Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 96 . mál.


253. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund frá landbúnaðarráðuneytinu Jón Erling Jónasson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, og skrifstofustjórana Guðmund Sigþórsson og Jón Höskuldsson. Þá komu til fundar við nefndina Ari Teitsson formaður og Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, Baldvin Jónsson, verkefnastjóri Áforms, Gísli Karlsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Steinþór Skúlason, forstjóri SS, Pálmi Guðmundsson, kaupfélagsstjóri KASK, Helgi Óskar Óskarsson, framkvæmdastjóri Kjötumboðsins, og Þorgeir B. Hlöðversson, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Þingeyinga.
    Enn fremur komu á fund nefndarinnar Jóhannes Jónsson frá Bónus sf., Júlíus Jónsson frá Kaupmannasamtökunum, frá Neytendasamtökunum Jóhannes Gunnarsson formaður og Þuríður Jónsdóttir varaformaður, Erna Bjarnadóttir og Jónas Bjarnason frá Hagþjónustu landbúnaðarins, Tryggvi Þór Herbertsson og Jón Þór Sturluson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri og Guðni Níels Aðalsteinsson hagfræðingur frá VSÍ, Árni Benediktsson, formaður Vinnumálasambandsins, frá ASÍ Ingibjörg R. Guðmundsóttir varaforseti og Guðmundur Gylfi Guðmundsson hagfræðingur, frá BHMR Páll Halldórsson formaður og frá Verslunarráði Íslands Birgir Ármannsson lögfræðingur.
    Loks komu á fund nefndarinnar prófessor Eiríkur Tómasson, Tryggvi Gunnarsson hrl. og Stefán H. Jóhannesson sendiráðunautur frá utanríkisráðuneytinu.
    Nefndin fékk sendar umsagnir um frumvarpið frá Samtökum sláturleyfishafa, Framleiðsluráði landbúnaðarins, Hagþjónustu landbúnaðarins, Hagfræðistofnun háskólans, viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Þjóðhagsstofnun, Verslunarráði Íslands, Neytendasamtökunum, Vinnumálasambandinu, BHMR, ASÍ og VSÍ.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:
    Lögð er til sú breyting á 4. gr. frumvarpsins að felld verði brott tilvísun í bókun með samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 30. gr. laganna.
    Lagt er til að kveðið verði á um að innheimt skuli verðskerðingargjald af kindakjöti í 5. gr. frumvarpsins, en það ákvæði breytir 21. gr. laganna, og að gjaldið skuli nema 3% af úrvinnslu- og heildsölukostnaði kindakjöts hjá afurðastöð. Hér er kveðið á um greiðsluskyldu í stað heimildar og einnig hversu hátt gjaldið skuli vera. Í því sambandi er vísað til ákvæðis 20. gr. laganna sem einnig er lagt til að verði breytt. Þá er lagt til að kveðið verði á um að innheimta skuli af verði til framleiðenda sérstakt gjald af kindakjöti sem fari til útflutnings. Þessar breytingar eru lagðar til þar sem gjöld þessi teljast skattar og því er ekki unnt að framselja skattlagningarvald til ráðherra með heimildarákvæðum. Vísast hér til ákvæða 77. gr. stjórnarskrárinnar. Kveða verður með ótvíræðum hætti á um hvort innheimta skuli framannefnd gjöld með lögum og síðan við hvað skuli miða þegar upphæðir eru reiknaðar út. Lagt er til að öðrum ákvæðum laganna en 20. og 21. gr. verði einnig breytt með tilliti til framangreinds, þ.e. ákvæðum um ákvörðun um innheimtu verðmiðlunargjalds skv. 19. gr. og innheimtu 0,25% gjalds til að standa straum af kostnaði Framleiðsluráðs landbúnaðarins skv. 25. gr. Ákvörðun um 30 kr. gjaldtöku á því einungis við um útflutning á óunnu kindakjöti, hvort heldur er í heilum skrokkum eða niðurhlutuðum, og mun því ekki íþyngja útflutningi á unnum kjötvörum sbr. 27. gr. laganna sem kveður á um heimildir ráðherra um endurgreiðslu þessara gjalda.
