Ferill 179. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 179 . mál.


223. Tillaga til þingsályktunar


um verndun jarðhitasvæðisins við Geysi í Haukadal.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Árni Johnsen.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að:
    stefna að því að allt að sjö ferkílómetra jarðhitasvæði við Geysi í Haukadal verði óskiptur eignarhluti ríkisins,
    skipuleggja rannsókn á jarðhitasvæði Geysis undir umsjón Náttúruverndarráðs og veita sérstaka fjárveitingu til þessa verkefnis,
    veitt verði sérstök fjárveiting til lagfæringar og uppbyggingar svæðisins með tilliti til ferðamanna,
    nú þegar verði lagt bann við frekari borunum eða öðru jarðraski á Geysissvæðinu eða í námunda við það nema að undangengnum rannsóknum og þá í samráði við Náttúruverndarráð.

Greinargerð.

    Jarðhitasvæðið sem kennt er við Geysi í Haukadal er án efa eitt frægasta jarðhitasvæði veraldar, þótt ekki sé það stórt. Af nafni Geysis er t.d. dregið enska orðið „geyser“ yfir gjósandi hveri. Bæði fyrr og síðar hefur verið mikill ferðamannastraumur að svæðinu allan ársins hring, einkum þó yfir sumarmánuðina. Geysir er einn margra hvera á svæðinu en nú er það einkum goshverinn Strokkur sem dregur ferðamenn að því.
    Geysissvæðið er eitt af minni háhitasvæðum landsins en jarðhitasvæðið er mun stærra en skiki sá sem girtur var er það komst í umsjá íslenska ríkisins.
    Mjög margir ferðamenn og vísindamenn hafa komið að svæðinu í gegnum aldirnar og lýst gosum hveranna, einkum þó Geysi. Hann var í árhundruð eitt af mestu undrum landsins og bar hróður þess víða. Árið 1935 eignaðist íslenska ríkið Geysi og skika sem að honum liggur. Síðar var svæðið girt og gefinn út um það bæklingur eftir Trausta Einarsson (Geysir í Haukadal, 1964) en allt frá þeim tíma hafa rannsóknir þar verið litlar.
    Geysissvæðið er í eigu ríkisins að hluta og að hluta í einkaeign. Mun auðveldara væri að vinna að endurbótum, viðhaldi og rannsóknum á svæðinu ef það væri allt ríkiseign. Geysissvæðið er ekki friðlýst með sérstökum lögum en um það gilda ákveðnar umgengnisreglur. Þetta kemur mörgum undarlega fyrir sjónir en verður skiljanlegra þegar hugað er að nýtingu á svæðinu, slík nýting mundi ekki samrýmast neinum náttúruverndar- eða friðunarlögum. Nýting heits vatns af svæðinu á sér hins vegar langa sögu og þarf að taka á því máli sérstaklega. Svæðið var í umsjá Geysisnefndar frá 1935 til ársins 1991 en síðan þá hefur það verið undir umsjón Náttúruverndarráðs. Fé hefur mjög skort til framkvæmda og rannsókna á svæðinu. Árið 1992 var jarðhiti innan girðingar kortlagður og 1994 var rennsli úr hverunum mælt tvisvar. Ekki hefur fengist fé til annarra rannsókna og er það mjög miður.

Prentað upp.


