Ferill 41. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 41 . mál.


126. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Ástu B. Þorsteinsdóttur um grunn- og framhaldsskóla.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margir nemendur útskrifast úr almennum grunnskólum landsins? Hversu margir þeirra hafa náð tilskilinni lágmarkseinkunn á grunnskólaprófi? Hversu margir hafa fengið sérkennslu eða sérstakan stuðning í grunnskóla?
    Hversu margir nemendur innritast í framhaldsskóla? Hversu margir nemendur fá sérstakan stuðning eða sérkennslu í framhaldsskólum? Hversu margir nemendur útskrifast úr framhaldsskóla með fullgilt prófskírteini?
    Hversu margir nemendur útskrifast úr sérskólum eða sérdeildum fyrir fatlaða á grunnskólastigi? Hversu margir þessara nemenda innritast í framhaldsskóla? Hversu langt er framhaldsskólanám þeirra að meðaltali? Hversu margir þeirra ljúka framhaldsskólanámi með fullgilt prófskírteini?
    Óskað er eftir því að upplýsingarnar nái til áranna 1993 til og með 1995 og verði sundurliðaðar fyrir hvert skólaár.


    1. Allir nemendur sem innritaðir eru í 10. bekk eiga að útskrifast með grunnskólapróf. Árin 1992–95 var fjöldi útskrifaðra nemenda eftirfarandi:
              Skólaárið 1992–93: 3891 nemandi.
              Skólaárið 1993–94: 4014 nemendur.
              Skólaárið 1994–95: 4385 nemendur.
    Um eiginlega lágmarkseinkunn er ekki að ræða á grunnskólaprófi. Framhaldsskólar taka inn nemendur eftir búsetu og á grundvelli einkunna (samræmdra prófa og skólaeinkunna) en hafa ákveðið sjálfdæmi, m.a. með tilliti til námsbrauta.
    Sumir framhaldsskólanna ráðleggja nemendum sem fengið hafa 5 eða minna á samræmdum lokaprófum að taka upp námsefni grunnskólans í svokölluðu fornámi.
    Á Íslandi þurfa um 20% nemenda á sérkennslu eða öðrum stuðningi að halda einhvern tíma á grunnskólaferli sínum. Talið er að um 10% þurfi tímabundinn stuðning og önnur 10% þurfi meiri stuðning, þar af eru 2–5% sem þurfa mikinn stuðning alla skólagöngu sína. Þess má geta að um það bil 70–75% þeirra sem á aðstoð þurfa að halda eru drengir.

Yfirlit yfir fjölda nemenda sem fengið hafa sérkennslu


og sérstakan stuðning í grunnskóla skólaárin 1992–95.



1992–93

1993–94

1994–95



Reykjavík     
2362
2409 2427
Reykjanes     
1863
1771 1881
Vesturland     
418
436 410
Vestfirðir     
238
238 237
Norðurland vestra     
346
101
Norðurland eystra     
181
193 155
Austurland     
275
295 269
Suðurland     
300
475 426
Sérskólar     
255
211 214

    Eingöngu er um að ræða þann fjölda nemenda sem naut sérkennslu eða stuðnings einhvern tíma á þessu tímabili. Ekki er hægt að sjá í hversu langan tíma hver nemandi naut sérkennslu.

    2. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands innrituðust 3648 nemendur í framhaldsskóla haustið 1994.
              Skólaárið 1992–93: ekki liggja fyrir upplýsingar.
              Skólaárið 1993–94: 120.
              Skólaárið 1994–95: 130.
    Þessar tölur eru byggðar á umsóknum og úthlutun til einstakra skóla og er um meðaltal að ræða. Ekki eru taldir með þeir nemendur í framhaldsskólum sem sækja námskeið vegna lestrar- og stafsetningarerfiðleika í lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands, heyrnarlausir og heyrnarskertir nemendur í framhaldsskólum sem fá táknmálstúlkun annars staðar eða nemendur sem skólarnir sjálfir sjá fyrir stoðkennslu sem veitt er af fjárveitingu skólanna. Áætla má að í síðasttalda hópnum séu á milli tvö og fjögur hundruð nemendur.
    Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands útskrifuðust 2026 nemendur með stúdentspróf vorið 1994.

    3. Vorið 1993 útskrifaðist 21 nemandi úr sérskólum eða sérdeildum fyrir fatlaða á grunnskólastigi, 1994 17 nemendur og 1995 27 nemendur.
    Af þeim hafa 36 nemendur innritast í framhaldsskóla. Er þar um að ræða Fullorðinsfræðslu fatlaðra, Iðnskólann í Reykjavík, Verkmenntaskólann á Akureyri og almenna framhaldsskóla.
    Þeir nemendur sem sækja nám í Fullorðinsfræðslu fatlaðra hafa tækifæri til að sækja námskeið þar eins lengi og þeir óska. Sérstakar námsbrautir fyrir þroskahefta/seinfæra eru að jafnaði þrjár annir. Þeir sem sækja nám á námsbrautum framhaldsskóla sem skilgreindar eru í námskrá eru oft heldur lengur að ljúka námi en ófatlaðir. Sérstök athugun hefur þó ekki verið gerð á því.
    Þeir nemendur sem stunda nám á skilgreindum námsbrautum framhaldsskóla fá fullgilt prófskírteini. Þeir sem hafa stundað afmarkað nám á námsbraut og lokið því fá einnig fullgilt prófskírteini.