Samningar við heilsugæslulækna og sumarlokanir Ríkisspítala

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 13:58:37 (7001)

1996-06-03 13:58:37# 120. lþ. 158.8 fundur 334#B samningar við heilsugæslulækna og sumarlokanir Ríkisspítala# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[13:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spurði um hvernig samningaviðræður gengju við heilsugæslulæknana. Það er skemmst frá því að segja að síðustu daga hefur þokast í rétta átt. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að óánægja heilsugæslulækna er ekki síst vegna þess að uppbygging heilsugæslustöðva á Reykjavíkursvæðinu hefur verið hægari en farið var af stað með upp úr 1973 þegar ákveðið var að byggja upp á þessu svæði. Þetta tengist allt þeim samningum sem við erum nú í.

Hv. þm. spurði um lokanir, sérstaklega á Ríkisspítölunum. Ég vil geta þess að lokanir á Ríkisspítölum eru ekki síst vegna þess að verið er að endurbæta húsnæðið á Ríkisspítölum meira nú en hefur verið gert á undanförnum árum og það kostar það að loka þarf deildum. Það er auðvitað ekki ástand sem við viljum sjá að sjúklingar séu frammi á göngum eins og hefur gerst núna undanfarnar vikur en þetta er ástand sem við höfum alla tíð séð á sjúkrahúsum sem taka á móti akútsjúklingum eða bráðatilvikum. Það koma alltaf toppar og þeir toppar munu alltaf koma. Sem betur fer standa þeir ekki lengi yfir en þeir munu alltaf koma. Við þurfum alltaf að horfast í augu við það.