Lýsing svæðisins.
    Geysissvæðið er í Biskupstungnahreppi í Árnessýslu og liggur í 100–200 m hæð. Þangað eru greiðar leiðir og góð aðstaða fyrir ferðamenn á hóteli og gistiheimili. Sundlaug var byggð við hótelið 1994 og tekur vatn úr hvernum Sísjóðandi. Bæði hótel og gistiheimili eru hituð upp með vatni úr hverunum og nokkur hús önnur. Gróðurhús eru enn uppistandandi sunnan hótelsins, en eru sum orðin hrörleg og ekki notuð lengur.
    Svæðið liggur skammt austan við virka gosbeltið sem nær frá Reykjanesi í suðri og norður að Langjökli. Gosvirkni er engin á nútíma (sl. 10.000 árum) á svæðinu. Súrt berg er á nokkrum stöðum, m.a. er Laugarfjall ofan við hverasvæðið úr líparíti. Þar er trúlega um súrt innskot að ræða, ummerki gamallar megineldstöðvar sem var virk fram á síðustu ísöld. Bjarnarfell, sem liggur enn vestar, er byggt upp úr basalthraunlögum og móbergi ásamt flekkjum af líparíti. Móbergið hefur orðið til við gos undir jökli.
    Yfirborðshiti er á 3 km² svæði sem teygir sig til suðurs. Viðnámsmælingar benda þó til allt að 7 km² svæðis (Borun fyrir byggðina við Geysi, greinargerð Kristjáns Sæmundssonar og Benedikts Steingrímssonar, Orkustofnun 1994). Þarna er um eitt jarðhitakerfi að ræða með miðju þar sem Geysir er en laugar og volgrur eru mun víðar. Marteinslaug í landi skógræktarinnar er við norðurmörkin og laug sem liggur í landi Múla markar syðstu ummerki jarðhitans. Vesturmörkin eru í austanverðu Bjarnarfelli en austurmörkin talsvert austan Beinár, líklega nálægt Tungufljóti.
    Margir hverir og laugar eru á svæðinu, flestir sjóðandi innan þess, en kaldari laugar eru suður af í svonefndum Rotum. Einnig eru Laugar vestan við Laugafell. Ummerki eftir gamla goshveri eru vestan og norðan við girta svæðið. Kísilhrúður hefur t.d. verið numið í lágum hól norðan við svæðið til að laga í kringum Geysi og eru það náttúruspjöll því hrúður myndast þar ekki í bráð. Meðfylgjandi er kort af svæðinu öllu og snið frá Geysi að Neðridal, svo og líkleg hitadreifing í berggrunni.

Nýting og boranir.
    Nýting hitans er talsverð, í fimm íbúðarhúsum, hóteli, gistiheimili og sundlaug. Sé hins vegar litið til jarðhitakerfisins í heild, en það nær yfir mun stærra svæði, er nýtingin talsvert meiri. Á undanförnum áratug hafa verið boraðar nokkrar holur í landi Helludals og Neðridals og eru þær í töflu I. Þessar holur ná flestar niður í jarðhitakerfið og taka vatn úr því. Af Geysisvæðinu mældist rennsli um 9 l/s árið 1994, en úr borholum sunnan og vestan við Geysi komu milli 12–15 l/s en rennsli þar er ekki þekkt nákvæmlega. Lítill þrýstingur er í framangreindum holum.

Tafla I.

Borholur í nágrenni Geysis.*



Fjarlægð

    
Hola nr.

Staður

Dýpi

Ár

Rennsli

frá Geysi

    Athugasemdir


HD-01     Helludalur
60
1986     950 m     
HD-02     Helludalur
360
1994     > 2 l/s af 65°C 950 m     Nýtt í Helludal.
HD-03     Helludalur
315
1995     > 1 l/s 1050 m     Borað fyrir sumarhús SS.
ND-01     Neðridalur
850
1976      1600 m
ND-02     Neðridalur
60
1987      850 m
ND-03     Neðridalur
600
1991      2100 m
ST-01     Neðridalur
58
1987      —       Stallar í landi Neðridals.
ND-04     Neðridalur
173,5
1993     > 9 l/s af 70°C 1900 m     Nýtt í gróðurhús.
ND-05     Neðridalur
302
1993      —  
Hver          Strokkur
39
1963
Samtals     
    > 12 l/s     Miðað er við sjálfrennsli.

* Samkvæmt gögnum Orkustofnunar og greinargerð Kristjáns Sæmundssonar og Benedikts Steingrímssonar, Borun fyrir byggðina við Geysi, Orkustofnun 1994.

