Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 157 . mál.


187. Tillaga til þingsályktunar



um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



    Alþingi ályktar að á næstu sex árum, eða fyrir lok ársins 2000, skuli stefnt að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 20% miðað við meðaltal áranna 1982–92. Þessu takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, vátryggingafélaga og áhugahópa um umferðaröryggismál. Opinberir aðilar og fyrirtæki sem starfa að umferðaröryggismálum og sveitarfélög með fleiri íbúa en 1.000 skili til dómsmálaráðuneytisins framkvæmdaáætlun eða tillögum er leiði til aukins umferðaröryggis. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig áætluninni miðar í átt að settu marki. Starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Tillaga til þingsályktunar um stefnumótun er varðar aukið umferðaröryggi og framkvæmdaáætlun var lögð fyrir 118. löggjafarþing en hlaut þá eigi afgreiðslu. Tillagan er nú endurflutt óbreytt.
    Ríkisstjórnin samþykkti 25. nóvember 1994 stefnumörkun í umferðaröryggismálum þar sem stefnt skyldi að verulegri fækkun alvarlegra umferðarslysa fyrir lok ársins 2000. Í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar var skipuð nefnd 21. desember 1994 til að gera tillögur að umferðaröryggisáætlun sem yrði tilbúin 15. janúar 1995.
    Í nefndina voru skipuð: Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður, formaður, Brynjólfur Mogensen yfirlæknir, Jón Birgir Jónsson ráðuneytisstjóri, Margrét Sæmundsdóttir, formaður umferðarnefndar Reykjavíkur, og Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður. Með nefndinni störfuðu Þórhallur Ólafsson, tæknifræðingur hjá Vegagerðinni og formaður Umferðarráðs, og dr. Haraldur Sigþórsson, deildarverkfræðingur hjá borgarverkfræðingi.
    Nefndin skilaði tillögum sínum með skýrslu 27. janúar 1995. Eins og sjá má í heimildaskrá hennar var víða leitað fanga og voru tillögur bornar saman við heimildir og reynslu annarra þjóða. Skýrslan verður vonandi kærkomið upplýsingarit um umferðaröryggismál og gefur gott yfirlit yfir aðgerðir í umferðaröryggismálum. Er ánægjulegt til þess að vita að Ísland hefur nú bæst í hóp þeirra fjölmörgu ríkja sem gert hafa umferðaröryggisáætlun.
    Áríðandi er að hafa í huga að áætlunin þarf stöðugt að vera í endurskoðun og því er mikilvægt að benda á að þeir sem hafa tillögur og athugasemdir við hana geta ávallt komið þeim til dómsmálaráðuneytisins eða til nefndar sem mun endurskoða skýrsluna. Því tré sem hér hefur verið gróðursett er sannarlega ætlað að styrkjast og dafna á komandi missirum og árum, enda viðvarandi verkefni að draga úr þeim gríðarlega kostnaði sem samfélagið hefur af umferðarslysum. Mikil vinna hefur verið lögð í skýrsluna og þar er tekið á þáttum sem varða öll svið umferðar og varða alla sem þurfa að koma að þessu samræmda átaki.
    Helstu niðurstöður nefndarinnar eru eftirfarandi:
    Dómsmálaráðuneytið hefur yfirumsjón umferðaröryggismála. Dómsmálaráðherra skipi starfshóp til að fjalla um verkaskiptingu milli dómsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis með það að markmiði að samnýta betur tækniþekkingu og tryggja skilvirkari framkvæmd umferðaröryggismála í landinu.
    Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal starfrækt á ný og rannsaki hún alvarlegustu umferðarslysin ásamt því að vera ráðgefandi fyrir Alþingi í sérstökum málum er varða umferðaröryggi.
