Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 96 . mál.


252. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Stjórnarfrumvarp þetta er eitt veigamesta frumvarp núverandi ríkisstjórnar og endurspeglar stefnu hennar í landbúnaðarmálum. Frumvarpið markar þá lagaumgjörð sem að mati ríkisstjórnarinnar er nauðsynleg vegna nýgerðs samnings ríkisvaldsins og bændasamtakanna.
    Fyrsti minni hluti landbúnaðarnefndar telur að frumvarpinu og samningnum sé mjög ábótavant. Frumvarpið leysir ekki vandamál við sauðfjárrækt. Það er neytendum fjandsamlegt þar sem það stuðlar að hærra matarverði en þyrfti að vera og er ekki hagkvæmt fyrir sauðfjárbændur.
    Samráðsleysi hefur einkennt samninginn og frumvarpssmíðina, en geta má þess að landbúnaðarráðherra hét landbúnaðarnefnd í vor að haft yrði samráð við hana um lausn á vanda sauðfjárbænda en ekki var staðið við það. Þá var ekki haft samráð við aðila vinnumarkaðarins eins og eðlilegt hefði verið og var gert við fyrri búvörusamning.
    Frumvarpið felur ekki í sér framtíðarsýn þannig að innan tiltölulega skamms tíma verður Alþingi aftur að fást við vandamál í sauðfjárframleiðslu. Þrátt fyrir að hinn nýi búvörusamningur og frumvarpið geri ráð fyrir um 12 milljarða kr. útgjöldum á næstu fimm árum tryggir samningurinn ekki lausn á vandamálum í sauðfjárbúskap vegna þess að stefnan í frumvarpinu er röng.
    Vanda sauðfjárbænda sem blasir við má m.a. rekja til samdráttar í neyslu vegna breyttra neysluhátta, óhagkvæmni í vinnslu afurða og óhagræðis í skipulagi framleiðslunnar. Hinn eldri búvörusamningur reyndist ekki skila því sem ætlað var og því var nauðsynlegt að gera nýjan samning. 1. minni hluti telur brýnt að vandi sauðfjárræktar sé leystur í samvinnu við bændur sjálfa að teknu tilliti til sjónarmiða neytenda og annarra búgreina.
    Fyrsti minni hluti hefði verið reiðubúinn að standa að kerfi sem hefði í för með sér umtalsverð útgjöld á næstu fimm árum eins og samningurinn gerir ráð fyrir. 1. minni hluti telur nauðsynlegt að verja verulegum opinberum fjármunum til þessa málaflokks til að komast út úr gölluðu kerfi fortíðarinnar. Það verður að líta á framlög til sauðfjárræktar sem fjárfestingu til framtíðar. Því er mjög mikilvægt að ráðstöfun svo mikils fjár sé skynsamleg en ekki í reynd sóun eins og með þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin vill nú lögfesta.
    Þess má geta að nú renna u.þ.b. 6 milljarðar kr. á ári til landbúnaðarframleiðslunnar á fjárlögum og er það sama fjárhæð og kostar að reka alla grunnskóla landsins á einu ári. Því er ljóst að hér er um verulega fjármuni að ræða sem varðar alla skattgreiðendur þessa lands.
    Aðalgalli gildandi samnings er að hann heftir framtak bænda, byggir á efnahagslega röngum forsendum og gerir bændum sem vilja hætta búskap ekki kleift að gera það á fjárhagslega hagkvæman hátt og með reisn.
    Kostnaður við vernd íslensks landbúnaðar nemur vel á annan tug milljarða kr. á ári og er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Þannig er stuðningur Íslendinga við landbúnað um 70% meiri en meðalstuðningur innan OECD og um 50% meiri en innan ESB. Þessar tölur eru ekki ágreiningsefni hérlendis. Þær sýna að landbúnaðarstefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur gersamlega brugðist, en þessi tveir flokkar bera fyrst og fremst ábyrgð á landbúnaðarstefnu síðustu áratuga. Þessir flokkar hafa reynst óhæfir til að laga kerfið að breyttum aðstæðum og hafa hvorki gætt hagsmuna bænda né neytenda.
