Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 232 . mál.


313. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
    Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
    2. mgr. orðast svo:
                  Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skal fylgja lýsing á starfseminni þar sem fram kemur, meðal annars, hvaða starfsemi ætlunin er að stunda og lýsing á innra skipulagi viðskiptabankans eða sparisjóðsins. Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um stofnendur, hlutafé eða stofnfé, hluthafa eða stofnfjáreigendur og hlut hvers um sig, auk annarra upplýsinga og gagna sem viðskiptaráðherra ákveður. Samþykktir skulu fylgja umsókn um starfsleyfi hlutafélagsbanka eða sparisjóðs.
    Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvörðun um umsókn um starfsleyfi skal ávallt liggja fyrir innan sex mánaða frá því að fullbúin umsókn barst ráðherra, sbr. ákvæði III. kafla.
    

2. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.
    

3. gr.

    Orðin „um Lánastofnun sparisjóðanna hf.“ í 1. mgr. 10. gr. laganna falla brott.
    

4. gr.

    26. gr. laganna orðast svo:
    Synjun ráðherra á starfsleyfi skal rökstudd og send umsækjanda skriflega.
    

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 46. gr. laganna:
    Í stað orðsins „og“ kemur: eða.
    Nýr málsliður bætist við, svohljóðandi: Fari eignarhlutir samtímis fram yfir hlutföll skv. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. skal hærri fjárhæðin af þeim sem umfram er dregin frá við útreikning eigin fjár hlutaðeigandi stofnunar.

6. gr.

    Í stað orðanna „Lánastofnun sparisjóðanna eða félagi sem leysir hana af hólmi, sbr. 99. gr.“ í 52. gr. laganna kemur: Sparisjóðabanka Íslands hf.
    

7. gr.

    Orðin „eða Lánastofnun sparisjóðanna“ í 53. gr. laganna falla brott.
    

8. gr.

    54. gr. laganna orðast svo:
    Eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða, eins og það er skilgreint skv. 2. mgr., skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar til 8% af áhættugrunni. Áhættugrunnur stofnunar skal metinn með tilliti til heildareigna, liða utan efnahagsreiknings, gengisáhættu og áhættu annarra liða með markaðsáhættu samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli viðskiptabanka og sparisjóða sem Seðlabankinn setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. málsl. skal einnig gilda um samstæðureikning, sbr. 66. gr.
    Við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 1. mgr. skal eigið fé samsett af þremur þáttum, eiginfjárþætti A, eiginfjárþætti B og eiginfjárþætti C og frádráttarliðum skv. 55. gr. Heildarfjárhæð eiginfjárþáttar B má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Eiginfjárþáttur A skal nema að lágmarki helmingi eigin fjár fyrir frádrátt skv. 55. gr.
    Eiginfjárþáttur A telst vera:
    Innborgað hlutafé.
    Varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár og óráðstafað eigið fé að frádregnu tapi ársins.
    Endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum.
    Frá eiginfjárþætti A skal draga eigin hlutabréf, viðskiptavild og aðrar óáþreifanlegar eignir, svo og áfallnar ófærðar skattskuldbindingar sem rýra möguleika viðskiptabankans eða sparisjóðsins til að mæta tapi.
    Eiginfjárþáttur B telst vera:
    Víkjandi lán sem viðskiptabankar eða sparisjóðir taka gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs eða slit hans fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur viðskiptabankanum eða sparisjóðnum en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár eða sambærilegs eigin fjár ríkisviðskiptabanka. Þegar fimm ár eru eftir af lánstímanum skal lánið reiknast niður um 20% fyrir hvert ár sem líður af þessum fimm árum. Sé um að ræða lán sem greiðist niður með afborgunum á lánstímanum skal reikna eftirstöðvar hvers árs niður á sambærilegan hátt.
    Endurmatsreikningar aðrir en gert er ráð fyrir í eiginfjárþætti A.
    Eiginfjárþáttur C telst vera víkjandi lán til skamms tíma sem viðskiptabanki eða sparisjóður tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en tvö ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs eða slit hans fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur viðskiptabankanum eða sparisjóðnum en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár eða sambærilegs eigin fjár ríkisviðskiptabanka. Jafnframt skal kveðið á um að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárhlutfall hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs er lægra en 8% eða ef endurgreiðsla höfuðstóls eða greiðsla vaxta veldur því að eiginfjárhlutfallið fer niður fyrir 8%. Heildarfjárhæð eiginfjárþáttar C má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Jafnframt má heildarfjárhæð eiginfjárþáttar C hæst nema 4,8% af reiknuðum áhættugrunni viðskiptabanka eða sparisjóðs vegna markaðsáhættu liða í veltubók og gengisáhættu. Bankaeftirlitið getur heimilað viðskiptabanka eða sparisjóði að fara tímabundið yfir umrædd mörk að uppfylltum nánari skilyrðum. Við mat á eiginfjárþætti C getur bankaeftirlitið jafnframt heimilað einstökum viðskiptabönkum eða sparisjóðum að tekið sé tillit til hagnaðar af veltubókarviðskiptum að frádreginni fyrirsjáanlegri gjaldfærslu eða arði og að frádregnu nettó tapi af annarri starfsemi enda sé engin þessara fjárhæða meðtalin í eiginfjárþætti A.
    Bankaeftirlitið getur veitt heimild til að flýta endurgreiðslu víkjandi lána æski lánveitandi þess enda hafi slíkt ekki áhrif á viðunandi eiginfjárstöðu hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóð.
    Ráðherra er heimilt að fengnum tillögum bankaeftirlitsins að ákveða í reglugerð að aðrir liðir en greindir eru í 3.–4. mgr. teljist með eigin fé viðskiptabanka eða sparisjóðs.
    

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
    Í stað orðanna „Lánastofnun sparisjóðanna hf., eða félagi sem leysir hana af hólmi, sbr. 99. gr.“ í 1. og 3. tölul. 1. mgr. kemur: Sparisjóðabanka Íslands hf.
    5. og 6. mgr. falla brott.
    

10. gr.

    2. mgr. 56. gr. laganna orðast svo:
    Ársreikningur skal undirritaður af bankaráði eða sparisjóðsstjórn og bankastjórum og sparisjóðsstjórum. Ársreikningur ríkisviðskiptabanka skal auk þess staðfestur af ráðherra. Hafi bankaráðsmaður eða stjórnarmaður sparisjóðs, bankastjóri eða sparisjóðsstjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.
    

11. gr.

    3. mgr. 57. gr. laganna orðast svo:
    Bankaeftirlitið setur reglur um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings og skýringar og mat á einstökum liðum.
    

12. gr.

    Í stað orðanna „annars staðar í ársreikningum“ í 1. mgr. 58. gr. laganna kemur: í ársreikningnum.
    

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
    Í stað 7. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Við viðskiptabanka og sparisjóði skal starfa endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun undir stjórn forstöðumanns, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 39. gr. Innri endurskoðun er hluti af skipulagi viðskiptabanka og sparisjóða og er þáttur í eftirlitskerfi þeirra. Bankaeftirlitið getur veitt undanþágu frá starfrækslu slíkrar endurskoðunardeildar og sett þeim stofnunum skilyrði sem slíka undanþágu fá.
                  Viðskiptabanki eða sparisjóður skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu, þar með talið vaxtaáhættu, í tengslum við öll viðskipti sín. Bankaeftirlitið getur sett leiðbeinandi reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóðs.
    Við 8. mgr., sem verður 9. mgr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bankaeftirlitið setur reglur um endurskoðun viðskiptabanka og sparisjóða.
    9. mgr. fellur brott.
    

14. gr.

    Orðin „lánveitingar, ábyrgðir og“ í 1. málsl. 7. mgr. 66. gr. laganna falla brott.
    

15. gr.

    Orðið „endurskoðanda“ í 2. málsl. 3. mgr. 67. gr. laganna fellur brott.
    

16. gr.

    X. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Tryggingarsjóður innlánsstofnana, orðast svo:
    
    a. (75. gr.)
    Viðskiptabankar og sparisjóðir með staðfestu hér á landi skulu eiga aðild að Tryggingarsjóði innlánsstofnana. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun. Aðilar að sjóðnum bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.
    Tryggingarsjóður innlánsstofnana starfar í tveimur sjálfstæðum deildum, innstæðudeild og lánadeild, með aðskilinn fjárhag og reikningshald. Eignir annarrar deildarinnar verða ekki notaðar til að standa skil á skuldbindingum hinnar.
    
    b. (76. gr.)
    Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum Tryggingarsjóðs innlánsstofnana. Sérhver aðili að sjóðnum fer á aðalfundi með atkvæðisrétt í samræmi við hlut hans í samanlögðum tryggðum innstæðum næstliðið ár fyrir aðalfund. Þrátt fyrir þetta má enginn aðila að sjóðnum fara með meira en 1/10 hluta heildaratkvæðamagns í honum. Um aðal- og aukafundi sjóðsins gilda að öðru leyti ákvæði 32.–34. gr. eftir því sem við getur átt.
    Stjórn Tryggingarsjóðs innlánsstofnana fer með málefni hans milli aðal- og aukafunda. Hún skal skipuð fjórum mönnum til þriggja ára í senn. Einn þeirra skal skipaður af Sambandi íslenskra sparisjóða, einn af Sambandi íslenskra viðskiptabanka, einn af Seðlabanka Íslands og einn af ráðherra. Ráðherra skipar formann stjórnar úr hópi stjórnarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nánar skal kveðið á um skipan og verkefni stjórnar og starfsemi sjóðsins að öðru leyti í samþykktum hans. Þær skulu staðfestar af ráðherra.
    Stjórnarmenn og starfsmenn Tryggingarsjóðs innlánsstofnana eru bundnir þagnarskyldu í samræmi við ákvæði 43. gr.
    Um ársreikning og endurskoðun Tryggingarsjóðs innlánsstofnana fer samkvæmt ákvæðum VII. kafla. Um eftirlit með starfsemi sjóðsins fer samkvæmt ákvæðum XIV. kafla.
    Tryggingarsjóður innlánsstofnana er undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    
    c. (77. gr.)
    Meginhlutverk Tryggingarsjóðs innlánsstofnana er að tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu sem hann hefur krafist endurgreiðslu á í samræmi við þá skilmála er um hana gilda og viðskiptabanki eða sparisjóður er að áliti bankaeftirlitsins ekki fær um að inna tafarlaust af hendi eða í nánustu framtíð vegna greiðsluerfiðleika. Álit bankaeftirlitsins skal liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að bankaeftirlitið fær fyrst staðfestingu á því að hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður hafi ekki greitt innstæðu eins og honum bar að gera. Greiðsluskylda tryggingarsjóðsins vaknar einnig ef ákveðið er að slíta viðskiptabanka eða sparisjóði, sbr. ákvæði VIII. kafla.
    Með innstæðu í 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla og annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
    Undanskildar tryggingu skv. 1. mgr. eru innstæður í eigu annarra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning og innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um eftirfarandi atriði að höfðu samráði við stjórn Tryggingarsjóðs innlánsstofnana:
    Tryggingu á innstæðum í erlendum útibúum viðskiptabanka og sparisjóða með staðfestu hér á landi.
    Aðild hérlendra útibúa viðskiptabanka og sparisjóða með staðfestu í öðru ríki að Tryggingarsjóði innlánsstofnana.
    Tilhögun á greiðslum úr Tryggingarsjóði innlánsstofnana.
    Skyldu viðskiptabanka og sparisjóða til að upplýsa viðskiptavini um aðild sína að Tryggingarsjóði innlánsstofnana og um helstu atriði innstæðutryggingarinnar og jafnframt takmörkun á notkun þessara upplýsinga í samkeppnisskyni.
    Tryggingu á innstæðu þegar um sameiginlegan innlánsreikning er að ræða eða þegar innstæðueigandi á ekki ótvíræðan rétt til innstæðu.
    
    d. (78. gr.)
    Auk innstæðutrygginga er Tryggingarsjóði innlánsstofnana heimilt að veita viðskiptabanka eða sparisjóði víkjandi lán úr lánadeild í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans, enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku. Stjórn sjóðsins getur sett skilyrði fyrir lánveitingu.
    Stjórn Tryggingarsjóðs innlánsstofnana er heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag viðskiptabanka eða sparisjóðs sem veitt er víkjandi lán. Getur stjórnin í þessu sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði.
    
