Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 228 . mál.


309. Tillaga til þingsályktunar



um fæðingarorlof feðra.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að við endurskoðun laga um fæðingarorlof verði tryggður sjálfstæður réttur feðra til a.m.k. tveggja vikna orlofs á launum við fæðingu barns.

Greinargerð.


    Mikilvægt er að tryggja barni rétt til samvista við bæði föður og móður á fyrsta æviskeiðinu. Það er réttur barnsins að fá að mynda náin tengsl við báða foreldra sína á fyrstu dögum og vikum ævi sinnar. Fram til þessa hafa feður verið afskiptir hvað varðar samskipti við börn sín og liggja til þess margar skýringar. Með tveggja vikna orlofi í kringum fæðingu er stuðlað að því að fjölskyldan geti verið saman.
    Ljóst er að Íslendingar standa grannþjóðunum að baki varðandi feðraorlof. Það hefur komið í ljós að þar sem sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs hefur verið tryggður í lögum hafa feður í stórauknum mæli nýtt sér hann og þar með axlað aukna ábyrgð gagnvart fjölskyldu sinni.
    Nauðsynlegt er að gera ýmsar breytingar á fæðingarorlofi almennt og skal í því sambandi vísað til nýlegra tillagna karlanefndar Jafnréttisráðs þar sem hvatt er til gagngerra úrbóta á þessu sviði. Tveggja vikna feðraorlof er fyrsti áfangi á þeirri leið.
    Lenging fæðingarorlofs og aukinn réttur fjölskyldunnar að þessu leyti er viðamikið mál og kostar mikið fé. Það er hins vegar forsenda fjölskyldustefnu sem tekur mið af almennri atvinnuþátttöku og breyttum þjóðfélagsháttum að körlum sé gert kleift að sinna skyldum sínum að þessu leyti.



Fylgiskjal.


Tillögur karlanefndar Jafnréttisráðs.


    Frá því fyrst var tekið að ræða á opinberum vettvangi hérlendis um hlutverk og þátttöku karla í baráttunni fyrir jafnrétti kynja hefur verið ljóst að lykilatriði þar er aukin þátttaka karla í heimilis- og uppeldisstörfum. Jafnljóst hefur verið að til þess að ná árangri þar væri nauðsynlegt að auka og bæta möguleika karla til að tengjast börnum sínum nánum böndum. Ekkert er líklegra til að skila okkur fram á við á því sviði en breytt og bætt lög um fæðingarorlof.
    Karlanefnd Jafnréttisráðs telur því að brýna nauðsyn beri til að gjörbreyta lögum og reglum um fæðingarorlof. Nefndin telur þetta mikilvægt fyrir börnin, fyrir hvort foreldra um sig og fyrir jafnrétti kynjanna.
    Tillögur karlanefndar Jafnréttisráðs til breytinga á lögum og reglum um fæðingarorlof eru þessar:
    Stefnt verði að lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og verði fjórir mánuðir bundnir föður, fjórir móður en fjórum geti foreldrar skipt eftir hentugleikum.
                  Lenging orlofsins er mikilvæg af ýmsum ástæðum. Sex mánuðir eru það stuttur tími að karlar munu veigra sér við að taka eitthvað af því, sérstaklega í ljósi þess að flestar mæður kjósa að hafa börn sín á brjósti þennan tíma. Á Norðurlöndum hefur sýnt sig að karlar taka sinn hluta fæðingarorlofs fyrst og fremst eftir að barnið er orðið sex mánaða. Lenging fæðingarorlofs hafði í för með sér að fleiri karlar tóku fæðingarorlof. Erlendar athuganir hafa sýnt að lykilþáttur í því að brjóta niður fordóma gagnvart föðurhlutverkinu og fá karla til að taka sér leyfi er að ákveðinn hluti fæðingarorlofs sé bundinn feðrum og ekki yfirfæranlegur á móður.
    Lágmarkskrafa er að feður fái tveggja vikna orlof á launum við fæðingu barns.
                  Fjölskyldunni veitir ekki af þessum tíma meðan verið er að finna tilverunni nýjan takt, enda tíðkast slíkt orlof annars staðar á Norðurlöndum. Fyrst eftir fæðingu barns myndast mjög mikilvæg tengsl við þá sem næstir eru og það skiptir miklu fyrir barnið og föðurinn að hann sé þá virkur þátttakandi í fjölskyldulífinu.
    Foreldrar hafi hvort um sig sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs og greiðslna.
                  Eins og staðan er í dag er réttur annars foreldris (föður) afleiddur af rétti hins. Karlanefndin telur þetta mjög óeðlilegt og til þess fallið að ýta undir hugmyndir um að börnin séu kvennanna en ekki karlanna. Þetta skiptir þannig máli sem leið til að gera feðrum ljósari foreldraábyrgð sína.
    Áhersla verði á sveigjanleika í töku orlofs, til að mynda að því megi dreifa á tvö ár.
                  Sveigjanleiki er annað atriði sem erlendar athuganir hafa sýnt að skiptir miklu til að fá feður til að taka fæðingarorlof. Margir kjósa að halda tengslum við vinnustaðinn. Að sjálfsögðu er þetta einnig mikilvægt atriði til að draga úr því að konur á barneignaraldri teljist sérstakur áhættuhópur við ráðningu í starf en það er einn þeirra þátta sem hamla starfsframa kvenna. Það er skoðun karlanefndar að gefist foreldrum og atvinnurekendum færi á muni þessir aðilar finna þá lausn sem hentugust er í hverju einstöku tilfelli. Sumum kemur ef til vill vel að vinna aðra hverja viku, hjá öðrum er heppilegra að vinna hálfan daginn o.s.frv.
    Tekjuskerðing foreldra í fæðingarorlofi má ekki standa í vegi fyrir töku þess.
                  Að sjálfsögðu er æskilegast að fólk haldi fullum launum en mikið neðar en 90% má tekjutengingin ekki fara ef fjárhagsatriði eiga ekki að verða hindrun eða afsökun í vegi fæðingarorlofs karla, en eins og kunnugt er eru laun karla að jafnaði hærri en laun kvenna.