    Þótt framleiðslukvóti sé afnuminn í frumvarpinu eru athafnafrelsi bænda settar verulegar skorður með miðstýrðum ákvörðunum, m.a. hvað varðar útflutning og verðmyndun. Það er misskilningur þegar því er haldið fram að verð sauðfjárafurða sé gefið frjálst í áföngum. Heildarmagnið sem fer á innanlandsmarkað á ári er ákveðið með einni ákvörðun en með því er í reynd jafnframt ákveðið verð afurðanna.
    Greiðslur úr ríkissjóði vegna samningsins eru verðtryggðar en það er óeðlilegt á sama tíma og greiðslur úr almannatryggingakerfinu eru gerðar óháðar verðlagsþróun, sbr. fjárlagafrumvarp núverandi ríkisstjórnar.
    Bændum er öllum gert skylt að taka þátt í útflutningi en mjög erfiðlega hefur gengið að afla markaða fyrir kindakjöt erlendis og ekkert bendir til þess að það reynist auðvelt verk á næstu árum. Einnig er næg framleiðslugeta til að gera þær markaðstilraunir á erlendum mörkuðum sem menn kjósa, m.a. með unnar vörur byggðar á lífrænni og vistvænni ræktun. Samningurinn felur í sér að flytja verður út verulegt magn af kindakjöti á lágu verði á næstu árum.
    Birgðavandi í sauðfjárrækt er ekki leystur með þessu frumvarpi og tímabundnar útsölur á kindakjöti eru slæm leið. Þær kosta mikið, skila litlu til lengri tíma og koma mjög illa niður á öðrum búgreinum. Neysla á kindakjöti hefur minnkað ár frá ári með breyttum neysluháttum, ekki hvað síst hjá ungu fólki. Því er margt sem bendir til þess að vandamál sauðfjárræktar felist í því að of margir aðilar eru að framleiða fyrir of lítinn markað sem er okkar heimamarkaður. Það er óraunhæft að mati margra sem ræddu við landbúnaðarnefnd að treysta á kerfi sem byggist á útflutningi á um 2.000 tonnum á ári.
    Í samningnum er hvati til framleiðsluaukningar fyrir einstaka bændur. Þessi mistök við samningsgerðina, sem fjölmargir umsagnaraðilar bentu á, mun leiða til þess að hagkvæmt verður fyrir einstaka bændur að auka framleiðslu sem er þvert á markmið samningsins. Auk þess er víða í sauðfjárrækt ónýtt framleiðslugeta sem bændur hafa hag af að nýta betur og auka þar með framleiðslu. Þrátt fyrir ábendingar um þessi atriði frá fjölmörgum aðilum hefur meiri hlutinn ekki fallist á breytingar á þessum þætti.
    Í samningnum og frumvarpinu er ekki tekið á vandamálum vinnsluaðila. Í fyrri búvörusamningi voru ákvæði sem miðuðu að því að auka framleiðni vinnslustöðva en nú eru engin slík ákvæði. Þótt öllum sé ljóst að brýnt sé að auka hagkvæmni í úrvinnslu afurða, m.a. sláturhúsa, er enginn slíkur hvati í frumvarpinu. Þeim sláturhúsum sem geta framleitt fyrir erlenda markaði er ekki gert kleift að njóta afraksturs af uppbyggingarstarfi sínu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að verðjafna milli erlendra markaða. Það er mjög slæm aðferðafræði, en eitt af grunnlögmálum markaðsfræðinnar er að markaðir verði að fá að njóta sín í samkeppni hver við annan og það á eins við um markaði fyrir landbúnaðarafurðir og aðra markaði.
    Þá er loku fyrir það skotið að bændur framleiði kindakjöt fyrir utan kerfið og eigi viðskipti t.d. beint við verslanir. Bændur, sem hafna öllum greiðslum frá ríkisvaldinu og framleiða á eigin ábyrgð og fá það sem markaðurinn skilar, geta það ekki. Þeir bændur þurfa að sæta útflutningsverði fyrir hluta framleiðslu sinnar þótt þeir flytji ekkert út og fái engar beingreiðslur fyrir framleiðslu sína. Samningurinn og frumvarpið binda alla bændur, líka þá sem vilja ekki fá neinar greiðslur úr ríkissjóði fyrir framleiðslu sína. Það er matsatriði hvort þessi ákvæði standast ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi, t.d. ákvæði um sameinginlega ábyrgð bænda.