    e. (79. gr.)
    Stefnt skal að því að heildareign innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innlánsstofnana nemi a.m.k. 1% af samanlögðum tryggðum innstæðum í viðskiptabönkum og sparisjóðum. Í þessu skyni skal hver viðskiptabanki og sparisjóður greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur 1% af þeirri aukningu sem orðið hefur á tryggðum innstæðum í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði frá meðaltali næstliðins árs frá árinu þar á undan. Greiðslur til sjóðsins eru óendurkræfar.
    Fari heildareign Tryggingarsjóðs innlánsstofnana skv. 1. mgr. niður fyrir 1% af samanlögðum tryggðum innstæðum skulu allir viðskiptabankar og sparisjóðir hefja greiðslur í sjóðinn. Þær skulu nema 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári. Greiðslur í sjóðinn skulu inntar af hendi eigi síðar en 1. mars ár hvert. Jafnframt skal hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu fyrir jafnháum hlut af þeirri fjárhæð sem á vantar til að heildareign sjóðsins nái 1% af samanlögðum tryggðum innstæðum og nemur hlut tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka og sparisjóði af samanlögðum tryggðum innstæðum í viðskiptabönkum og sparisjóðum.
    Þegar heildareign sjóðsins hefur á ný náð 1% af samanlögðum tryggðum innstæðum skulu greiðslur skv. 2. mgr. falla niður en greiðslur skv. 1. mgr. teknar upp. Nú tekur viðskiptabanki eða sparisjóður til starfa á meðan greiðslur eru inntar af hendi skv. 2. mgr. og skal hann þá greiða í sjóðinn skv. 1. mgr. en ekki 2. mgr.
    Nú hrökkva eignir Tryggingarsjóðs innlánsstofnana ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði og skal þá greiðslu úr sjóðnum skipt þannig milli innstæðueigenda að heildarinnstæða hvers innstæðueiganda allt að 1,7 milljónum króna er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Fjárhæð þessi skal bundin við gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við kaupgengi hennar 3. janúar 1995. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt innstæða hafi ekki verið bætt að fullu. Telji stjórn sjóðsins brýna ástæðu til er henni heimilt að taka lán til að greiða innstæðueigendum hrökkvi eignir sjóðsins ekki til.
    Komi til greiðslu úr Tryggingarsjóði innlánsstofnana yfirtekur hann kröfu innstæðueiganda á hendur hlutaðeigandi viðskiptabanka, sparisjóði eða þrotabúi.
    
    f. (80. gr.)
    Nú uppfyllir viðskiptabanki eða sparisjóður ekki skyldur sínar gagnvart Tryggingarsjóði innlánsstofnana og skal þá stjórn hans tilkynna það ráðherra án tafar. Hann skal veita hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði allt að sex mánaða frest til úrbóta. Séu ríkar ástæður að mati ráðherra er honum heimilt að framlengja frestinn um allt að sex mánuði til viðbótar.
    Nú rennur frestur skv. 1. mgr. út án þess að hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður hafi uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum og skal ráðherra þá afturkalla starfsleyfi hans að fengnu áliti bankaeftirlitsins, sbr. 4. tl. 1. mgr. 89. gr. Ákvæði 2. mgr. 89. gr. á ekki við í slíkum tilfellum. Innstæður, sem stofnað er til áður en frestur skv. 1. mgr. rennur út, skulu njóta tryggingarverndar í samræmi við ákvæði 77. gr.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga einnig við um útibú erlendra viðskiptabanka og sparisjóða hér á landi sem aðild eiga að Tryggingarsjóði innlánsstofnana. Nú rennur frestur skv. 1. mgr. út þegar um er að ræða útibú viðskiptabanka eða sparisjóðs með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og skal þá bankaeftirlitið banna starfsemi þess hér á landi, sbr. 94. gr. Þegar um er að ræða útibú viðskiptabanka eða sparisjóðs með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal ráðherra afturkalla starfsleyfi þess að fengnu áliti bankaeftirlitsins.
    
    g. (81. gr.)
    Tryggingarsjóður innlánsstofnana yfirtekur allar eignir og skuldir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka 1. janúar 1996 og skal síðarnefndi sjóðurinn þá lagður niður.
    
    h. (82. gr.)
    Tryggingarsjóður sparisjóða skal greiða Tryggingarsjóði innlánsstofnana 300 milljónir króna 1. janúar 1996. Tryggingarsjóður sparisjóða starfar áfram sem sjálfseignarstofnun og skulu allir sparisjóðir með staðfestu hér á landi eiga aðild að honum. Hlutverk sjóðsins er að tryggja fjárhagslegt öryggi sparisjóða. Í því skyni er stjórn hans heimilt að:
    veita sparisjóði lán eða yfirtaka vissar eignir sparisjóðs,
    ganga í ábyrgð fyrir sparisjóð,
    bæta sérstakt tap og kostnað sem sparisjóður verður fyrir og
    veita sparisjóðum stuðning að öðru leyti á hvern þann hátt sem stjórn sjóðsins ákveður í samræmi við ákvæði laga þessara og samþykktir sjóðsins.
    Þá er stjórninni heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag sparisjóðs. Getur stjórnin í þessu sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá sparisjóði. Stjórn Tryggingarsjóðs er heimilt að taka lán í því skyni að tryggja fjárhagslegt öryggi sparisjóðs.
    Stjórn og starfsmenn Tryggingarsjóðs sparisjóða eru bundin þagnarskyldu í samræmi við ákvæði 43. gr. Tryggingarsjóður sparisjóða er undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti enda nemi árleg framlög sparisjóðanna til hans ekki hærri fjárhæð en sem svarar til 0,15% af heildarinnlánum hvers sparisjóðs um næstu áramót á undan.
    Nánar skal kveðið á um starfsemi Tryggingarsjóðs sparisjóða í samþykktum hans, þar á meðal um greiðslu árgjalds. Samþykktir sjóðsins skulu staðfestar af ráðherra.
    

17. gr.

    Á eftir 84. gr. laganna bætist við ný grein, 84. gr. A, svohljóðandi:
    Fyrirtæki frá öðru ríki innan hins Evrópska efnahagssvæðis, sem heimilt er samkvæmt samþykktum sínum að stunda þá starfsemi sem tilgreind er í 1. mgr. 44. gr. laga þessara, er heimilt að stofna útibú eða veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:
    Fyrirtækið skal vera dótturfyrirtæki viðskiptabanka eða sparisjóðs eða sameiginlegt dótturfyrirtæki tveggja eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóða skv. 3. mgr. 66. gr.
    Dótturfyrirtækið skal lúta löggjöf í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem veitt hefur móðurfyrirtæki eða móðurfyrirtækjum skv. 1. tölul. starfsleyfi, og skal dótturfyrirtækið jafnframt stunda umrædda starfsemi í því ríki.
    Móðurfyrirtækið eða móðurfyrirtækin skulu fara með a.m.k. 90% af atkvæðamagni því sem fylgir hlutum í fyrirtækinu.
    Móðurfyrirtækið eða móðurfyrirtækin skulu uppfylla skilyrði bankaeftirlits um heilbrigða og trausta stjórnun dótturfyrirtækisins og skulu jafnframt lýsa því yfir með samþykki lögbærra yfirvalda í heimaríki þeirra að þau beri óskipta ábyrgð á skuldbindingum þeim sem dótturfyrirtækið tekur á sig.
    Dótturfyrirtækið skal heyra undir eftirlit á samstæðugrundvelli sem móðurfyrirtækið eða sérhvert móðurfyrirtækjanna lýtur. Þetta á sérstaklega við um eftirlit með útreikningi á eiginfjárhlutfalli, eftirlit með útreikningi á lánum og ábyrgðum til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila og eftirlit með takmörkunum á eignarhlutdeild í öðrum fyrirtækjum, sbr. 46. gr.
    Með tilkynningu um starfsemi hér á landi skv. 1. mgr. skal fylgja staðfesting lögbærs yfirvalds í heimaríki móðurfyrirtækis eða móðurfyrirtækja á því að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Jafnframt skulu lögbær yfirvöld í heimaríki móðurfyrirtækis eða móðurfyrirtækja lýsa því yfir að þau muni hafa fullnægjandi eftirlit með starfsemi fyrirtækisins. Að öðru leyti skal beita ákvæðum 83., 84. og 85. gr. eftir því sem við á.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. taka einnig til fyrirtækis sem er í eigu eða undir áhrifum eins eða fleiri dótturfyrirtækja, sbr. ákvæði 66. gr. laga þessara, eftir því sem við getur átt.
    

18. gr.

    Við 1. mgr. 85. gr. laganna bætist: og 84. gr., svo og starfsemi fyrirtækja skv. 84. gr. A.
    

19. gr.

    Á eftir 87. gr. laganna bætist við ný grein, 87. gr. A, svohljóðandi:
    Ákvæði 86. og 87. gr. taka einnig til innlends dótturfyrirtækis viðskiptabanka eða sparisjóðs eða sameiginlegs dótturfyrirtækis tveggja eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóða sem heimilt er samkvæmt samþykktum sínum að stunda þá starfsemi sem tilgreind er í 1. mgr. 44. gr. og uppfylla skilyrði þau sem fram koma í 1.–5. tölul. 1. mgr. 84. gr. A., eftir því sem við getur átt. Tilkynningu bankaeftirlits til lögbærra eftirlitsaðila skv. 2. mgr. 86. gr. eða 2. mgr. 87. gr. skal fylgja staðfesting bankaeftirlits á því að fyrirtækið uppfylli framangreind skilyrði.
    Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til fyrirtækis sem er í eigu eða undir áhrifum eins eða fleiri dótturfyrirtækja, sbr. ákvæði 66. gr. laga þessara, eftir því sem við getur átt.
    Fyrirtæki samkvæmt þessari grein skal lúta eftirliti bankaeftirlitsins. Uppfylli fyrirtæki, sem hafið hefur starfsemi skv. 1. mgr., ekki lengur skilyrði þau sem fram koma í 1.–5. tölul. 1. mgr. 84. gr. A skal bankaeftirlitið skýra viðkomandi lögbæru yfirvaldi frá því.
    

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 89. gr. laganna:
    Nýr töluliður, 1. tölul., bætist við, svohljóðandi: hafi hlutaðeigandi stofnun fengið starfsleyfið á grundvelli falsaðra yfirlýsinga eða á annan óeðlilegan hátt.
    2. tölul., sem verður 3. tölul., orðast svo: nýti hlutaðeigandi stofnun ekki starfsleyfið innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsali sér ótvírætt leyfinu eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt.
         

21. gr.

    Ný málsgrein, 3. mgr., bætist við 94. gr. laganna, svohljóðandi:
    Nú gerist viðskiptabanki eða sparisjóður, sem hlotið hefur starfsleyfi hér á landi og stundar starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, brotlegur við lög þess ríkis, og lögbær yfirvöld þess ríkis grípa til ráðstafana sambærilegra þeim sem greinir í 1. mgr., og skal þá bankaeftirlitið aðstoða þarlend lögbær yfirvöld við samskipti þeirra við stjórnendur hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs.
         
    

22. gr.

    99. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 10. gr. er heimilt að leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf í Sparisjóðabanka Íslands hf. sem stofnaður er af sparisjóðunum.
    

23. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum fellur brott.
    

24. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 8. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1996.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


    Víkjandi lán, sem viðskiptabanki eða sparisjóður hefur tekið fyrir gildistöku laga þessara og greiðast skulu niður með afborgunum, eru undanþegin ákvæði 3. málsl. 1. tölul. 4. mgr. 54. gr. laganna um endurgreiðslu víkjandi lána sem teljast til eiginfjárþáttar B.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þátttöku sinni í Evrópska efnahagssvæðinu (EES) skuldbatt Ísland sig til að lögtaka meginefni ýmissa tilskipana Evrópusambandsins (ESB) á sviði fjármálaþjónustu. Með setningu laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, var bankalöggjöfin samræmd ákvæðum ýmissa þágildandi tilskipana ESB á þessu sviði. Síðan hafa þær aðstæður skapast að nauðsynlegt er að endurskoða ýmis ákvæði þessara laga. Þar kemur einkum þrennt til:
    Samþykkt hefur verið að nokkrar nýjar tilskipanir ESB verði hluti af EES-samningnum. Ýmis ákvæði þeirra kalla á breytingar á innlendri bankalöggjöf.
    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur í samvinnu við viðskiptaráðuneytið og Seðlabanka Íslands yfirfarið ákvæði bankalöggjafarinnar í því skyni að ganga úr skugga um að fullnægjandi samræming hafi náðst milli hennar og tveggja bankatilskipana ESB, fyrstu bankatilskipunarinnar (77/780/EBE) og annarrar bankatilskipunarinnar (89/646/EBE). Athugun ESA leiddi í ljós að íslensk bankalöggjöf telst í öllum helstu atriðum nægilega samræmd þessum tilskipunum. Hins vegar komu í ljós einstök atriði sem ESA taldi nauðsynlegt að bæta við bankalöggjöfina til að fullkominni samræmingu væri náð. Bréf ESA um þetta efni frá 11. nóvember 1994 er birt sem fylgiskjal I með frumvarpinu. Athugasemdir og ábendingar ESA hafa verið yfirfarnar gaumgæfilega. Nokkrar þeirra eru þess eðlis að þær kalla á breytingu á bankalöggjöfinni en aðrar leiddu til breytinga á reglugerð nr. 470/1986 fyrir Seðlabanka Íslands. Svar viðskiptaráðuneytis við bréfi ESA er birt sem fylgiskjal II með frumvarpinu.
    Við framkvæmd laganna hafa komið í ljós nokkur atriði sem betur mættu fara. Nánar er fjallað um þessi atriði í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.
    
