréttið. Það hróplega misrétti voru allir stjórnmálaflokkar einhuga um í kosningabaráttunni að væri óþolandi og bæri að afnema. Minna hefur farið fyrir tillögum og aðgerðum nema tillögum frá Kvennalistanum sem lagði fram þáltill. um aðgerðir strax á vorþingi og flutti nú tillögur við 2. umr. fjárlaga í samræmi við þá tillögu. Ekki vildu stjórnarliðar fallast á þessa fjárlagatillögu en við munum að sjálfsögðu beita okkur áfram í þessu réttlætismáli sem hlýtur á endanum að bera árangur. Tvær tillögur ákváðum við að draga til baka í þeirri umræðu í þeirri von að þær yrðu athugaðar nánar og það varð raunin.

Fyrst er til að nefna tillögu um nýjan lið við heilbrigðismál, Ýmis starfsemi. Liðurinn yrði merktur Fræðsla um kynlíf og barneignir og til hans yrði varið 2 millj. 580 þús. kr. til þess að stofna skrifstofu samtaka um þessi málefni og standa straum af ráðgjöf og fræðslu sem reyndar er þegar hafin. Meiri hlutinn hefur nú tekið tillöguna upp á sína arma og leggur til 500 þús. kr. hækkun á safnliðnum Ýmis framlög sem ætluð eru til þessarar starfsemi. Þótt hér sé um talsvert lægri upphæð að ræða en við hefðum viljað sjá og lögðum sjálfar til fögnum við auknum skilningi meiri hlutans og stuðningi um málið. Við endurflytjum ekki tillögu okkur við þessa umræðu en vonumst auðvitað til þess að hér sé aðeins um fyrsta skref að ræða og frekari stuðningur komi til síðar. Loks lögðum við til 60 millj. kr. fjárveitingu til greiðslu bóta til þolenda afbrota og þarf sá liður varla mikilla skýringa við. Upphæðin var miðuð við að staðið yrði við nýsett lög um bótagreiðslur vegna ofbeldisbrota en ríkisstjórnin vildi fresta gildistöku þeirra um eitt ár. Þá sögu þarf ekki að rekja í löngu máli. Stjórnarandstæðingar hafa allir sem einn lagst á árar um að koma í veg fyrir það glapræði og hafa þó náð þeim árangri að verulega hefur dregið úr þeim skaða sem upphafleg áform ríkisstjórnarinnar hefðu valdið.

Ég vil láta koma fram að mér er fullkunnugt um nokkra stjórnarliða sem eru okkur fyllilega sammála um þetta efni og hafa lagt mikið á sig til að bæta skaðann. Það má víst ekki nefna nein nöfn í þessu sambandi en ég vil engu að síður færa þeim þakkir mínar og annarra fyrir þeirra liðveislu. Engu að síður varð það að ráði nú við 3. umr. og gera lokatilraun til að tryggja fullnustu þessara laga eins og þau voru samþykkt fyrr á árinu og því lagði minni hlutinn fram tillögu um 60 millj. kr. framlag í því skyni. Það er hins vegar orðið nokkuð ljóst að sú lota er töpuð í bili.

Herra forseti. Í þessu samhengi tel ég rétt að skýra afstöðu okkar kvennalistakvenna til brtt. á þskj. 495 um hækkun styrks til þingflokka um 25 millj. kr. auk þess sem lögð er til breyting á texta liðarins. Eins og ljóst má vera standa að þeirri tillögu formenn allra þingflokka annarra en Kvennalistans. Ástæða er til að taka það skýrt fram að Kvennalistinn er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt og æskilegt að stjórnmálaflokkar fái framlög til starfsemi sinnar og við höfum hingað til staðið að tillöguflutningi um þau efni. Við höfum hins vegar margsinnis gagnrýnt hvernig staðið er að úthlutun þessa liðar og flutt tillögu um setningu reglna um þau efni en það er annað mál sem ég ætla ekki að ræða frekar við þetta tilefni.