   Árið 1967 mældist rennsli frá Geysissvæðinu um 14 l/s en það hefur nú minnkað niður í um 9 l/s. Síðan 1963 hafa verið boraðar níu borholur í jarðhitakerfið, sú síðasta í september 1995. Þar sem ekki hafa verið gerðar stöðugar mælingar á rennsli og hita í svæðinu er erfitt að gera sér grein fyrir hvort boranir þessar hafa haft áhrif á svæðið. Mælingar á heildarrennsli frá Geysissvæðinu hafa aðeins verið gerðar þrisvar sinnum, 1967 og tvisvar 1994. Til að kanna slík áhrif þarf að fylgjast mun betur með svæðinu en gert er nú. Þó verður að telja líklegt að áhrif borhola í Neðridal séu einhver en þær eru talsvert lægra í landi en hverasvæðið og vatnskerfið þar og við Geysi er með lágan þrýsting.
    Borað var í Strokk árið 1963 og hreinsað burtu rusl sem kastað hafði verið í hverinn. Fyrir borun var ekkert rennsli frá honum en 2 l/s eftir borun og þá byrjaði hann að gjósa.

Mælingar á rennsli.
    Mælingar á rennsli hvera og lauga gefa til kynna hve mikil orka er til staðar á staðnum. Jarðhitavatn sem er undir 50°C er vart talið nothæft til upphitunar en rennslismagn skiptir þar miklu máli. Þannig innihalda 2 l/s af 50°C heitu vatni álíka mikla orku og 1 l/s af 100°C en nýting hitans er þó öllu lakari. Rennsli hvera og lauga er oft breytilegt, eftir úrkomu, árstíma, loftþrýstingi eða af öðrum orsökum. Eina leiðin til að kanna hegðun jarðhitasvæðis með tilliti til rennslis er að gera þar margar mælingar. Ef nýting hefst úr borholum í nágrenni við jarðhitastað er algengast að jarðhiti hverfi af yfirborði. Við dælingu úr borholum hverfur jarðhiti nánast undantekningarlaust af yfirborði en það getur tekið marga mánuði. Í stórum og kraftmiklum jarðhitakerfum geta hverir og laugar þó lifað boranir af, einnig ef rásir jarðhitans eru mjög vel aðskildar. Mestar líkur eru á að þeir hverir hverfi sem eru á sömu brotalínum og borað er í. Slíkar aðstæður eru fyrir hendi í Neðridal en borholur þar eru í sprungustefnu frá Geysi. Því er hættara við að boranir þar hafi áhrif á hverina við Geysi en boranir í Helludal þótt ekki sé það heldur hættulaust. Fjarlægð frá Geysi að borsvæðum er lítil, þau eru lægra í landinu og kerfin eru með lágan þrýsting.
    Heildarrennsli af Geysissvæðinu hefur aðeins verið mælt þrisvar, fyrst er Þorvaldur Ólafsson var fenginn af jarðhitadeild Orkustofnunar til að mæla rennsli hvera og lauga á Suðurlandi sumarið 1967 og 1994 vann Helgi Torfason skýrslu fyrir Náttúruverndarráð um mælingar á Geysissvæðinu. Það má heita undarlegt að þetta séu einu, góðu mælingarnar sem gerðar eru á svæði sem er jafn frægt og Geysissvæðið. Að vísu hafa verið gerðar mælingar á rennsli úr Geysi og nokkrum hinna hveranna en fáar mælingar eru það góðar að þær séu nothæfar. Mælingar sem unnt hefur verið að hafa upp á eru í töflu II.
    Þorvaldur Ólafsson var við athuganir á Geysi dagana 11.–24. júní og 27. júlí 1967. Geysir var mældur 27. júlí og frárennsli hans látið renna í stokki í 80 l mæliker. Sama aðferð var notuð við hina hverina. Tafla II sýnir rennsli úr hverunum samkvæmt athugunum Þorvalds.
    Í ýmsum ritum er getið um rennsli úr hverunum, einkum Geysi, en yfirleitt er um ágiskanir að ræða. Sjaldan er getið um aðferðir við mælingar eða mælistaði og því erfitt um samanburð. Vandasamt getur verið að mæla vatn sem er yfir 70°C heitt og þarf mikla varkárni við það. Þar sem nýting er eingöngu til upphitunar á staðnum hefur ekki þótt nauðsynlegt að mæla rennsli oftar eða fylgjast með breytingum á því. Ef hugmyndir um boranir á staðnum verða að veruleika þarf að fylgjast mjög nákvæmlega með breytingum á rennsli hveranna og þekkja árstíða- og veðurfarsbundnar sveiflur.