    Í frumvarpinu er ekki tekið á heimaslátrun. Umfang heimaslátrunar er verulegt þótt erfitt hafi verið fyrir nefndina að fá upplýsingar um það. Spádómar manna sem ræddu við nefndina gerðu ráð fyrir frá 500 tonnum upp í 2.000 tonn og sést á því hve mikil hún er sé miðað við 7.000 tonna ársneyslu. Athyglisverðar upplýsingar komu fram hjá fulltrúum kaupmanna sem komu á fund landbúnaðarnefndar. Þeir sögðu að umtalsverður munur væri á kjötsölu í þéttbýli og dreifbýli sem hlutfalli af veltu verslana. Þetta bendir til umtalsverðrar heimaslátrunar að þeirra mati. Nú er heimaslátrun heimil að vissu marki en ýmislegt bendir til þess að hér sé um mun meiri viðskipti að ræða en áður var talið. Það er ljóst að þróist tvöfalt framleiðslu- og sölukerfi er útilokað að halda utan um kerfið eins og fyrirhugað er í frumvarpinu og búsvörusamningnum. Samningurinn mun að mati 1. minni hluta hvetja bændur til aukinnar heimaslátrunar og sölu fram hjá hinu opinbera kerfi til að losna við útflutningskvöð.
    Benda má á að fulltrúar bændasamtakanna telja að lögfesting frumvarpsins megi vel dragast til áramóta þótt ríkisstjórnin leggi allt kapp á að afgreiða málið í flýti.
    Frumvarpið fékk mjög harða gagnrýni frá Eiríki Tómassyni lagaprófessor og Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni, en þeir eru báðir sérfróðir í löggjöf um landbúnaðarmál. Hjá þeim kom fram að á frumvarpinu verður að gera margvíslegar breytingar til að það fullnægi lágmarkskröfum um löggjöf. Þannig hefur mikill tími landbúnaðarnefndar farið í að laga frumvarpið að ákvæðum stjórnarskrárinnar. Breytingartillögur meiri hlutans fela ekki í sér neinar efnisbreytingar, enda kalla þær ekki á breytingar á búvörusamningnum. Það lýsir vinnubrögðum og hugmyndafræði stjórnarflokkanna að upprunaleg gerð frumvarpsins stóðst ekki ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar.
    Ljóst er að breytingartillögur meiri hlutans brjóta í bága við nýgerðan búvörusamning og er vakin athygli á þremur ákvæðum hans. Í fyrsta lagi verður ekki greitt jafnt verð fyrir útflutning. Í öðru lagi, verði afgangur af fjármagni til uppkaupa rennur það ekki í ríkissjóð heldur til annarra verkefna. Í þriðja lagi er afnám beingreiðslna til bænda 70 ára og eldri fellt niður. Þessar breytingar þýða að mati 1. minni hluta að það verður að gera viðbótarsamning milli ríkisvalds og bændasamtaka.
    Sú breyting meiri hlutans að fela ráðherra vald með reglugerð til að skipuleggja útflutning er fráleit og í engu samræmi við nútímaviðskiptahætti.

Umsagnir aðila um frumvarpið.
    Frumvarpið var gagnrýnt harkalega af aðilum sem landbúnaðarnefnd leitaði til. Telur Þjóðhagsstofnun vafamál að frumvarpið leiði til þeirrar niðurstöðu sem að er stefnt þrátt fyrir aukin framlög ríkisins. Hagþjónusta landbúnaðarins er gagnrýnin á frumvarpið, svo og Hagfræðistofnun. Neytendasamtökin og aðilar vinnumarkaðarins eru mjög andsnúnir frumvarpinu og búvörusamningnum, svo og Verslunarráð og Kaupmannasamtökin.
