Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 16:50:01 (3086)

1996-02-15 16:50:01# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[16:50]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vill ganga lengra varðandi bann á reykingum. Ég tel að við séum að taka þarna mjög mikilvægt skref. Hann spurði áðan og vill fá það fortakslaust hvort grunnskólar og leikskólar og sjúkrastofnanir verði algerlega reyklausar og þá er hann að tala um starfsfólk þessara stofnana. Það hefur ekki leyfi til að reykja á svæðinu. Aftur á móti er ekki bann við því að sjúklingar fái að reykja á sjúkrastofnun og ég tel nauðsynlegt að hafa það svigrúm að sjúklingar fái að reykja innan sjúkrastofnunar. Við getum ekki skrúfað fyrir það.

Ég tel mikilvægast í frv. að ná til ungs fólks. Ef við getum stöðvað að ungt fólk hefji reykingar er björninn að sjálfsögðu unninn fyrir framtíðina.