Framlög til stjórnmálastarfsemi hafa verið með ýmsu móti í áranna rás. Í eina tíð var um að ræða framlög sem merkt voru blöðunum án þess að ég muni nákvæmlega hvernig liðurinn var orðaður. Það var svo fyrir um það bil 10 árum sem samkomulag varð um það á hv. Alþingi að setja nýjan lið inn á fjárlög sem væri merktur útgáfustarfsemi á vegum þingflokkanna. Ég held að ég muni það hárrétt að það hafi verið í minni tíð sem formaður þingflokks Kvennalistans og ég hafi staðið að flutningi tillögunnar ásamt formönnum annarra þingflokka. Æ síðan höfum við tekið þátt í breytingum á þessum lið í góðu samkomulagi við aðra þingflokka. Í þetta sinn höfnum við því og ástæðan er eftirfarandi. Hv. þm. stjórnarflokkanna hafa ekki treyst sér til að standa við nýsett lög um greiðslu bóta til þolenda ofbeldisbrota. Breytingar á þeim lögum voru samþykktar fyrr í dag og það áður en lögin taka gildi. Sparnaðurinn sem þar með náðist nemur 15 millj. kr. Það var með hliðsjón af þessari niðurstöðu sem við höfnuðum að flytja tillögu um 25 millj. kr. hækkun til þingflokkanna.

Herra forseti. Ég hlýt að gera mjög alvarlegar athugasemdir við afgreiðslu þess kafla fjárlagafrv. sem tekur til sín um 40% allra útgjalda ríkissjóðs í heilbrigðismálum. Vinnubrögðin í þeim málum hafa verið algerlega með eindæmum og hef ég orð mér þingreyndari manna fyrir því. Oft hafa verið erfiðleikar við að ná endum saman og ná samkomulagi, ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þessi mál, heldur einnig milli stjórnarliða en aldrei hafa hlutirnir gengið jafnbrösulega og nú.

Herra forseti. Mér þykir ekki ólíklegt vegna tæknivæðingar á svæðinu að hæstv. heilbrrh. fylgist með umræðu einhvers staðar nálægt einhverju af þessum nýju tækjum sem gera okkur auðveldara fyrir að fylgjast með en mér þætti vænt um ef hæstv. heilbrrh. kæmi til okkar í salinn og fylgdist með þessu sem við erum að ræða hérna.

(Forseti (StB): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. heilbrrh. komi í salinn.)

Ég fagna því að hæstv. heilbrrh. kom í salinn. Í sjálfu fjárlagafrv. birtust áform um lækkun til fjölmargra liða í heilbrigðiskaflanum, áform um niðurskurð, aðhald og sparnað en minna fór fyrir skýringum á því hvernig þeim markmiðum yrði náð. Það voru aðeins lauslegar hugmyndir um gjaldtöku fyrir einstök læknisverk og fyrir sjúkrahúslegu, hugmyndir um skerðingu bóta og fleira af því tagi sem engin leið var að átta sig á. Þrátt fyrirspurnir og eftirgrennslan í nefndinni var fátt um svör enda augljóst að útfærslu skorti algerlega. Sama dag og áformað hafði verið í upphafi þings að lokaafgreiðsla fjárlaga færi fram fengum við loks nýjar hugmyndir um leiðir til að ná fram niðurskurðaráformum hæstv. heilbrrh. og verður að segjast alveg eins og er að enn var lítið að græða á svörum við fyrirspurnum hvað einstakir liðir hefðu í för með sér. Sumir liðirnir voru gersamlega óskýranlegir og aðeins vísað til þess að hæstv. ráðherra hefði algert vald til útfærslu þeirra. Síðan hefur reyndar nokkuð skýrst með hugmyndir um komugjöld á heilsugæslustöðvar og til sérfræðinga og þau gjöld verða væntanlega hækkuð um 100 kr. eða svo vegna komu á heilsugæslustöðva og 200 kr. til sérfræðinga. Þar að auki mun vera áformað að afsláttarkjör vegna aldurs hefjist ekki fyrr en við 70 ára aldursmarkið í stað 67 ára. Er þar komin enn ein aðferðin við að kroppa í buddur eldri borgara og það á tvöfaldan hátt. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. hvort hér sé rétt með farið að þessi áform séu uppi. En þetta er nú reyndar eitt af því sem var tiltölulega fljótlegt að átta sig á. Ýmislegt annað var öllu flóknara og erfiðara að skilja þrátt fyrir góðan vilja. Ég verð að segja að þetta eru auðvitað ekki boðleg vinnubrögð. Frumvarpstillögur voru gjörsamlega óunnar og lítt skýrðar og vikur liðu án þess að við yrðum nokkru nær í nefndinni um þennan umfangsmikla hluta fjárlaga. Kaflinn var svo nánast í heilu lagi látinn liggja milli hluta við 2. umr. um frv.

