Ferill 46. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 46 . mál.


80. Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar um flutning ríkisstofnana út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður framkvæmd tillagna nefndar frá 15. júlí 1993 um flutning ríkisstofnana út á land?
    Má búast við að tillaga nefndarinnar um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja verði framkvæmd?
    Hefur ný ríkisstjórn í hyggju að kanna fleiri þætti sem snerta aukna þjónustu og flutning ríkisstofnana á landsbyggðina?


    Um mitt ár 1992 skipaði forsætisráðherra nefnd til að vinna að tillögugerð um flutning stofnana frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar. Sú nefnd lauk störfum 15. júlí og gerði tillögu um að nokkrum ríkisstofnunum yrði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins. Þessar stofnanir voru Byggðastofnun, Landhelgisgæslan, Landmælingar Íslands, Rafmagnsveitur ríkisins, Skipulag ríkisins, Vegagerð ríkisins og Veiðimálastofnun. Tillögurnar vöktu nokkra athygli og spunnust athyglisverðar umræður um kosti þess og galla að staðsetja ríkisstofnanir utan höfurborgarsvæðisins. Tillögurnar voru kynntar í ríkisstjórn og vísað til umfjöllunar í hlutaðeigandi ráðuneytum á ríkisstjórnarfundi 10. ágúst 1993.
    Forsætisráðherra gat þess í umræðum á Alþingi í nóvember sama ár þegar kom fram fyrirspurn um þetta mál að flutningur ríkisstofnana væri viðkvæmt og flókið mál sem varðaði hagi fjölda einstaklinga og fjölskyldna þeirra og það hefur sýnt sig þar sem ráðist hefur verið í að flytja stofnanir. Fram kom í þeim umræðum að skoðanir þingmanna voru skiptar um einstakar tillögur nefndarinnar og komu þá m.a. fram efasemdaraddir meðal landsbyggðarþingmanna um hagkvæmni þess að flytja aðalskrifstofur einstakra stofnana, svo sem Vegagerðar ríkisins, frá höfuðborgarsvæðinu. Einnig voru deildar meiningar um að skynsamlegt væri að flytja Landhelgisgæsluna til Keflavíkur eins og nefndin hafði lagt til.
    Forsætisráðherra gat þess einnig við umræður um málið á Alþingi fyrir tveimur árum að frumkvæði og ákvarðanir um að breyta staðsetningu ríkisstofnana yrðu að koma frá hlutaðeigandi ráðuneytum. Hvað Byggðastofnun varðar, en hún var sú eina af stofnunum forsætisráðuneytisins sem nefndin gerði tillögu um að flytja, reyndist stjórn stofnunarinnar hafa önnur áform um staðsetningu og tilhögun á starfsemi en að flytja hana í heilu lagi til Akureyrar. Byggðastofnun hefur á allra síðustu árum opnað skrifstofur á Egilsstöðum og á Sauðárkróki en fyrir voru skrifstofur á Akureyri og Ísafirði. Stefna stjórnarinnar hefur verið að efla skrifstofurnar á landsbyggðinni og hafa stjórnarmenn verið þeirrar skoðunar að það sé stofnun á borð við Byggðastofnun nauðsynlegt að búa í nálægð við Alþingi og helstu stjórnsýslustofnanir landsins. Af þeim sökum hefur stjórnin verið andvíg brottflutningi aðalskrifstofu Byggðastofnunar af höfuðborgarsvæðinu.