Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 217 . mál.


296. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 131/1990, um Háskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    6. og 7. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
    Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald, 24.000 kr. Upphæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Háskólaráði er heimilt að ráðstafa allt að 13% af gjaldinu til Félagsstofnunar stúdenta og allt að 10% til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli Háskólans og stúdentaráðs Háskóla Íslands sem háskólaráð staðfestir. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan skrásetningartímabila.
    Þeir teljast einir stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms. Í reglugerð má kveða nánar á um árlega skrásetningu stúdenta.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Háskólaárið 1995–96 greiðir Háskóli Íslands stúdentaráði 2.175 kr. vegna hvers skráðs stúdents.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt að ósk Háskóla Íslands á grundvelli samþykktar háskólaráðs 24. ágúst 1995.
    Breyting á 21. gr. laga um Háskóla Íslands samkvæmt frumvarpinu lýtur að því að treysta lagagrundvöll undir töku skrásetningargjalds af stúdentum Háskóla Íslands. Er slík breyting nauðsynleg í ljósi álits umboðsmanns Alþingis, máls nr. 836/1993, dags. 19. maí 1995, þar sem fram kemur að skrásetningargjaldið er talið þjónustugjald og ekki nægilega skýrt í gildandi lögum hvaða kostnaðarliði megi fella þar undir og hvernig megi ráðstafa gjaldinu. Sértekjur, sem Háskólinn aflar með skrásetningargjaldi, þurfa þannig að hafa skýra lagastoð og hið sama gildir um ráðstöfun hluta þeirra til annarra aðila en Háskólans sjálfs. Í framhaldi af álitinu mæltist menntamálaráðherra til þess við háskólaráð að Háskóli Íslands gerði tillögu um breytingu á háskólalögum til að treysta lagagrunn undir töku skrásetningargjalds. Tillaga þessa efnis var samþykkt í háskólaráði 24. ágúst 1995 og barst menntamálaráðuneytinu 4. september 1995. Hún tekur til 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Menntamálaráðuneytið féllst á tillögu Háskólans en gerði á henni breytingar að því er varðar árlega endurskoðun gjaldsins við setningu fjárlaga og stöðu stúdentaráðs. Ráðuneytið telur eðlilegt að samið sé við stúdentaráð Háskóla Íslands um að það sinni sérstökum verkefnum fyrir Háskóla Íslands og til þess sé varið hluta skrásetningargjalda til skólans. Í tillögu ráðuneytisins er tekið mið af því að í drögum að samningi háskólaráðs og stúdentaráðs, sem fylgja tillögu Háskóla Íslands, kemur fram að umsamin verkefni eru ekki öll á starfssviði stúdentaráðs heldur einnig Stúdentaskiptasjóðs. Í tillögu ráðuneytisins er tekið mið af sjálfstæði stúdentaráðs sem samningsaðila en í bréfi ráðuneytisins til stúdentaráðs frá 14. ágúst 1995 segir að stúdentaráð sé félagsskapur stúdenta sem komi fram fyrir þeirra hönd í samskiptum við menntamálaráðuneytið. Telur ráðuneytið að tryggja beri stjórnarskrárverndaðan rétt manna til að standa utan félaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Breytingin á 21. gr. laga um Háskóla Íslands, sem hér er lögð til, hefur eins og fyrr greinir þann tilgang að styrkja lagastoð skrásetningargjalds.
    1. mgr. varðar skrásetningargjald og kemur í stað ákvæða þar um í gildandi 1. mgr. og 7. mgr. Gildandi gjaldheimild 1. mgr. 21. gr. laganna er of þröng að mati umboðsmanns Alþingis, þar sem líta verði á skrásetningargjaldið sem þjónustugjald sem verður að eiga sér beina stoð í lögum. Óheimilt er að taka hærra þjónustugjald en almennt nemur kostnaði við að veita þá þjónustu sem kveðið er á um í gjaldtökuheimildinni, í þessu tilviki skrásetningu. Hugtakið skrásetningargjald er því of þröngt til að fella megi undir það ýmsa kostnaðarliði sem mæta þarf í rekstri Háskólans, en grundvallarþýðingu hefur að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verða undir skrásetningargjaldið þegar metið er hversu hátt þetta þjónustugjald megi vera. Skrásetningargjaldið er bókfært hjá yfirstjórn Háskólans í samræmi við fjárlög og stendur undir hluta kostnaðar við háskólastarfið. Þar má sem dæmi nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu stúdenta í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum Háskólans.