    Hér á eftir fer útdráttur úr nokkrum skriflegum umsögnum sem nefndinni bárust.
     Í umsögn Framleiðsluráðs landbúnaðarins segir m.a.:
    „Framkvæmdanefndin bendir á að í vissum tilvikum hafa bændur verið að skipta á greiðslumarki í sauðfé og mjólk og eru að fjölga fé á móti fækkun mjólkurkúa. Í þeim tilvikum og e.t.v. fleirum gæti þurft að hafa heimild til að víkja frá ásetningsákvæðum í 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins eða/og leyfa fjölgun fjár á móti keyptum rétti, sbr. ákvæði í 6. mgr. 6. gr. frumvarpsins.“
     Í umsögn stjórnar Landssamtaka sláturleyfishafa segir m.a.:
    Ákvæði um eitt skilaverð á útfluttu kindakjöti fyrir landið teljum við ganga of langt, miðað við orðfæri samningsins, þótt viðurkennd sé stefnan um „sameiginlegt“ uppgjör útflutnings.
    Stjórnin telur ekki eðlilegt að breyta útfærslu vaxta- og geymslugjalds fyrr en verðlagning til bænda verður gefin frjáls.
    Stjórn Landssamtaka sláturleyfishafa vill koma að mótun reglna um framkvæmd samningsins að því leyti er snertir afurðastöðvarnar. Í því sambandi má nefna markaðsstarf og þróun, ásamt hagræðingu og hugsanlegri úreldingu afurðastöðva.“
     Í umsögn Verslunarráðs segir m.a.:
    „Þá virðist einnig ástæða til að hafa áhyggjur af framleiðslunni því þótt afnumdar verði beinar almennar takmarkanir á því hversu mikið menn mega framleiða þá verður magnið að nokkru leyti bundið útflutningi. Í því sambandi má benda á að í samningnum er gert ráð fyrir að uppgjör sláturleyfishafa vegna útflutnings verði sameiginlegt og að sama verð eigi að greiðast öllum sauðfjárbændum. Slíkt fyrirkomulag er óskynsamlegt í ljósi þess að það felur ekki í sér hvata fyrir einstaka aðila að reyna að ná sem hagstæðustu verði fyrir afurðir sínar og engir möguleikar eru á að fjárfesting þeirra í markaðsstarfsemi nái að skila sér.“
     Í umsögn Hagþjónustu landbúnaðarins segir m.a.:
    „Samkvæmt ákvæðum í 6. gr. er öllum afurðastöðvum ætlað að taka þátt í útflutningi og fá bændur jafnaðarverð fyrir kjöt af sambærilegum gæðum. Draga verður í efa að þetta fyrirkomulag virki hvetjandi á afurðastöðvar til að stunda markaðsstarf erlendis. Má í þessu sambandi nefna að margar afurðastöðvar eru í meirihlutaeigu bænda og með þessu er tekið fyrir þann möguleika að eigendur, þ.e. bændur, njóti árangursríks markaðsstarfs erlendis í hærra verði. Bændur geta hins vegar fengið misjafnt verð fyrir afurðir sem fara á innanlandsmarkað eftir 1. september 1998.“
    „Hagþjónusta landbúnaðarins telur að sú aðgerð að taka uppgjör fyrir afurðir úr sambandi við greiðslumark — en miða þess í stað við ásetning — hvetji bændur til að auka framleiðslu sína. Óvíst er að þau ákvæði 6. gr. sem ætlað er að vinna gegn þessu nái því markmiði. Er þar einkum átt við þann möguleika sem bændum er opnaður til að komast hjá útflutningsskyldu. Hvað ofangreint varðar mun í fyrsta lagi nokkur framleiðslugeta ónýtt í þeim bústofni sem þegar er til í landinu og hægt er að nýta án þess að auka fastan kostnað í búrekstrinum.“
    Í umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir m.a.:
    „Jöfnun skilaverðs til framleiðenda kindakjöts, sem selt er á erlendum mörkuðum, dregur líklega út hvata til markaðssetningar erlendis. Ef útflytjendur fá ekki sjálfir að njóta eigin árangurs í markaðssetningu er hætt við að lítil áhersla verði lögð á sölu á erlenda markaði. Einnig er rétt að benda á að afar erfitt verður að reikna verðjöfnunargjaldið, sérstaklega í ljósi þess að gjaldið á að vera breytilegt eftir gæða- og vöruflokkum.“