Nýjar tilskipanir ESB er varða viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir.
    Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu undirgengust íslensk stjórnvöld að aðlaga íslenskan rétt að framtíðarbreytingum á rétti ESB jafnóðum og ákveðið yrði að nýjar ESB-gerðir skyldu einnig gilda innan EES. Frá því að EES-samningurinn tók gildi 1. janúar 1994 hefur verið ákveðið að sex nýjar tilskipanir ESB, er varða starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, skuli einnig gilda innan EES-svæðisins. Þær tilskipanir sem hér um ræðir eru:
    Tilskipun ráðsins 91/633/EBE frá 3. desember 1991 um framkvæmd tilskipunar 89/299/EBE um eigið fé lánastofnana. Þessi tilskipun var hluti af „viðbótarpakkanum“ sem sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun um 21. mars 1994. Ekki er nauðsynlegt að breyta lagaákvæðum hér á landi vegna þessarar tilskipunar því að ákvæði hennar voru höfð til hliðsjónar þegar frumvarpið, sem varð að lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, var samið. Á grundvelli tilvísunar milli laga gilda þessi ákvæði bankalaganna einnig um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. lög nr. 123/1993.
    Tilskipun ráðsins 92/16/EBE frá 16. mars 1992 um breytingu á tilskipun 89/299/EBE um eigið fé lánastofnana. Þessi tilskipun var hluti af „viðbótarpakkanum“. Ekki er nauðsynlegt að breyta lagaákvæðum hér á landi vegna þessarar tilskipunar því að ákvæði hennar voru höfð til hliðsjónar þegar frumvarpið, sem varð að lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, var samið. Á grundvelli tilvísunar milli laga gilda þessi ákvæði bankalaganna einnig um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. lög nr. 123/1993.
    Tilskipun ráðsins 92/30/EBE frá 6. apríl 1992 um eftirlit með lánastofnunum á samstæðugrundvelli. Þessi tilskipun var hluti af „viðbótarpakkanum“. Ekki er nauðsynlegt að breyta lagaákvæðum hér á landi vegna þessarar tilskipunar því að ákvæði hennar voru höfð til hliðsjónar þegar frumvarpið, sem varð að lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, var samið. Á grundvelli tilvísunar milli laga gilda þessi ákvæði bankalaganna einnig um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. lög nr. 123/1993.
    Tilskipun ráðsins 92/121/EBE frá 21. desember 1992 um eftirlit með stórum áhættum lánastofnana. Þessi tilskipun var hluti af „viðbótarpakkanum“. Ákvæðum hennar var hrint í framkvæmd hér á landi með setningu reglugerðar nr. 366/1994 um hámark lána og ábyrgða viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana á grundvelli reglugerðarheimilda í lögum nr. 43/1993 og í lögum nr. 123/1993.
    Tilskipun ráðsins 93/6/EBE frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana. Þessi tilskipun var hluti af „viðbótarpakkanum“. Ákvæði hennar eiga að koma til framkvæmda eigi síðar en 31. desember 1995 þótt vitað sé að bæði í Danmörku og Englandi hyggjast stjórnvöld ekki láta hana taka gildi fyrr en 1. janúar 1996. Aðildarríkin eru skuldbundin til að breyta lögum og reglugerðum vegna hennar í síðasta lagi 1. júlí 1995. Strangt til tekið er unnt að hrinda ákvæðum þessarar tilskipunar í framkvæmd hér á landi að því er viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir varðar á grundvelli reglugerðarheimildar ráðherra í 55. gr. laga nr. 43/1993 og reglusetningarheimildar Seðlabanka Íslands í 54. gr. sömu laga og gildandi tilvísunar milli laga nr. 43/1993 og laga nr. 123/1993 í 2. mgr. 10. gr. þeirra síðarnefndu. Af ástæðum sem raktar eru hér á eftir er þó talið heppilegra að breyta eiginfjárákvæðum í lögum nr. 43/1993. Í 8. og 9. gr. frumvarpsins eru tillögur um breytingar þar að lútandi.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB frá 30. maí 1994 um innlánatryggingakerfi. Sameiginlega EES-nefndin ákvað á fundi sínum 28. október 1994 að þessi tilskipun skyldi verða hluti af EES-samningnum. Ákvæði hennar áttu að koma til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 1995. Við fyrstu athugun var talið að unnt yrði að hrinda ákvæðum þessarar tilskipunar í framkvæmd á grundvelli almennrar reglugerðarheimildar og sérstakrar heimildar til að setja reglugerð um Tryggingarsjóð viðskiptabanka í lögum nr. 43/1993 og með því að breyta samþykktum fyrir Tryggingarsjóð sparisjóða. Nánari skoðun hefur hins vegar leitt í ljós að slík lausn yrði ekki byggð á nægjanlega traustum lagagrunni að því er varðar tiltekin ákvæði í þessari tilskipun. Hér er einkum um að ræða skilgreiningu á innstæðu, afdráttarlausa skyldu til að undanþiggja tilteknar innstæður tryggingunni, ótvíræða skylduaðild viðskiptabanka og sparisjóða að tryggingarsjóði, möguleika á aðild útibúa erlendra viðskiptabanka og sparisjóða að tryggingarsjóði hér á landi, ákvæði um auglýsingar viðskiptabanka og sparisjóða á aðild sinni að tryggingarsjóðunum og úrræði sem unnt er að grípa til ef viðskiptabanki eða sparisjóður eða útibú slíkrar erlendrar stofnunar hér á landi stendur ekki við skyldur sínar gagnvart tryggingarsjóði. Í 16. gr. frumvarpsins eru því lagðar til umtalsverðar breytingar á X. kafla laga nr. 43/1993 en í honum er fjallað um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða.
    
Tilskipun ESB um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana.
    Sem fyrr segir tekur tilskipun ráðsins 93/6/EBE um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana til viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana hér á landi. Auk þeirra tekur hún til fjárfestingarfyrirtækja (verðbréfafyrirtækja) og samhliða þessu frumvarpi er lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra laga um verðbréfaviðskipti í stað gildandi laga, nr. 9/1993. Í því frumvarpi er m.a. kveðið á um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar.
    Í stuttu máli er megintilgangur tilskipunar 93/6/EBE sá að tryggja að eiginfjárhlutfall fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana endurspegli ýmiss konar áhættu sem sérhvert fyrirtæki tekur á sig vegna markaðsáhættu verðbréfa og vegna gengisáhættu. Þá er í tilskipuninni kveðið á um lágmarksstofnfé fjárfestingarfyrirtækja. Einnig er þar að finna ákvæði er lúta að hámarki lána og ábyrgða til einstakra viðskiptavina eða fjárhagslega tengdra viðskiptavina og ákvæði er lúta að eftirliti á samstæðugrundvelli og koma þau til viðbótar ákvæðum sérstakra tilskipana um þessi atriði (tilskipanir ráðsins 92/121/EBE og 92/30/EBE).
    Auk meginmáls eru sex viðaukar í tilskipun 93/6/EBE þar sem nánar er fjallað um mismunandi áhættu og þá eiginfjárkröfu sem gerð er í hverju tilviki:
    
I.
    viðauki:     Stöðuáhætta.
    
II.
    viðauki:     Uppgjörsáhætta og mótaðilaáhætta.
    
III.
    viðauki:     Gengisáhætta.
    
IV.
    viðauki:     Önnur áhætta.
    
V.
    viðauki:     Eigið fé.
    
VI.
    viðauki:     Stór áhætta.
    Grundvallarhugmyndin í eiginfjárreglunum í tilskipuninni er að greint sé á milli áhættutegunda fyrir hverja einustu skuldbindingu í svokallaðri veltubók (í henni eru verðbréf sem keypt eru til að hagnast á markaðssveiflum) og eiginfjárkrafa reiknuð út fyrir sérhverja áhættutegund. Heildareiginfjárkrafa vegna sérhverrar skuldbindingar er svo fundin út með því að leggja saman eiginfjárkröfu vegna hverrar áhættutegundar. Rétt er að benda á að þær eiginfjárreglur, sem í gildi eru hér á landi og í öðrum iðnríkjum (Basel-reglurnar), endurspegla einungis þá áhættu sem felst í því hver útgefandi skuldbindingar er.
    Samhliða því sem gerðar eru auknar eiginfjárkröfur til banka, sparisjóða og annarra lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja er þeim samkvæmt tilskipuninni heimilað að telja nýja liði til eigin fjár. Lagt er til að hér á landi verði farin sama leið og Danir hafa aðhyllst, þ.e. að einungis verði heimilað að telja einn þessara liða, víkjandi lán til skamms tíma, til eigin fjár en hinum sleppt.
    Þar sem sömu eiginfjárkröfur eru gerðar til viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana annars vegar og fjárfestingarfyrirtækja hins vegar þykir eðlilegt að ákvæði þar að lútandi séu eins í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði (þau ákvæði munu síðan gilda um aðrar lánastofnanir vegna tilvísunar milli laga) og lögum um verðbréfaviðskipti. Því er í 8. og 9. gr. frumvarpsins lagt til að gerðar verði breytingar á 54. og 55. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði þannig að orðalag þeirra greina verði samhljóða hliðstæðum ákvæðum í lögum um verðbréfaviðskipti, að breyttu breytanda, sem fram koma í frumvarpi til nýrra laga þar að lútandi.
    
Tilskipun um innstæðutryggingar.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB um innlánatryggingakerfi (innstæðutryggingar) tekur við af tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins frá 1986 um að komið yrði á innstæðutryggingum innan bandalagsins. Er talið nauðsynlegt að fyrirkomulag innstæðutrygginga verði samræmt innan Evrópusambandsins nú þegar komið hefur verið á sameiginlegum markaði fyrir bankaþjónustu. Í tilskipuninni eru innstæður skilgreindar. Auk hefðbundinna innlána teljast til þeirra skuldabréf, víxlar og hliðstæðar skuldaviðurkenningar sem bankar, sparisjóðir og hliðstæðar stofnanir gefa út sem verðbréf. Undanþegnar tryggingu skulu vera innstæður í eigu annarra lánastofnana, liðir sem flokkast geta undir eigið fé, svo sem hlutafé og varasjóðir, og innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti. Þá er stjórnvöldum heimilt að undanskilja aðra liði tryggingunni eða lækka hana, svo sem innstæður í eigu ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga, tryggingafélaga, verðbréfasjóða, lífeyrissjóða og stjórnenda hlutaðeigandi stofnunar, innstæður annarra félaga í samsteypu með hlutaðeigandi stofnun, nafnlausa innlánsreikninga, innstæður í gjaldmiðlum ríkja utan ESB (breytist í EES þegar tilskipunin tekur gildi innan EES) og skuldabréf, víxla og hliðstæðar skuldaviðurkenningar sem hlutaðeigandi stofnun gefur út.
    Aðildarríkin skulu sjá til þess að starfandi sé opinberlega viðurkennt kerfi innstæðutrygginga. Það skal vera skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis til innlánsstofnunar að hún sé aðili að slíku kerfi. Standi innlánsstofnun ekki við skuldbindingar sínar gagnvart innstæðutyggingakerfinu á að vera unnt að grípa til aðgerða, jafnvel svipta stofnunina starfsleyfi.
    Tryggingin skal einnig ná til innstæðna í útibúum innlendra stofnana í öðrum aðildarríkjum, þó þannig að ef tryggingin í heimaríkinu er betri en tryggingin í gistiríkinu þar sem útibúið er staðsett skal tryggingin skert þannig að innstæður í útibúinu njóti ekki betri tryggingar. Þessi takmörkun gildir til ársloka 1999. Þegar um hið gagnstæða er að ræða, þ.e. að trygging í gistiríki þar sem útibú er staðsett er betri en í heimaríki hlutaðeigandi stofnunar, á útibúinu að vera heimilt að afla sér aukinnar tryggingar hjá innstæðutryggingarkerfinu í gistiríkinu. Þessi tvö atriði, „útflutningsbannið“ og „uppbótarákvæðið“, hafa mætt harðri andstöðu þýskra stjórnvalda og þarlendra banka en þar í landi hefur verið komið á laggirnar betra innstæðutryggingarkerfi en þekkist í flestum öðrum aðildarríkjum ESB. Hyggjast þýsk stjórnvöld leita allra leiða til að fá þessum ákvæðum tilskipunarinnar hnekkt. Andstaða þeirra byggist aðallega á því að umrædd ákvæði valda því að samkeppnisforskot þýskra banka vegna betri innstæðutrygginga hverfur.
    Lágmarkstrygging samkvæmt tilskipuninni skal nema 20.000 ECU (tæplega 1,7 milljónir króna). Þessi fjárhæð miðast við innstæðueigendur en ekki innlánsreikninga. Þetta þýðir að samanlagðar innstæður hvers innstæðueiganda innan sömu stofnunar skulu vera tryggðar upp að jafnvirði 20.000 ECU hið lægsta. Í tilskipuninni er gefinn aðlögunarfrestur að þessu lágmarki í ríkjum þar sem trygging er lægri við gildistöku tilskipunarinnar þannig að heimilt er að miða við 15.000 ECU fram til ársloka 1999. Þá er heimilt að takmarka trygginguna við ákveðið hlutfall af innstæðum, þó ekki lægra en 90% þar til tryggingin nær 20.000 ECU. Þess má geta að samkvæmt tilskipuninni getur ríkisábyrgð eða ábyrgð annarra opinberra aðila á skuldbindingum viðskiptabanka eða sparisjóðs ekki komið í stað innstæðutrygginga.
    Loks skal nefnt að aðildarríkin skulu sjá til þess að innlánsstofnanir veiti núverandi og væntanlegum innstæðueigendum nauðsynlegar upplýsingar um það hvaða innstæðutryggingarkerfi stofnunin tengist og helstu upplýsingar um trygginguna.
    
