Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:32:01 (3082)

1996-02-15 16:32:01# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir mjög svo ágæta umræðu um þetta mál. Sínum augum lítur hver silfrið og það hefur komið í ljós hér að sumum finnst of langt og öðrum of skammt gengið. En mér sýnist þegar allt er samantekið að þetta sé býsna gott frv.

Það voru nokkrar spurningar lagðar fyrir mig sem ég ætla að svara. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson reið á vaðið og spurði hvað ég hefði viljað sjá öðruvísi í þessu frv. Fyrst og fremst hefði ég viljað sjá það að tóbak hækkaði 5--10% umfram almennt verðlag á einhverju árabili. Það eru þessi viðskiptalegu sjónarmið og heilbrigðissjónarmið sem rekast á. Ég tel samt ekki að þetta sé sá útgangspunktur að ég hafi verið tilbúin að láta þetta frv. liggja lengur í salti en orðið var því ég tel ýmis ákvæði þessa frv. mjög mikilvæg eins og það að við erum með þessu að stöðva það að unglingar geti keypt tóbak fyrir 17 ára aldur en til þess að svo megi verða þarf mikið eftirlit. Sumir hafa jafnvel talað um að það eigi að ganga lengra og tala um 18 ára aldur. Ég tel mikilvægt að ná 17 ára unglingum, þá erum við að tala um að grunnskólabörn megi almennt ekki kaupa tóbak og það sé auðveldara að hafa eftirlit með því heldur en þegar aldurinn er orðinn hærri.

Hér hefur verið mikið rætt um það hvar eigi að leyfa reykingar og hvar ekki. Háskólinn hefur verið til umræðu og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði af hverju Háskóli Íslands væri ekki með þegar taldir eru upp í frv. hinir ýmsu skólar. Við erum fyrst og fremst að ná til unga fólksins með þessu frv. Það er grundvallaratriði í frv. En ég tel að Háskóli Íslands sem stofnun ætti að sýna gott fordæmi og taka þá ákvörðun einn og sér að banna reykingar innan skólans. Ég nefni sem dæmi að Flugleiðir hf. hafa bannað reykingar á öllum sínum flugleiðum og það eru bannaðar reykingar á öllu starfssvæðinu. Þetta er átak sem menn horfa á og sýnir hvað hægt er að gera.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður heilbr.- og trn., er orðinn lastalaus, hættur að taka í nefið og þar með er hann orðinn lastalaus. (Gripið fram í: Það er nú algert rugl.) (ÖS: Ég hélt því aldrei fram.) (RG: Ekki með lestina.) (SJS: Hann lofaði því nú aldrei.) Hann hélt því ekki fram en mér sýnist að það sé orðið lítið eftir af löstum hans þegar þetta er frá honum tekið. (Gripið fram í.) Já. Það er nú eins og það er. En menn taka yfirleitt eitt skref í einu og hann hefur ekki tekið nema einn flokk í einu þannig að þegar menn eru að tala um að það sé hans eini löstur að vera í Alþfl. þá held ég að það geti staðist.

Hann spurði: Af hverju er verið að banna fínkorna tóbak en ekki gamla neftóbakið? Það er fyrst og fremst vegna þess að þetta fínkorna neftóbak er miklu skaðlegra heldur en gamli ruddinn. Í einni 10 gramma dós af fínkorna neftóbaki er jafnmikið nikótínmagn og í fimm kamelpökkum. Þetta geta menn svolgrað í nefið eða vörina eftir atvikum á mjög skömmum tíma og hefur valdið verulegu heilsutjóni og kostar heilbrigðisþjónustuna mikla peninga.

Hv. þm. spurði einnig að því hvort Svíar hefðu ekki fengið undanþágu varðandi leyfi til að selja þetta fínkorna neftóbak. Það er alveg rétt. En ég tel að við eigum að ganga skrefið til fulls og banna innflutning á fínkorna neftóbaki.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og fleiri hv. þm. töluðu um tóbaksnotkun í tónlistarmyndböndum. Ég skil ekki hvað er verið að hefta einhverja list þó að tónlistarmyndbönd séu ekki full af reyk. Við vitum að það er fyrst og fremst ungt fólk sem horfir á þessi tónlistarmyndbönd, mjög ungt fólk og þetta er viss auglýsing. Oft er verið að auglýsa þá tónlist sem fram er reidd og af hverju þarf að auglýsa tóbak í leiðinni? Ég sé engin höft þó það sé minnkað alveg eins og við samþykktum á Alþingi ekki alls fyrir löngu að banna ofbeldi í kvikmyndum. (ÖS: Af hverju bara tónlistarmyndbönd? Af hverju ekki bara myndbönd yfirleitt?) Það eru fyrst og fremst tónlistarmyndbönd sem menn eru að framleiða hér og það eru þau myndbönd sem ungt fólk horfir mest á þannig að það eru full rök fyrir því.

