Húsnæðismál Tryggingastofnunar ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:16:35 (4882)

1996-04-17 14:16:35# 120. lþ. 120.5 fundur 474. mál: #A húsnæðismál Tryggingastofnunar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:16]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það má segja að að sumu leyti hafi hv. fyrirspyrjandi svarað sér sjálf því ég hef þegar svarað þeirri fyrirspurn á öðrum vettvangi en hér á Alþingi hvenær Tryggingastofnun fái nýtt húsnæði. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að húsakostur er mjög þröngur á Laugavegi 114 og 116 þar sem höfuðstöðvar Tryggingastofnunar eru. Og það sem verra er, þjónustunni er dreift víða út um bæ sem er mjög óhentugt bæði fyrir þá sem þurfa að nýta sér þjónustuna og einnig fyrir þá sem þar starfa.

En eins og öllum er kunnugt eru ekki í bígerð á þessu ári neinar nýframkvæmdir á vegum heilbrrn. og það mundi kannski mörgum líka finnast vel í lagt að leggja einhver hundruð milljóna til þess að bæta húsakostinn á sama tíma sem við höfum ekki nægilegt fjármagn til þess að þjóna viðskiptavinum stofnunarinnar eins og við best viljum.