Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 246 . mál.


341. Frumvarp til laga



um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.


    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Óheimilt er að birta auglýsingar sem ganga gegn lagaákvæðum um umhverfisvernd eða hvetja til hegðunar sem stangast á við lög eða gildandi reglur um umgengni við náttúru landsins.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Tilgangurinn með frumvarpi þessu er að koma í veg fyrir að með auglýsingum í ljósvakamiðlum sé hvatt til hegðunar sem gengur gegn settum reglum um umhverfisvernd og markmiðum um góða umgengni við lifandi og dauða náttúru. Öðru hvoru sjást í máli og myndum, m.a. í ljósvakamiðlum, auglýsingar sem virðast stangast á við lög og reglur á þessu sviði. Sem dæmi má nefna auglýsingar sem sýna akstur vélknúinna ökutækja utan vega í því skyni að hvetja til að þau séu keypt og um leið að tækin séu notuð við slíkar aðstæður.
    Nú er ekki að finna í lögum eða reglugerðum ákvæði sem banna í auglýsingum birtingu á atferli sem valdið getur umhverfisspjöllum. Helstu ákvæði er nú gilda um auglýsingar í ljósvakamiðlum er að finna í útvarpslögum, nr. 68/1985, og í reglugerð nr. 611/1989 um auglýsingar í útvarpi. Í 4. gr. útvarpslaga koma fram almennar reglur um auglýsingar. Eðlilegt er að þær breytingar, sem hér eru lagðar til, verði felldar inn í þetta ákvæði laganna.