1995-12-22 03:04:49# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[27:04]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla í máli mínu m.a. að gera grein fyrir 20 brtt. sem þingmenn Þjóðvaka leggja til við frv. til fjárlaga. Ég óska eftir því, herra forseti, að hæstv. fjmrh., sem ég held að sé í húsi, verði viðstaddur umræðuna, svo og hæstv. heilbrrh. en ég sé að hann er í salnum. Hluti af þessum tillögum var kynntur við 2. umr. fjárlaga. Þar gerðum við ítarlega grein fyrir afstöðu okkar til meginatriða fjárlagafrv. Við teljum að þar verði að gera á miklar betrumbætur svo að vel fari. Í tillögum okkar koma fram atriði sem bæði lúta að tekjuöflun og niðurskurði útgjalda, svo og að aukningu útgjalda í öðrum þáttum. Tillögurnar í heild gera ráð fyrir auknum tekjum upp á 2,6 milljarða og ég vil benda á að tillögurnar eru listaðar upp á skilmerkilegan hátt á þskj. 486, aðgengilegar fyrir hv. þm.

Varðandi lækkun útgjalda vil ég nefna þætti sem lúta m.a. að því að við gerum ráð fyrir að lækka útgjöld til landbúnaðarmála um 100 millj. kr. og þegar haft er í huga að útgjöld ríkisins til landbúnaðarmála á næsta ári eru 6 milljarðar teljum við um fyllilega raunhæfa aðgerð að ræða. Sömuleiðis leggjum við til að útgjöld við Byggðastofnun og þann málaflokk verði lækkuð um 100 millj. kr. Við teljum að með endurskipulagningu þess þáttar í ríkisrekstrinum mætti spara slíka upphæð. Við gerum einnig tillögu um að ferðakostnaður og risna ráðuneyta, sem er umtalsverð, lækki um 30 millj. kr.

Herra forseti. Ég vildi vegna þess að það er orðið áliðið nætur fara tiltölulega hratt yfir en nokkur atriði tengjast hæstv. fjmrh. Er hann að koma?

(Forseti (GÁ): Forseti hefur gert ráðstafanir til að kalla hann til fundarins.)

Nokkra þætti í tillögugerð okkar vil ég geta um áður en kemur að spurningum í tengslum við tillögurnar sem ég vil fá svör við frá hæstv. fjmrh., sem gengur nú í salinn. Ég fagna því að hann er viðstaddur og heyrir umfjöllun um brtt. sem hér eru lagðar fram.

Á þskj. 486 leggjum við m.a. til hert skatteftirlit. Þannig væri hægt að ná 200 millj. kr. Nú gefst ekki tími til að fara út í nákvæma útlistun á því. Við höfum lagt fram ákveðnar hugmyndir um framkvæmdina en miðað við að um 11--14 milljarðar kr. tapist í skattkerfinu teljum við að slíkur tekjuauki, um 2%, sé fyllilega raunhæfur.

Samkvæmt tillögum okkar getur fjármagnstekjuskattur gefið 500 millj. kr. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., því hann hefur gefið um það fyrirheit og hefur nefnd starfandi að þeim efnum, hvort hann geti ekki fullvissað þingheim um það við lokaafgreiðslu fjárlaga að hann muni á næsta ári leggja fram frv. um þennan skatt, þannig að hann verði tekinn upp einhvern tímann á næsta ári. Jafnframt hvort hann telji slíka tekjuöflun, eins og hér er gert ráð fyrir, geti þá komið til greina, þótt ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. fjmrh. muni styðja tillöguna við þessa afgreiðslu.

Við leggjum sömuleiðs til sem tekjuöflun álagningu veiðileyfagjalds upp á 500 millj. kr. Þetta er nokkuð sérstæð tillaga vegna þess að við höfum lagt fyrir Alþingi tillögu um útfærslu á veiðileyfagjaldi en töldum hins vegar rétt að gera beina tillögu við fjárlögin um ákveðna upphæð í því skyni til að undirstrika mikilvægi málsins. Ég minni á að kostnaður ríkisins við sjávarútveg er um 3 milljarðar kr, en hér er lagt til að gjaldtakan gæti numið 500 millj. kr. Þótt ég geri ekki ráð fyrir að þingheimur samþykki þetta á þessu stigi gefur það ákveðna vísbendingu í hvaða átt málið stefnir.

