Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 143 . mál.


236. Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa.

    Hver hefur verið árlegur kostnaður sjúkrahúsanna í landinu af rekstri leikskóla fyrir börn og af vistun barna hjá dagmæðrum frá árinu 1990, reiknað á núgildandi verðlagi?

Kostnaður á nú-

gildandi verðlagi,

Ár

í millj. kr.


1990          
155

1991          
185

1992          
200

1993          
193

1994          
101


    Tölur frá 1990 og 1991 eru áætlaðar þar sem ekki lágu fyrir nákvæmir útreikningar fyrir það tímabil en rekstur hefur væntanlega verið með svipuðum hætti og árið 1993.
    Fjárveitingar voru lækkaðar verulega á árinu 1994 eða í 75 millj. kr. hjá stofnunum sem reka leikskóla og voru lækkaðar á árinu 1995 í 53 millj. kr.

    Hversu margir leikskólar eru nú reknir af sjúkrahúsunum í landinu og í hvaða sveitarfélögum eru þeir staðsettir?
    Alls eru nú reknir 10 leikskólar af sjúkrahúsum sem ráðuneytinu er kunnugt um. Í Reykjavík eru þrír reknir af sjúkrahúsum og einn af hjúkrunar- og dvalarheimili, í Hafnarfirði einn af sjúkrahúsi og einn af hjúkrunar- og dvalarheimili, á Akureyri og á Akranesi er einn leikskóli rekinn af sjúkrahúsi. Í Mosfellsbæ rekur Reykjalundur leikskóla og í Kópavogi Sunnuhlíð en honum stendur nú til að loka.

    Hefur verið stofnað til nýrra leikskóla á vegum sjúkrahúsanna frá árinu 1990 og ef svo er hvar og hvenær?
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að neinir leikskólar hafi verið opnaðir frá 1990 á vegum sjúkrahúsa landsins.

    Eiga allar starfsstéttir sjúkrahúsanna jafnan rétt á leikskólaplássi fyrir börn sín á leikskólum sjúkrahúsanna?
    Þær starfsstéttir sem mestur skortur hefur verið á hafa haft forgang að leikskólaplássum. Hjúkrunarfræðingar hafa haft flest pláss þegar á heildina er litið. Allar starfsstéttir hafa aðgang að plássum ef rými er og eru upplýsingar um að allt frá 5 og upp í 28 starfsstéttir hafi haft aðgang að leikskólum, allt eftir stærð stofnananna.
    Vinnuhópur um framtíðarfyrirkomulag leikskólareksturs sjúkrahúsanna skilaði áliti 7. júní 1995. Í þessu áliti segir að sameiginleg niðurstaða vinnuhópsins hafi orðið þannig:
    Sjúkrahúsin haldi áfram óbreyttum rekstri til ársins 2000/2005, þó þannig að reglur um forgang verði endurskoðaðar og hertar og úr starfsemi dregið á þeim stöðum þar sem framboð vistrýmis hjá sveitarfélögum vex í samræmi við eftirspurn. Eftir atvikum verði samið við sveitarfélög um afnot þeirra rýma sem ekki eru nýtt af sjúkrahúsunum sjálfum, m.a. vegna hertra reglna. Þar sem slíkir samningar verði gerðir munu fjárveitingar ríkisins endurskoðaðar samhliða.