    Þá eru lagðar til breytingar á 6. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er tekið á því með skýrari hætti hvernig skilaverð til framleiðenda fyrir það kjöt sem þeir selja til útflutnings er fengið. Í öðru lagi er kveðið á um að landbúnaðarráðherra skuli fyrir 1. september ár hvert ákveða hlutfall þess kindakjöts sem flytja skal á erlendan markað, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands, og að sú ákvörðun geti gilt fyrir allt að tólf mánaða framleiðslu- og sölutímabil. Einnig er lagt til að ráðherra verði nú skylt að setja reglugerð um skipulag útflutnings og er þar um mikilvægt nýmæli að ræða. Í þriðja lagi eru tekin af öll tvímæli um það hverjum sé skylt að leggja til kjöt til útflutnings, hverjir þurfi að sæta útflutninguppgjöri og hverjir séu undanþegnir slíku uppgjöri.
    Lagt er til að í 9. gr. frumvarpsins verði tekið fram að beingreiðslumark sauðfjárafurða skuli nema 1.480 millj. kr. á hverju almanaksári frá og með 1. janúar 1996. Þá er lagt til að felld verði niður verðtryggingarheimild. Ekki er talin ástæða til að hafa í lögum ákvæði um verðtryggingu einstakra atriða samnings um framleiðslu sauðfjárafurða, svo sem á upphæð beingreiðslna, þar sem skýr ákvæði er að finna í samningnum um að allar fjárhæðir skuli miðaðar við verðlag 1. október 1995 og að þær taki breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs eins og segir orðrétt í kafla 6.3 í samningnum um greiðslutilhögun. Ljóst er að stjórnvöld eru bundin af því ákvæði þó að ekki sé að finna ákvæði um verðtryggingu í lögum. Þá er og lagt til að ákvæði um endurskoðunarheimild aðila að samningi um framleiðslu sauðfjárafurða verði fellt brott, en sú heimild er til staðar í samningnum.
    Þá er og lagt til að 11. gr. frumvarpsins verði breytt og taka breytingarnar í fyrsta lagi til þess að valdið til að ákveða ásetningshlutfall árlega skuli vera í höndum ráðherra en ekki framkvæmdanefndar búvörusamninga og það sé einnig ráðherra að semja við bændur um lækkun slíks hlutfalls. Í öðru lagi eru felld brott verðtryggingarákvæði og vísast þar til 4. liðar hér að ofan. Þá er í þriðja lagi lagt til að fellt verði brott ákvæðið um að réttur til beingreiðslna falli niður þegar 70 ára aldri er náð.
    Breytingar á 13. gr. frumvarpsins fela í sér viðbætur sem miða að því að skýra af hverju landbúnaðarráðherra skuli taka mið við úthlutun á greiðslumarki sem losnar með samningum um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki og um búskaparlok.
    Loks er lagt til að 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. laganna haldi gildi sínu til 16. desember 1995 því að gert er ráð fyrir að fullnaðargreiðslu haustgrundvallarverðs (verð ákveðið 1. september) fyrir sauðfjárafurðir sem lagðar eru inn í haustsláturtíð 1995 beri að greiða eigi síðar en 15. desember. Þá er lagt til að felldar verði brott 22. og 23. gr. laganna, þar sem þau ákvæði eru nú óþörf. Enn fremur er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða er mæla fyrir um innheimtu 10% verðjöfnunargjalds fyrir afurðir frá sláturtíð 1995 og innheimtu 3% verðskerðingargjalds árin 1996 og 1997 til viðbótar því gjaldi sem innheimta skal skv. 20. og 21. gr. laganna.
    Með hliðsjón af framangreindum breytingartillögum lýsti Ari Teitsson, formaður Bændasamtaka Íslands, því yfir við landbúnaðarnefnd að hann muni leggja til að stjórn Bændasamtakanna og Búnaðarþing samþykki þær breytingar sem gera þarf á samningi um framleiðslu sauðfjárafurða vegna þeirra tillagna um breytingar á búvörulögum sem meiri hlutinn kynnti á fundi nefndarinnar 29. nóvember 1995.

Alþingi, 29. nóv. 1995.



Guðni Ágústsson,

Egill Jónsson.

Hjálmar Jónsson,


form., frsm.

með fyrirvara.



Magnús Stefánsson.

Guðjón Guðmundsson.

Árni M. Mathiesen,


með fyrirvara.