Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 168 . mál.


210. Tillaga til þingsályktunar



um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga.

Flm.: Drífa Sigfúsdóttir, Magnús Stefánsson, Ísólfur Gylfi Pálmason.



    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að skipa nú þegar nefnd til að semja frumvarp til laga um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hafa fjölmörg mál vakið upp spurningar um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga. Mest áberandi eru kvartanir í málum þar sem skuldari fær lán sem er hærra en skuldarinn er fær um að ráða við miðað við óbreyttar aðstæður. Einnig eru fjölmörg dæmi um mál þar sem aðstæður skuldara hafa breyst, svo sem vegna veikinda eða atvinnuleysis.
    Mjög mikilvægt er fyrir ábyrgðarmenn að upplýsingaskylda lánveitenda sé rík þannig að mönnum sé ljóst hvað þeir eru að takast á hendur. Áríðandi er að upplýsingablöð fyrir neytendur liggi frammi í bönkum þar sem m.a. ýmis hugtök eru skýrð, upplýsingar veittar um ábyrgð sem fylgir undirskrift ábyrgðarmanna og hvað beri að forðast. Það er sorglegt þegar fólk missir aleiguna eftir að hafa skrifað upp á fyrir ættingja, vin eða kunningja. Augljóst er að margt af þessu fólki hefur ekki gert sér fullkomlega grein fyrir afleiðingunum. Ábyrgðarmenn ættu að eiga rétt á upplýsingum um fjárhagsstöðu skuldara og möguleika þeirra til að standa við skuldbindingar sínar.
    Í Finnlandi hafa verið samþykkt lög sem fjalla um ríka upplýsingaskyldu gagnvart ábyrgðarmönnum og um bann við ákveðnum ábyrgðarsamningum.
    Í Noregi hefur verið unnið frumvarp til laga um skuldbindingar ábyrgðarmanna og tryggingar vegna veðsetningar þriðja manns. Þar er um að ræða vernd fyrir ábyrgðarmenn, svo sem upplýsingaskyldu fyrir gerð samnings, hvert sé innihald samnings, um skyldu til að vara ábyrgðarmenn við breytingum á samningi, um bann við því að tryggingu sé vikið til hliðar, niðurfellingu ábyrgðar og tryggingu sem ábyrgðarmaður getur tekið, hvenær hægt sé að ganga að ábyrgðarmanni o.fl.
    Með því að tryggja í lögum vernd fyrir ábyrgðarmenn er um leið verið að stuðla að því að gætt sé hófs í lánveitingum til skuldara sem illa ráða við skuldbindingar sínar. Þá mun aukin upplýsingaskylda vonandi draga úr óþarfa neyslulánum og því verka sem fyrirbyggjandi ráðstöfun gegn of mikilli skuldasöfnun.