[26:45]

Síðan tekur við nokkurra daga tímabil þar sem nýjar tillögur og nýjar tölur koma í smáskömmtum og myndin breytist frá einni stundu til annarrar. Þetta minnti nánast á andrúmsloft kosninganætur. Um leið var verið að ganga frá lokatillögum til breytinga á frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár og allt blandast þetta saman í einn herjans hrærigraut. Það er vægast sagt mikil hugarleikfimi og púsluspil að átta sig á lokatölum. Til að skýra aðeins hvað við er að fást langar mig til að vitna, með leyfi hæstv. forseta, í skýringar meiri hlutans við lið 08-358 í brtt. meiri hlutans en þar segir: ,,Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri: Framlag til fjárlagaliðarins hækkar alls um 37 millj. kr. Launagjöld hækka um 15 millj. kr. vegna innbyrðis leiðréttinga á fjárveitingu til stofnunarinnar. Á móti lækkar framlag um sömu fjárhæð vegna hækkunar sértekna þannig að heildaráhrif verða engin. Í annan stað lækka sértekjur um 10 millj. kr. en fallið er frá áformum í frumvarpi til fjárlaga um gjaldtöku á sjúkrahúsum. Í þriðja lagi hefur verið samþykkt 75% staða barna- og unglingageðlæknis við sjúkrahúsið. Fjárveiting vegna þess er 4,5 millj. kr. en á móti lækkar fjárveiting til fjárlagaliðarins 370 Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi um sömu fjárhæð. Að lokum hækkar rekstrarframlag til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri um 22,5 millj. kr. og er það hluti af úthlutun af sérstökum hagræðingarlið og lækkar framlag á fjárlagalið 950 Rekstrarhagræðing um sömu fjárhæð.``

Mér finnst þessi útlistun svolítið dæmigerð og sýna við hvað er að fást þegar maður reynir að átta sig á merkingu allra þeirra breytingartillagna og tilfærslna til og frá á meðan verið er að vinna að þessu máli.

Verst er að reyna að fá botn í spítaladæmið á höfuðborgarsvæðinu og sá botn finnst vitaskuld ekki endanlega fyrr en einhvern tíma á næsta ári, ef hann finnst þá nokkurn tímann. Við þekkjum öll þá umræðu sem hefur verið rúmfrek hér á Alþingi og í fjölmiðlum undanfarna daga þar sem hart er tekist á um leiðir og markmið í spítalarekstri. Að sjálfsögðu væri farsælla að menn gætu náð saman um skilgreiningu vandans og lagst á eitt um að vinna bug á honum en það virðist nú ekki alveg í sjónmáli. Enn eina ferðina er hnífnum beitt á báða bóga án þess að mörkuð sé áður stefna um framtíðarskipan. Eins og fram kemur í nál. minni hlutans er nokkuð ljóst að án aðgerða stefnir í hallarekstur stóru spítalanna í Reykjavík á næsta ári sem gæti numið 500--600 millj. kr. Engar beinar tillögur eru í hendi um það hvernig tekið verður á þeim vanda en ætlunin er að ganga til þess verks með þrennum hætti.