    „Helsti galli nýja búvörusamningsins og þar með lagafrumvarpsins er að í því er hagrænn hvati fyrir bændur að auka framleiðslu sína þvert á markmið samningsins og neysluþróun í landinu. Í stað þess að stýra heildarframleiðslumagni er útflutningskvöð komið á þannig að framleiðendum er gert skylt að selja sama hlutfall af framleiðslu sinni á sama verði til útlanda.“
    „Tveir verstu gallar frumvarpsins, framleiðsluhvatinn og verðjöfnunin, eru dæmi um slæma hagræna hvata. Ef gert er ráð fyrir að framleiðendur hegði sér skynsamlega, þ.e. hámarki efnislega velferð sína, kemur samningurinn til með að hafa slæmar og afdrifaríkar afleiðingar.“
     Í umsögn Bandalags háskólamanna, BHMR, segir m.a.:
    „Bandalag háskólamanna, BHMR, lýsir sérstökum áhyggjum vegna lélegs rekstrargrundvallar smábýlanna, af miklum skuldum þeirra og lágum tekjum sem jaðra við fátæktarmörk. Á þessum vanda er ekki tekið í frumvarpinu. Afleiðing þessa ástands birtist m.a. í þeirri staðreynd að margir smábændur eiga orðið erfitt að standa undir skólagöngu barna sinna. Í þessu ljósi er fyrirliggjandi búvörusamningur ekki trúverðugur sem heildarlausn.“
     Í umsögn Neytendasamtakanna segir m.a.:
    „Það eru því mikil vonbrigði að bæði samningurinn og lagafrumvarpið breyta engu um þennan vanda. Það er mat Neytendasamtakanna að nánast sé ekki á neinn hátt tekið á vandanum og að í lok samningstíma búvörusamningsins verði sami vandi eftir sem áður með tilheyrandi fjáraustri af hendi skattborgara til að hægt sé að framleiða lambakjöt. Að mati Neytendasamtakanna er það eina jákvæða við þennan samning að bændur geta boðið út slátrun og þar með knúið á um löngu tímabæra lækkun sláturkostnaðar.“
    „Af þessum ástæðum leggjast Neytendasamtökin gegn því að þetta lagafrumvarp, sem er til staðfestingar á samningi um sauðfjárframleiðslu verði samþykkt, enda er í raun hvorki framleiðslu- né verðstýringu kastað fyrir róða. Komið er í meginatriðum áfram í veg fyrir nauðsynlega hagræðingu innan þessarar búgreinar, þ.e. að framleiðendum gefist kostur á að stækka bú sín, oftast án nokkurrar fjárfestingar. Vandanum er hins vegar ýtt á undan sér, m.a. með útsölu á lambakjöti sem neytendur greiða með sköttum sínum sem í sjálfu sér leiðir til lítillar neysluaukningar, hins vegar fylla neytendur frystikistur sínar.“
     Í umsögn Þjóðhagsstofnunar segir m.a.:
    „Bóndi, sem ákveður að auka framleiðslu sína — og veldur þannig auknum kjötútflutningi — tekur ekki sjálfur á sig nema lítinn hluta þeirra afleiðinga sem hljótast af ákvörðuninni fyrir greinina í heild. Það leiðir til óhagkvæmni að rjúfa þessi tengsl.“
    „Með 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins fá framleiðendur heimild til að ákveða sameiginlega hversu mikið kjöt verður flutt út. Þetta ákvæði ásamt ákvæðinu hér undan um jöfnun verðs fyrir útflutt kjöt takmarka verulega hagkvæmnisáhrif frjálsræðisins í verðlagningu kindakjöts sem frumvarpið gerir ráð fyrir frá haustinu 1988.“
    „Að öllu samanlögðu er vafamál að frumvarpið leiði til þeirrar niðurstöðu sem að er stefnt þrátt fyrir aukin framlög úr ríkissjóði. Það er þó ekki útilokað ef vel tekst til um útflutning sauðfjárafurða á næstu árum eða ef framleiðslan dregst hraðar saman en ætla má í fljótu bragði. En einnig er hugsanlegt að með frumvarpinu fáist fyrst og fremst andrými um nokkurn tíma; smám saman leiti á ný í sama horf. Æskilegt hefði því verið að tryggja betur en frumvarpið gerir að jafnvægi næðist milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða.“
     Í umsögn Alþýðusambands Íslands segir m.a.:
    „Það fyrirkomulag er í nýja samningnum að heimilt verði þeim sem hefur greiðslumark að setja á markað allt það kjöt sem viðkomandi framleiðir. Kjötið sem selst á innanlandsmarkaði á að verðskerða til bænda og nota þá fjármuni til að greiða með útflutningnum svo að bændur fái sama verð fyrir kjötið hvort sem það fer á innanlandsmarkað eða til útflutnings. Þetta mun hækka verðið á afgangsframleiðslunni og virka þar með sem hvati á kindakjötsframleiðsluna.“
    „Þau atriði, sem nefnd eru hér að framan, geta hæglega leitt til þess að vandi sauðfjárræktarinnar verði meiri í lok samningstímans en hann er nú því stuðningur til þeirra bænda sem verða í framleiðslu mun verða hlutfallslega hærri miðað við selt magn á innanlandsmarkaði og líklegt er að umframframleiðslan sem fer í útflutninginn sem gefur lágt verð muni einnig verða meiri.“
    „Allar fjárhæðir í samningnum eru miðaðar við vísitölu neysluverðs. Vísitölubinding sem þessi er mjög á skjön við þau markmið sem unnið er eftir á vinnumarkaði, fjármálamarkaði og í nýju fjárlagafrumvarpi, að afnema skuli vísitölubindingar eins og mögulegt er.“
    „Búvörusamningurinn var alfarið gerður af stjórnvöldum og samtökum bænda og bera þessir aðilar því einir fulla ábyrgð á framkvæmd hans og afleiðingum. Með þessu hefur þátttöku ASÍ í stefnumörkun í landbúnaði verið hafnað og þannig hefur helstu forsendum verið kippt undan störfum fulltrúa ASÍ í verðlagsnefndum landbúnaðarins. ASÍ verður því óhjákvæmilega að endurmeta ákvarðanir um þátttöku samtakanna í þessum nefndum.“
     Í umsögn Vinnuveitendasambands Íslands segir m.a.:
    „Segja má að vandi sauðfjárræktarinnar sé af þrennum toga. Í fyrsta lagi hefur neysla og sala kindakjöts dregist verulega saman á síðustu árum og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Í öðru lagi hefur framleiðslan ekki aðlagað sig að þessum breyttu aðstæðum á markaði og hafa verulegar birgðir safnast upp. Í þriðja lagi hafa ekki orðið nauðsynlegar skipulagsbreytingar í sauðfjárframleiðslu sem hefur haft í för með sér að bændum hefur ekki fækkað en búin hafa þess í stað minnkað og tekjur bænda dregist verulega saman. Þetta er í hnotskurn sá vandi sem stjórnvöld og bændur standa frammi fyrir. Sá samningur, sem undirritaður var 1. október sl., er ekki lausn vandans heldur bætir þar frekar á.“
    „Lagafrumvarpið setur enn fremur takmarkanir á viðskipti með greiðslumark, en þau verða bönnuð eftir 1. júlí 1996. Með þessu er loku skotið fyrir að hagræðing geti átt sér stað með hjálp markaðarins, þ.e. að þeir sem framleiða á hvað hagkvæmastan hátt geti keypt aðra bændur út úr framleiðslunni og búin þannig náð hagkvæmari stærð.“
    „Sjötta grein frumvarpsins kveður á um að bændur verði skyldaðir að taka þátt í útflutningi án þess þó að nokkrar markaðslegar forsendur séu sýnilegar fyrir þeim viðskiptum. Þar sem bændur bera sameiginlega ábyrgð á útflutningi mun hver bóndi fyrir sig framleiða upp í þá skerðingu sem hann verður fyrir vegna framleiðslu annarra. Þetta hvetur til meiri framleiðslu, fjölgunar sauðfjár og meiri beitar. Taki útflutningsmarkaður ekki við því magni sem ætlast er til, safnast birgðir upp á nýjan leik. Þetta er einn stærsti gallinn í frumvarpinu því býlin hafa á síðustu árum sætt niðurskurði framleiðsluheimilda og hafa nú mikla ónýtta framleiðslugetu og þarf því lítinn hvata til að leysa hana úr læðingi. Sameiginleg ábyrgð á útflutningi gengur þvert gegn markmiðum samningsins um að stuðla að jafnvægi milli framleiðslu og sölu og fjölgun búfjár gegn markmiðum um umhverfisvernd.“
    Eins og sjá má af framangreindum umsögnum er gagnrýnin mjög mikil á frumvarpið og skýra umsagnirnar vel galla þess.
