Ferill 221. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 221 . mál.


300. Frumvarp til laga



um breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, sbr. lög nr. 50/1995.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Í stað orðanna „skipulagningu nýrra svæða“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: alla skipulagsgerð.

2. gr.

    3. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Veðurstofa Íslands skal annast gerð hættumats skv. 2. gr. á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða.
    Reglur um notkun á hættumati, flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra, svo og gerð varnarvirkja, skulu settar af umhverfisráðherra, að höfðu samráði við Veðurstofuna.
    Almannavarnir ríkisins skulu annast gerð neyðaráætlana og sjá um leiðbeiningar og almenningsfræðslu um hættu af ofanflóðum í samvinnu við Veðurstofuna.

3. gr.

    4. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Þegar Veðurstofa Íslands gefur út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsir yfir hættuástandi skal fólk flutt á brott úr öllu húsnæði á svæðum, sem tilgreind skulu í viðvörun Veðurstofunnar, í samræmi við gildandi neyðaráætlun. Svæði þessi skulu afmörkuð á sérstökum uppdráttum sem Veðurstofan skal sjá um að gera á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða. Skulu uppdrættirnir staðfestir af umhverfisráðherra og kynntir Almannavörnum ríkisins og almannavarnanefndum á hlutaðeigandi stöðum.
    Lögreglustjóri og almannavarnanefnd sjá um að rýma húsnæði skv. 1. mgr. og má beita valdi í því skyni ef þörf krefur. Á meðan hættuástand varir er öll umferð bönnuð um það svæði, sem rýmt hefur verið, nema með sérstöku leyfi lögreglustjóra.
    Veðurstofan tekur ákvörðun um það hvenær hættuástandi skuli aflétt, að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefndir.

4. gr.

    6. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Veðurstofa Íslands skal ráða starfsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af snjóflóðum og/eða skriðuföllum í þeim umdæmum þar sem þörf er á slíkum athugunum. Veðurstofan skal hafa samráð við hlutaðeigandi lögreglustjóra við ráðningu þessara starfsmanna.

5. gr.

    7. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Sveitarstjórn lætur, að fengnu samþykki nefndar skv. 8. gr., gera tillögu að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem byggð eru eða byggð verða samkvæmt aðalskipulagi.
    Sé hagkvæmara talið, til að tryggja öryggi íbúa gagnvart ofanflóðum, er sveitarstjórn heimilt að gera tillögu um að kaupa eða flytja húseignir í stað annarra varnaraðgerða sem ofanflóðasjóður fjármagnar að hluta eða öllu leyti samkvæmt þessum lögum.
    Greiðsla úr sjóðnum miðast við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Við ákvörðun þess skal ekki tekið tillit til hækkunar á markaðsverði sem rekja má til ákvörðunar um kaup á húseignum á hættusvæði.
    Heimilt er að miða greiðslu úr sjóðnum við framreiknað kaupverð húseignar, sem keypt hefur verið á síðustu árum, ásamt mati á kostnaði núverandi eiganda af endurbótum hennar, ef fyrir liggur að staðsetning húseignar á hættusvæði eða í námunda við það hefur haft áhrif til lækkunar markaðsverðs.
    Eigi húseigandi ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups og byggi hann nýja húseign í sveitarfélaginu til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína er heimilt að miða greiðslu úr sjóðnum við brunabótamat vátryggingafélags sem í gildi var á þeim tíma þegar ofanflóð féll. Sé ákveðið að inna greiðslu af hendi vegna yfirvofandi hættu, án þess að flóð hafi fallið, er við sömu aðstæður heimilt að miða hana við brunabótamat vátryggingafélags sem í gildi var við síðustu áramót. Sé brunabótamat hærra en endurstofnverð húseignar, að frádregnum afskriftum vegna aldurs og byggingarefnis eignarinnar, skal greiðsla miðast við endurstofnverð sem þannig er reiknað.
    Sjóðurinn greiðir ekki fyrir kaup á húseign, sem unnt er að flytja, nema heildarkostnaður við flutning sé hærri en staðgreiðslumarkaðsverð.
    Hlutaðeigandi sveitarsjóður verður eigandi húseigna sem keyptar eru samkvæmt þessari grein.
    Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi.
    Ekki má hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð, sem fyrir er á hættusvæðum, fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.

