Ferill 20. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 20 . mál.


20. Tillaga til þingsályktunar


um bætta skattheimtu og tengsl eignamyndunar við tekjuskatt og útsvar.

Flm.: Hjálmar Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðjón Guðmundsson,

Guðni Ágústsson, Guðný Guðbjörnsdóttir, Hjálmar Jónsson,

Ísólfur Gylfi Pálmason, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson,

Stefán Guðmundsson, Ögmundur Jónasson.

    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa þegar í stað nefnd er hafi það verkefni að koma með tillögur um leiðir til að bæta skattaskil til ríkis og sveitarfélaga. Þá verði nefndinni falið að kanna hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða þannig að skattstofn einstaklinga verði tengdari tekju- og eignamyndun þeirra en nú er.
    Nefndin verði skipuð einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna aðila: fjármálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, ASÍ, BSRB, VSÍ, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins og Félagi löggiltra endurskoðenda. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir tillögum nefndarinnar eigi síðar en 1. febrúar 1996.

Greinargerð.

    Vaxandi óánægju gætir í þjóðfélaginu með skattamál. Æ oftar heyrast fréttir af undandrætti virðisaukaskatts, svartri atvinnustarfsemi þar sem skattskyld viðskipti eru ekki gefin upp til skatts, stofnun nýrra fyrirtækja í stað annarra sem sömu aðilar hafa gert gjaldþrota og þannig má áfram telja. Á síðustu fimm árum hafa verið birtar tvær opinberar skýrslur um vangreidd gjöld til hins opinbera. Niðurstöður þeirra eru keimlíkar, þ.e. að ríkissjóður tapi 8–11 milljörðum króna árlega af framangreindum ástæðum. Þá eru ótaldar þær tekjur sem sveitarfélög verða af vegna ýmiss konar undanskota. Á tímum niðurskurðar í ríkisbúskapnum gætu þessar óinnheimtu tekjur létt mjög rekstur velferðarkerfis okkar.
    Í opinberum umræðum hefur lengi verið rætt um hversu lítið samræmi virðist vera milli eignamyndunar og lífsmunsturs margra einstaklinga annars vegar og skattskyldra tekna þeirra hins vegar. Margt bendir til að þarna sé pottur brotinn, jafnt í skatteftirliti sem skattalögum. Þá er ljóst að óbreytt ástand leiðir til skertrar samkeppnishæfni þeirra sem haga rekstri sínum í samræmi við lög og reglur.
    Nefndinni er ætlað að taka þessa þætti til skoðunar með það að markmiði að kynna fyrir Alþingi leiðir til úrbóta þannig að Alþingi geti brugðist við með viðeigandi aðgerðum og stuðlað þannig að auknu réttlæti og vörnum fyrir velferðarkerfi okkar. Gert er ráð fyrir að nefndin ráði til sín starfsmann og kalli til sín fulltrúa ýmissa hópa þjóðfélagsins.