Það kom einnig fram hjá hv. þm. að það ætti að auka það fjármagn sem fer til forvarna með því að hækka þessa brúttóveltu meira en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég minni á að við erum að taka þarna ansi stórt stökk í einu. Í dag fara 0,2% af brúttóveltu til forvarna en við erum að tala um að hækka það upp í 0,4%. Menn hafa verið að tala um að skoða þetta betur í nefnd og ég mundi ekki gráta það þó að þetta hækkaði verulega í meðförum nefndarinnar. Og ég fagna því að formaður heilbr.- og trn. ætlar að flýta þessu máli eins og framast er unnt.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom inn á ýmislegt og sérstaklega það að hún taldi það vera mjög dýrt að hætta að reykja. Hún taldi að námskeiðahald t.d. væri allt of kostnaðarsamt fyrir einstaklinga. Núna er verið að undirbúa nokkurs konar herferð í námskeiðahaldi og það sem er gleðilegt við það er að sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna hafa boðist til að leggja verulegt fjármagn til þessa námskeiðahalds og koma einmitt á móts við þá tekjulægstu í þjóðfélaginu, en það skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi. Heilsustofnun Náttúrulækningahælisins í Hveragerði mun með vorinu hefja fjögurra til fimm daga námskeið fyrir þá sem vilja hætta að reykja. Talað er um að þessi námskeið kosti 6 þús. kr. og þá erum við að tala um uppihald á staðnum þennan tíma. Þá geta menn enn spurt sig: Hvað kostar að reykja og hvað er þetta mikill sparnaður fyrir einstaklinginn nái hann árangri?

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir talaði líka mikið um eftirlitið, að þetta eftirlit sem heilbrigðisfulltrúum á stöðunum er gert að hafa. Þetta er bara eitt af verkefnum heilbrigðisfulltrúanna og mun ekkert breytast nema hvað við munum enn herða á því að þeir taki enn þá betur til hendi heldur en hingað til hefur verið gert.

Varðandi það að heilsugæslustöðvarnar taki meiri þátt í námskeiðahaldi heldur en hefur verið, þá er það líka í verkahring heilsugæslustöðvanna. Og varðandi kostnaðinn er það að segja að um leið og við náum verulegum árangri, þá fáum við líka frískara fólk og þeir verða færri sem þurfa að nýta sér heilbrigðisþjónustuna.

Ég held að ég hafi svarað nokkurn veginn því sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir kom inn á varðandi myndböndin. Hún talar um að það sé skynsamlegra að hafa tilmæli heldur en bönn og þá kem ég aftur þessum myndböndum. Það er ekki bann í þessu frv. En það er talað um að draga verulega úr reykingum í myndböndum. (Gripið fram í: Það stendur bannað.) Ég er ekki með ... (GGuðbj: Það stendur: ,,Bannað er að framleiða hér á landi tónlistarmyndbönd þar sem tóbaksreykingar eru áberandi.``) Já, nákvæmlega, þar sem tóbaksreykingar eru áberandi. Þar með er ekki verið að banna þær heldur er verið að (Gripið fram í: Orða það á jákvæðan hátt.) já, orða það á jákvæðan hátt eins og hv. þm. orðar það ágætlega.

Hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni finnst ekki nægilega langt gengið og hefði gjarnan viljað ganga lengra varðandi bönn. En ég endurtek að ég tel að þetta sé mjög gott skref, jákvætt skref, og við eigum að flýta framkvæmd þessa máls. (SJS: Hvað með hækkunina á tóbakinu, hver stoppaði það?) Hv. þm. spyr um hækkunina á tóbaki, hann talaði um lækkun áðan. Við erum ekki að tala um að lækka tóbak. Ég svaraði þessu í upphafi máls míns en hv. þm. hefur misst af því svari. Ég lagði til að tóbak mundi hækka umfram verðlag um 5--10% árlega í næstu fimm ár. Það náði ekki í gegnum þingflokk Sjálfstfl. Það er ekkert launungamál.

Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur orðið um þetta mál og vona að það fái hraða framgöngu í gegnum þingið.