6. gr.

    8. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Tillaga sveitarstjórnar skv. 7. gr. ásamt framkvæmda- og kostnaðaráætlun skal lögð fyrir þriggja manna nefnd, skipaða fulltrúum umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fallist nefndin á tillöguna öðlast sú ákvörðun gildi að fenginni staðfestingu umhverfisráðherra.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um störf nefndar skv. 1. mgr.

7. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 11. gr. laganna:
    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: umhverfisráðherra.
    Við 2. tölul. 1. mgr. bætist: skv. 3. gr. og uppdrátta skv. 4. gr.
    Í stað orðanna „má allt að 100% af kostnaði“ í fyrri málslið 3. tölul. 1. mgr. kemur: skal allan kostnað.
    Í stað orðanna „hönnun og auka nýtingu“ í síðari málslið 3. tölul. 1. mgr. kemur: hættumat og hönnun.
    1. málsl. 2. mgr. hljóðar svo: Umhverfisráðherra ákveður úthlutun úr ofanflóðasjóði að fengnum tillögum Veðurstofu Íslands, þegar um er að ræða úthlutun skv. 1.–3. tölul., en að fengnum tillögum nefndar skv. 8. gr., þegar um er að ræða úthlutun skv. 4.–5. tölul.

8. gr.

    Í stað orðanna „ofanflóðanefndar, sbr. 4. gr.“ í 13. gr. laganna kemur: nefndar skv. 8. gr.

9. gr.

    Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 14. gr. laganna kemur: Umhverfisráðherra.

10. gr.

    Á eftir 14. gr. laganna bætist við ný grein er hljóðar svo:
    Endurskoða skal lög þessi á árinu 1996 og skal stefnt að því að frumvarp til nýrra laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í desembermánuði 1996.

11. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
    Starfsmenn þeir, sem ráðnir hafa verið af lögreglustjórum skv. 6. gr. laganna, skulu sjálfkrafa verða starfsmenn Veðurstofu Íslands, enda skulu laun þeirra og önnur kjör ekki verða lakari við þá breytingu en um hefur verið samið.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í kjölfar umræðna í ríkisstjórn um að stjórnsýsla varna gegn snjóflóðum og skriðuföllum væri óþarflega flókin samkvæmt gildandi lögum skipaði forsætisráðherra nefnd til að semja frumvarp til laga um breytingar á samnefndum lögum.
    Í nefndina voru skipuð: Eiríkur Tómasson prófessor, formaður, Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri, tilnefnd af félagsmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri, tilnefndur af umhverfisráðherra, og Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðherra. Ritari nefndarinnar hefur verið Kristján Andri Stefánsson fulltrúi í forsætisráðuneytinu.
    Upphaflega var nefndinni falið að gera tillögur sem tryggðu að vald og ábyrgð færu saman á þessu sviði stjórnsýslunnar. Í kjölfar snjóflóðsins, sem féll á byggðina á Flateyri 26. október sl., var nefndinni jafnframt falið að gera tillögur að nauðsynlegum breytingum á lögunum til að tryggja öryggi fólks, eftir því sem kostur væri, ef hætta skapaðist á snjóflóðum. Enn fremur fékk nefndin það verkefni að fella inn í frumvarpið ákvæði um greiðslur úr ofanflóðasjóði til eigenda þeirra húseigna, sem keyptar kunna að verða vegna yfirvofandi snjóflóðahættu.
    Nefndin hefur unnið að gerð frumvarps þessa eins hratt og framast var unnt. Á fund hennar hennar komu fjölmargir þeirra sem best þekkja til þessa málaflokks, bæði embættismenn og sérfræðingar, auk þess sem haldinn var sérstakur fundur með framkvæmdastjórum þeirra sveitarfélaga þar sem snjóflóðahætta er talin mest. Segja má að samstaða sé, a.m.k. í meginatriðum, meðal allra þessara aðila um þær breytingar, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Vegna þess hve lítill tími hefur verið til stefnu og einnig þess hve skipuleg vinna við nýtt hættumat, í ljósi breyttra aðstæðna, er skammt á veg komin eru nefndarmenn sammála um að leggja það til, í fullu samráði við alla hagsmunaaðila, að einungis verði að þessu sinni gerðar lágmarksbreytingar á gildandi lögum. Hins vegar verði stefnt að heildarendurskoðun laganna á næsta ári með það fyrir augum að frumvarp til nýrra laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum verði lagt fyrir Alþingi að ári liðnu, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Við þá endurskoðun má hafa hliðsjón af niðurstöðum úr rannsóknum vísindamanna á eðli og afleiðingum snjóflóða, en fyrstu niðurstöður þeirra eru væntanlegar um eða upp úr næstu áramótum, svo og af reynslunni af því breytta stjórnsýsluskipulagi sem hér er lagt til að tekið verði upp. Jafnframt þarf að tryggja ofanflóðasjóði auknar tekjur til að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögunum.
    Breytingar þær sem frumvarpið gerir ráð fyrir á núgildandi lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum eru þríþættar:
    Í fyrsta lagi er lagt til að yfirstjórn þessa málaflokks verði færð frá félagsmálaráðherra til umhverfisráðherra þar sem gert er ráð fyrir að rannsóknir og forvarnir verði í höndum Veðurstofu Íslands, sem lýtur yfirstjórn umhverfisráðuneytis. Jafnframt verði svonefnd ofanflóðanefnd lögð niður. Samkvæmt þessu færist það verkefni að annast gerð hættumats frá Almannavörnum ríkisins til Veðurstofunnar. Snjóathugunarmenn verði jafnframt starfsmenn Veðurstofunnar en ekki sýslumanna á hlutaðeigandi stöðum þótt athugunarmenn verði ráðnir í samráði við þá, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að ofanflóðasjóður verði áfram í vörslu Viðlagatryggingar Íslands, en umhverfisráðherra ákveði fjárveitingar úr sjóðnum að fengnum tillögum Veðurstofunnar að því er varðar 1.–3. tölul. 11. gr. laganna, en sérstakrar nefndar sem skipuð er fulltrúum umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga að því er varðar 4.–5. tölul. 11. gr., sbr. nánar 7. gr. frumvarpsins.