Tafla II.

Mælingar Þorvaldar Ólafssonar.



Óvissa í

    

Rennsli

mælingu

    

l/s

l/s

    Athugasemdir


Geysir 1
,5
0 ,1
Strokkur 2
,5
0 ,1     mælt milli gosa
Konungshver og annar 2 m frá 1
,8
0 ,1     Konungshver einn 0,8
Fata      0
,6
0 ,2     óvenju mikið, sennilega um 0,3–0,4
Blesi      1
,1
0 ,1     úr báðum skálum
Óþerrishola 0
,12
0 ,01
Litli Geysir 0
,12
0 ,01
Sísjóðandi 0
,5
?     samkvæmt skýrslu Vermis
Þykkuhverir* 4
,0
0 ,5
Hver um 50 m vestan Geysis 0
,56
0 ,02
Hver um 50 m sunnan Fötu 0
,23
0 ,01
Hver um 10 m SA Litla Strokks 0
,20
0 ,05     áætlað
Hver um 10 m V við yfirb. hver 0
,23
0 ,01
Hver um 10 m N Sísjóðanda 0
,45
0 ,001     frárennsli frá Laug
Samtals 14
,0
1 ,0

*Vatn úr Þykkuhverum er notað til upphitunar. Lokað var fyrir rennsli að gróðurhúsinu og rennsli eftirfarandi:
1. skólastjórahúss u.þ.b. 0,2–0,3 l/s
2. pípa í Sísjóðanda 1,1 l/s
3. frárennsli húss Greips Sigurðssonar 1,0 l/s
4. lækur frá Þykkuhverum 1,2 l/s
5. áætlaður smáhver neðan Þykkuhvera 0,4 l/s
   Samtals = 3,9–4,0 l/s.
   Nýting á þessum tíma var eftirfarandi: Íbúðarhús og skóli á Geysi, íbúðarhús Greips Sigurðssonar, sundlaug, íbúðarhús að Laug og gróðurhús 600 m².

    Hinn 30. maí 1994 var votviðri og hvasst og voru gerðar rennslismælingar á þeim stöðum sem tími leyfði. 17. september var þurrt veður og lygnt og ákjósanlegt veður til mælinga. Í síðari ferðinni var mælt rennsli af færri stöðum en í maí en nákvæmari athuganir gerðar á rennsli frá Strokki og frá Þykkuhverum til suðausturs. Ekki er unnt að ljúka mælingum á öllu svæðinu á einum degi.
    Mælingar eru sýndar í töflu III og eru niðurstöður þeirra þær að rennsli hafi farið minnkandi síðan mælt var 1967. Einnig er greinilegt að veður hefur áhrif á mælingar, sumir hverir eru þurrir yfir sumarið en geta verið með talsvert rennsli á vorin. Mælingar eru ekki nógu tíðar til að unnt sé að sjá árstíðabundna sveiflu í rennsli eða breytingar með veðurfari (úrkomu eða loftþrýstingi) eða af öðrum völdum.

Tafla III.

Mælingar á rennsli 1994.



30. maí

17. sept.

30. maí


l/s

l/s

hiti inn

hiti út

nýting



Geysir      1
,7
1 ,8     Ekkert notað
Strokkur      1
,3
1 ,9     Ekkert notað
Konungshver     
0
0
Fata          
0
0
Blesi           0
,8
1 ,2     Ekkert notað
Óþerrishola     
0
0
Litli Geysir     
0
,6

ekki mælt

    Notað í hús Þóris
73
58 21%
Þykkuhverir
Hver S Steypu     
0
,3

ekki mælt

    Notað í hús Þóris
68
58 15%
Sísjóðandi     
1
,0

ekki mælt

    Dælt til Más
96
91* 5(69)%
Þykkuhverir      1
,2
1 ,2     Ekkert notað, afrennsli til suðausturs
Þykkuhverir     
0
,5

ekki mælt

    Steypt þró, í hús Kristínar
77
69 10%
Þykkuhverir     
0
,3

ekki mælt

    Notað í sumarhús
69
Þykkuhverir     
0
,2

ekki mælt

    Steypuhver, í hús Bjarna
78
49 67%
Liljuhver     
0
,3

ekki mælt

    Sumarhús Alfreðs
82

Hiti N girðingar      1
,2
0     Ekkert notað
Óvissa, áætluð      0
,5
0 ,5
Samtals     
9
,4