    Grunngjaldið, sem miðað er við í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins, 24.000 kr., er framreiknuð sú upphæð sem Háskólinn innheimti fyrir háskólaárið 1992–93. Upphæð gjaldsins mun síðan koma til árlegrar endurskoðunar við setningu fjárlaga. Heimildin til að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila er nauðsynleg til að mæta viðbótarkostnaði vegna aukinnar vinnu við innheimtu og óvissu sem skapast við endanlegt skipulag og framkvæmd kennslu komandi háskólaárs. 15% álagið á grunngjaldið miðast við áætlaða meðaltalsupphæð sem standa á undir hinum aukna kostnaði sem af þeim stúdentum hlýst sem ekki sinna skráningu á auglýstum tímabilum. Miðað er við meðaltalskostnað til einföldunar í stað þess að reikna þurfi út kostnað á stúdent í hverju einstöku tilviki. Gæta verður að því að stúdentar njóta ekki þeirra réttinda sem skráningu fylgja fyrr en að greiddu gjaldinu. Síðbúnar breytingar á nemendaskrá og fjölda stúdenta í einstökum námskeiðum leiða af sér allmikla aukna vinnu í stjórnsýslu Háskólans sem kostnaður verður af.
    Kveðið er skýrt á um ráðstöfun skrásetningargjaldsins til Háskólans, Félagsstofnunar stúdenta og stúdentaráðs Háskóla Íslands, en ráðstöfun hluta skrásetningargjaldsins til stúdentaráðs styðst ekki við lög að óbreyttu samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis. Skrásetningargjaldið, sem Háskólinn innheimtir, er eitt og óskipt gjald, skilgreint sem sértekjur. Í samræmi við fjárhagslegt sjálfstæði Háskólans er honum í sjálfsvald sett hvernig hann ráðstafar tekjum sínum, en sérstaka heimild þarf til að ráðstafa tekjum til annarra aðila en Háskólans sjálfs. Heimild til að ráðstafa hluta skrásetningargjalds til Félagsstofnunar stúdenta er þegar til staðar í lögum nr. 33/1968, um Félagsstofnun stúdenta, og í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er sett heimildarákvæði um ráðstöfun hluta gjaldsins til stúdentaráðs samkvæmt samningi á milli stúdentaráðs og Háskólans um þau verkefni sem stúdentaráði er ætlað að sinna. Sýnishorn draga að slíkum samningi fylgir með frumvarpi þessu, sbr. fylgiskjal I.
    Framlag Háskólans til stúdentaráðs er grundvallað á sömu rökum og undanfarna áratugi. Stúdentar skulu hafa umsjón með nauðsynlegri starfsemi í háskólasamfélaginu og lýðræðislega kjörið stúdentaráð er ákjósanleg leið til að gera það markmið að veruleika. Ekki er um það að ræða að með þessu innheimti Háskólinn félagsgjöld stúdentaráðs af stúdentum, heldur ráðstafar hann hluta sértekna sinna til starfsemi þeirra samkvæmt samningi við stúdentaráð.
    Í frumvarpinu er lagt er til að heiti gjaldsins verði óbreytt. Hugtakið skrásetningargjald hefur frá öndverðu verið notað yfir þau gjöld sem nemendum er ætlað að greiða ár hvert við skrásetningu í Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 35/1909. Þannig var heiti gjaldsins til dæmis ekki breytt þótt það hafi verið tilgangur 1. tölul. 4. gr. laga nr. 33/1968, um Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands, að í orðinu skrásetningargjöld fælist einnig sjálfstætt gjald til Félagsstofnunar. Háskóli Íslands hefur ávallt litið svo á að undir skrásetningargjald falli þeir gjaldaliðir sem samkvæmt hefð og venju hafa verið innheimtir í áratugi við Háskóla Íslands. Þetta má enn fremur ráða af gildandi 7. mgr. 21. gr. laga um Háskóla Íslands, sem kom inn í lög um Háskóla Íslands, nr. 77/1979, þar sem segir að skrásetningargjöld skuli háð samþykki háskólaráðs og menntamálaráðherra.
    2. mgr. er að efni sömu merkingar og gildandi 6. mgr. 21. gr. laganna.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Nauðsynlegt er að hafa ákvæði til bráðabirgða sem heimilar Háskólanum að ráðstafa hluta skrásetningargjalds til stúdentaráðs vegna háskólaársins 1995–96 sem hófst 5. september 1995. Innheimta skrásetningargjalds hefur þegar farið fram, en ekki er unnt að ráðstafa hluta þess til stúdentaráðs án lagastoðar. Upphæðin sem um ræðir, 2.175 kr. vegna hvers skráðs stúdents, er sú upphæð sem háskólaráð samþykkti að rynni til stúdentaráðs á fundi sínum 17. mars 1994.