    Í öðru lagi er í 3. gr. frumvarpsins gerð tillaga um, a.m.k. til bráðabirgða, á meðan beðið er eftir nýju endurskoðuðu hættumati, að gerðar verði áætlanir um að rýma húsnæði á afmörkuðum svæðum þegar Veðurstofan gefur út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsir yfir sérstöku hættuástandi. Þessum neyðaráætlunum er ætlað að tryggja öryggi fólks, eftir því sem kostur er, og má alls ekki leggja þau svæði, sem þannig kunna að verða rýmd, að jöfnu við hættusvæði samkvæmt hættumati því að stefnt er að því að einungis þurfi að flytja fólk á brott af hluta rýmingarsvæðanna við tiltekin veðurskilyrði. Vonir standa til þess að með aukinni þekkingu á eðli og afleiðingum snjóflóða verði svo smám saman hægt að afmarka og skilgreina rýmingarsvæðin enn betur. Svo sem fram kemur í 3. gr. frumvarpsins er Veðurstofunni fengið það vandasama og að sumu leyti vanþakkláta hlutverk að ákveða hvenær tilgreind svæði skuli rýmd og er þá lögreglustjóra og almannavarnanefnd skylt að sjá um að flytja fólk á brott af svæðunum, með valdi ef þörf krefur, í samræmi við gildandi neyðaráætlun. Lagt er til að þær áætlanir verði hér eftir sem hingað til gerðar á vegum Almannavarna ríkisins og almannavarnanefndar á hverjum stað, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Þótt ráð sé fyrir því gert að í lögum verði skilið á milli ákvörðunar um rýmingu og framkvæmdar á þeirri ákvörðun, ef hætta skapast á snjóflóði, ber að leggja áherslu á nauðsyn þess að allir þeir aðilar, sem að málum þessum koma, hafi með sér nána samvinnu og er ýmsum ákvæðum frumvarpsins, þar sem mælt er fyrir um samráð og samvinnu, einmitt ætlað að stuðla að því.
    Loks er í þriðja lagi lagt til að teknar verði upp í lögin reglur um tilhögun á greiðslum úr ofanflóðasjóði til eigenda þeirra húseigna sem keyptar kunna að verða eða fluttar vegna yfirvofandi snjóflóðahættu, en reglur þessar er nú að finna í reglugerð nr. 440/1995, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Reglur þessar gera ráð fyrir mismunandi tilhögun á greiðslum eftir því hvort húseigandi, sem ekki á kost á sambærilegri húseign, hyggst byggja nýja húseign fyrir sig og fjölskyldu sína í sveitarfélaginu eða hvort hann hyggur á brottflutning. Af þeim sökum er tryggara að reglurnar verði lögfestar. Tilgangur mismunandi greiðslutilhögunar er fyrst og fremst að styrkja byggð í sveitarfélögum þar sem snjóðflóð hafa fallið eða snjóflóðahætta er yfirvofandi. Greiðslur til þeirra sem hyggjast búa áfram í heimabyggð sinni geta þar með samkvæmt reglunum orðið hærri en greiðslur til þeirra sem ætla að flytja á brott. Samt sem áður verður að hafa í huga að staðgreiðslumarkaðsverð nýrra húseigna, sem byggðar kunna að vera á umræddum stöðum, verður líklega mun lægra en greiðslunum nemur, a.m.k. eins og sakir standa, þannig að eigendurnir verða að þessu leyti ekki betur settir fjárhagslega en þeir eru nú.
    Texti laganna, verði frumvarp þetta að lögum, er til hægðarauka birtur í heild sinni sem fylgiskjal I hér á eftir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til, í ljósi fenginnar reynslu, að tekið verði af skarið um að framvegis verði ekki aðeins tekið tillit til hættumats við skipulagningu nýrra svæða heldur við alla skipulagsvinnu, án tillits til þess hvort um er að ræða ný eða eldri svæði.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er lögð sérstök áhersla á að hættumat skuli unnið á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða. Með þessu orðalagi á jafnframt að vera girt fyrir að önnur sjónarmið geti haft áhrif á gerð hættumats. Þótt Veðurstofunni sé falið að annast það verkefni getur hún að sjálfsögðu leitað til sérfræðinga utan stofnunarinnar við framkvæmd þess, jafnt innan lands sem utan.
    Þótt hættumat verði framvegis byggt á sérfræðilegri þekkingu þarf á grundvelli þess að setja reglur um hvernig það skuli notað, t.d. við áframhaldandi skipulagsvinnu. Þar sem slíkar reglur hljóta að byggjast á pólitísku mati, a.m.k. að einhverju leyti, er í 2. mgr. lagt til að ráðherra setji þær sjálfur og beri þannig á þeim ábyrgð í stað þess að hann staðfesti þær einvörðungu, svo sem mælt er fyrir um í núgildandi lögum.
    Um 3. mgr. vísast til þess sem að framan segir um breytt hlutverk Almannavarna ríkisins á sviði snjóflóðavarna.
    