Helstu atriði frumvarpsins.
    Veigamestu atriði frumvarpsins eru í 8. og 16. gr. þess. Í fyrri greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðum um eigið fé og eiginfjárhlutfall viðskiptabanka og sparisjóða. Tilgangur þeirra er að orðalag þessara ákvæða verði nánast samhljóða hliðstæðum ákvæðum í lögum um verðbréfaviðskipti, að breyttu breytanda, sbr. frumvarp til nýrra laga um það efni sem lagt er fram á Alþingi samhliða þessu frumvarpi, og endurspegli ákvæði í tilskipun um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja (verðbréfafyrirtækja) og lánastofnana. Á móti nýjum eiginfjárkröfum vegna áhættu sem viðskiptabankar og sparisjóðir taka á sig í tengslum við kaup þeirra á ýmiss konar verðbréfum verður þeim heimilað að telja nýjan lið, víkjandi lán til skamms tíma, til eigin fjár.
    Í 16. gr. eru lagðar til umtalsverðar breytingar á X. kafla laganna í því skyni að unnt sé að hrinda í framkvæmd hér á landi ákvæðum tilskipunar ESB um innstæðutryggingar. Þótt skilgreining á innstæðu í tilskipuninni, þ.e. innlán að viðbættum verðbréfum, sé víðtækari en sú skilgreining sem beitt hefur verið hér á landi þegar innstæðutryggingar eru annars vegar er ekki gert ráð fyrir að víðtækari skilgreining verði tekin upp hér á landi. Er þetta í fullu samræmi við heimildir í tilskipuninni um að undanskilja megi liði eins og verðbréf. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að heimildir tilskipunarinnar til að undanskilja aðra liði eða lækka trygginguna á einstökum liðum verði nýtt. Því er gert ráð fyrir að gildissvið tryggingarinnar hér á landi verði óbreytt frá því sem verið hefur að undanskildum innstæðum í eigu viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem verða skilyrðislaust að vera undaþegnar tryggingunni.
    Hér á landi gildir að bætur skulu skertar hlutfallslega jafnt ef eignir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka eða Tryggingarsjóðs sparisjóða duga ekki til að bæta innstæður að fullu. Í tilskipuninni er hins vegar gert ráð fyrir að innstæður upp að jafnvirði 20.000 ECU skuli bættar að fullu eins og þegar hefur verið rakið. Þetta þýðir að breyta verður innstæðutryggingum hér á landi á þann hátt að samanlagðar innstæður innstæðueiganda undir þessu marki verða að fullu tryggðar en hugsanleg skerðing vegna ónógra eigna tryggingarsjóðanna að koma á þann hluta samanlagðrar innstæðu sem er umfram fyrrgreind mörk.
    Í tilskipuninni er gert ráð fyrir að til greiðslu úr tryggingarsjóðum geti komið fyrr og undir öðrum kringumstæðum en gilt hefur hér á landi. Í tilskipuninni er miðað við að greiðsla skuli innt af hendi þegar viðskiptabanki eða sparisjóður er að mati lögbærra yfirvalda af fjárhagslegum ástæðum ekki fær um að endurgreiða nú þegar eða í nánustu framtíð innstæðu í samræmi við þá skilmála sem um hana gilda. Slíkt mat verður að liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að staðfest var að hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður gat ekki endurgreitt innstæðuna. Hér á landi er hins vegar miðað við að viðskiptabanki eða sparisjóður hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta.
    Nefnd, sem viðskiptaráðherra skipaði í maí 1993 til að móta tillögur um framtíðarfyrirkomulag innstæðutrygginga hér á landi og hlutverk og starfsheimildir tryggingarsjóðanna tveggja, lauk störfum í apríl 1994. Hún lagði til að tryggingarsjóðirnir störfuðu áfram með óbreyttum hætti að öðru leyti en því sem reynast kann nauðsynlegt vegna samræmdra reglna um innstæðutryggingar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hún lagði með öðrum orðum til að tryggingarsjóðirnir störfuðu aðskildir enn um sinn. Hins vegar taldi nefndin margt mæla með því að innan nokkurra ára yrðu tryggingarsjóðirnir sameinaðir.
    Í 16. gr. frumvarpsins er lagt til að hluti af starfsemi Tryggingarsjóðs sparisjóða verði sameinaður Tryggingarsjóði viðskiptabanka í ársbyrjun 1996 undir heitinu Tryggingarsjóður innlánsstofnana. Sá sjóður mun annast innstæðutryggingar hjá öllum viðskiptabönkum og sparisjóðum auk þess sem hann getur veitt þessum stofnunum víkjandi lán til að efla eiginfjárstöðu þeirra. Nýi sjóðurinn yfirtekur allar eignir og skuldir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka og verður sá sjóður lagður niður. Lagt er til að Tryggingarsjóður sparisjóða greiði Tryggingarsjóði innlánsstofnana 300 milljónir króna við stofnun þess síðarnefnda. Þessi fjárhæð er rétt rúmlega 1% af áætluðum tryggðum innstæðum í sparisjóðunum 1994 miðað við reglur frumvarpsins. Eignir Tryggingarsjóðs viðskiptabanka námu 1.540 milljónum króna í árslok 1994. Heildareignir Tryggingarsjóðs innlánsstofnana yrðu því milli 1.800 og 1.900 milljónir króna við stofnun hans. Er þetta vel yfir 1% af áætluðum tryggðum innstæðum samkvæmt reglum frumvarpsins. Sameining tryggingarsjóðanna leiðir því ekki til þess að viðskiptabankar og sparisjóðir þurfi að hefja inngreiðslur í hinn nýja sjóð.
    Lagt er til að Tryggingarsjóður sparisjóða starfi áfram með sömu starfsheimildir og áður að undanskildum innstæðutryggingum. Tryggingarsjóður sparisjóða hefur á undanförnum árum gegnt veigamiklu hlutverki í endurskipulagningu sparisjóðakerfisins og á þátt í að greiða fyrir sameiningu ýmissa sparisjóða og fjárhagslegri endurskipulagningu nokkurra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur bent á að í bankalögunum sé ekki ótvírætt ákvæði eins og í hlutaðeigandi tilskipun um að heimilt sé að afturkalla starfsleyfi ef stofnun hefur ekki starfsemi innan tólf mánaða frá því að leyfi var veitt. Í 1. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að ráðherra geti bundið starfsleyfi því skilyrði að hefjist starfsemi ekki innan tilskilins tíma eftir veitingu leyfisins falli það úr gildi. Til að bæta úr þessu er í a-lið 1. gr. frumvarpsins lagt til að lokamálsliður 1. mgr. 4. gr. falli brott. Í 20. gr. frumvarpsins er lagt til að 1. mgr. 89. gr. verði breytt og kveðið þar á um tólf mánaða tímamörkin.
    Í ljós hefur komið að í bankalögin vantar ákvæði úr hlutaðeigandi tilskipun um að með umsókn um starfsleyfi skuli fylgja lýsing á því hvaða starfsemi ætlunin er að stunda og á innra skipulagi viðskiptabanka eða sparisjóðs. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að úr þessu verði bætt með breytingu á 2. mgr. 4. gr.
    Í 26. gr. laganna er kveðið á um að synjun ráðherra á umsókn um starfsleyfi skuli send umsækjanda að jafnaði eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra. Jafnframt er kveðið á um að slík ákvörðun skuli ávallt liggja fyrir innan sex mánaða. Enginn slíkur frestur er tilskilinn þegar um er að ræða jákvæða afgreiðslu á umsókn skv. 4. gr. laganna. Nú er lagt til að úr þessu verði bætt þannig að í 4. gr. laganna verði almennt ákvæði um skyldu til að afgreiða umsókn innan sex mánaða frá því að fullbúin umsókn berst ráðherra. Stjórnvöldum er óheimilt að brjóta á þessum rétti umsækjanda um leyfi, en hann getur eftir atvikum leitað réttar síns fyrir dómstólum brjóti stjórnvöld gegn þeim rétti. Í c-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að slíkt ákvæði bætist við 4. gr. laganna.
    

Um 2. gr.


    Í samræmi við tillögu frá Seðlabanka Íslands er lagt til að fellt verði brott gildandi ákvæði laga um að ríkisviðskiptabankar skuli leita eftir samþykki Alþingis til að taka víkjandi lán til að efla eiginfjárstöðu sína. Ríkisbankarnir taka lán með margs konar hætti án sérstakrar heimildar Alþingis, svo sem með sölu verðbréfa og víxla en slíkar lántökur fela í raun í sér ríkari skuldbindingar en víkjandi lán. Rétt þykir því að umrætt ákvæði verði fellt brott úr lögunum.

Um 3. gr.


    Í ýmsum gildandi ákvæðum laganna er kveðið á um Lánastofnun sparisjóðanna hf. eða félag sem leysir hana af hólmi, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögunum. Sparisjóðabanki Íslands hf. er viðskiptabanki (hlutafélagsbanki) í eigu sparisjóðanna. Hann tók til starfa 1. janúar 1994 og leysti Lánastofnun sparisjóðanna hf. af hólmi. Rétt þykir að leggja til að nafn bankans komi alls staðar í stað Lánastofnunar sparisjóðanna hf. í lögunum.

Um 4. gr.


    Um athugasemdir við þessa grein er vísað til athugasemda við c-lið 1. gr. frumvarpsins.
    

Um 5. gr.


    ESA hefur bent á að gildandi ákvæði 3. mgr. 46. gr. laganna séu ekki fyllilega í samræmi við ákvæði hlutaðeigandi tilskipunar. Hér er lagt til að úr þessu verði bætt.
    

Um 6. og 7. gr.


    Um athugasemdir við þessar greinar er vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.
    

Um 8. gr.


