Ferill 187. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 187 . mál.


232. Beiðni um skýrslu


frá fjármálaráðherra um úttekt á afskrifuðum skattskuldum.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Baldvin Hannibalssyni, Margréti Frímannsdóttur,

Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Ágústi Einarssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur,

Svanfríði Jónasdóttur, Gísla S. Einarssyni

og Kristínu Halldórsdóttur.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um þróun og orsakir afskrifaðra skattskulda sl. 10 ár. Jafnframt er þess óskað að Alþingi verði gerð grein fyrir því hvort ríkisstjórnin hyggst grípa til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir að álögð gjöld tapist.
    Í skýrslunni er óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum:
    Hversu mikið var afskrifað af skattskuldum (beinir skattar og aðrir skattar) árið 1985–1990, skipt eftir innheimtuumdæmum í fjárhæðum og sem hlutfall af heildarálagningu hvers umdæmis, og hve mikill var kostnaður við árangurslausar innheimtuaðgerðir?
    Hvernig skiptast 28 milljarða kr. afskriftir (samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins) opinberra gjalda sl. fimm ár á innheimtuumdæmi og hve hátt hlutfall er um að ræða hjá hverju umdæmi af heildarálagningu?
    Hve stór hluti afskrifta skatta og dráttarvaxta sl. tíu ár er vegna áætlana og hvernig skiptast þær áætlanir milli einstaklinga og lögaðila?
    Hve stór hluti af skattgreiðslum byggðust á áætlunum árlega sl. tíu ár, skipt eftir einstaklingum og lögaðilum?
    Hve háar fjárhæðir og hve oft var afskrifað annars vegar vegna gjaldþrota hjá einstaklingum og lögaðilum og hins vegar vegna annarra árangurslausra innheimtuaðgerða sl. tíu ár og hverjar voru helstu ástæður árangurslausrar innheimtu?
    Hvert hefur verið fyrirkomulag launa eða þóknana til innheimtumanna ríkissjóðs sl. tíu ár og hversu há hafa þau verið fyrir einstaka innheimtumenn á ári, sundurliðað eftir launum og öðrum greiðslum?
    Hefur öðrum en innheimtumönnum ríkissjóðs verið falin innheimta á vangoldnum gjöldum ríkissjóðs eða afmörkuðum þáttum þeirra? Ef svo er, hverjir eru þessir aðilar og hve háar greiðslur hefur hver þeirra fengið á framangreindu tímabili, sundurliðað eftir árum?
    Hyggst ráðherra beita sér fyrir hertum lögum, svo sem atvinnuleyfissviptingu, til að koma í veg fyrir að lögaðilar, sem setja fyrirtæki í þrot vegna vanskila á sköttum, stofni til sams konar rekstrar undir öðru kenniheiti?
    Hve margir einstaklingar hefja ítrekað rekstur eftir gjaldþrot? Ef ekki eru til úrræði til að staðreyna slíkt hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum sem gera það mögulegt?
    Benda 28 milljarða kr. beinar og óbeinar afskriftir á sl. fimm árum, eða að meðaltali um 5% af fjárlögum hvers árs, til þess að vinnubrögð við álagningu eða innheimtu skattskulda sé ábótavant?
    Hafa nauðasamningar verið reyndir áður en til afskrifta skattskulda kemur? Ef svo er, hversu oft hefur það verið gert hjá einstaklingum og lögaðilum og hve mikið hefur þá fengist greitt upp í skattskuldir? Hafi slík úrræði ekki verið reynd hyggst ráðherra beita sér fyrir að nauðasamningar verði reyndir áður en til afskrifta skattskulda kemur?
    Hvaða áhrif hefur það haft til breytinga, bæði varðandi skilvirkni og kostnað við búskipti, að bústjóra var með lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði gert að krefjast 150 þús. kr. tryggingar við búskipti?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi fljótlega eftir að henni hefur verið útbýtt meðal þingmanna.