1995-12-22 03:32:48# 120. lþ. 76.6 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur


[27:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla bæði að svara hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og hv. þm. Ágústi Einarssyni. Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði að það vantaði stefnu í heilbrigðismálum. En það er einmitt með slíkt í huga sem sett var á laggirnar nefnd um forgangsröðun í heilbrigðismálum sem stjórnmálamenn taka þátt í og við stefnum að því að það sé ein stjórn yfir öll heilbrigðismál í kjördæmi. Það er þess vegna sem við ætlum að stýra sjúkrahúsunum hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu í einn farveg og sérhæfa þau þannig.

Hv. þm. Ágúst Einarsson ræddi um vanda sjúkrahúsanna. Það er rétt sem fram hefur komið, hann er ærinn. En við þurfum fyrst og fremst að veita í einn farveg hátæknisjúkrahúsunum hér á Reykjavíkursvæðinu. Við erum að tala um 17 milljarða til allra sjúkrastofnana á landinu og 12 milljarðar fara til Reykjavíkursvæðisins. Það er eðlilegt því hér er viss endastöð fyrir alla sjúklinga á landinu. En við verðum fyrst og fremst að taka á þeim vanda sem fyrir er og við náum því ekki nema samhæfa þessar stofnanir.