Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 113 . mál.


178. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Hjálmars Árnasonar um sjóvarnargarða í Hafnarfirði.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Er áætlað að reisa sjóvarnargarða í Hafnarfirði í kjölfar aukinnar umferðar um höfnina og þar með takmarkaðs athafnarýmis?

    Í tillögu Vita- og hafnamálastofnunar um hafnaáætlun áranna 1996–99 er ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við byggingu sjóvarnargarða eða brimvarnargarða við Hafnarfjarðarhöfn næstu fjögur árin.
    Við gerð áætlunarinnar lágu fyrir óskir hafnarstjórnarinnar í Hafnarfirði um að hafnar yrðu rannsóknir og hönnun brimvarnargarðs frá Hvaleyrarhöfða út í Helgasker ásamt garði í norður frá Helgaskeri. Einnig voru settar fram óskir um að ríkissjóður tæki þátt í byggingu nýs 120 metra langs viðlegukants, Háabakka, milli Suðurbakka og Óseyrarbryggju. Hvorug þessara framkvæmda komst inn á hafnaáætlun 1996–99. Væntanlega verður ráðist í framkvæmdir við Háabakka og/eða endurbyggingu Suðurgarðs áður en umgjörð hafnarinnar verður stækkuð með nýjum brimvarnargörðum.