Ómskoðanir

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 13:40:45 (3604)

1996-03-06 13:40:45# 120. lþ. 101.1 fundur 311. mál: #A ómskoðanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur

[13:40]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur beint til mín þremur spurningum um ómskoðanir og verður spurningunum gerð skil hér á eftir.

Fyrsta spurningin er: Hversu margar ómskoðanir á konum (framkvæmdar hjá kvensjúkdómalæknum á stofum) voru greiddar af Tryggingastofnun á síðasta ári? --- Á árinu 1995 voru Tryggingastofnun ríkisins sendir 529 reikningar fyrir ómskoðanir á konum sem gerðar voru á stofum kvensjúkdómalækna.

Í öðru lagi er spurt: Hvaða reglur gilda um ómskoðanir kvensjúkdómalækna á eigin stofum? --- Um ómskoðanir kvensjúkdómalækna á stofum gilda gjaldskrárreglur. Hver kvensjúkdómalæknir hefur heimild til að beita gjaldskrárliðum reglunnar u.þ.b. 50 sinnum á ári samanlagt. Kvensjúkdómalæknir getur kosið að vísa sjúklingi sínum til ómskoðunar hjá öðrum slíkum lækni og er það á gert á kostnað heimildar þess læknis sem vísar sjúklingnum áfram. Í slíkum tilvikum á læknirinn sem gerir ómskoðunina ekki rétt á greiðslu fyrir viðtal við sjúkling.

Í þriðja lagi er spurt: Telur ráðherra að sá kvóti, sem settur hefur verið á ómskoðanir á stofum, dugi til að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og forvarnir? --- Sá kvóti eða sú takmörkun á fjölda sem lýst er í svari við spurningu tvö hér á undan á við um fjölda ómskoðana sérfræðilækna á stofum í samningi þeirra við Tryggingastofnun ríkisins. Ekki er um að ræða einhliða ákvörðun Tryggingastofnunar heldur er fjöldi skoðana, sem greitt er fyrir samkvæmt gjaldskrá, samkomulagsatriði við sérfræðilækna úr kjarasamningum frá 1991.

Nú er það svo að Tryggingastofnun ríkisins er hvorki ætlað að annast eða kosta forvarnir. Því er skýrt tekið fram í 1. gr. samnings um sérfræðilæknishjálp að sá samningur nái ekki til heilsuverndarstarfa en undir það falla forvarnir enda eru ekki takmarkanir á ómskoðunum hjá heilsugæslu. Með þessu móti er ómskoðun sérfræðilækna á stofum sniðinn ákveðinn stakkur en miðað við þær upplýsingar sem við höfum virðist hann vera viðunandi. Að sjálfsögðu er alltaf álitamál hversu langt skuli ganga í rannsóknum. Slíkt mat á þörf er ævinlega flókið og viðkvæmt. Möguleikar eru á að endurskoða fjölda heimilda til ómskoðana á stofum lækna en ekki hefur þótt ástæða til þess að svo komnu máli.

Ómskoðanir kvenna á meðgöngu fara fram víða. Ómskoðanir á stofum sérfræðilækna er aðeins hluti heimildarinnar. Auk þeirra eru gerðar ómskoðanir á konum á meðgöngu, á göngudeildum, sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Almennt er gert ráð fyrir að hver kona fari einu sinni í ómskoðun á meðgöngu og oftar ef þurfa þykir. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um heimildarfjölda slíkra skoðana á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá læknum erum við ekki eftirbátar annarra þjóða í þeim efnum.