Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 192 . mál.


240. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu fríverslunarsamnings milli Íslands og Litáen.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli Íslands og Litáen, sem gerður var í Kolding á Jótlandi 30. ágúst 1995.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Árið 1993 var ákveðið að hefja samningaviðræður um fríverslunarsamninga milli Íslands og allra Eystrasaltsríkjanna. Samningaviðræðum við öll ríkin lauk snemma á árinu 1995 með samkomulagi um fríverslunarsamninga. Fríverslunarsamningar milli Íslands og Litáen og milli Íslands og Lettlands voru undirritaðir í Kolding á Jótlandi 30. ágúst 1995 í tengslum við utanríkisráðherrafund Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Fríverslunarsamningur Íslands og Eistlands hefur enn ekki verið undirritaður en hann er tilbúinn til undirritunar.
    Fríverslunarsamningurinn við Litáen er mjög hliðstæður þeim fríverslunarsamningum, sem EFTA hefur gert við ríki í Mið- og Austur-Evrópu. Samningurinn kveður á um fríverslun milli Íslands og Litáen með iðnaðarvörur (25.–97. kafli í samræmdri vörulýsingar- og vöruheitaskrá). Einnig nær samningurinn til fisks og fiskafurða, sbr. I. viðauka samningsins og til vara sem unnar eru að hluta til eða öllu leyti úr landbúnaðarvörum (unnar landbúnaðarvörur). Þessar vörur eru sérstaklega tilgreindar og nánar kveðið á um framkvæmd viðskipta með þær í bókun A við samninginn.
    Ísland og Litáen afnema alla innflutningstolla á iðnaðarvörum, sem upprunnar eru í þessum löndum og gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif frá og með gildistöku fríverslunarsamningsins. Hið sama gildir um fisk og fiskafurðir nema að því er varðar nokkrar fisktegundir þar sem um aðlögunartíma er að ræða. Litáen fær 9 ára aðlögunartíma til þess að afnema tolla á þurrkuðum, söltuðum og reyktum fiski svo og á niðurlögðum og niðursoðnum fiski. Þó gerir samningurinn ráð fyrir því að strax við gildistöku samningsins taki gildi í Litáen tollfrjáls innflutningskvóti fyrir saltsíld. Sá kvóti verður 300 tonn á þessu ári en fer síðan stækkandi árlega þar til hann hefur náð 500 tonnum. Kvótinn verður 340 tonn á næsta ári. Í sérstakri bókun með samningnum lýsir ríkisstjórn Litáen því yfir að á fyrsta fundi sameiginlegrar nefndar Íslands og Litáen um framkvæmd samningsins megi endurskoða hann með möguleika á því að auka saltsíldarkvótann.
    Varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur lýsa samningsríkin sig reiðubúin, að því marki, sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samfelldri þróun viðskipta með landbúnaðarvörur, sbr. 8. gr. samningsins. Fríverslunarsamningur Íslands og Litáen er birtur sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.
    Viðskipti Íslands og Litáen hafa ekki verið mikil undanfarið. Ísland hefur flutt úr lítils háttar af saltsíld til Litáen en innflutningstollur þar hefur hamlað útflutningi. Lítill innflutningur hefur verið til Íslands frá Litáen.
    Verðmæti útflutnings til Litáen var 29,4 millj. kr. árið 1994 en 11,3 millj. kr. árið áður. Verðmæti innflutnings frá Litáen var 12,2 millj. kr. árið 1994 en 2,2 millj. kr. árið áður.

     Helstu útflutningsvörur til Litáen árið 1994 voru þessar:
    Veiðarfæri og annar útbúnaður til fiskveiða     
12,8 millj. kr.

    Prjónavörur     
6,5 millj. kr.

    Saltsíld     
2,4 millj. kr.


     Helstu innflutningsvörur frá Litáen árið 1994 voru þessar:
    Vefnaðarvörur     
6,0 millj. kr.

    Fiskmeti     
3,8 millj. kr.



..........



    Með tillögunni var prentaður fríverslunarsamningur milli ríkjanna svo og eftirtaldir viðaukar og bókanir:
         
I.
    Viðauki sem um getur í c-lið 2. gr.
         
II.
    Viðauki sem um getur í 5. gr. (útflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif).
         
III.
    Viðauki sem um getur í 6. gr. (magntakmarkanir á innflutningi eða útflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif).
         
IV.
    Viðauki. Skrá yfir tegundir útflutningsaðstoðar sem um getur í 11. gr. (ríkisaðstoð, reglur um samkeppni fyrirtækja og opinber innkaup).
         
V.
    Viðauki, um túlkun 11. gr.
    Bókun A, um vörur sem um getur í b-lið 2. gr.
    Tafla I og II við bókun A.
    Bókun B. Skilgreining hugtaksins „upprunavörur“ og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda.
         
I.
    Viðauki (við bókun B). Skýringar.
         
II.
    Viðauki. Skrá yfir aðvinnslu sem efni er ekki teljast upprunaefni verða að hljóta til þess að vara framleidd úr þeim geti öðlast upprunaréttindi.
         
III.
    Viðauki við bókun B. Flutningsskírteini.
         
IV.
    Viðauki. Yfirlýsing sem um getur í b- og c-lið 1. mgr. 8. gr.
         
IV.
    Viðauki við bókun B.
         
V.
    Viðauki.
         
VI.
    Viðauki við bókun B.
    Bókun C, um vörur sem um getur í 3. mgr. 8. gr.
    Niðurstöður af viðræðum ríkjanna.
    Einhliða yfirlýsing.
    Einnig var samningurinn prentaður með þingsályktunartillögunni á ensku ásamt viðaukum og bókun A.
    Um þessi fylgigögn vísast til þingskjalsins ( lausaskjalsins).