Ferill 241. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 241 . mál.


323. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 89 21. júní 1995.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Í stað „á árinu 1995“ í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum kemur: á árinu 1996.
    

2. gr.

    Í stað „til ársloka 1995“ í ákvæði til bráðabirgða III í lögunum kemur: til ársloka 1996.
    Við ákvæði til bráðabirgða III bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. um að styrkur til úreldingar skuli að hámarki nema 45% af húftryggingarverðmæti fiskiskips skal jafnframt heimilt að ákveða að til 1. október 1996 geti úreldingarstyrkur vegna krókabáta numið að hámarki 80% af húftryggingarverðmæti.
    

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I laga nr. 89 21. júní 1995, um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, var fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að taka á árinu 1995 að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 500 milljónir króna. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III sömu laga var heimilað til ársloka árið 1995 að miða styrk vegna úreldingar krókabáta við hærra hlutfall af húftryggingarverðmæti en gildir um önnur skip.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að þessar heimildir verði framlengdar um eitt ár. Jafnframt er gerð tillaga um að til 1. október 1996 verði heimilt að miða úreldingarstyrk vegna krókabáta við allt að 80% af húftryggingarverðmæti. Sú tillaga er gerð í ljósi þess að þrátt fyrir mikla afkastagetu krókabátaflotans umfram veiðiheimildir hefur tilboð um 45% úreldingarstyrk ekki skilað árangri til fækkunar báta með krókaleyfi. Einungis tveir krókabátar munu hafa verið úreltir frá því að núgildandi ákvæði til bráðabirgða laga nr. 89/1995 tóku gildi.
    Með hliðsjón af þessu er talið nauðsynlegt að sjávarútvegsráðherra hafi tímabundna heimild til hækkunar á þeim úreldingarstyrk sem í boði er. Lagt er til að tímamörk þeirrar heimildar nái fram yfir upphaf næsta fiskveiðiárs þannig að boð um hærri úreldingarstyrk geti eftir atvikum varað fram yfir þau tímamörk að menn sjái til hlítar starfsumhverfi komandi fiskveiðiárs.
    Þrátt fyrir þá heimild til hækkunar á úreldingarstyrk til krókabáta sem lögð er til í frumvarpinu er ekki á þessu stigi gert ráð fyrir að verja meiri fjármunum til þessa úreldingarátaks en áður var miðað við og því er ekki lögð til hækkun á lántökuheimild ákvæðis til bráðabirgða I.
    Einstakar greinar frumvarpsins þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga,
um breyting á lögum nr. 92 24. maí 1994, um
Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er leitað heimildar til að hækka tímabundið úreldingarstyrk til krókabáta úr 45% í 80% af húftryggingarverðmæti. Jafnframt er lagt til að heimildir til framlengingar á bráðabirgðarákvæðum um 500 m.kr. lántökuheimild til ríkissjóðs til að endurlána Þróunarsjóði verði framlengd um eitt ár.
    Þar sem lántökuheimildin er óbreytt og gengið er út frá því að hún dugi til að standa straum af úreldingarkostnaði verður ekki séð að samþykkt þessa frumvarps hafi sérstakan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.