Í fyrsta lagi að stjórnir spítalanna hvor um sig leggi fram tillögur um aðgerðir til þess að draga úr kostnaði eða auka tekjur og hafa þær frest fram í næsta mánuð að skila þeim tillögum. Nokkuð ljóst er að þær sjá fátt annað til ráða en að loka deildum og minnka þjónustu. Hagræðing og sparnaður er þegar orðinn ærinn og farinn að setja verulega mark á alla starfsemi spítalanna. Aukið vinnuálag á spítölunum er farið að hafa áhrif á reksturinn, veikindadögum starfsfólks fjölgar og álagssjúkdómar aukast. Biðlistar lengjast og sjúkdómstilfelli verða þyngri og erfiðari þar sem sjúklingar komast seinna í meðferð en æskilegt er. Þetta er fyrst og fremst vandinn sem við erum að kalla yfir okkur og menn verða auðvitað að horfast í augu við þennan vanda og svara óþægilegum spurningum um forgangsröðun og ábyrgð í heilbrigðisþjónustu. Það þarf að ræða skipulagningu hennar og reyna að ná utan um allt dæmið í heild, gera sér grein fyrir afleiðingum sparnaðar á einu sviði sem oftar en ekki dúkkar upp sem kostnaður annars staðar í kerfinu af þeirri einföldu ástæðu að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu læknar ekki sjúka. Það eru meira að segja gild rök fyrir því að niðurskurður geri sjúka enn veikari og þar með dýrari.

Í öðru lagi mun hæstv. heilbrrh. skipa samráðsnefnd ráðuneyta til að leita leiða til að auka samvinnu sjúkrahúsanna. Í tengslum við það eru 200 millj. kr. til ráðstöfunar þegar sýnt er fram á möguleika á lækkun útgjalda. Og hér erum við komin að þeim lið þar sem fyrst er tekið af öllum sjúkrastofnunum og síðan deilt út eins konar verðlaunum eftir frammistöðu.

Í þriðja lagi eru svo 150 millj. krónurnar sem vistaðar eru hjá fjmrh. og stofnanir geta sótt í gegn tillögum um aðgerðir sem leiða til a.m.k. jafnmikils sparnaðar árið 1997. Það sem mesta athygli vekur við þennan lið er heimilisfangið sem honum er ætlað. Hæstv. heilbrrh. hefur margítrekað að þessi pottur sé fyrst og fremst settur á hlóðir vegna vanda sjúkrahúsanna og þau muni að mestu leyti fá skammtað úr honum. Spurningin er þá, hvers vegna heyrir þessi liður ekki undir hæstv. heilbrrh.? Hvers vegna hefur hann ekki forræði á hendi um úthlutun úr þessum sjóði úr því hann er fyrst og fremst til kominn til að leysa vandann í heilbrigðiskerfinu? Treystir hæstv. fjmrh. ekki hæstv. heilbrrh.? Ég leita eftir frekari skýringum hjá hæstv. heilbrrh. og þar með ef hún gæti látið í ljósi skoðun sína á ágæti þessa fyrirkomulags eða hvernig hún lítur á það.

Þessir þrír liðir eru allir dæmi um leiðir sem má reyna og gætu skilað árangri en taka ekki á þeim bráða vanda sem stjórnir sjúkrahúsanna standa frammi fyrir. Þarna er hver potturinn á fætur öðrum, heitur pottur, kaldur pottur og jafnvel hálfgerður lottópottur. Allt myndar þetta einn allsherjargrautarpott og það er ekki til sóma að taka á málunum með þessum hætti. Kannski væri reyndar réttast að tala um naglasúpu sem engan mun seðja.