Um 3. gr.


    Efni þessarar greinar hefur áður verið lýst. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að uppdrættir, þar sem rýmingarsvæði eru afmörkuð, verði unnir á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á sama hátt og hættumat. Uppdrættirnir verði unnir á ábyrgð Veðurstofunnar og staðfestir af umhverfisráðherra, en síðan kynntir yfirvöldum almannavarna.
    Sé lögreglustjóri búsettur á stað, þar sem hættuástandi hefur verið lýst yfir, fer hann skv. 2. mgr. með stjórn á brottflutningi fólks af rýmingarsvæðum, en annars hreppstjóri í umboði hans, í samvinnu við almannavarnanefnd. Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að beita megi valdi í þessu skyni og kæmi það fyrst og fremst í hlut lögreglu þótt ekki væri loku fyrir skotið að aðrir gætu gert það ef lögreglu nyti ekki við.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að sveitarstjórn geti ekki hafist handa um að láta gera tillögu að varnarvirkjum með tilheyrandi kostnaði, sem greiddur er úr ofanflóðasjóði, nema nefnd sú sem gert er ráð fyrir að sett verði á stofn skv. 6. gr. frumvarpsins, hafi áður samþykkt að ráðist verði í vinnu við hönnun nýrra varnarvirkja og aðra þvílíka undirbúningsvinnu.
    Í 3.–7. mgr. hafa verið teknar efnislega óbreyttar reglur um tilhögun á greiðslum úr ofanflóðasjóði sem nú er að finna í 6. og 9. gr. reglugerðar nr. 440/1995, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Þó hefur heimild til að greiða húseigendum kostnað vegna nýrra gatnagerðargjalda, auk brunabótamats, verið felld á brott. Orðalagi hefur að auki verið breytt á nokkrum stöðum til að gera reglurnar skýrari, þ. á m. er nú tiltekið í 5. mgr. við hvaða tímamark skuli miða ef greitt er samkvæmt brunabótamati og við hvert endurstofnverð skuli miða ef greitt er samkvæmt því. Með hugtakinu „endurstofnverð“ er átt við áætlaðan heildarbyggingarkostnað húsa, án opinberra gjalda og án lóðarfrágangs. Frá endurstofnverði eru síðan dregnar afskriftir vegna hlutaðeigandi eignar. Þessar breytingar hafa verið gerðar til að tryggja að húseigendur, sem hyggjast byggja að nýju í sveitarfélaginu, án þess að hús þeirra hafi eyðilagst eða skemmst í snjóflóði, fái áþekkar bætur og þeir sem t.d. hafa misst hús sín í slíku flóði og fengið bætur frá Viðlagatryggingu Íslands á grundvelli laga nr. 55/1992.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 7. gr.


    Efni þessarar greinar þarfnast fárra viðbótarskýringa. Í c-lið er lagt til að skylt verði að greiða úr ofanflóðasjóði allan kostnað við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna og eftirlits með hættu á snjóflóðum og skriðuföllum. Þá er, að ábendingu þeirra sérfræðinga sem vinna að snjóflóðarannsóknum, í d-lið gerð tillaga að orðalagsbreytingu á niðurlagi 3. tölul. 11. gr. gildandi laga.

Um 8.–12. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki frekari skýringa.



Fylgiskjal I.


Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum,


nr. 28/1985, sbr. lög nr. 50/1995 og 102/1995,


með innfelldum breytingum, verði frumvarp þetta að lögum.


Breytingar, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, eru feitletraðar.)



1. gr.

    Vinna skal að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.
    Samheitið ofanflóð er hér eftir notað um snjóflóð og skriðuföll.

2. gr.

    Meta skal hættu á ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku.
    Hættumat skal ná til byggðra svæða, svo og annarra svæða sem skipuleggja skal.
    Taka skal fullt tillit til hættumats við alla skipulagsgerð og skal matið lagt fram sem fylgiskjal með skipulagstillögu.

3. gr.

     Veðurstofa Íslands skal annast gerð hættumats skv. 2. gr. á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða.
    Reglur um notkun á hættumati, flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra, svo og gerð varnarvirkja skulu settar af umhverfisráðherra, að höfðu samráði við Veðurstofuna.
    Almannavarnir ríkisins skulu annast gerð neyðaráætlana og sjá um leiðbeiningar og almenningsfræðslu um hættu af ofanflóðum í samvinnu við Veðurstofuna.

4. gr.