    Stofnaður verði sjóður sem veiti fé til rannsóknarverkefna á umferðaröryggissviði. Sjóðurinn geti einnig stutt áhugaverðar aðgerðir ef sýnt þykir að þær stuðli að meira umferðaröryggi, t.d. hjá sveitarfélögum. Nú er innheimt umferðaröryggisgjald við aðalskoðun, nýskráningu og eigandaskipti hverrar bifreiðar að upphæð 100 krónur. Til að efla umferðaröryggisstarfið er lagt til að hækka gjaldið í 150 krónur. Umferðarráð nýti hluta þessarar fjárhæðar til að styrkja einstök umferðaröryggisverkefni sem áhugaverð eru. Ef ákveðið verður að heimila sérnúmeraplötur og á þær lagt sérstakt umferðaröryggisgjald sem renni til Umferðarráðs verði það fé einnig notað í sama tilgangi. Einnig er æskilegt að vátryggingafélög, Vegagerðin og fleiri aðilar leggi fé í sjóðinn.
    Samvinna þeirra fjölmörgu aðila er að umferðaröryggismálum vinna er forsenda öflugs og árangursríks umferðaröryggisstarfs.
    Samræma skal skráningu umferðarslysa á landinu öllu. Umferðarráð samræmi skráningu lögreglu, sjúkrastofnanir sína skráningu og tryggingafélögin sína. Þessir þrír aðilar sameini síðan sínar skrár í eina slysaskrá.
    Opinberar stofnanir, sem að umferðaröryggismálum vinna, sendi skýrslu til dómsmálaráðuneytis fyrir lok hvers árs um fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði umferðaröryggismála. Sama gildi um sveitarfélög með fleiri en 1.000 íbúa.
    Samkvæmt forkönnun, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði til að meta kostnað þjóðfélagsins vegna umferðarslysa, reyndist heildarkostnaður vera um 8 milljarðar kr. Lagt er til að Háskólinn geri heildarúttekt á þjóðfélagskostnaði vegna umferðarslysa og skili skýrslu þar að lútandi í haust. Nauðsynlegt er að Háskólinn komi í ríkari mæli inn í umferðaröryggisrannsóknir.
    Æskilegt er að kannað verði hvort niðurfelling skatta á sérstökum öryggisbúnaði bifreiða, t.d. loftpúðum, leiði til aukinnar notkunar og meira umferðaröryggis.
    Rétt er að láta kanna hvort opinber gjöld standi í vegi fyrir að ökutæki séu búin bestu fáanlegu öryggistækjum.
    Auka þarf umferðarfræðslu, bæta ökunám og efla upplýsinga- og áróðursstarf.
    Lögleiða þarf notkun hjólreiðahjálma innan nokkurra ára.
    Samræma þarf reglur um allt ökunám og gera öllum ökuskólum skylt að starfa með starfsleyfi frá Umferðarráði.
    Breyta þarf reglum um heimild til aksturs á léttum bifhjólum, dráttarvélum, vélsleðum og torfærutækjum.
    Gera þarf bóklegt ökunám fyrir alla flokka ökuréttinda að skyldu.
    Koma þarf upp ökugerðum sem víðast í tengslum við ökukennslu og önnur umferðaröryggismál.
    Sérstakur ökuréttindaflokkur verði tekinn upp fyrir bifreiðir með stóra eftirvagna.
    Samræma þarf reglur um ökutæki og búnað þeirra EES-reglugerðum og þar sem leyfilegt er að hafa strangari séríslenskar reglur sem stuðla að auknu umferðaröryggi skal það gert þar sem rök mæla með.
    Vinna skal að því að bæta umferðarmannvirki með tilliti til aukins umferðaröryggis. Umferðaröryggi verði fastur þáttur í allri skipulagsvinnu sem tengist vega- og gatnakerfi og í umhverfismati.
    Auka þarf eftirlit og löggæslu. Þar ber sérstaklega að nefna áhrifamátt sjálfvirks umferðareftirlits með myndavélabúnaði og ber að stefna að uppsetningu slíks búnaðar.
    Taka ber upp punktakerfi í tengslum við ökuferilsskrá sem fyrst.
    Stórefla ber rannsóknir á sviði umferðaröryggismála og nýta erlendar rannsóknir í umferðaröryggisstarfinu.
    Gera þarf eiganda ökutækis ábyrgari vegna aðildar bifreiðar hans að umferðarlagabroti.
    Samhliða tillögunni verður alþingismönnum afhent skýrsla nefndarinnar, „Umferðaröryggisáætlun til ársins 2001“.