Ég get raunar í þessu sambandi sagt orðrétt eins og hv. fyrrv. þingkona Kvennalistans, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, sagði í umræðu um fjárlög þessa árs fyrir réttu ári. Hún sagði þar, með leyfi hæstv. forseta: ,,Það hefur verið mikill uppsafnaður vandi á hverju ári hjá sjúkrastofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Samt er enn áformað að lækka framlag til þeirra og taka ekki á þeim fjárlagahalla öllum sem þar er kominn og uppsöfnuðum vanda heldur á enn að auka kostnað sjúklinga og láta þá borga þjónustuna í auknum mæli sem njóta hennar. Sameining sjúkrahúsa í Reykjavík og hagræðing á landsbyggðinni á enn að skila einhverjum hundruðum millj. sparnaði sem ég tel óraunhæft. Það er enn verið að höggva í sama knérunn með sparnaði inni á sjúkrastofnunum sem eru búnar að hagræða og spara eins og þær mögulega geta á undanförnum árum.``

Þannig erum við því miður að segja það sama ár eftir ár um þessi efni, nákvæmlega sömu hlutina. Ég hef, herra forseti, miklar áhyggjur af þessari endalausu styrjöld um heilbrigðiskerfið í landinu og legg áherslu á það enn og aftur að menn verða að taka á vandanum í heild og móta stefnu til framtíðar.

Ég fer nú að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég hef reynt að undirstrika hvaða þættir þess valda mér þyngstum áhyggjum. Þeim áherslum má skipta í megin atriðum í þrjá þætti.

Í fyrsta lagi vantar í þetta frv. með öllu einhverja sönnun þess að hér sé að aukast skilningur á nauðsyn kvenfrelsis og jafnrar stöðu kvenna og karla.

Í öðru lagi verður augljóslega bið á því að hv. þingmenn standi við fögur fyrirheit í síðustu kosningabaráttu um eflingu menntunar og rannsókna í landinu.

Í þriðja lagi er það aðförin að heilbrigðis- og tryggingakerfi landsmanna sem staðfest er með tölum í þessu frv. Mig langar til þess að taka hér að lokum dæmi um afleiðingar þess sem hefur verið að gerast í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum. Í gær eða fyrradag, maður er svolítið ruglaður í tímatalinu, barst mér í hendur skýrsla um stjórnsýsluendurskoðun á sjúkrahúsum Suðurnesja, á Ísafirði, Neskaupstað og á Suðurlandi. Þetta er þykk og mikil skýrsla sem ég mun kynna mér vel í betra tómi. Ég fletti henni lauslega í gær og þá fyrst og fremst kaflanum um Sjúkrahús Suðurnesja. Þar rakst ég á klausu sem mér finnst nokkuð dæmigerð fyrir það sem hefur verið að gerast og er enn að gerast. Með leyfi hæstv. forseta vitna ég hér í þessa skýrslu:

,,Reynt hefur verið markvisst að stytta legutíma sængurkvenna vegna mikillar aðsóknar á fæðingardeildinni. Sængurkonur mega fara heim eftir 36 tíma en flestar liggja þó lengur. Legutími sængurkvenna hefur styst nokkuð á undanförnum árum eða úr 6,1 degi á árinu 1993 í 5,65 daga á árinu 1994. Á sama tíma hefur legudögum almennra sjúklinga á sjúkrahúsinu fækkað úr 9,7 dögum í 8,7 daga. Meðalnýting rúma á deildinni var 97% á árinu 1994. Talsverður hluti af vinnutíma ljósmæðranna er fólginn í því að sinna þeim brjóstavandamálum sem koma upp hjá konunum eftir að þær koma heim af fæðingardeildinni. Þessi vandamál koma upp hvort sem konan liggur inni eða ekki en í raun er búið að útskrifa hana. Því ætti að greiða fyrir þjónustuna eða jafnvel að beina konunum til heilsugæslunnar.``

Ég læt, herra forseti, mönnum eftir að velta þessu dæmi fyrir sér og lýk hér með máli mínu.