* 30 í september

    Alls eru notaðir um 4,5 l/s af heita vatninu en heildarrennsli er um 9–9,5 l/s. Mjög lítið vatn fór fram hjá í mælingum, e.t.v. 5%. Þar sem dælt er úr Sísjóðandi er ekki víst að rennsli sem mælt var í maí sé sambærilegt við eldri mælingar. Til að gera samanburð þarf að mæla hverinn í náttúrulegu rennsli.

Gostíðni Strokks.
    Er farið var til rennslismælinga við Geysi 17. september 1994 var settur síritandi hitamælir í afrennsli frá Blesa og Strokki en það rennur út um suðausturhorn girðingarinnar umhverfis svæðið. Er gos kemur í Strokk þeytir hann af sér talsverðu af um 100°C heitu vatni og við það hækkar hitinn í frárennslinu. Milli kl. 14:42 og 17:42 varð vart við 26 gos á 85 mínútna bili, eða 7,1 mínúta milli gosa. Eftir hitabreytingum að dæma eru gosin miskraftmikil og augljóslega að gos eru misstór þegar fylgst er með þeim á staðnum. Gosin 17. september voru falleg og fremur há, hæst á að giska 25–30 m en mælingar á hæð þeirra skortir.

Aðrar rannsóknir.
    Jarðhitakort var gert af þeim hluta Geysissvæðisins sem er innan girðingar sumarið 1992 (Jarðhitasvæðið á Geysi, skýrsla unnin af Helga Torfasyni fyrir Náttúruverndarráð, 1992). Það var fyrsta nákvæma jarðhitakortið sem gert hafði verið af svæðinu. Full ástæða er til að kemba svæðið betur og fullgera kortið með því að kanna jarðhita í nágrenni þess, allt frá Marteinslaug og suður að Múla. Einnig þarf að fylgjast með laugum og hverum vestan við Laugarfjall og víðar.
    Á vegum Orkustofnunar voru gerðar viðnámsmælingar á Geysissvæðinu um 1980 en þær hafa aðeins verið birtar að hluta. Flatarmál viðnámslægðar á 500 m dýpi undir sjávarmáli er um 7 km² og bendir það til talsvert stærra jarðhitakerfis en sést á yfirborði.
    Efnagreiningar hafa verið gerðar á vatni jarðhitasvæðisins, einna besta úttekt á því hefur Stefán Arnórsson gert.
    Engar þyngdarmælingar hafa verið gerðar á svæðinu. Slíkar mælingar geta hjálpað til við að meta færslu á miklum vatnsmassa, t.d. vegna nýtingar um borholur.
    Jarðfræði svæðisins er þekkt í grófum dráttum og þarf að skoða betur.
    Forðafræði svæðisins þarf að rannsaka með tilliti til endingar þess og mögulegra lífdaga.

Niðurstöður.
    Samkvæmt þeim, athugunum sem gerðar hafa verið á jarðhitasvæðinu á Geysi, hefur heildarafrennsli af svæðinu minnkað úr 14 l/s 1967 niður í 9 l/s 1994, um 5 l/s eða 36%. Íbúar á svæðinu telja sig hafa orðið vara við minnkandi rennsli og er það staðfest með mælingum. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á volgrum vestan við Laugarfjall, laugum við Haukadal né í Rotum sunnan við Geysissvæðið.
    Einstaka volgrur hverfa alveg yfir sumarið en eru talsverðar á vorin, sbr. eftirfarandi niðurstöður frá 1994:
    Volgrur nr. AG307 + 308 (norðan við girta svæðið):
         10. maí     um 1,5–2 l/s     20°C
         30. maí     1,2 l/s     21°C
         17. sept.     ekkert rennsli     15°C í blautum jarðvegi
    Úr Konungshver:
         10. maí     ágisk. 0,1–0,2 l/s     60°C
         30. maí     0     um 1 m niður á vatn
         17. sept.     0     gufa neðst í hvernum
    Aðrar athuganir eru eftirfarandi:
    Rennsli úr Geysi hefur minnkað, e.t.v. eru mælingar ekki sambærilegar, lýsingu skortir. Einnig vantar vitneskju um áhrif úrkomu, loftþrýstings o.fl.:
              1930     3,4 l/s
100%

