Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 188 . mál.


233. Tillaga til þingsályktunar


um jöfnun atkvæðisréttar.

Flm.: Viktor B. Kjartansson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leggja fram, fyrir árslok 1996, tillögur um breytingar á kosningalöggjöfinni sem leiða til jöfnunar atkvæðisréttar.

Greinargerð.

    Kosningarétturinn er einn af hornsteinum lýðræðisins. Það er grundvallarréttur borgaranna að kjósa fulltrúa á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Því verður að teljast brot á mannréttindum að vægi atkvæða borgaranna sé bundið búsetu en sé ekki jafnt hvar á landinu sem menn búa.
    Þegar niðurstöðutölur síðustu alþingiskosninga eru skoðaðar kemur í ljós að vægi atkvæða á einum stað getur verið allt að þrisvar sinnum meira en vægi atkvæðis annars staðar á landinu. Þetta er óréttlæti sem ekki verður búið við öllu lengur.
    Oft heyrist nefnt að eðlilegt sé að viðhalda þessu ójafnrétti því að með algjöru jafnræði næðu of fáir þingmenn landsbyggðarinnar kjöri á Alþingi. Þessi málflutningur hlýtur að teljast mjög alvarlegur því verið er að segja að eðlilegt sé að skerða grundvallarmannréttindi borgaranna í því skyni að tryggja ákveðnum íbúum landsins aukið vægi á löggjafarsamkomu þjóðarinnar vegna búsetu þeirra.
    Ýmsir telja að undirrót margra rangra ákvarðana, sem teknar hafa verið á síðustu áratugum og nú koma fram í vandamálum þjóðarinnar, megi rekja til þess að meirihlutavilji hennar var hafður að engu í skjóli ójafns vægis atkvæða.
    Á síðustu árum hafa nokkrum sinnum verið fluttar tillögur á Alþingi um breytingar á kosningalöggjöfinni til að tryggja jafnræði íbúa landsins. Fyrir síðustu alþingiskosningar var stigið lítið skref í átt til jafnræðis með því að festa svokallaðan flakkara í Reykjavíkurkjördæmi. Hins vegar hefur einkennt þennan málaflokk að Alþingi hefur ekki gefið sér nægan tíma til þess að koma með tillögur, ræða þær og ná samkomulagi milli fulltrúa ólíkra sjónarmiða. Hér er því lagt til að tillögur ríkisstjórnarinnar berist fyrir árslok 1996 þannig að nægur tími fáist til að ræða þær og hrinda nauðsynlegum breytingum í framkvæmd.