    Í athugasemdum við frumvarpið er gerð grein fyrir ákvæðum tilskipunar Evrópubandalagsins 93/6/EBE um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana og að þau nái til verðbréfafyrirtækja, viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Strangt til tekið er ekki nauðsynlegt að breyta ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar gagnvart þessum stofnunum því í 5. mgr. 55. gr. er ráðherra heimilað að bæta nýjum liðum við eigið fé eins og það er skilgreint í 54. gr. Í fyrrgreindri tilskipun er einmitt heimilað að telja nýja liði til eigin fjár. Önnur atriði tilskipunarinnar, eins og þau snerta viðskiptabanka og sparisjóði, stangast ekki á við gildandi lagaákvæði en hafa þess í stað áhrif á reglur um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli þessara stofnana sem Seðlabankinn gefur út á grundvelli heimildar í 1. mgr. 54. gr. Gildandi reglur um það efni eru frá 30. desember 1993. Þær þarf að endurskoða með tilliti til ákvæða tilskipunarinnar.
    Þar sem ákvæði um eigið fé eiga að vera eins fyrir fjárfestingarfyrirtæki, viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir þykir hins vegar rétt að leggja til að ákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði verði breytt til samræmis við orðalag hliðstæðra ákvæða í frumvarpi til nýrra laga um verðbréfaviðskipti sem lagt er fram á Alþingi samhliða þessu frumvarpi, að breyttu breytanda.
    Mikilvægasta breytingin frá gildandi lögum er sú að viðskiptabönkum og sparisjóðum verður heimilt að telja nýjan lið, eiginfjárþátt C, til eigin fjár. Hér er um að ræða víkjandi lán sem tekin eru til minnst tveggja ára. Ýmis skilyrði gilda um þennan eiginfjárþátt og eru þau talin upp í ákvæðinu.
    Auk hins nýja eiginfjárþáttar eru lagðar til tvær breytingar á eiginfjárþáttum A og B. Varðandi eiginfjárþátt A er í 3. mgr. ekki lengur gert ráð fyrir því ákvæði í gildandi 3. mgr. 54. gr. að til eiginfjárþáttar A teljist sá hluti afskriftareiknings sem endurspeglar ekki rýrnun á verðmæti útlána, þó að hámarki 1,25% af áhættugrunni, og er umfram almenn og sérstök tillög í reikninginn. Þetta ákvæði, sem á sér fyrirmynd í hlutaðeigandi tilskipun, er óþarft miðað við reikningsskilavenjur hér á landi og getur jafnvel valdið misskilningi. Því er lagt til að það verði ekki tekið upp í 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Varðandi eiginfjárþátt B er í 3. mgr. lagt til að kveðið verði á um að sé um að ræða víkjandi lán sem greiðist niður með afborgunum á lánstímanum þá skuli reikna hvern afborgunarhluta lánsins niður á sambærilegan hátt. Þessi breyting er nauðsynleg til samræmis við túlkun annarra ríkja á tilsvarandi ákvæði tilskipunarinnar um eiginfjárhlutfall lánastofnana. Samkvæmt þessu ákvæði er gert ráð fyrir að t.d. afborgunarhluti, sem á fjögur ár eftir til gjalddaga, reiknist niður um 20% og afborgunarhluti, sem á eftir eitt ár til gjalddaga, reiknist niður um samtals 80% o.s.frv. Lán með jöfnum afborgunum, sem á fimm ár eftir til síðasta gjalddaga, mundi þannig reiknast niður um samtals 40% þegar fimm ár eru eftir. Hér er um að ræða strangari ákvæði en samkvæmt túlkun þeirri sem beitt hefur verið á gildandi ákvæði laganna og er því gert ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða að þetta breytta ákvæði gildi ekki fyrir þau víkjandi lán sem tekin eru fyrir gildistöku laganna. Þess má geta að enn strangari túlkun er beitt í ýmsum öðrum ríkjum á þessu ákvæði tilskipunarinnar en hér er gert ráð fyrir.
    

Um 9. gr.


    Um athugasemdir við a-lið er vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins. Í b-lið felst annars vegar breyting á gildandi ákvæði 5. mgr. 55. gr. um að ráðherra geti ákveðið að aðrir efnahagsliðir en taldir eru upp í 54. gr. skuli teljast til eigin fjár. Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að hliðstætt ákvæði verði í 54. gr. Er eðlilegra að kveða á um þetta atriði í þeirri grein en 55. gr. Hins vegar felst í b-lið að 6. mgr. 55. gr. falli brott en í henni er kveðið á um að ákvæði 54. og 55. gr. gildi um Lánastofnun sparisjóðanna hf. Í athugasemdum við 3. gr. kemur fram að Sparisjóðabanki Íslands hf. sem er viðskiptabanki (hlutafélagsbanki) hafi leyst Lánastofnun sparisjóðanna hf. af hólmi. Ákvæði 54. og 55. gr. gilda með almennum hætti um hann og er ákvæði 6. mgr. því óþarft.
    

Um 10. gr.


    Í þessari grein er lagt til að breytt verði ákvæði 2. mgr. 56. gr laganna til samræmis við lög nr. 144/1994, um ársreikninga, sbr. og fyrirliggjandi frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti. Jafnframt hefur bankaeftirlit Seðlabanka Íslands bent á að eðlilegt er að tilgreina að ársreikningur sé undirritaður af þeim er greinir í ákvæðinu og jafnframt skuli þeir hinir sömu gera grein fyrir fyrirvörum sínum í árituninni. Skýrsla stjórnar er samþykkt á venjubundinn hátt.
    

Um 11. gr.


    Þegar frumvarpið, sem varð að lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, var til umfjöllunar á Alþingi ákvað efnahags- og viðskiptanefnd að leggja til að ákvæði um að bankaeftirlitið gæfi út reglur um gerð ársreiknings yrði breytt á þann veg að aðeins skyldi kveðið á um að almennar leiðbeinandi reglur skyldu liggja fyrir. Samkvæmt tilskipun ráðsins 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana, sem er hluti af EES-samningnum, er það hins vegar ótvíræð skylda aðildarríkjanna að setja reglur um þetta efni. Af hálfu ráðuneytisins var litið svo á að orðalag 57. gr. heimilaði bankaeftirlitinu að gefa út reglur um þetta efni. Var það gert 7. október 1994. Strangt til tekið eru þær reglur hins vegar aðeins leiðbeinandi. Drög að þeim voru samin í bankaeftirlitinu í ágætri samvinnu við viðskiptabanka og sparisjóði, endurskoðendur þeirra og Félag löggiltra endurskoðenda. Ráðuneytið á því ekki von á öðru en að farið verði eftir þessum leiðbeinandi reglum. Sú hætta er hins vegar fyrir hendi að svo verði ekki gert. Það mundi leiða til þess að viðskiptabanki eða sparisjóður hér á landi setti upp ársreikning sinn með öðrum hætti en gildir innan EES-svæðisins. Samkvæmt EES-samningnum eiga stjórnvöld hins vegar að sjá til þess að fylgt sé samræmdum reglum. Því er lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að bankaeftirlitinu verði gert að gefa út reglur um gerð ársreiknings. Er það í samræmi við ákvæði í lögum nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, að fela bankaeftirlitinu þetta verkefni.
    

Um 12. gr.


    Í 56. gr. laganna kemur skýrt fram að skýrsla stjórnar er ekki hluti af ársreikningi viðskiptabanka og sparisjóðs. Orðalag gildandi 58. gr. bendir hins vegar til að skýrsla stjórnar sé hluti af ársreikningnum. Þar sem það er rangt er lagt til að orðalagi 58. gr. verði breytt.

Um 13. gr.


    Í lokamálslið 7. mgr. 62. gr. er kveðið á um að bankaeftirlitið geti veitt sparisjóði undanþágu frá því að stofna endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun. Í a-lið er lagt til að undanþáguheimildin verði ekki bundin við sparisjóði eingöngu. Vegna tilvísunar í lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, gildir þetta ákvæði einnig um aðrar lánastofnanir. Þykir eðlilegt að bankaeftirlitið geti veitt slíkum stofnunum undanþágu frá stofnun endurskoðunardeildar. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um undanþágu verði byggð á faglegu mati og að fyrst og fremst verði litið til umfangs og aðstæðna hlutaðeigandi stofnunar. Jafnframt er lögð til sú nýjung að bankaeftirlitið geti bundið undanþáguna skilyrði.
    Breytingin í b-lið er nauðsynleg vegna tilskipunar ESB um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana. Í henni er kveðið á um að þessar stofnanir skuli hafa yfir að ráða eftirlitskerfi með vaxtaáhættu. Samkvæmt b-lið er bankaeftirlitinu veitt heimild til að setja leiðbeinandi reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða.
    Í b-lið er lagt til að bankaeftirlitinu verði gert að setja reglur sem kveðið er á um í 9. mgr. 62. gr. laganna. Í c-lið er lagt til að sú málsgrein falli brott. Samkvæmt 9. mgr. 62. gr. skulu almennar leiðbeinandi reglur um endurskoðun liggja fyrir á aðgengilegan hátt. Þetta orðalag er óljóst og hefur valdið vandkvæðum. Í fyrsta lagi er óljóst hver á að setja slíkar reglur og í öðru lagi er ekki ljóst hvort átt er við að fyrirliggjandi skuli vera almennar reglur um endurskoðun fyrirtækja almennt. Því er lagt til að ákvæðinu verði breytt þannig að skýrt komi fram hver eigi að setja slíkar reglur og enn fremur eru felld út orðin „almennar og leiðbeinandi“, enda er talið eðlilegt að um endurskoðun fjármálastofnana á borð við viðskiptabanka og sparisjóði gildi reglur sem fara skuli eftir. Þess má geta að bankaeftirlitið hefur sett reglur um endurskoðun viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana skv. 62. gr. laganna, sbr. 11. gr. laga nr. 123/1993, enda þótt lagagrundvöllurinn hafi ekki verið skýr. Reglur þessar voru samdar í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda.
    

Um 14. gr.


    Í 53.–55. gr. laganna er fjallað um laust fé og eigið fé en ekki lánveitingar og ábyrgðir. Því er lagt til að mistök í orðalagi 1. málsl. 7. mgr. 66. gr. verði leiðrétt.
    

Um 15. gr.


    Af orðalagi 2. mgr. 67. gr. er ljóst að það er stjórnar hlutaðeigandi stofnunar að útbúa reikningsuppgjör það sem um getur í 2. málsl. 3. mgr. sömu greinar en ekki endurskoðandans. Því er lagt til að orðalag síðarnefnda ákvæðisins verði leiðrétt.
         

Um 16. gr.


    Hér eru lagðar til verulegar breytingar á X. kafla laganna í því skyni að lögfesta meginatriði tilskipunar um innstæðutryggingar. Jafnframt er lagt til að nýr sjóður, Tryggingarsjóður innlánsstofnana, annist innstæðutryggingar hér á landi og yfirtaki þar með Tryggingarsjóð viðskiptabanka og hluta af starfsemi Tryggingarsjóðs sparisjóða.
    
Um 75. gr.
    Í 1. mgr. er kveðið afdráttarlaust á um aðild viðskiptabanka og sparisjóða að Tryggingarsjóði innlánsstofnana. Er það í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar um innstæðutryggingar. Í núgildandi 76. gr. er kveðið með afdráttarlausum hætti á um aðild sparisjóðanna að Tryggingarsjóði sparisjóða en hliðstætt ákvæði um viðskiptabanka er ekki að finna í núgildandi 75. gr. Tryggingarsjóður viðskiptabanka er í eigu ríkisins en Tryggingarsjóður sparisjóða er sjálfseignarstofnun. Gert er ráð fyrir að hinn nýi sjóður verði sjálfseignarstofnun. Hvorki ríkissjóður né viðskiptabankar og sparisjóðir sem aðilar eru að sjóðnum munu bera ábyrgð á skuldbindingum hans.
    Í 2. mgr. er kveðið á um deildaskiptingu Tryggingarsjóðs innlánsstofnana. Önnur deildin, innstæðudeild, annast innstæðutryggingar og hin, lánadeild, getur veitt víkjandi lán. Þykir eðlilegt að deildirnar hafi algerlega aðskilinn fjárhag og reikningshald og að eignir annarrar verði ekki notaðar til að standa skil á skuldbindingum hinnar. Sams konar ákvæði er að finna um Tryggingarsjóð viðskiptabanka í núgildandi 1. mgr. 75. gr.
    
Um 76. gr.
    Hér er kveðið á um meginatriðin varðandi stjórnun Tryggingarsjóðs innlánsstofnana. Ákvæðin eiga sér ákveðna fyrirmynd í ákvæðum um Tryggingarsjóð sparisjóða í núgildandi 78.–82. gr. Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla verði í samþykktum sjóðsins. Vegna hlutverks sjóðsins þykir eðlilegt að samþykktirnar þurfi að hljóta staðfestingu ráðherra. Sömuleiðis þykir eðlilegt vegna hlutverks sjóðsins að stjórn hans skuli skipuð fulltrúum stjórnvalda til jafns á við fulltrúa aðildarstofnana og að annar fulltrúi aðildarstofnana sé skipaður af viðskiptabönkunum og hinn af sparisjóðunum. Skv. 4. mgr. er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um ársreikning og endurskoðun Tryggingarsjóðs innlánsdeilda og um viðskiptabanka og sparisjóði og að bankaeftirlit Seðlabankans hafi eftirlit með starfsemi hans.
    
