Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 219 . mál.


298. Tillaga til þingsályktunar



um loftpúða í bifreiðum.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson, Guðni Ágústsson, Hjálmar Árnason.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að því að veittur verði afsláttur af vörugjaldi bifreiða sem búnar eru sérstökum loftpúðum í öryggisskyni.

Greinargerð.


    Loftpúðar í bifreiðar voru fundnir upp í Bandaríkjunum fyrir meira en 50 árum. Hugmyndin var síðan endurvakin á síðasta áratug er Bandaríkjamenn hófu að leita nýrra leiða til að draga úr afleiðingum umferðarslysa. Evrópskir bílaframleiðendur fóru á sama tíma að huga að því hvernig hægt væri að koma í veg fyrir aukinn fjölda hálsáverka sem leiddi af almennari notkun öryggisbelta og hófu í framhaldi af því að þróa loftpúðakerfið.
    Í stuttu máli virka loftpúðarnir þannig að bak við fremri stuðara eða á öðrum hentugum stað eru skynjarar sem bregðast við árekstri. Yfirleitt er miðað við árekstur sem verður á meiri hraða en 20–30 km á klst. Púðinn, sem komið er fyrir í stýri bílsins, er blásinn upp með gasi og fyllist hann á u.þ.b. 0,02 sek. eða í tæka tíð til að taka við högginu sem verður þegar höfuð ökumannsins skellur á stýri bílsins. Til þess að forða því að höfðuð ökumannsins kastist til baka þegar það lendir á púðanum byrjar gasið að leka úr honum strax eftir að hann hefur fyllst. Tilraunir hafa sýnt að púðarnir bregðast nánast aldrei, þeir fyllast nær undantekningarlaust af gasi ef árekstur er nægilega harður.
    Víða um lönd hafa nú þegar verið settar reglur um að allir nýir bílar skuli búnir loftpúðum, svo sem í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Hollandi. Í áætlun sem fjöldi alþjóðlegra bílaframleiðanda tók þátt í að gera er talið að árið 2000 verði komnir loftpúðar í alla bíla í Bandaríkjunum, í 60% bíla í Japan og í 70% bíla í Evrópu.
    Rannsóknir sýna að notkun loftpúða dregur verulega úr fjölda alvarlegra áverka af völdum umferðarslysa. Þannig hefur reynslan af notkun loftpúða í Bandaríkjunum leitt í ljós að dauðaslysum fækkar um 20%. Gildir það bæði um þá sem nota öryggisbelti og enn frekar þá sem ekki spenna beltin. Rannsókn á tíðni meðal- og alvarlegra áverka í umferðinni í Bandaríkjunum árið 1991 sýndi að slíkir áverkar voru 25–29% færri meðal ökumanna í bifreiðum af árgerð 1990 sem búnar voru loftpúðum en meðal ökumanna í bifreiðum af sömu árgerð sem einungis voru búnar bílbeltum. Innlagnir á sjúkrahús voru 24% færri meðal ökumanna í bifreiðum sem búnar voru loftpúðum. Þannig eru loftpúðar þýðingarmikill öryggisbúnaður til viðbótar við öryggisbelti.
    Flestir eru sammála um að nauðsynlegt sé að hafa loftpúða í öllum bifreiðum í framtíðinni. Eins og lögum er nú háttað hækkar öryggisbúnaður eins og loftpúðar bílverð verulega. Afsláttur af vörugjaldi bifreiða sem búnar eru loftpúðum ætti að vera sjálfsagt mál. Með slíkum afslætti aukast líkur á örari útbreiðslu loftpúða í bifreiðum. Þó að tekjur ríkissjóðs skerðist sem nemur afslættinum af vörugjaldinu skila þeir peningar sér margfaldlega í minni kostnaði af völdum umferðarslysa.