Læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:04:50 (3629)

1996-03-06 15:04:50# 120. lþ. 102.91 fundur 211#B læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:04]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og þingheimi er kunnugt sagði stjórn Læknavaktarinnar sf. upp samningi sínum við heilsugæsluna í Reykjavík í október sl. og átti uppsögnin að miðast við 1. mars 1996. Læknavaktin var stofnuð 1986 og er sameignarfélag heilsugæslulækna stofnuð í þeim tilgangi að annast læknavakt í Reykjavík, Kópavogi og Seltjarnarnesi. Læknavaktin sinnir vitjana-, móttöku- og upplýsingaþjónustu alla virka daga ársins frá 17--8 að morgni og allan sólarhringinn um helgar og á frídögum. Læknavaktin annast vitjanir og almennar móttökur og þar starfa læknir, hjúkrunarfræðingur, móttökuritari og bílstjóri. Í bréfi stjórnar Læknavaktarinnar sf. til stjórnar heilsugæslunnar í Reykjavík þar sem tilkynnt er uppsögn samnings kemur fram að stjórn Læknavaktarinnar telji forsendur gildandi starfssamnings Læknavaktar sf. brostnar.

Fram kom hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að ásteytingarsteinninn væri sérstaklega vaktþjónusta er barnalæknar í Domus Medica hefðu sammælst um og hlotið hefði samþykki Tryggingastofnunar fyrir greiðslu reikninga vegna þeirra sjúklinga er nýttu sér hana, eins og fram kom hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Skýrt kom fram að enda þótt læknarnir hefðu ákveðið að leggja Læknavaktina sf. niður mundu þeir ekki skorast undan skyldum sínum að standa vaktir á vegum heilsugæslunnar. Samstarfsráð heilsugæslunnar í Reykjavík tók þá ákvörðun að bjóða út þjónustu meðal heimilis- og heilsugæslulækna. Yfirlæknar heilsugæslunnar í Reykjavík og á Seltjarnarnesi lýstu í framhaldi af þessu yfir áhyggjum sínum við forstjóra heilsugæslunnar og óskuðu viðræðna um málið. Aðilar hafa fundað til að leita lausna á málinu og hafa þar komið fram ýmsar óskir fulltrúa Læknavaktarinnar sf. svo sem um húsnæði og bættan tækjakost og reifaðar hafa verið hugmyndir um breytt skipulag.

Í lok janúar sl. sögðu heilsugæslulæknar upp störfum. Samtímis var því lýst yfir að Læknavaktin sf. væri fús til að starfa áfram samkvæmt síðastgildum samningi á meðan leitað yrði lausna á deilu þeirri er leitt hafa til fjöldauppsagna heilsugæslulækna. Þannig standa málin. Eins og áður hefur komið fram í umræðum á Alþingi eru í gangi viðræður milli heilbrrn. og heilsugæslulækna.

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég ítreka að vaktþjónustu lækna fyrir höfuðborgarsvæðið verður sinnt áfram þannig að öryggi og þjónusta fyrir íbúa verði tryggt. Vegna fyrirspurnar hv. þm., Kristínar Ástgeirsdóttur, um nefnd sem skilaði áliti í nóvember varðandi sérfræðiþjónustu, vil ég segja að samþykkt var að setja sérstaka hámarkseiningu á fjölda sérfræðiverka þannig að sérfræðingar eru komnir á svokallaðan kvóta. Það kom út úr því nefndarstarfi.