    Þegar Veðurstofa Íslands gefur út viðvörun um staðbundna snjóflóðahættu og lýsir yfir hættuástandi skal fólk flutt á brott úr öllu húsnæði á svæðum, sem tilgreind skulu í viðvörun Veðurstofunnar, í samræmi við gildandi neyðaráætlun. Svæði þessi skulu afmörkuð á sérstökum uppdráttum sem Veðurstofan skal sjá um að gera á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða. Skulu uppdrættirnir staðfestir af umhverfisráðherra og kynntir Almannavörnum ríkisins og almannavarnanefndum á hlutaðeigandi stöðum.
    Lögreglustjóri og almannavarnanefnd sjá um að rýma húsnæði skv. 1. mgr. og má beita valdi í því skyni ef þörf krefur. Á meðan hættuástand varir er öll umferð bönnuð um það svæði, sem rýmt hefur verið, nema með sérstöku leyfi lögreglustjóra.
    Veðurstofan tekur ákvörðun um það hvenær hættuástandi skuli aflétt, að höfðu samráði við lögreglustjóra og almannavarnanefndir.

5. gr.

    Veðurstofa Íslands skal annast öflun gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og úrvinnslu úr þeim. Hún skal annast mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu og gefa út viðvaranir um hana.

6. gr.

     Veðurstofa Íslands skal ráða starfsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af snjóflóðum og/eða skriðuföllum í þeim umdæmum þar sem þörf er á slíkum athugunum. Veðurstofan skal hafa samráð við hlutaðeigandi lögreglustjóra við ráðningu þessara starfsmanna.

7. gr.

    Sveitarstjórn lætur, að fengnu samþykki nefndar skv. 8. gr., gera tillögu að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem byggð eru eða byggð verða samkvæmt aðalskipulagi.
    Sé hagkvæmara talið, til að tryggja öryggi íbúa gagnvart ofanflóðum, er sveitarstjórn heimilt að gera tillögu um að kaupa eða flytja húseignir í stað annarra varnaraðgerða sem ofanflóðasjóður fjármagnar að hluta eða öllu leyti samkvæmt þessum lögum.
     Greiðsla úr sjóðnum miðast við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Við ákvörðun þess skal ekki tekið tillit til hækkunar á markaðsverði sem rekja má til ákvörðunar um kaup á húseignum á hættusvæði.
    Heimilt er að miða greiðslu úr sjóðnum við framreiknað kaupverð húseignar, sem keypt hefur verið á síðustu árum, ásamt mati á kostnaði núverandi eiganda af endurbótum hennar, ef fyrir liggur að staðsetning húseignar á hættusvæði eða í námunda við það hefur haft áhrif til lækkunar markaðsverðs.
    Eigi húseigandi ekki kost á sambærilegri húseign í sveitarfélaginu til kaups og byggi hann nýja húseign í sveitarfélaginu til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína er heimilt að miða greiðslu úr sjóðnum við brunabótamat vátryggingafélags sem í gildi var á þeim tíma þegar ofanflóð féll. Sé ákveðið að inna greiðslu af hendi vegna yfirvofandi hættu, án þess að flóð hafi fallið, er við sömu aðstæður heimilt að miða hana við brunabótamat vátryggingafélags sem í gildi var við síðustu áramót. Sé brunabótamat hærra en endurstofnverð húseignar, að frádregnum afskriftum vegna aldurs og byggingarefnis eignarinnar, skal greiðsla miðast við endurstofnverð sem þannig er reiknað.
    Sjóðurinn greiðir ekki fyrir kaup á húseign, sem unnt er að flytja, nema heildarkostnaður við flutning sé hærri en staðgreiðslumarkaðsverð.
    Hlutaðeigandi sveitarsjóður verður eigandi húseigna sem keyptar eru samkvæmt þessari grein.
    Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi.
    Ekki má hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð, sem fyrir er á hættusvæðum, fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.

8. gr.

     Tillaga sveitarstjórnar skv. 7. gr. ásamt framkvæmda- og kostnaðaráætlun skal lögð fyrir þriggja manna nefnd, skipaða fulltrúum umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fallist nefndin á tillöguna öðlast sú ákvörðun gildi að fenginni staðfestingu umhverfisráðherra.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um störf nefndar skv. 1. mgr.

9. gr.