    Sérstök ástæða er til að geta þess að landbúnaðarnefnd óskaði eftir umsögn Seðlabanka Íslands um frumvarpið. Að mati nefndarinnar er frumvarpið mjög mikilvægt enda varðar það heila atvinnugrein og gerir ráð fyrir um 12 milljarða kr. greiðslum úr ríkissjóði á samningstímanum. Nefndinni fannst því líklegt að Seðlabanki Íslands gæti lagt mat á þætti eins og þjóðhagsleg áhrif samningsins, væntanlegar útflutningstekjur, áhrif á framleiðni innan greinarinnar, áhrif á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, mat á samkeppnisstöðu gagnvart öðrum atvinnugreinum o.fl. sem ekki er tíundað þegar beðið er um umsagnir opinberra aðila. Í svari sem barst frá bankastjórn Seðlabankans segir m.a.: „Efni frumvarpsins fellur utan verksviðs Seðlabankans og telur hann því ekki ástæðu til þess að veita umsögn um það.“
    Þrátt fyrir ítrekanir formanns landbúnaðarnefndar hélt bankastjórnin sig við fyrri afstöðu. Að mati 1. minni hluta er þetta ámælisverð afstaða af hálfu opinberrar stofnunar sem gefur sig út fyrir að veita álit um ýmislegt sem varðar þjóðarhag og rekstur einstakra atvinnuvega. Þessi afstaða Seðlabankans gefur tilefni til að endurmeta þann þátt í starfsemi Seðlabankans sem snýr að efnahagsrannsóknum opinberra aðila úr því ekki er hægt að veita umsögn um þetta mikilvæga mál þegar löggjafinn óskar eftir því og slík umsögn er talin utan verksviðs bankans. Hér gildir þá líklega hið sama um aðra mikilvæga samninga, svo sem nýgerðan álverssamning. 1. minni hluti nefndarinnar vill vekja sérstaka athygli á þessum þætti í umfjöllun nefndarinnar.

Æskileg efnisatriði í búvörusamningi.
    Eftirtalin atriði eru nauðsynleg í nýjum búvörusamningi að mati 1. minni hluta nefndarinnar og er þar byggt m.a. á áliti ýmissa aðila sem fjölluðu um samninginn, svo sem aðila vinnumarkaðarins, Neytendasamtakanna, sláturleyfishafa, Þjóðhagsstofnunar, Hagþjónustu landbúnaðarins og Hagfræðistofnunar.
    Beingreiðslur verði ekki verðtryggðar. Þessa tillögu hafa fjölmargir aðilar gert, m.a. Neytendasamtökin og verkalýðshreyfingin.
    Greiða á meira við uppkaup, t.d. 7.000 kr. á hverja á, til að gera það fjárhagslega hagkvæmara fyrir bændur að selja bústofn sinn en frumvarpið gerir ráð fyrir 5.500 kr. Þetta er í samræmi við tillögu aðila vinnumarkaðarins.
