1995-12-22 03:27:39# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[27:27]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað er góðra gjalda vert þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar vilja ná jafnvægi í ríkisfjármálum og það er vissulega nýr hugsunarháttur sem kemur fram af þeirra hálfu núna í ár þegar þeir birta tillögur sínar en þá ber að líta á þessar tillögur efnislega. Það hlýtur að vekja athygli þegar hv. stjórnarandstæðingar birta ekki útfærslu á tillögum sínum þegar rætt er um tekjufrumvörp ríkisstjórnarinnar heldur einungis þegar verið er að tala um fjárlögin sjálf. Það er ekki trúverðugt. Öll vitum við að nefnd sem í eiga sæti fulltrúar allra þingflokkanna er að vinna að fjármagnstekjuskatti. Við vitum einnig að fjármagnstekjuskatturinn getur ekki skilað neinum tekjum á næsta ári, þær tekjur falla að mestu leyti til í lok ársins og mun ekki mynda tekjur fyrr en 1997. Nefndin hefur í hyggju að skila niðurstöðu í janúar.

Varðandi útgjöldin bendi ég á að Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun og ríkisstjórnin leggur upp úr því að hún sé það áfram. Vilji háskólinn fá meiri fjármuni til ráðstöfunar hygg ég að það gerist best með því að háskólinn leggi til við stjórnvöld að hann geti tekið inn nýjar tekjur, t.d. með skólagjöldum á nemendur eins og víða tíðkast erlendis. Ég bendi á að háskólinn fær meiri tekjur samkvæmt tillögum sem liggja fyrir frá fjárln. og það sama gildir um kvikmyndagerðina sem mun á næsta ári fá sömu fjárhæð og á yfirstandandi ári. Það er hins vegar gamall galdur að benda á aukið skatteftirlit þegar það er haft í huga að skattsvik á Íslandi eru ekki meiri en í nágrannalöndunum og meira hefur verið unnið á undanförnum árum við að uppræta skattsvik og afla tekna með þeim hætti en nokkurn tíma fyrr. Þess vegna er sýnd veiði en ekki gefin þegar menn telja sig geta náð 200 millj. með þeim hætti enda hefur verið mikið á sig lagt til þess að ná inn sem allra mestum tekjum með þessu móti.

Ég virði þær tillögur sem koma frá hv. þm. Ágústi Einarssyni en það er eins og hann áleit að ég get ekki stutt þær en ég skil vel viðleitni hans og fleiri hv. stjórnarandstæðinga.