    Sveitarstjórnir skulu annast framkvæmdir hver í sínu umdæmi í samræmi við samþykktar áætlanir. Framkvæmdir skulu unnar á grundvelli útboða þar sem því verður við komið. Áður en framkvæmdir hefjast skal liggja fyrir staðfesting ráðherra, sbr. 8. gr.
    Sveitarstjórn ber ábyrgð á viðhaldi varnarvirkja.

10. gr.

    Stofna skal sérstakan sjóð, ofanflóðasjóð, er sé í vörslu Viðlagatryggingar Íslands. Tekjur sjóðsins skulu vera:
    5% af árlegum heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands. Á árunum 1995–99, eða vegna fimm næstu iðgjaldaára, verða þær þó 10% aukaálag á iðgjöld viðlagatrygginga samkvæmt lögum nr. 36/1995 og á árunum 1995–2000, eða vegna sex næstu iðgjaldaára, 38% af heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands.
    Árlegt framlag á fjárlögum í samræmi við framkvæmdaáætlun sem lögð skal fram við gerð fjárlaga hverju sinni.
    Aðrar tekjur.

11. gr.

    Fé ofanflóðasjóðs, sbr. 10. gr., skal notað til að greiða kostnað við varnir gegn ofanflóðum sem hér segir:
    Greiða skal allan kostnað vegna athugana skv. 6. gr. í samræmi við nánari reglur sem umhverfisráðherra setur.
    Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats skv. 3. gr. og uppdrátta skv. 4. gr.
    Greiða skal allan kostnað við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu. Sama gildir um kostnað við rannsóknir sem miða að því að bæta hættumat og hönnun varnarmannvirkja.
    Greiða má allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og húseignum auk kostnaðar við flutning þeirra vegna varna telst með framkvæmdakostnaði.
    Greiða má allt að 60% af kostnaði við viðhald varnarvirkja.
     Umhverfisráðherra ákveður úthlutun úr ofanflóðasjóði að fengnum tillögum Veðurstofu Íslands, þegar um er að ræða úthlutun skv. 1.–3. tölul., en að fengnum tillögum nefndar skv. 8. gr., þegar um er að ræða úthlutun skv. 4.–5. tölul. Ráðherra er heimilt að veita sveitarfélögum lán úr ofanflóðasjóði sem nemur klostnaðarhlut þeirra skv. 4. tölul. 1. mgr., enda sé viðkomandi sveitarfélagi ofviða að leggja fram sinn kostnaðarhlut. Um lánskjör fer eftir nánari ákvörðun ráðherra.

12. gr.

    Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum.

13. gr.

    Kostnaður vegna nefndar skv. 8. gr. greiðist úr ríkissjóði.

14. gr.

     Umhverfisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

15. gr.

    Endurskoða skal lög þessi á árinu 1996 og skal stefnt að því að frumvarp til nýrra laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í desembermánuði 1996.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Starfsmenn þeir sem ráðnir hafa verið af lögreglustjórum skv. 6. gr. laga þessara skulu sjálfkrafa verða starfsmenn Veðurstofu Íslands, enda skulu laun þeirra og önnur kjör ekki verða lakari við þá breytingu en um hefur verið samið.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneytið,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir


gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, sbr. lög nr. 50/1995.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var til að semja frumvarp til breytinga á lögum um snjóflóð og skriðuföll, m.a. með það að markmiði að vald og ábyrgð fari saman á þessu sviði stjórnsýslunnar sem talin er óþarflega flókin í núgildandi lögum. Jafnframt þarf að gera sérstakt átak í endurskoðun á forsendum hættumats vegna snjóflóða. Rétt er að geta þess að skv. 10. gr. frumvarpsins skal endurskoða lög þessi á árinu 1996 og stefnt að því að frumvarp til nýrra laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í desembermánuði 1996. Þeir þættir sem að mati fjármálaráðuneytis munu helst hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs eru eftirfarandi:
1.    Í frumvarpinu er lagt til að yfirstjórn þessa málaflokks verði færð frá félagsmálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Ofanflóðanefnd hefur haft umsjón með ofanflóðasjóði og því hafa útgjöld í félagsmálaráðuneyti til þessa málaflokks verið lítil. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að leggja ofanflóðanefnd niður og má ætla að útgjöld umhverfisráðuneytis vegna umsýslu með ofanflóðasjóði o.fl. sem tengist þessum málaflokki geti samsvarað kostnaði við um hálft stöðugildi eða um 1 m.kr. á ári.
2.    Ofanflóðanefnd verður lögð niður en á móti skipuð þriggja manna nefnd með fulltrúum umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ekki er ljóst hve mikið starfsumfang þessarar nýju nefndar verður en hér er gert ráð fyrir að á móti kostnaðarauka vegna hennar verði sparnaður af niðurlagningu ofanflóðanefndar. Ætla má að kostnaður vegna ofanflóðanefndar nemi 400–500 þús. kr. á ári.
3.    Með lögum nr. 50/1995, um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, og verði frumvarp þetta óbreytt að lögum hefur það í för með sér aukið starfsumfang Veðurstofu Íslands þar sem stofnunin þarf að leggja meiri áherslu á að afla sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum snjóflóða. Í frumvarpi til fjáraukalaga 1995 er gerð tillaga um 9 m.kr. fjárveitingu til Veðurstofunnar til þess að efla starfsemi á sviði snjóflóðavarna, einkum til kaupa á tækjabúnaði, og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1996 er lagt til að útgjöld hennar verði aukin um 15 m.kr. vegna þessa málaflokks. Í ljósi þess að gera þarf sérstakt átak í endurskoðun á forsendum hættumats vegna snjóflóða og snjóflóðaspáa er talið nauðsynlegt að auka fjárveitingu til Veðurstofu Íslands enn frekar, eða um 12–13 m.kr. á næsta ári.
4.    Í 11. gr. er kveðið á um að ofanflóðasjóður skuli greiða allan kostnað við gerð hættumats og uppdrátta en hið síðarnefnda er breyting frá núgildandi lögum. Sjóðurinn kostar einnig eftirlitsmenn sem kveðið er á um í 4. gr. og útgjöld tengd þeim. Að auki skal greiða úr sjóðnum allan kostnað við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu en í núgildandi lögum er heimild til að greiða allan þann kostnað. Talið er að framangreindar breytingar geti haft í för með sér 10–15 m.kr. útgjaldaauka á ári fyrir ofanflóðasjóð. Sjóðurinn kostar nú störf fjögurra sérfræðinga sem vinna að sérstöku rannsókna- og hættumatsverkefni í samstarfi við Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands. Fyrirhugað er að verkefninu ljúki um mitt næsta ár en að mati Veðurstofu Íslands eru áframhaldandi störf við rannsóknir forsenda gerðar hættumats.
              Samkvæmt lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum hefur ofanflóðasjóður til ráðstöfunar 5% af tekjum af iðgjöldum viðlagatrygginga eða um 20 m.kr. á ári. Að auki er framlag á fjárlögum og er það 6,5 m.kr. í fjárlögum 1995. Með breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands á 118. löggjafarþingi og breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum á 119. löggjafarþingi er gert ráð fyrir að til ofanflóðasjóðs skuli renna 10% aukaálag á iðgjöld viðlagatrygginga næstu fimm ár og 38% af heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands næstu sex ár. Að mati framkvæmdastjóra Viðlagatrygginga Íslands mun þetta auka tekjur sjóðsins um 220–230 m.kr. á ári næstu fimm ár. Í september á þessu ári var eign sjóðsins um 160 m.kr. og er talið að eign hans í upphafi árs 1996 verði 300–350 m.kr.
5.    Í 5. gr. er fjallað um heimildir til að kaupa eða flytja húseignir og er ákvæðið efnislega óbreytt frá lögum nr. 50/1995 en með þeim voru gerðar breytingar á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Ógerlegt er að leggja mat á hugsanleg kostnaðaráhrif þessa ákvæðis. Við bætast ákvæði um tilhögun á greiðslum úr ofanflóðasjóði en þær eru að mestu óbreyttar frá ákvæðum reglugerðar nr. 440/1995, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.