Ferill 259. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 259 . mál.


436. Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (VE, GMS, SP, VS, PHB, EOK).



I. KAFLI

Um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987,

með síðari breytingum.

1. gr.

    3. mgr. 115. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 115/1992, orðast svo:
    Leggja skal á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Umferðarráðs, að fjárhæð 200 kr., og greiðist það við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki. Ráðherra setur reglur um innheimtu gjaldsins og um skil þess í ríkissjóð.

II. KAFLI

Um breytingu á lögum um vog, mál og faggildingu,

nr. 100/1992, með síðari breytingum.

2. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Yfirstjórn Löggildingarstofunnar er í höndum þriggja manna stjórnar sem ráðherra skipar og setur erindisbréf.

III. KAFLI

Um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og

sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum.

3. gr.

    Í stað „1993–1995“ í ákvæði til bráðabirgða C í lögunum kemur: 1993–1997.

IV. KAFLI

Gildistaka.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta er flutt samhliða breytingum sem lagðar eru til á frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1996, 225. máli.
    Í 1. gr. er lagt til að sérstakt umferðaröryggisgjald, sem sett var á með lögum nr. 115/1992, hækki úr 100 kr. í 200 kr. Er þessi breyting lögð til í tengslum við fyrirhugaða breytingu á 18. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996.
    Í 2. gr. er lagt til að sérstök stjórn verði sett yfir Löggildingarstofuna. Ráðherra skipar stjórnina og setur stjórnarmönnum nánari fyrirmæli um hlutverk stjórnarinnar með erindisbréfi.
    Í 3. gr. er lagt til að bráðabirgðaákvæði búvörulaga um hagræðingu í mjólkuriðnaði verði framlengt um tvö ár og gildi til loka árs 1997.