Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 238 . mál.


320. Tillaga til þingsályktunar



um farskóla fyrir vélaverði og undirbúning fyrir vélstjóranám.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Sighvatur Björgvinsson, Lúðvík Bergvinsson.



    Alþingi ályktar að stofna skuli farskóla fyrir vélavarðanám og undirbúningskennslu fyrir vélstjóranám. Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa málið og koma því í framkvæmd.

Greinargerð.


    Fiskveiðar og fiskvinnsla eru mikilvægustu atvinnugreinar Íslendinga. Engin þjóð á jafnmikið undir því að sjómannastéttin sé vel menntuð og eigi kost á viðeigandi menntun á hagkvæman hátt. Fjölbreytt útgerð, aukin tækni og mikil sérhæfing kalla á betri menntun þeirra sem annast tæki og vélbúnað skipa. Fækkun nemenda í Vélskóla Íslands er mikið áhyggjuefni, svo og að ekki virðist lengur unnt að starfrækja vélstjórnarbrautir í fjölbrautaskólum.
    Margir þeirra sem hafa stundað vélstjórn án réttinda hafa mikla starfsreynslu en skortir menntun til að geta leyst af hendi allt sem krafist er á fiskibátum og togurum, t.d. hvað varðar flókinn stýribúnað, vökva-, loft- eða rafknúinn. Vélaverðir á veiðiflota landsmanna þurfa að kunna skil á ýmsu fleira, svo sem frystitækni og meðferð efna í frystikerfum, svo og að hafa grundvallarþekkingu í rafmagnsfræði.
    Á landsbyggðinni hefur nokkur kennsla farið fram á þessu sviði, t.d. var hópur vélvirkja og annarra í slíku námi á Akranesi fyrir um áratug. Síðastliðinn vetur var kennd vélavarsla í Stykkishólmi og nú í vetur á Höfn í Hornafirði. Framhald verður á kennslunni í Stykkishólmi því að nemendur sem stunduðu nám þar fóru eindregið fram á það. Kennsla á áðurnefndum stöðum hefur farið fram að loknum hefðbundnum vinnudegi og um helgar, enda eru nemendur iðulega fyrirvinnur og fjölskyldufólk.
    Nauðsyn er að endurskoða framkvæmd vélstjórnarkennslu, eins og annarrar kennslu, sérstaklega hvað varðar undirbúning hennar eða aðfararnám. Sú tillaga sem hér er lögð fram lýtur að undirbúningsnámi og fullorðinsfræðslu sem getur í framtíðinni styrkt stöðu Vélskólans. Með farandnámskeiðum á grunnstigum eflist grunnnám á landsbyggðinni, sérstaklega í landshlutum þar sem útgerð er hvað mest. Skólahúsnæði getur nýst á kvöldin og um helgar til fullorðinsfræðslu og kennslubúnaður, sem er umfram það sem skólarnir geta boðið upp á og nota má um borð í skipum heimamanna, er ekki meiri en svo að honum má koma fyrir í sendibíl. Sem dæmi má nefna stýritæknibúnað o.fl. sem nota þarf við vélavarðakennslu.
    Tillagan er í samræmi við nýjar hugmyndir um skipan skólamála á framhaldsskólastigi, sérstaklega hugmyndir um svokallaðan kjarnaskóla sem veita á grunnmenntun til undirbúnings starfa í viðkomandi starfsgrein og annast endurmenntun, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Hann á einnig að hafa forgöngu um að þróa með markvissum hætti námsefni, námsskipan, kennsluaðferðir og námsmat og leiðbeina öðrum skólum sem að einhverju leyti veita menntun á sama sviði.