Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 19:27:20 (2869)

1996-02-08 19:27:20# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B #, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[19:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka ágætar umræður hér í dag sem hafa tekið nokkuð langan tíma og það eru fáir eftir í salnum. Það er ekki meginmálið, ég held að umræðan hafi í aðalatriðum verið alveg prýðileg.

Ég tek undir með frummælanda þegar hún segir að fleiri þurfi að borga skatta. Okkar vantar meiri tekjur inn í kerfið. Það er nákvæmlega það sem okkur vantar númer eitt. Við eigum fyrst og fremst að vinna að því að ná meiri tekjum inn í kerfið af þeim sem sleppa við að borga skatta.

Samkvæmt lögum eiga allir rétt á heilbrigðisþjónustu, óháð tekjum. Ég þekki vel til á heilsugæslustöðvum og veit að undantekningarlaust eru sjúklingar ekki rukkaðir svo stíft ef heilsugæslulæknir veit að um mjög lélegan fjárhag er að ræða. Það er því varla hægt að halda því fram að fólk fari ekki á heilsugæslustöðvarnar vegna þess að það eigi ekki peninga í buddunni.

Mig langar aðeins að víkja að því sem hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir spurði um áðan varðandi stóru sjúkrahúsin. Hún talaði um mikilvægi samkeppni milli sjúkrahúsa og í heilbrigðisþjónustunni. Það er einmitt verið að vinna að því um þessar mundir að samhæfa störf hátæknisjúkrahúsanna þannig að ekki sé um tvöföldun í kerfinu að ræða. Hún spurði líka hvað liði verki sem ákveðnum starfsmanni í heilbrrn. var falið að vinna fyrir einhverjum árum, löngu áður en ég kom í ráðuneytið. Hún nefnir þar DRG-kerfi sem ég þekki ekki sérlega mikið til. En ég veit að þessi ákveðni starfsmaður hefur lagt fram ýmsar skýrslur í heilbrigðismálum sem við höfum fjallað um. Ég tel að hann hafi verið í mikilli vinnu því auk þess hefur hann verið tilsjónarmaður með sjúkrahúsum og unnið að ýmsum skipulagsmálum fyrir heilbrigðiskerfið. En ég skal sérstaklega skoða þetta ákveðna mál sem hv. þm. biður um svör við.

Eins og fram hefur komið er verið að vinna á skipulegan hátt að stjórnun þessara mála og að því koma margir.

[19:30]

Hér hefur verið mikið rætt um heilbrigðisstjórnir í héruðum. Nefnd, sem m.a. hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir á sæti í, hefur enn ekki skilað áliti. Ég held að það hljóti að hafa verið gagnlegt fyrir hana og hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem situr einnig í þessari nefnd, að heyra álit þingmanna á því máli. Það er verið að vinna að samhæfingu hátæknisjúkrahúsanna. Það er verið að vinna að forgangsröðun og við eigum mesta sóknarmöguleika þar sem eru forvarnirnar. Ef tóbaksvarnarfrv. verður samþykkt á Alþingi fáum við helmingi meira fé til forvarna gegn tóbaksreykingum en við höfum núna. Við höfum 8 millj. nú en fáum yfir 16 millj. ef það frv. verður samþykkt sem ég vona að verði. Við erum að leggja miklu meira fé til áfengis- og vímuefnavarna. Sérstakt gigtarráð er tekið til starfa og er á föstum fjárlögum. Og af því að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir talaði sérstaklega um beinþynningu þá verður farið í sérstakt átak til að kynna varnir gegn beinþynningu. Hér var talað um alnæmi og mig langar til að kynna hv. þm. sem hér sitja það að fyrir fáeinum dögum síðan fengum við skýrslu um að lyf er komið á markaðinn sem nánast stöðvar gang sjúkdómsins ef nógu fljótt er gripið til lyfsins. Þetta eru mjög merkileg tíðindi.

Það er eitt atriði sem mig langar til nefna því ég sé hv. þm. Ögmund Jónasson í dyrunum. Hann talaði mikið um kostun í heilbrigðiskerfinu. Ég hafði nú bara ekki heyrt þetta orð, kostun, fyrr en Pharmaco gaf barna- og unglingageðdeilinni gjöf fyrir nokkru síðan. Það er ekki langt síðan Grandi hf. gaf SÁÁ 2 millj. kr. Ég heyrði engan mótmæla því. Ég verð að segja alveg eins og er að þó svo að um lyfjafyrirtæki sé að ræða sem hefur auðvitað vissra hagsmuna að gæta í kerfinu, tel ég að á afmæli fyrirtækis geti það gefið heilbrigðisstofnunum fjármuni. Það er ekki forgangsröðun frekar en þegar Lions er að gefa heilbrigðisstofnunum eða ýmis félagssamtök því það hefur bæði verið gefið hingað til reksturs og eins til tækjakaupa. Það má geta þess að Kvenfélagið Hringurinn hefur gefið t.d. nánast 60% af öllum tækjum sem eru á vökudeild Landspítalans. Auðvitað er kannski ekki hægt að setja samasemmerki við þetta tvennt. Ég ætla ekki að gera það. Ég tel ekki að það sé hægt útiloka fyrirtæki, einstaklinga, félagasamtök o.s.frv. frá því að gefa til heilbrigðisþjónustunnar. Þegar við erum að tala um svo mikla veltu, mörg hundruð millj. kr. veltu, þá getur sá sem gefur 2 millj. eða 5 millj. aldrei forgangsraðað með því. Og af því að menn eru að tala líka um það að þessar 5 millj. hafi komið í veg fyrir að barna- og unglingageðdeildinni var lokað í sumar, þá gleymist það í umræðunni að ríkisstjórnin samþykkti hálfum mánuði áður 12 millj. kr. framlag einmitt til að ekki þyrfti að loka.

Og aðeins um sjúkrahótelin. Það er jú rekið eitt sjúkrahótel í landinu. Rauði krossinn gerir það. Og stjórnarnefnd Ríkisspítalanna er um þessar mundir að skoða hagkvæmni þess að reka sjúkrahótel við hliðina á Landspítalanum.

Ég tel að ég hafi svarað flestum þeim spurningum sem fram hafa komið og endurtek þakkir mínar fyrir þessa ágætu umræðu.