              1967     1,5 l/s
44%

              1968     2,2 l/s
65%

              1994     1,8 l/s
53%

    Af heildarrennsli 9 l/s eru um 4,5 l/s notaðir af íbúum á svæðinu. Nýting á orku vatnsins er léleg og mætti bæta til muna.
    Með minnkuðu rennsli minnkar efni sem fer í útfellingar og uppbyggingu á kísilhrúðri á svæðinu. Því er brýnt að ganga vel um svæðið og t.d. loka fyrir rennsli úr skurði frá Geysi á vetrum og láta flæða yfir brúnir hans. Vatni, sem notað er, mætti skila aftur á svæðið.
    Útfellingar í frárennsli Blesa hafa valdið hitnun í nyrðri hlutanum og því að blágræni liturinn var að hverfa 1994, en þar var ekki athugað 1995.
    Girðing umhverfis svæðið er orðin léleg á köflum. Það væri til mikilla bóta ef unnt væri að færa girðinguna vel út fyrir svæðið; best væri að taka hana alveg niður og stækka svæðið.

Framhald rannsókna.
    Lagt er til að rannsóknum á rennsli af jarðhitasvæðinu verði haldið áfram. Rennsli verði mælt a.m.k. einu sinni á ári af öllu svæðinu og oftar á völdum stöðum. Til að unnt sé að greina áhrif nýtingar á svæðið er nauðsynlegt að fylgjast vel með hita og rennsli hveranna.
    Lagt er til að númer verði sett við hverina til að auðvelda endurtekningar á mælingum. Þau yrðu lítil og trufluðu ekki þá sem skoða svæðið.
    Lagt er til að nýting heita vatnsins verði bætt. Til greina kemur að sameina vatnstöku úr svæðinu og nota varmaskipti til að fá betra vatn til nýtingar á staðnum. Einnig kemur til greina að hætta alveg að nýta vatn af svæðinu en nota rafmagn til þess í staðinn. Varla er þó sanngjarnt að íbúar á svæðinu beri aukinn kostnað af því. Verið gæti að virkjun í Beiná væri hagkvæm í þessu tilliti.
    Varlega þarf að fara við að dæla úr hvernum því að hætta er á að við það gæti orðið niðurdráttur (vatnsborð lækki) á svæðinu, vatnshverir horfið og orðið að gufuaugum. Einnig þarf að fylgjast með nýtingu í nágrenni svæðisins þótt almennt sé ekki talin hætta á að það hafi áhrif á hverasvæðið; borholur eru í Helludal og Neðridal. Ekki ætti að leyfa dælingu úr holum.
    Huga þarf að rannsóknum fyrir utan hverasvæðið en hingað til hefur eingöngu verið fylgst með hverum innan girðingar. Bæði eru laugar vestan við Laugarfjall og einnig þarf að fylgjast með jarðhita sunnan hverasvæðisins, í Rotum. Auk þess eru laugar í Haukadal. Allt er þetta hluti af sama jarðhitasvæðinu.
    Efnasýni eru til af flestum hveranna og er ástæða til að kanna hvort efnainnihald vatnsins breytist. Það má gera með því að taka sýni úr ákveðnum hverum öðru hvoru og efnagreina.
    Athuga þarf hverina og hegðan þeirra þegar loftþrýstingur er mjög lágur og mjög hár, í þurrkatíð og votviðri.
    Halda þarf áfram að kanna heimildir um hverina. Einnig er lagt til að safnað verði gömlum myndum af hverum á svæðinu og þeir myndaðir skipulega undir sama sjónarhorni til samanburðar síðar meir.

    Greinargerð þessi var unnin í samvinnu við Helga Torfason hjá jarðhitadeild Orkustofnunar.




Kort, 2 síður myndaðar.