Við leggjum sömuleiðis til að lagður verði á hátekjuskattur, sem við köllum svo, sem gæti skilað 50 millj. kr. Þar eigum við við 10% skatt á mánaðartekjur sem eru yfir 700 þús. kr. Það eru ekki mjög margir einstaklingar sem hafa slíkar tekjur, fjölskyldutekjur upp á 1,4 millj. á mánuði. Þetta eru mjög háar tekjur og okkur finnst ekki ósanngjarnt að þeir sem þær hafa leggi nokkuð meira til samfélagsins en nú er.

Við gerum ráð fyrir að lækka svokallaðan fjármagnstekjuskatt eldri borgara. Við höfum barist hatrammri baráttu í tengslum við bandorm og fjárlagafrv. gegn því að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi hann nái fram að ganga. Það hefur ekki tekist og þess vegna gerum við tillögu um það í lokaafgreiðslu fjárlaga um að þessi liður verði lækkaður.

Við leggjum til aukið framlag til Háskóla Íslands um 70 millj. kr. og hækkunar til Rannsóknarnáms- og Nýsköpunarsjóðs um 30 millj. kr. Þarna er stigið skref í áttina til þess sem háskólinn hefur talið vera lágmarksfjárþörf sína en afgreiðsla ríkisstjórnarinnar er ekki viðunandi, langt undir þeim hungurmörkum sem háskólamenn hafa skilgreint og í alþjóðlegum samanburði. Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. af því að hæstv. menntmrh. er ekki viðstaddur. Ég vil ekki biðja hann að koma hingað þar sem hann er ekki í húsinu en ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. svari spurningum um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að bæta fjárhag æðstu menntastofnunar okkar. Þar eru hlutir komnir mjög úr lagi vegna fjársveltis undanfarin ár og sífellt erfiðara er að halda uppi kennslu og rannsóknum á þeim alþjóðlega mælikvarða sem við þurfum á að halda. Nú háttar þannig til að ég þekki nokkuð til málefna háskólans og ég get fullvissað hæstv. fjmrh. um að ég hef af þeim verulegar áhyggjur, m.a. þess vegna er tillagan gerð. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. gefi einhverjar vísbendingar um hvað hann hyggst gera á næsta ári, sem gæti þá endurspeglast í næsta fjárlagafrv. hans, til að fullnægja eða nálgast lágmarkskröfur í þessum málaflokki.

Ein af brtt. okkar lýtur að því að hækka framlag til Kvikmyndasjóðs um 50 millj. kr. Meiri hluti fjárln. hefur ekki tekið upp slíkar fjárfestingar eða hugmyndir um slík framlög, því miður. Ég vil spyrja um afstöðu hæstv. fjmrh. til þess hvort hann getur ekki og lítur ekki á framlög í Kvikmyndasjóð sem arðbæra fjárfestingu. Er hér ekki einfaldlega um að ræða arðbæra fjárfestingu í nýjum iðnaði, fremur en framlag til mennta- og menningarmála, sem hefur skilað okkur og mun skila okkur umtalsverðum útflutningstekjum? Það er ekki fráleitt að bera saman auðlind kvikmynda og hugmyndaauðgi á þeim vettvangi við nýjan fiskstofn sem við mundum finna innan eða utan landhelgi. Þá er ég viss um að ekki hefði staðið á framlögum hins opinbera. Þarna er verulegt áhyggjuefni þar sem við spörum okkur til blóðs. Ég spyr hæstv. fjmrh. um það hvort hann geti litið á aukin framlög til Kvikmyndasjóðs, þótt hann geri það ekki í þessu fjárlagafrv. sem arðbæra fjárfestingu sem við eigum að stuðla að, m.a. til þess að halda okkar góðu listamönnum á þessu sviði innan lands og auk þess að fá mótframlög erlendis frá.

