Þróunarverkefni í heilsugæsluforvörnum

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:06:38 (4879)

1996-04-17 14:06:38# 120. lþ. 120.4 fundur 384. mál: #A þróunarverkefni í heilsugæsluforvörnum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:06]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Frá því að stjórn Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri ákvað að hefja verkefnið ,,nýja barnið`` hefur stjórnin sótt fjármagn til þess beint til fjárln. eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda. Byrjun verkefnisins varð til að tilstuðlan starfsfólks og stjórnar heilsugæslustöðvarinnar og hefur það verið sjónarmið ráðuneytisins að þar sem fjárln. ákvað að veita fé til þess sé það í valdi nefndarinnar að taka ákvörðun um hvort verkefnið haldi áfram.

Það hefur verið ákvörðun fjárln. árlega að veita fé til verkefnisins og það var einnig ákvörðun fjárln. að veita ekki fé til verkefnisins árið 1996. Heilbrrn. telur verkefni þetta að mörgu leyti áhugavert. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að jafna fjárveitingar til heilsugæslustöðva eftir því sem kostur er og lagt viðbótarfjármagn til þess að stöðvar sem lægstar fjárveitingar hafa miðað við íbúafjölda verði betur í stakk búnar til að sinna sínum lögboðnu verkefnum. Miðað við íbúafjölda hefur heilsugæslustöðin á Akureyri rýmri fjárveitingar en flestar aðrar stöðvar á landinu og hefur hún talið sig hafa bolmagn til að sinna ýmsum þörfum verkefnum sem aðrar stöðvar hafa ekki getað sinnt.

Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda að æskilegt er að verkefninu verði lokið. Þó að niðurstöður liggi ekki fyrir þá telja aðstandendur þess að kannanir sem fyrir liggja lofi góðu með gildi þess sem forvarna.

Heilbrrn. hefur styrkt verkefnið í litlum mæli á undanförnum tveimur árum. Fyrir nokkru fékk Heilsugæslustöðin á Akureyri 400 þús. kr. styrk til að halda áfram með verkefnið á þessu ári. Undanfarin tvö ár hefur fjárln. veitt 1 millj. kr. til verkefnisins hvort ár fyrir sig og heilbrrn. hefur styrkt verkefnið um 100 þús. kr. í tvígang. En í ár hefur Heilsugæslustöðin á Akureyri fengið frá heilbrrn. 400 þús. kr. til að verkefnið haldi áfram.