Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 104 . mál.


166. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um Jarðasjóð.

    Hve margar jarðir keypti Jarðasjóður síðustu fimm ár? Hvert var heildarkaupverðið og hverjar eru skuldbindingar sjóðsins?
    Frá 1. janúar 1990 til 1. nóvember sl. hefur Jarðasjóður keypt sex jarðir. Heildarkaupverð þeirra var 47.027.454 kr. Jarðasjóður ríkisins er starfræktur við jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt lögum um Jarðasjóð, nr. 34/1992 (áður VI. kafli jarðalaga, nr. 65/1976, sbr. breytingu með lögum nr. 90/1984). Hlutverk sjóðsins er að kaupa jarðir bænda sem hafa afsalað sér framleiðslurétti og jarðir sem ekki seljast á frjálsum markaði og að aðstoða sveitarfélög með lánveitingum við eigendaskipti að jörðum. Ekki hefur verið litið svo á að Jarðasjóði bæri að annast málefni og skuldbindingar sem tengjast þeim jörðum sem sjóðurinn kaupir, heldur hafa Jarðeignir ríkisins tekið við jörðunum og þeim skuldbindingum sem Jarðasjóður tekst á hendur við jarðakaup. Er þá átt við yfirtekin veðlán sem áfram hvíla á jörðunum ef þau eru ekki greidd upp af Jarðasjóði á kaupárinu.

    Hversu margar jarðir voru seldar síðustu fimm ár? Hvert var heildarsöluverðið?
    Frá 1. janúar 1990 til 1. nóvember sl. hafa verið seldar 14 jarðir, þinglýstar eignir Jarðasjóðs (áður Jarðakaupasjóðs). Heildarsöluverð var 35.946.618 kr.

    Hversu margar bújarðir eru í eigu og umsjón ríkisins þar sem ekki er stundaður hefðbundinn búskapur? Hversu margar eru í útleigu?
    Í eigu og umsjón ríkisins eru 702 jarðir. Af þeim eru 520 í ábúð og 182 í eyði. Ekki eru fyrir hendi upplýsingar um á hve mörgum jörðum hefðbundinn búskapur er stundaður. Allar jarðir á vegum jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins eru í leiguafnotum, annaðhvort til ábúðar eða nytja án búsetu.

    Hversu mörgum þeirra fylgja hlunnindi, svo sem laxveiði eða dúntekja? Ef um hlunnindi er að ræða, hverjar eru tekjur sjóðsins af þeim?
    Ekki er til sérstök samantekt eða yfirlit yfir hlunnindi sem fylgja þeim jörðum sem Jarðasjóður og áður Jarðakaupasjóður hafa keypt á umliðnum árum og áratugum. Þess ber að geta að jarðir, sem ríkissjóður hefur eignast fyrir kaup sjóðsins, eru ekki sérgreindar að neinu leyti frá öðrum þjóðjörðum eða kirkjujörðum sem eru á forræði jarðadeildar ráðuneytisins. Skv. 10. tölul. 9. gr. reglugerðar nr. 96/1969 fer landbúnaðarráðuneytið með mál er varða þjóð- og kirkjujarðir og skv. 36. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum, fer jarðadeild ráðuneytisins með málefni jarða í ríkiseign nema annað sé ákveðið í lögum. Fylgi hlunnindi jörðum eru þau sérmetin í fasteignamati og er árleg leiga af þeim og þar með tekjur sjóðsins þá yfirleitt 3% af fasteignamati viðkomandi hlunninda. Skv. 4. gr. áðurnefndra laga nr. 34/1992, um Jarðasjóð, eru tekjur sjóðsins þessar:
  a.    andvirði seldra ríkisjarða,
  b.    afgjald ríkisjarða sem eru á forræði ráðuneytisins og
  c.    framlag á fjárlögum ár hvert sem nauðsynlegt er talið til þess að sjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu.

    Hver er fjöldi starfsmanna sjóðsins? Hvert er hlutverk hvers fyrir sig? Hverjar eru heildarlaunagreiðslur sjóðsins?
    Eins og áður er fram komið er Jarðasjóður starfræktur við jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins. Ekki er um það að ræða að sjóðurinn hafi sérstaka starfsmenn eða að ákveðinn starfsmaður sinni eingöngu málefnum sjóðsins. Framkvæmd laga nr. 34/1992, um Jarðasjóð, er í höndum starfsmanna á aðalskrifstofu ráðuneytisins, lögfræði- og eignasviðs. Bókhaldsvinna fyrir Jarðeignir ríkisins og Jarðasjóð er unnin af Ríkisbókhaldi. Í fjárlögum fyrir árið 1995 kemur fram að Jarðasjóði og Jarðeignum ríkisins er ætlað að greiða 5,5 millj. kr. í laun, en þar er um að ræða laun úttektarmanna sveitarfélaga sem hafa það hlutverk að meta eignir fráfarandi ábúenda á ríkisjörðum (áætlað 1,5 millj. kr.), svo og laun og launakostnað fyrrverandi ráðuneytisstjóra í landbúnaðarráðuneytinu samkvæmt sérstöku starfssamkomulagi hans við fyrrverandi landbúnaðarráðherra sem undirritað var 18. janúar 1995 (áætlað 4 millj. kr.). Gert er ráð fyrir því í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 að sami háttur verði hafður á um launagreiðslur Jarðasjóðs og Jarðeigna ríkisins.