Um 77. gr.
    Í 1. mgr. er kveðið á um meginhlutverk Tryggingarsjóðs innlánsstofnana sem er að tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu þegar viðskiptabanki eða sparisjóður getur ekki innt hana af hendi af ástæðum sem tengjast beint fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi stofnunar. Greiðsluskyldan getur vaknað með tvennum hætti: Annars vegar metur bankaeftirlitið það svo í síðasta lagi þremur vikum eftir að endurgreiðslu var krafist að hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður geti ekki innt hana af hendi nú þegar eða í nánustu framtíð. Hugtakið nánasta framtíð er ekki skilgreint en ljóst er að þar getur ekki verið um að ræða lengri tíma en nokkra mánuði. Hins vegar vaknar greiðsluskylda tryggingarsjóðs ef viðskiptabanka eða sparisjóði er slitið. Slit geta tekið langan tíma og er bagalegt fyrir innstæðueigendur að þurfa að bíða lengi eftir innstæðum sínum. Þetta ákvæði, sem er í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar, er verulega frábrugðið hliðstæðu ákvæði í núgildandi 75. og 76. gr. Samkvæmt núgildandi ákvæðum kemur ekki til greiðslu úr tryggingarsjóðunum fyrr en við skipti á búi.
    Í 2. mgr. er innstæða skilgreind. Er þar byggt á skilgreiningu á þessu hugtaki í tilskipuninni um innstæðutryggingar. Til innstæðu teljast innlán og millifærslur. Dæmi um hið síðarnefnda er þegar greitt er í einum banka inn á reikning í öðrum banka. Svo kann að fara að fyrrnefndi bankinn geti ekki staðið skil á greiðslunni til hins síðarnefnda og kemur þá til kasta tryggingarsjóðsins. Í tilskipuninni um innstæðutryggingar er kveðið á um að til innstæðu teljist einnig skuldabréf, víxlar og aðrar kröfur sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa. Dæmi um þess háttar verðbréf eru bankabréf og bankavíxlar sem gefin hafa verið út af viðskiptabönkum og sparisjóðum hér á landi til að afla sér fjár. Þetta er víðtækari skilgreining á innstæðu en gildir hér á landi því samkvæmt núgildandi 75. og 76. gr. er Tryggingarsjóði viðskiptabanka og Tryggingarsjóði sparisjóða einungis ætlað að tryggja skil á innlánsfé. Í tilskipuninni er ákvæði sem heimilar aðildarríkjunum að undanþiggja tryggingunni ýmis innlán sem og útgefin verðbréf. Hér er því lagt til að þessi heimild verði nýtt þannig að verðbréf teljist ekki til innstæðu.
    Í 3. mgr. eru taldar upp innstæður sem samkvæmt tilskipuninni skulu ávallt vera undanþegnar tryggingu. Þar er í fyrsta lagi um að ræða innstæður í eigu annarra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning. Innstæðutryggingum er fyrst og fremst ætlað að bæta tjón almennra innstæðueigenda en ekki annarra lánastofnana sem ættu að búa yfir nægjanlegri þekkingu á fjárhagsstöðu annarra slíkra stofnana til að vita hvar þeim er óhætt að leggja inn fé sitt. Í öðru lagi er um að ræða innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti. Samkvæmt núgildandi lagaákvæðum eru þessar innstæður ekki undanþegnar tryggingu þannig að hér er um að ræða þrengingu frá núgildandi fyrirkomulagi. Sem fyrr greinir eru íslensk stjórnvöld bundin af ákvæðum tilskipunarinnar hvað þetta atriði varðar.
    Í 4. mgr. eru talin upp fimm atriði sem kveðið er á um í tilskipuninni um innstæðutryggingar og taka verður upp í íslenskan rétt. Þessi atriði eru þess eðlis að lagt er til að þau verði útfærð í reglugerð. Í fyrsta lagi á tryggingin að ná til innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka og sparisjóða erlendis. Í öðru lagi eiga hérlend útibú erlendra viðskiptabanka og sparisjóða að geta tryggt innstæður sínar hjá Tryggingarsjóði innlánsstofnana. Um útibú viðskiptabanka og sparisjóða með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins á að gilda að það á að geta aflað sér viðbótartrygginga hér á landi ef innstæðutryggingar hér á landi eru betri en í heimaríki hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs. Vilji útibúið afla sér viðbótartryggingar á Tryggingarsjóði innlánsstofnana að vera skylt að veita hana. Um útibú viðskiptabanka og sparisjóða með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins á að gilda að stjórnvöld eiga að sjá til þess að innstæðueigendur njóti tryggingar. Það getur ýmist gerst þannig að trygging í heimaríki hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs taki einnig til innstæðna hér á landi eða að útibúinu verði veitt aðild að Tryggingarsjóði innlánsstofnana. Í þriðja lagi þarf að kveða nánar á um það hvernig greiðslum úr Tryggingarsjóði innlánsstofnana skuli háttað. Í tilskipuninni er kveðið á um ákveðin tímamörk með möguleikum til framlengingar. Í fjórða lagi ber viðskiptabönkum og sparisjóðum að upplýsa viðskiptavini um aðild sína að Tryggingarsjóði innlánsstofnana en jafnframt ber stjórnvöldum að setja skorður við því að þessar upplýsingar séu notaðar í samkeppnisskyni. Loks ber að setja reglur um það hvernig með skuli farið þegar um sameiginlegan innlánsreikning er að ræða (t.d. reikning í nafni hjóna) eða þegar innstæðueigandi á ekki ótvíræðan rétt til innstæðunnar.
    
Um 78. gr.
    Hér er Tryggingarsjóði innlánsstofnana heimilað að veita viðskiptabanka eða sparisjóði víkjandi lán. Bæði Tryggingarsjóður viðskiptabanka og Tryggingarsjóður sparisjóða hafa slíka heimild. Gert er ráð fyrir að fjár til að veita víkjandi lán verði aflað með sérstakri lántöku því skv. 2. mgr. 75. gr. getur lánadeild ekki nýtt fjármuni innstæðudeildar í þessu skyni.
    
Um 79. gr.
    1. mgr. svarar til núgildandi 3. mgr. 75. gr. og 1. og 2. mgr. 77. gr. Þess skal getið að eignir innstæðudeildar Tryggingarsjóðs viðskiptabanka náðu 1% markinu 1992 og eignir Tryggingarsjóðs sparisjóða munu ná því í ár. Eins og rakið er í athugasemdum við frumvarp þetta mun sameining sjóðanna ekki leiða til þess að eignir hins nýja sjóðs fari niður fyrir 1% af tryggðum innstæðum. Viðskiptabankar og sparisjóðir munu því ekki þurfa að hefja inngreiðslur í sjóðinn. Í ljósi þess að í frumvarpinu er lagt til í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar um innstæðutryggingar að greiðslur úr Tryggingarsjóði innlánsstofnana geti hafist fyrr en samkvæmt gildandi lagaákvæðum og að ekki verði unnt að skerða greiðslur úr sjóðnum með sama hætti og nú gildir ef eignir hans hrökkva ekki til kynni að vera æskilegt að efla sjóðinn frekar. Hér er þó ekki gerð tillaga um að lögbundið 1% viðmiðunarmark fyrir heildareign Tryggingarjsóðs innlánsstofnana verði hækkað.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. um greiðslur í Tryggingarsjóð innlánsstofnana eru í tveimur veigamiklum atriðum frábrugðin gildandi ákvæðum um greiðslur í Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að greitt skuli 1% gjald af innlánsaukningu milli ára. Þótt það sé ekki tekið fram í greininni er augljóst að þetta ákvæði gildir einnig um viðskiptabanka eða sparisjóð sem er að hefja starfsemi. Er þetta eðlilegt í ljósi þess að greiðslu í sjóðinn má líkja við greiðslu iðgjalds. Að sama skapi er eðlilegt að greiðslur í sjóðinn verði óendurkræfar. Í öðru lagi er við útreikning á greiðsluskyldu einstakra viðskiptabanka og sparisjóða miðað við meðalinnstæður á árinu fremur en árslokastöðu eins og nú gildir. Með því að nota meðalinnstæður er dregið úr sveiflum milli ára sem gætu komið fram ef einungis er litið á stöðuna í lok ársins. Loks er í 2. mgr. tekið fram að ef heildareignir sjóðsins fara niður fyrir 1% lágmarkið hefja allir viðskiptabankar og sparisjóðir greiðslu í sjóðinn samkvæmt sérreglu og að á meðan það ástand varir leggi þeir jafnframt fram ábyrgðaryfirlýsingar vegna þess sem upp á vantar að 1% lágmarkinu sé náð. Sérregla þessi nær þó ekki til viðskiptabanka og sparisjóða sem taka til starfa á meðan henni er beitt heldur greiða þeir samkvæmt meginreglunni um 1% af tryggðum innstæðum.
    Í 4. mgr. eru lagðar til breytingar á núgildandi ákvæðum um skerðingu bóta ef eignir Tryggingarsjóðs innlánsstofnana duga ekki til að tryggja full skil á innlánum. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi í bæði Tryggingarsjóði viðskiptabanka og Tryggingarsjóði sparisjóða skulu öll innlán skerðast hlutfallslega jafnt. Í tilskipuninni um innstæðutryggingar er gert ráð fyrir að samanlagðar innstæður innstæðueiganda allt upp að 20.000 ECU skuli vera tryggðar. Þetta þýðir með öðrum orðum að reynist nauðsynlegt að skerða bætur vegna þess að eignir Tryggingarsjóðs innlánsstofnana reynast ekki nægjanlegar til að tryggja full skil á innstæðum má skerðingin ekki ná til innstæðueigenda sem eiga samanlagðar innstæður að lægri fjárhæð en sem svarar til 20.000 ECU. Sú staða gæti því komið upp að innstæðueigandi, sem samanlagt á 500.000 krónur, fær fjárhæðina að fullu bætta en innstæðueigandi, sem samanlagt á 2.500.000 krónur, fær 1.700.000 krónur að fullu bættar en afganginn einungis hlutfallslega eftir því sem eignir Tryggingarsjóðsins hrökkva til. Sú staða getur einnig komið upp að sjóðurinn eigi ekki nægjanlegar eignir til að greiða lágmarksbæturnar. Því er talið nauðsynlegt að veita sjóðnum lántökuheimild. Einnig getur verið verjanlegt að sjóðurinn greiði fullar bætur í stað þess að skerða þær ef eignir hrökkva ekki til.
    Ákvæði 5. mgr. þykir eðlilegt og þarfnast ekki skýringa.
    
Um 80. gr.
    Ákvæði þessarar greinar er nýjung. Í tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar er gert ráð fyrir að aðildarríkin eigi að geta gripið til ráðstafana ef stofnanir standa ekki við skyldur sínar gagnvart tryggingarsjóðum. Hér er lagt til að ráðherra geti veitt viðskiptabanka eða sparisjóði allt að sex mánaða frest til að uppfylla skyldur sínar gagnvart Tryggingarsjóði innlánsstofnana. Þennan frest má lengja um allt að sex mánuði ef ríkar ástæður eru til. Líði fresturinn án þess að úr sé bætt skal ráðherra afturkalla starfsleyfi viðskiptabankans eða sparisjóðsins að fengnu áliti bankaeftirlitsins. Auk viðskiptabanka og sparisjóða sem stofnaðir eru hér á landi tekur ákvæðið til útibúa erlendra viðskiptabanka og sparisjóða sem opnuð eru hér á landi.
    Rétt er að benda á að ákvæðið nær til allra skyldna viðskiptabanka og sparisjóða gagnvart Tryggingarsjóðnum. Þar er mikilvægust skylda til að greiða iðgjald en einnig má benda á skyldu til að veita upplýsingar um iðgjaldastofninn og skyldur sem viðskiptabanki eða sparisjóður kann að taka á sig í tengslum við lántöku úr Tryggingarsjóðnum.
    
Um 81. gr.
    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    
Um 82. gr.
    Þegar hefur verið rakið að innstæðutryggingar hjá bæði viðskiptabönkum og sparisjóðum munu verða í höndum nýs sjóðs, Tryggingarsjóðs innlánsstofnana. Hann yfirtekur Tryggingarsjóð viðskiptabanka og hluta af starfsemi Tryggingarsjóðs sparisjóða. Í 81. gr. er lagt til að fyrrnefndi sjóðurinn verði lagður niður en í 1. mgr. 82. gr. er lagt til að sá síðarnefndi starfi áfram. Samhliða því sem Tryggingarsjóður innlánsstofnana tekur við því hlutverki að tryggja innstæður í sparisjóðum greiðir Tryggingarsjóður sparisjóða honum 300 milljónir króna. Í frumvarpinu er ekki kveðið á um að sparisjóðir greiði árgjald til Tryggingarsjóðs sparisjóða en þeim er það að sjálfsögðu heimilt.
    Tryggingarsjóður sparisjóða hefur gegnt mikilvægu hlutverki fyrir sparisjóðina á undanförnum árum. Hann hefur greitt fyrir því að sparisjóðir sameinuðust og þannig átt þátt í því að auka öryggi sparisjóðakerfisins. Jafnframt hefur hann komið sparisjóðum sem lent hafa í fjárhagslegum erfiðleikum til aðstoðar með ýmsum hætti áður en það hefur verið um seinan. Þótt þörf sparisjóðanna fyrir aðstoð Tryggingarsjóðs sparisjóða sé enn fyrir hendi er ástæða til að ætla að hún kunni að minnka á næstu árum. Það stafar bæði af því að markvisst er unnið að því að sameina sparisjóði þannig að smám saman verði þeir færri og hver og einn fjárhagslega öflugri en nú er. Þá hafa á síðustu árum verið settar reglur um ýmsa þætti í starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða sem ætlað er m.a. að stuðla að enn frekara öryggi í rekstri þeirra. Má þar nefna reglur um eigið fé, eiginfjárhlutfall og reglur um hámark útlána og ábyrgða til einstakra aðila eða fjárhagslega tengdra aðila.
    Í greininni er kveðið á um nokkur meginatriði í starfsemi Tryggingarsjóðs sparisjóða en lagt til að nánar verði kveðið á um hana í samþykktum sjóðsins. Þær skulu staðfestar af ráðherra.
    