Fylgiskjal I.


Drög að samningi Háskóla Íslands og stúdentaráðs Háskóla Íslands.


    Háskóli Íslands og stúdentaráð Háskóla Íslands gera með sér svofelldan samning í samræmi við 21. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 131/1990, sbr. lög nr. xx/1995.:

I.


    Stúdentaráð (SHÍ) tekur að sér að skipuleggja þátttöku stúdenta í starfsemi Háskólans, sbr. nánari ákvæði í samningi þessum. Allir skráðir stúdentar hafa kosningarrétt og kjörgengi til ráðsins. Samingsaðilar eru sammála um að stúdentaráð beri ábyrgð á nauðsynlegri þátttöku stúdenta í háskólasamfélaginu og gæti hagsmuna þeirra.

II.


    Háskóli Íslands greiðir SHÍ sem svarar allt að 2.500 kr. af upphæð skrásetningargjalds ár hvert, sbr. ákvæði 21. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, og lög nr. xx/1995.

III.


    Að minnsta kosti 30% af framlögum Háskólans til SHÍ renna í Stúdentasjóð, sem styrkir starfsemi deildar-, skorar- og stúdentaskiptafélaga innan Háskólans. Að öðru leyti er fjármunum sem stúdentaráð fær frá Háskólanum varið til að greiða kostnað við rekstur skrifstofu ráðsins, svo sem launakostnað tveggja starfsmanna, ljósritun, síma og fleira. Í kostnaði við rekstur skrifstofunnar felast einkum eftirfarandi liðir:
—    Atvinnumiðlun námsmanna.
—    Húsnæðismiðlun stúdenta.
—    Réttindaskrifstofa stúdenta.
—    Barnagæslumiðlun stúdenta.
—    Kennslumiðlun stúdenta.
—    Nýsköpunarsjóður námsmanna.
—    Stúdentasjóður.
—    Stúdentablaðið.

IV.


    Kjörnefnd á vegum stúdentaráðs hefur umsjón með árlegri kosningu fulltrúa stúdenta í háskólaráð.

V.


    Samningur þessi skal endurskoðaður í mars ár hvert áður en til innheimtu skrásetningargjalds kemur.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


lögum um Háskóla Íslands, nr. 131/1990.


    Frumvarpið felur í sér styrkari lagastoð fyrir innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalda Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að frumvarpið hafi ekki áhrif á fjárhag ríkissjóðs.