    Keypt verði allt að 60.000 ærgildi á þessu og næsta ári til að draga úr framleiðslu en frumvarpið gerir ráð fyrir 30.000 ærgildum. Þessi tillaga er í samræmi við tillögu aðila vinnumarkaðarins.
    Beingreiðslur verði ekki jafnar, þ.e. 1.480 milljónir kr. á ári, heldur minnki síðari hluta tímabilsins. Hér er um aðlögðun að neyslu á innlendum markaði að ræða.
    Fjármagn verði tryggt til Jarðasjóðs þannig að hann hafi getu til að fjármagna kaup á bújörðum.
    Heimilt verði að stunda viðskipti með greiðslumark eftir 1. júlí 1996 en bann við því mun tefja fyrir hagkvæmni í greininni. Þessi tillaga er m.a. gerð af ASÍ.
    Verðlagning á landbúnaðarafurðum verði rýmkuð þannig að innan tveggja ára muni samkeppnislög gilda um sölu landbúnaðarafurða eins og um aðra framleiðslu. Þessi tillaga er einnig gerð af aðilum vinnumarkaðarins.
    Fullorðnum bændum verði gefinn kostur á að öðlast meiri rétt til eftirlauna en nú er, kjósi þeir að hætta búskap.
    Nauðsynlegt er að mótaðar séu reglur um hagræðingu afurðastöðva. Þessi tillaga er m.a. gerð af Landssamtökum sláturleyfishafa.
    Ákvæði um verðjöfnun, m.a. fyrir útflutning, ganga of langt í samningnum og frumvarpinu. Þetta er m.a. ábending frá Landssambandi sláturleyfishafa, Hagfræðistofnun og Hagþjónustu landbúnaðarins því að talið er að þetta ákvæði virki ekki hvetjandi á afurðastöðvar til markaðsstarfs erlendis.
    Greiðslur geymslu- og vaxtakostnaðar verði þrepaðar niður á samningstímanum.
    
    Ef um kaup á bústofni verður að ræða af opinberum aðilum er eðlilegt að tryggt verði að um tiltekinn tíma verði ekki sauðfjárbúskapur á viðkomandi jörð.
    Hvatt er til svipaðs fyrirkomulags í útflutningi landbúnaðarafurða og gefist hefur vel við útflutning sjávarafurða.
    Hér að framan hefur verið drepið á ýmsar tillögur sem 1. minni hluti nefndarinnar telur að horfi mjög til bóta við samningsgerð milli sauðfjárbænda og ríkisvaldsins. Ef samningurinn yrði lagfærður í þessa átt og samkomulag næst um það við saufjárbændur og aðra aðila þá er það mat 1. minni hluta að það þurfi ekki að taka langan tíma að afgreiða málið á Alþingi. Fyrrgreind atriði mundu ná því markmiði að laga sauðfjárræktina að eðlilegu viðskiptaumhverfi og gera kleift að sátt náist um þennan mikilvæga málaflokk.

Lokaorð.
    Eins og af framsögðu er ljóst þá þarf bæði samningurinn og frumvarpið að taka ýmsum breytingum. 1. minni hluti landbúnaðarnefndar leggur sérstaka áherslu á að fjármunum sé betur varið og kerfið gert skilvirkara og feli í sér framtíðarsýn fyrir sauðfjárbændur og neytendur.
    Fyrsti minni hluti landbúnaðarnefndar telur frumvarpið svo gallað að ekki sé hægt að lögfesta ákvæði þess. Hefjast þurfi handa við að semja að nýju við Bændasamtökin og heitir 1. minni hluti liðsinni sínu við þá samningsgerð. Jafnframt bendir 1. minni hluti á nauðsyn þess að meira tillit verði tekið til sjónarmiða aðila vinnumarkaðarins, neytendasamtaka o.fl. við þá samningsgerð.
    Í ljósi þessa leggur 1. minni hluti landbúnaðarnefndar til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk framangreindu minnihlutaáliti.

Alþingi, 29. nóv. 1995.



Ágúst Einarsson,

Lúðvík Bergvinsson.


frsm.