Um 17. gr.


    ESA hefur bent réttilega á að í bankalögin vanti ákvæði hlutaðeigandi tilskipunar um að dótturfyrirtæki eins eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóðs í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum starfað hér á landi. Starfsemin sem um er að ræða er sú sama og viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimil, sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna. Dótturfyrirtækinu á að vera frjálst að opna útibú hér á landi eða veita þjónustu án þess að hafa hér starfsstöð. Nú er lagt til að ákvæði um þetta verði bætt í lögin. Slík heimild nær samkvæmt ákvæði tilskipunarinnar einnig til dótturfyrirtækja slíkra dótturfyrirtækja en með því er átt við svonefnda „þriðju kynslóð“ fjármálastofnana.
    

Um 18. gr.


    Þessa breytingu leiðir af breytingunni í 17. gr. frumvarpsins. Einnig þykir eðlilegt að reglugerðarheimild þessi nái til 84. gr. laganna.
    

Um 19. gr.


    Hér er fjallað um rétt innlends dótturfyrirtækis eins eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóða til að veita þjónustu í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Um er að ræða sömu réttindi og fjallað er um í 17. gr. frumvarpsins.
    

Um 20. gr.


    ESA hefur bent réttilega á að í bankalögin vanti ákvæði hlutaðeigandi tilskipunar um að afturkalla megi starfsleyfi viðskiptabanka eða sparisjóðs ef það er fengið á grundvelli falsaðra yfirlýsinga eða á annan óeðlilegan hátt. Í a-lið þessarar greinar frumvarpsins er lagt til að úr þessu verði bætt.
    Breytingar, sem lagðar eru til í b-lið, varða einnig ábendingar frá ESA en í núgildandi lög vantar ákvæði um afturköllun leyfis nýti stofnun ekki starfsleyfi innan 12 mánaða frá veitingu þess eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt.
    Um athugasemdir við b-lið er að öðru leyti vísað til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.
    

Um 21. gr.


    Þetta ákvæði er í hlutaðeigandi tilskipun en vegna mistaka var það ekki í frumvarpinu sem varð að gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Með samskiptum er í ákvæðinu meðal annars átt við að koma formlegum bréfum frá lögbærum yfirvöldum erlendis í hendur á réttum stjórnendum viðskiptabanka og sparisjóðs hér á landi.
    

Um 22. gr.


    Um athugasemdir við þessa grein er vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða III hefur þegar verið uppfyllt og hefur því ekkert gildi lengur. Eins og fram kemur í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins tók Sparisjóðabanki Íslands hf. sem er viðskiptabanki (hlutafélagsbanki) til starfa 1. janúar 1994 og leysti af hólmi Lánastofnun sparisjóðanna hf.
    

Um 24. gr.


    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Um athugasemdir við þetta ákvæði til bráðabirgða er vísað til athugasemda við 8. gr. frumvarpsins.



Fylgiskjal I.
    

Bréf frá eftirlitsstofnun EFTA til íslenskra stjórnvalda


með athugasemdum við ýmis lagaákvæði á sviði fjármálaþjónustu.


(11. nóvember 1994.)


    
    Efni:     Breytingar á löggjöf og reglugerðum innanlands til að tryggja fullt samræmi við tilskipanir þær sem til umræðu voru á „pakkafundi“ í Reykjavík dagana 24.–25. október 1994.
    Ágæti viðtakandi:
    Í kjölfar fundarins, sem getið er hér að framan, hefur skrifstofa fjármagnsflutninga og fjármálaþjónustu farið yfir niðurstöður viðræðna við fulltrúa íslenskra stjórnvalda að því er varðar eftirfarandi tilskipanir:
    Fyrstu tilskipun um bankamál (77/780/EEC).
    Aðra tilskipun um bankamál (89/646/EEC).
    Tilskipun um peningaþvott (91/308/EEC).
    Tilskipun um verðbréfasjóði (UCITS) (86/611/EEC).
    Fyrstu tilskipun um bifreiðatryggingar (72/166/EEC).
    Aðra tilskipun um bifreiðatryggingar (84/5/EEC).
    Þriðju tilskipun um bifreiðatryggingar (90/232/EEC).
    Tilskipun um tryggingamiðlun (77/92/EEC).
    Að lokinni þessari yfirferð hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að til þess að ríkisstjórn yðar uppfylli að fullu skilyrði þessara tilskipana þurfi að gera ýmsar breytingar á íslenskri löggjöf.
    Ákvæði þau, sem Ísland á eftir að taka upp, eru talin upp í viðaukum við bréf þetta.
    Til að auðvelda vinnu við breytingarnar mun stofnunin senda stjórnvöldum yðar bæklinga af því tagi sem sýndir voru á fundinum. Yfirleitt verður um að ræða fimm bæklinga, einn fyrir hvert EFTA-ríki fyrir hverja tilskipun sem um ræðir. Í hverjum bæklingi er sett fram endurskoðuð samanburðartafla fyrir upptöku tilskipunarinnar svo og texti þeirra ráðstafana sem gerðar eru til þess að taka viðkomandi ákvæði upp í landsrétt.
    Bæklingarnir lýsa að sjálfsögðu aðstæðum eins og þær eru nú í hinum einstöku EFTA-ríkjum, áður en breytingar hafa verið gerðar á lögum í því skyni að tryggja fullt samræmi við tilskipanirnar eins og farið er fram á í þessu bréfi og sambærilegum bréfum til hinna EFTA-ríkjanna. Bæklingarnir ættu engu að síður að gera upptöku tilskipananna gegnsærri og veita raunhæf og nytsamleg dæmi um það hvernig hin einstöku ríki EFTA hafa framkvæmt ákvæði þeirra.
    Að því er varðar ráðstafanir til breytinga á landsrétti vil ég bjóða stjórnvöldum yðar að veita Eftirlitsstofnuninni, að því er varðar sérhvern lið (eða undirlið þegar við á) sem tilgreindur er í viðaukum með þessu bréfi, eftirfarandi upplýsingar:
    Í því tilviki að ríkisstjórn yðar hyggist samþykkja eða sé í þann veginn að samþykkja breytingar í því skyni að taka upp viðkomandi ákvæði:
         
    
    tímasetningu þegar breytingin eða breytingarnar verða samþykktar,
         
    
    tímasetningu þegar breytingin eða breytingarnar taka gildi,
         
    
    lögin, reglugerðir eða stjórnsýsluákvæði þar sem breytingin eða breytingarnar verða teknar upp.
    Í því tilviki að ríkisstjórn hyggist ekki gera ráðstafanir til breytinga, þá rökin fyrir þeirri ákvörðun.
    Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar til þess að stofnunin geti tekið formlega afstöðu til þess hvort og þá hvenær tryggt verði að fyrrnefndar tilskipanir muni taka fullt gildi á ljósan og ótvíræðan hátt að íslenskum lögum. Þessar upplýsingar skulu berast stofnuninni fyrir 12. desember 1994.
    

Virðingarfyllst,



Hannu von Hertzen


framkvæmdastjóri.




    

Ákvæði sem Íslandi er boðið að taka upp


að loknum „pakkafundi“ í Reykjavík


dagana 24.–25. október 1994.


    
Fyrsta tilskipun um bankamál (77/780/EEC)(FBD).
Önnur tilskipun um bankamál (89/646/EEC)(SBD).
    
A.     Umsókn um leyfi (3. gr. FBD).
    Ráðstafanir til að tryggja að upplýsingar um starfsáætlun, þ.m.t. um tegund viðskipta og skipurit lánastofnunarinnar fylgi umsókn um leyfi (3(4)(1/) og 3(4)(2/) FBD).
    
B. Samstarf/samvinna milli lögbærra aðila.
    Ráðstafanir til að tryggja möguleika á samráði/samstarfi milli lögbærra aðila aðildarríkjanna í eftirfarandi tilvikum:
         
    
    Samstarf milli lögbærra yfirvalda til þess að hafa eftirlit með starfsemi lánastofnana (7(1)FBD),
         
    
    samráð samkvæmt 7. gr. SBD milli lögbærra stjórnvalda áður en leyfi er veitt,
         
    
    samráð samkvæmt SBD 11(2) þegar virkur eignarhluti er keyptur eða aukinn,
         
    
    samstarf um eftirlit með lausafjárstöðu útibúa (14(2(1/)SBD),
         
    
    samstarf um eftirlit með áhættu sem skapast vegna opinnar stöðu á markaði (14(3)SBD),
         
    
    upplýsingar til stjórnvalda í heimaríkjum frá íslenskum stjórnvöldum þegar erlend lánastofnun, sem opnar útibú á Íslandi, hlítir ekki kröfum íslenskra stjórnvalda (21(3)1/)SBD), og upplýsingar til stjórnvalda í heimaríkjum, varðandi þær ráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hafa gert (21(3)(3/) og 21(4)(1/)SBD).
    (Frekari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi eintaki af 15. og 16. gr. austurrísku bankalaganna.)
    Ráðstafanir til að tryggja að hægt sé að birta aðilum lagaleg skjöl sem eru nauðsynleg til aðgerða varðandi lánastofnanir (21(4)(2/)SBD).

C. Tilefni til leyfissviptinga (8. gr. FBD).
    Ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að afturkalla leyfi
         
    
    ef það er ekki nýtt innan 12 mánaða (8(1)(a)(1/)FBD),
         
    
    ef lánastofnun hefur hætt starfsemi í sex mánuði (8(1)(a)(2/)FBD).
    
D. Þagnarskylda (12. gr. FBD).
    Ráðstafanir sem aflétta trúnaði af upplýsingum sem veittar eru vegna málshöfðunar eða kröfumála þegar lánastofnun hefur verið lýst gjaldþrota.
    Reglur sem kveða á um takmarkanir á notkun fenginna upplýsinga (12(4)FBD).
    Reglur um upplýsingaskipti milli lögbærra stjórnvalda á Íslandi (12(5)FBD).

E. Réttur til að leita til dómstóla.
    Reglur sem tryggja rétt til að leita til dómstóla ef sótt er um starfsleyfi og ákvörðun hefur ekki verið tekin innan sex mánaða eftir að allar upplýsingar hafa verið lagðar fram (13(2/)FBD).
    Reglur sem tryggja rétt til að leita til dómstóla ef lögbær stjórnvöld á Íslandi veita ekki þær upplýsingar sem getið er um í 19. gr. SBD (19(3).3(2/)SBD).
    Reglur sem tryggja að leita megi til dómstóla vegna ráðstafana sem gerðar eru skv. 3., 4., og 5. lið 21. gr. SBD (21(6)(2/)SBD).

F. Um eignarhlut lánastofnana (12. gr. SBD).
    Ráðstafanir sem tryggja að þegar farið er fram úr báðum takmörkunum í 1. og 2. lið 12. gr. SBD sé sú upphæð sem eigið fé skal ná yfir hærri talan af upphæðunum tveimur (12(8)(2/)SBD).

G. Sannprófun á staðnum (2. mgr. 15. gr. SBD).
    Ráðstafanir er tryggja stjórnvöldum gistiríkis möguleika á að sannreyna upplýsingar varðandi lánastofnun sem staðsett er í öðru aðildarríki að beiðni stjórnvalda heimaríkis innan ESB í samræmi við 7. mgr. 7. gr. tilskipunar EB um eftirlit á samstarfsgrundvelli nr. 92/30/EEC.
    
H. Starfsemi sem fer fram í gistiríki innan ESB (2. mgr. 18. gr. SBD).
    Ráðstafanir sem tryggja
         
    
    að fjármálastofnanir, sem eru dótturfyrirtæki annarrar lánastofnunar eða annarra fjármálastofnana og uppfylla skilyrði skv. 2. mgr. 18. gr. SBD, geti stofnað útibú í öðrum aðildarríkjum (18(2)SBD),
         
    
    að fjármálastofnanir, sem eru dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis sem getið er um í a-lið hér að framan og uppfylla skilyrði 2. mgr. 18. gr., geti stofnað útibú í öðrum aðildarríkjum (18(2)4 SBD).