[27:15]

Við leggjum til hækkun vaxtabóta um 200 millj. sem mætir að nokkru þeirri kjaraskerðingu sem allt þetta fjárlagafrv. gengur út frá. Við leggjum sömuleiðis til aukin framlög til þróunarmála erlendis um 30 millj. kr. en það mætti hafa langt mál um það að framlög okkar og þátttaka á þessum vettvangi er okkur sem þjóð orðið til skammar. Við tökum ekki sanngjarnan þátt í þeirri viðleitni flestra þjóða í heiminum að styðja fátækari þjóðir því að þótt við Íslendingar séum vön að kvarta og umræða okkar um fjárlagafrv. hefur e.t.v. einkennst mikið af vandamálaumræðu þá ættum við í reynd að prísa okkur sæla að búa við þau skilyrði sem eru þó í þessu landi miðað við nágranna okkar hvað þá ef lengra er leitað. Þarna þurfum við að leggja til aukinn stuðning og við höfum vel efni á því.

Við gerum sérstaka tillögu um að verja til atvinnumála kvenna 50 millj. kr. Við teljum að þessi málaflokkur hafi ekki fengið þá umfjöllun og þá aðstoð og styrk frá hinu opinbera sem nauðsynlegt er. Þarna viljum við gera markvert átak til að bæta úr. Við leggjum sömuleiðis til að framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði aukið um 133 millj. kr. sem er að því við best sjáum sú skerðing sem gert er ráð fyrir í núverandi fjárlagafrv. Sú ætlun ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum sjóðum í félagslega kerfinu er ekki góð stefna enda höfum við barist gegn henni í tengslum við fjárlagafrv. og önnur frumvörp en þarna gerum við tillögu um að rétta hlut þeirra aftur.

Einnig gerum við tillögu um að málið um þolendur afbrota, sem mikið hefur verið rætt um og nokkuð var komið til móts við okkar í stjórnarandstöðunni við afgreiðslu málsins, verði fært í það horf sem upprunalega var gert ráð fyrir þegar lögin um þann málaflokk voru afgreidd.

Við leggjum einnig til aukið fjármagn til Sjúkrahúss Reykjavíkur. Við viljum auka framlög í forvarnasjóð um 20 millj. kr. en forvarnasjóður var settur á laggirnar í tengslum við breytingar á áfengislögum á síðasta vori. Þarna er brýn þörf og við teljum rétt að þarna sé framlag aukið til að mæta þessu vaxandi vandamáli og vafalítið er hægt að tengja það öðrum vímuvanda en áfengisvandanum.

Í breytingartillögum okkar að heilbrigðismálum leggjum við til aukið framlag til Sjúkrahúss Reykjavíkur um 380 millj. kr. Þetta er sú upphæð sem okkur skilst að vanti til að reka þennan málaflokk á næsta ári. Meiri hlutinn hefur ekki fallist á tillögugerð sem ég veit að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa barist fyrir innan fjárln. Ríkisstjórnin hefur gengið frá fjárlagafrv. sínu. Það er veruleg vöntun í þessum málaflokki, bæði á þessu ári og næsta ári. Þrátt fyrir að stefna hæstv. heilbrrh. nái mjög líklega fram að ganga því að eins og ég les hug hæstv. fjmrh. á ég ekki von á atkvæðum hans við þessar breytingartillögur. Við breytingartillögur varðandi heilbrigðismálin er ólíklegt að hæstv. heilbrrh. greiði þeim atkvæði. Þær verða samt sem áður lagðar fram og tillagan um 380 millj. aukið framlag til Sjúkrahúss Reykjavíkur er nauðsynleg að okkar mati. Spurning mín til hæstv. heilbrrh. er sú hvort hún muni kanna þennan vanda sjúkrahúsanna í Reykjavík sérstaklega á næsta ári. Ég er ekki að biðja hæstv. heilbrrh. um að gefa einhverjar yfirlýsingar sem ég gæti túlkað sem loforð um fjárframlög. Ég geri mér fulla grein fyrir því að slíkt getur hæstv. ráðherra ekki gefið þegar verið er að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár. En ég vildi mjög gjarnan heyra svör hæstv. ráðherra varðandi þennan málaflokk, hvernig hann hyggst taka á því, hvort hann hyggst gera það með sérstökum hætti og hvernig hann hugsi sér að koma að þessu vandamáli því að hæstv. ráðherra er fullkomlega ljóst að þótt fjárlögin verði afgreidd í þessu formi verða mörg vandamál sem bíða úrlausnar hæstv. ráðherra strax í upphafi næsta árs.

