Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 253 . mál.


406. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, sbr. lög nr. 16/1994.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    7. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Yfirlýsingu um að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða með öðrum hætti. Skipstjórnarmenn og aðrir skipverjar skulu hafa fullnægt ákvæði þessu fyrir 31. desember 1996. Veita má skipverja sem skráður er í fyrsta sinn sex mánaða frest til að fullnægja þessu ákvæði.

2. gr.


    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 16/1994, um breytingu á lögum um lögskráningu, nr. 43/1987, var lögfest öryggisfræðsla fyrir sjómenn og eiga lögskráningarstjórar að hafa eftirlit með henni. Í lögunum var veittur aðlögunartími til 31. desember 1995 fyrir skipstjórnarmenn en 31. desember 1996 fyrir aðra skipverja.
    Með þessu lagafrumvarpi er lagt til að aðlögunartími til handa skipstjórnarmönnum verði framlengdur til 31. desember 1996 og verði því hinn sami og fyrir aðra skipverja. Ástæðan er sú að þrátt fyrir aðlögunartíma hefur töluverður hópur skipstjórnarmanna ekki enn lokið öryggisfræðslunámi og fyrirsjáanlegt er að svo verði ekki fyrir 31. desember 1995. Samkvæmt upplýsingum skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna eru námskeið, sem skólinn mun halda til áramóta, fullbókuð og er ekki unnt að koma fleiri nemendum á þau. Ef umræddur frestur verður ekki veittur er því ljóst að ekki fæst lögskráning á mörg skip.
    Þess má geta að í Noregi, þar sem er lögbundin öryggisfræðsla, hefur einnig reynst nauðsynlegt að veita frest vegna norskra sjómanna.
    Frumvarpið var til umræðu á fundi siglingamálaráðs sem samþykkti að mæla með framlagningu þess. Í siglingamálaráði eiga meðal annars sæti fulltrúar frá Slysavarnafélagi Íslands og hagsmunasamtökum útgerða og sjómanna. Skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna hefur einnig mælt með breytingunni.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um


lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, sbr. lög nr. 16/1994.


    Í frumvarpinu er kveðið á um að skipstjórnarmenn verði að hafa hlotið öryggisfræðslu fyrir 31. desember 1996 í stað 31. desember 1995 eins og kveðið er á um í lögum nr. 16/1994, um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987. Með frumvarpinu er því lagt til að aðlögunartími skipstjórnarmanna að þessari fræðsluskyldu verði framlengdur. Frumvarpinu fylgir ekki kostnaður fyrir ríkissjóð.