Ráðstafanir sem Íslandi er boðið að grípa til


í kjölfar „pakkafundar“ í Reykjavík


dagana 24. og 25. október 1994.



Tilskipun um peningaþvætti (91/308/EEC).

    Að forðast grunsamleg viðskipti (7. gr.).

    Ráðstafanir til að tryggja að stjórnvöld einstakra ríkja sem vinna gegn peningaþvætti geti, í samræmi við skilyrði í íslenskum lögum, beint þeim fyrirmælum til fjármálastofnana að ljúka ekki tilteknum grunsamlegum viðskiptum ((2/)7. gr. tilskipunarinnar).


Ráðstafanir sem Íslandi er boðið að gera


í kjölfar „pakkafundar“ í Reykjavík


dagana 24.–25. október 1994.


    
Tilskipun um verðbréfasjóði („UCITS“) (85/611/EEC) (UCD).
    
A. Skyldur varðandi uppbyggingu verðbréfasjóða (2. mgr. 7. gr. og 9. gr.).
    Ráðstafanir til að tryggja ábyrgð vörslufyrirtækis gagnvart rekstrarfélagi og handhafa hlutdeildarskírteinis fyrir skaða sem þau verða fyrir vegna óréttlætanlegrar vanrækslu eða ófullnægjandi efnda á skyldum sínum.
        Að öðrum kosti skal leggja gögn fyrir Eftirlitsstofnun EFTA til sönnunar þess að íslenskur fordæmisréttur tryggi hið framansagða.

B. Skyldur varðandi fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða (UCITS).
    Breytingar á 26. og 27. gr. íslenskra laga um verðbréfasjóði (UCITS) þannig að þeim sé óheimilt að fjárfesta í fasteignum eins og nú er.
        Þetta er nauðsynlegt þar sem reglur varðandi fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða (UCITS), eins og þær eru skilgreindar í 19.–26. gr. UCD, heimila ekki að fé, sem aflað er hjá almenningi, sé fest í fasteignum. Eina undantekningin sem er veitt er skv. c-lið 2. mgr. 19. gr. UCD, og hún á einungis við um fjárfestingarfyrirtæki sem eru ekki til á Íslandi skv. 1. og 2. gr. íslenskra laga um verðbréfasjóði, sbr. 12. gr. sömu laga.
    Ráðstafanir til að tryggja fulla upptöku heimildar til verðbréfasjóða til að fjárfesta allt að 25% eignar sinnar í tilteknum skuldabréfum sem gefin eru út af lánastofnun sem hefur skráða skrifstofu í aðildarríki og lýtur samkvæmt lögum opinberu eftirliti sem hefur það markmið að vernda eigendur skuldabréfanna og tryggja að fé, sem aflast af útgáfu þeirra, sé fest í eignum sem nægja til þess að mæta kröfum er tengjast bréfunum og sem notaðar yrðu á forgangsgrundvelli til þess að endurgreiða höfuðstól og uppsafnaða vexti ef til gjaldþrots útgefanda kæmi (1. liður 4. mgr. 22 gr. UCD).
    Ráðstafanir ber að gera til þess að taka upp skyldu til þess að geta í sjóðsreglum um þau ríki, stjórnvöld eða alþjóðlegar opinberar stofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréfin sem verðbréfasjóðurinn hyggst fjárfesta meira en 35% af eignum sínum í (2. mgr. 23 gr. UCD).
    Ráðstafanir til þess að tryggja að verðbréfasjóðir megi aðeins eignast verðbréf í öðrum verðbréfasjóðum ef hinir síðarnefndu falla undir UCD og að slíkar fjárfestingar megi aldrei vera umfram 5% af eignum sjóðsins (1. og 2. mgr. 24. gr. UCD).
    Ráðstafanir til að tryggja að fjárfestingar verðbréfasjóðs í verðbréfum annars verðbréfasjóðs, sem lýtur sama eða mjög skyldu rekstrarfélagi, eða í verðbréfum mjög skylds fjárfestingarfyrirtækis séu því aðeins heimilar að um sé að ræða verðbréfasjóð sem sérhæfir sig í fjárfestingum á tilteknu landsvæði eða í tiltekinni atvinnugrein (1. tölul. 3. mgr. 24. gr. og 2. tölul. 4. mgr. 24. gr. UCD).

C. Skyldur varðandi upplýsingar sem veita skal eigendum verðbréfa.
    Ráðstafanir til þess að tryggja fullt samræmi við 23., 27., 28., 29., 30., 32., 33. og 35. gr. UCD varðandi þá skyldu verðbréfasjóðs að gefa út útboðslýsingu og skyldur um efni slíkra útboðslýsinga.
    
D. Almennar skyldur verðbréfasjóða (42. gr.).
    Ráðstafanir til að tryggja að verðbréfasjóðir ráðist ekki í sölu framseljanlegra verðbréfa sem þeir hafa enn ekki eignast.



Fylgiskjal II.


Svar viðskiptaráðuneytis til eftirlitsstofnunar EFTA


vegna athugasemda stofnunarinnar við ýmis


lagaákvæði á sviði fjármálaþjónustu.


(12. desember 1994.)



    Ráðuneytið vísar til bréfs yðar frá 11. nóvember 1994 (skjal yðar nr. 94-16553 D) þar sem þér teljið upp ákvæði átta tilskipana á sviði fjármálaþjónustu sem að yðar mati hafa ekki verið teknar upp á Íslandi. Þetta ráðuneyti ber ábyrgð á upptöku fjögurra af tilskipununum átta:
    fyrstu tilskipun um bankamál (77/780/EEC),
    annarri tilskipun um bankamál (89/646/EEC),
    tilskipun um peningaþvætti (91/308/EEC),
    tilskipun um verðbréfasjóði (UCITS) (85/611/EEC).
    Hér á eftir fer svar ráðuneytisins við sérhverju þeirra atriða sem upp eru talin í viðaukanum við bréf yðar.
    
Fyrsta og önnur tilskipun um banka (77/780/EEC og 89/646/EEC).
A.1            Gerð verður ráðstöfun til breytinga í breytingarfrumvarpi við lög nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, er tekur mið af ákvæðum í tilskipuninni um eiginfjárkröfu og tilskipuninni um innstæðutryggingu sem nú er verið að semja. Frumvörpin verða lögð fyrir Alþingi 1994–1995 og verða væntanlega að lögum á því þingi.
B.2            Gerðar verða ráðstafanir varðandi liði (a)–(f) með breytingu á reglugerð fyrir Seðlabanka Íslands. Þetta er hægt að gera fyrir janúarlok 1995.
B.3             Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
C.4             Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
D.5-7    Gerð verður ráðstöfun til breytinga. Ákvæðin ættu að komast inn í lög um Seðlabanka Íslands. Frumvarp til nýrra laga um Seðlabanka Íslands hefur verið samið og verður það væntanlega lagt fyrir Alþingi í nánustu framtíð.
E.8-10     Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
F.11        Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
G.12        Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. B.2.
H.13        Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
    
Tilskipun um peningaþvætti (91/308/EEC).
    Fulltrúar þessa ráðuneytis og Seðlabanka Íslands skýrðu Eftirlitsstofnun EFTA frá því á „pakkafundinum“ í Reykjavík að það væri mat þeirra að 7. gr. hefði verið tekin upp með fullnægjandi hætti í 7. gr. laga nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti. Ráðuneytið er enn þeirrar skoðunar að annar málsliður 7. gr. tilskipunarinnar skyldi ekki aðildarríki til þess að veita stjórnvöldum einstakra landa sem vinna gegn peningaþvætti vald til þess að gefa fjármálastofnunum fyrirmæli um að ljúka ekki grunsamlegum viðskiptum. Ráðuneytið telur enn fremur að slík skylda sé í raun gefin í skyn í 2. og 7. gr. laganna. Ef saksóknari upplýsir fjármálastofnun um grun um peningaþvætti væri þeirri stofnun skylt að ljúka ekki viðskiptunum skv. 2. gr. og 2. mgr. 7. gr. laganna. Ráðuneytið hyggst því ekki gera ráðstafanir til breytinga á þessu.

Tilskipun um verðbréfasjóði (UCITS) (85/611/EEC).
A.1             Gerð verður ráðstöfun til breytingar. Frumvarp til breytinga á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði (UCITS), er nú í smíðum. Frumvarpið verður lagt fyrir Alþingi 1994–1995 og verður væntanlega afgreitt sem lög á því þingi.
B.2             Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
B.3             Íslensk stjórnvöld og Eftirlitsstofnun EFTA virðast sammála um að ákvæðið í 1. lið 4. mgr. 1. gr. sé heimildarákvæði. Ráðuneytið staðhæfir að þessari heimild megi beita hvenær sem er. Ákveði íslensk stjórnvöld að beita þessari heimild verður það gert með því að beita reglum sem Seðlabanki Íslands gefur út (sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði). Þar til þessar reglur hafa verið gefnar út verður heimildinni einfaldlega ekki beitt. Ráðuneytið hyggst því ekki gera ráðstafanir til breytinga.
B.4             Ekki verður gerð ráðstöfun til breytinga, með sömu rökum og í B.3.
B.5             Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
B.6             Ekki verður gerð ráðstöfun til breytinga, með sömu rökum og í B.3.
C.7             Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
D.8             Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
    

Virðingarfyllst,



Finnur Sveinbjörnsson


skrifstofustjóri


Gunnar Viðar

lögfræðingur



Fylgiskjal III.

    
Fjármálaráðuneyti
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/1993,


um viðskiptabanka og sparisjóði.


    Frumvarp þetta er lagt fram um leið og fjögur önnur frumvörp er öll varða peningastofnanir og verðbréfaviðskipti. Með frumvarpi þessu er lagt til að lög um viðskiptabanka og sparisjóði verði aðlöguð að nokkrum breytingum sem orðið hafa á Evrópska efnahagssvæðinu, svo og að nokkur ákvæði laganna verði gerð skýrari.
    Tvær aðalbreytingar eru lagðar til með frumvarpinu. Annars vegar er lagt til í 7. og 8. gr. frumvarpsins að skilgreiningu á eigin fé innlánsstofnana verði breytt þannig að tekinn verði upp nýr eiginfjárþáttur, þar sem víkjandi lán til minnst tveggja ára geti talist til eigin fjár. Jafnframt eru gerðar nokkrar breytingar á þeim eiginfjárþáttum sem áður höfðu verið skilgreindir. Skilgreining eigin fjár verði færð til samræmis við það sem gildir í verðbréfaviðskiptum en frumvarp til nýrra laga þar að lútandi er flutt samhliða frumvarpi þessu.
    Hins vegar er lagt til í 14. gr. að Tryggingarsjóður viðskiptabanka, sem er í eigu ríkissjóðs skv. 75. gr. laga nr. 43/1993, verði lagður niður og eignir hans og skuldbindingar verði færðar til Tryggingarsjóðs innlánsstofnana sem verði sjálfseignarstofnun án ríkisábyrgðar. Tryggingarsjóður sparisjóða mun einnig eiga að leggja Tryggingarsjóði innlánsstofnana til 300 m.kr. og færist innstæðutrygging sparisjóðanna til Tryggingarsjóðs innlánsstofnana þar með. Að öðru leyti verði Tryggingarsjóður sparisjóðanna áfram til, en hann hefur gegnt veigamiklu hlutverki við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Eftirstöðvar eigin fjár í sjóðnum verða um 25 m.kr.
    Hrein eign Tryggingarsjóðs viðskiptabanka nam um 1.540 m.kr. í árslok 1994. Þetta var nær allt eign tryggingardeildar sjóðsins, en eign og jafnhá skuld lánadeildar nam 1.017 m.kr. Er þar um að ræða fyrirgreiðslu við Landsbanka Íslands sem ríkissjóður er og verður áfram ábyrgur fyrir. Eftir skilgreiningu laganna er eigið fé sjóðsins ríkiseign, sem ríkissjóður afsalar sér, verði frumvarp þetta að lögum. Hins vegar er henni ætlað að standa undir ákveðnu hlutverki, þ.e. að tryggja innstæður og aðrar skuldbindingar viðskiptabanka, og er því ekki hægt að nota eignina til annars. Þess ber og að gæta að meðan Tryggingarsjóður viðskiptabanka er í eigu ríkisins, hefur því verið haldið fram að á sjóðnum hvíli óbein ríkisábyrgð, hrökkvi eignir hans ekki til. Það á hins vegar ekki við um fyrirhugaðan Tryggingarsjóð innlánsstofnana sem verður sjálfseignarstofnun. Samkvæmt 14. gr. frumvarpsins verður Tryggingasjóður innlánsstofnana undanþeginn tekju- og eignarskatti samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Ekki verður talið að til komi önnur áhrif á eignir, ábyrgð eða kostnað ríkissjóðs en að ofan er getið.