Sömuleiðis leggjum við til aukið framlag til barna- og geðdeilda um 60 millj. kr. og til bæklunaraðgerða um 80 millj. kr. Við teljum að fjárframlög í þessa málaflokka séu mjög nauðsynleg og brýn og ég vildi gjarnan fá skoðanir hæstv. heilbrrh. á þessum hugmyndum vegna þess að í þeim kemur fram ákveðin hugsun, ákveðin forgangsröð um þá þætti í heilbrigðismálum sem við teljum að þurfi brýnasta úrlausn við. Ég spyr hæstv. heilbrrh. hvort hann líti svo á og hvort hann stefni að því á næsta ári að vinna að tillögum og fá fylgi við það að í fjárlögum sem lögð verða fram á ári gætum við hugsanlega átt von á auknum framlögum í þennan málaflokk.

Við leggjum einnig til tillögu sem er nýmæli, þ.e. að könnuð verði áhrif sparnaðaraðgerða á sjúkrahúsum sl. tvö ár á þjónustu- og heilsufarslegt öryggi sjúklinga, vinnuskilyrði og heilsu starfsfólks. Við áætlum í þessa könnun 2 millj. kr. Við leggjum til að gera ítarlega úttekt og þótt ég geri ekki ráð fyrir því frekar en áður að hæstv. ráðherra styðji tillögu okkar þótt hann gæti e.t.v. fallist á að hún væri skynsamleg. En mig langar til að spyrja hana að því hvort hún gæti hugsað sér á næsta ári að vinna að slíkri könnun um áhrif sparnaðaraðgerða á sjúkrahús sl. ár og á þjónustu og heilsufarslegt öryggi sjúklinga, vinnuskilyrði og heilsu starfsfólks. Þetta er mikilvægur þáttur í endurskipulagningu og nálgun að heilbrigðiskerfinu. Það er okkar skoðun að þessir þættir verði að koma til betri skoðunar.

Í ræðu minni hef ég forðast að koma með stórar yfirlýsingar um ástandið eins og það er. Ég hef kosið að fara nokkuð hlutlaust yfir þessar tillögur og óskað svara frá ráðherranum varðandi þau atriði sem ég beindi sérstaklega til þeirra. Ég vil geta þess í lok máls míns að þessar tillögur eru engar sýndartillögur því að ég geri mér grein fyrir því að það er einfaldasti hlutur í heimi að koma fram með einhvern óskalista og ætla að vera góður við alla. Það eru vinnubrögð sem þekktust oft á Alþingi af hálfu stjórnarandstöðunnar. Við í Þjóðvaka höfum ekki unnið á þann hátt. Þrátt fyrir aukin útgjöld um 1,2 milljarða eru gerðar tillögur um auknar tekjur upp á 2,6 milljarða þannig að heildarniðurstaðan varðandi þessa uppsetningu eins og við leggjum upp með hana er að halli ríkissjóðs mun minnka um 1,4 milljarða. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að það verði afgreitt með halla upp á 4 milljarða eða um 3 milljarða 992 millj. Hér væri um að ræða minnkun á halla ríkissjóðs um 36%. Enda þótt það geti verið pólitískt matsatriði teljum við að tillögur okkar séu raunhæfar. Auðvitað getur verið álitamál varðandi ýmsa tekjustofna, hvort menn vilji fara þá leið eða fara einhverjar aðrar leiðir. Hins vegar leggjum við fram tillögur okkar sem heilsteyptar tillögur til að lina þá árás sem við teljum að felist í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar og í þeim fylgifrumvörpum sem við höfum verið að afgreiða. Það ber því að líta á tillögur okkar sem koma til atkvæða í fyrramálið í samhengi. Þær ganga upp að okkar mati, þær draga úr ýmsum vandkvæðum, sérstaklega á sviði velferðarmála, en eru samt sem áður þannig úr garði gerðar að hæstv. fjmrh. getur vel við unað fyrir hönd ríkissjóðs.