Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 250 . mál.


503. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Kristjönu Bergsdóttur um silfursjóðinn frá Miðhúsum.

    Hverjar voru niðurstöður rannsókna á aldri silfursjóðsins frá Miðhúsum?
    Í júní 1994 barst menntamálaráðuneytinu erindi frá þáverandi formanni þjóðminjaráðs (dags. 22. júní 1994) þar sem greint var frá athugun sem breskur vísindamaður, James Graham-Campbell prófessor, hafði að tilhlutan Þjóðminjasafns Íslands gert á silfursjóði þeim er fannst við Miðhús í Egilsstaðahreppi í ágúst 1980. Í skýrslu um þessa athugun hafði verið komist að þeirri niðurstöðu að vafi léki á því um hluta silfursjóðsins að hann væri frá víkingaöld. Í bréfi formanns þjóðminjaráðs var þess farið á leit að ráðuneytið hlutaðist til um könnun á málavöxtum og frekari athugun á eiginleikum silfursins svo að gengið yrði úr skugga um rök fyrir niðurstöðum J. Graham-Campbells.
    Með bréfi dags. 27. júní 1994 tilkynnti ráðuneytið þjóðminjaráði að það teldi rétt, í ljósi fyrrgreindrar skýrslu, að frekari vísindalegar athuganir færu fram á silfursjóðnum á vegum þjóðminjaráðs og Þjóðminjasafns Íslands. Þessi afstaða var ítrekuð í bréfi ráðuneytisins 12. september 1994 til nýskipaðs þjóðminjaráðs og áréttað að tilgangurinn væri að fá með frekari vísindalegum athugunum eins örugga vitneskju og unnt væri um aldur silfursjóðsins.
    Þjóðminjaráð ákvað að leita til danska þjóðminjasafnsins um umrædda rannsókn. Skýrsla safnsins um rannsóknina er dagsett 27. júní 1995.
    Í bréfi þjóðminjaráðs til menntamálaráðuneytisins, dags. 30. júní 1995, er skýrt frá því að skýrslan hafi verið lögð fram á fundi ráðsins þann dag og þar hafi verið gerð eftirfarandi bókun:
    „Miklar deilur spruttu um aldur silfursjóðsins frá Miðhúsum á síðasta ári. Í kjölfar þess fól menntamálráðuneytið þjóðminjaráði með bréfi, dags. 12. september 1994, að hlutast til um að gerð yrði frekari vísindaleg rannsókn á aldri sjóðsins. Ráðið samþykkti að fá til verksins opinbera stofnun á Norðurlöndum og fól Lilju Árnadóttur safnstjóra og Helga Þorlákssyni dósent, sem sæti á í þjóðminjaráði, að hafa umsjón með rannsókninni fyrir hönd ráðsins. Ákveðið var að leita til danska þjóðminjasafnsins.
    Rannsókn hefur staðið yfir síðan í janúar og niðurstöður liggja nú fyrir í skýrslu danska þjóðminjasafnsins og greinargerð Helga og Lilju.
    Niðurstöður rannsóknarinnar eru þessar:
    Rannsóknin leiddi í ljós að efnasamsetning silfurs í öllum sjóðnum á sér hliðstæður í óvefengdum silfursjóðum frá víkingaöld.
    Allir gripirnir bera skýr einkenni víkingaaldarsmíði, bæði hvað varðar stíl og tækni. Frá þessu er þó ein undantekning. Af hlutunum fjörtíu og fjórum sker sig einn úr hvað varðar gerð og er það hringur nr. 3.
    Rannsókn sjóðsins gefur ekki tilefni til að álykta að blekkingum hafi verið beitt í tengslum við fund hans.
    Þjóðminjaráð lítur svo á að með þessum skýrslum sé lokið þeirri rannsókn sem menntamálaráðuneytið fól ráðinu 12. september 1994.“
    Í fylgiskjali eru ályktunarorð dönsku skýrslunnar ásamt þýðingu þeirra á íslensku úr greinargerð Helga Þorlákssonar og Lilju Árnadóttur.

    Hefur verið gengið formlega frá málalokum um uppruna silfursjóðins? Ef svo er, hver eru þau?
    Bréfi þjóðminjaráðs 30. júní 1995, sem vitnað var til hér að framan, svaraði menntamálaráðuneytið með bréfi, dags. 3. júlí 1995, þar sem segir á þessa leið:
    „Ráðuneytinu hefur borist bréf yðar, herra formaður þjóðminjaráðs, dags. 30. júní sl., þar sem greint er frá niðurstöðum rannsóknar danska þjóðminjasafnsins á silfursjóði þeim er fannst við Miðhús í Egilsstaðahreppi á árinu 1980 og bókun sem gerð var á fundi þjóðminjaráðs hinn 30. júní sl. af því tilefni.
    Með hliðsjón af ofangreindu bréfi lítur ráðuneytið svo á að þjóðminjaráð telji ekki þörf á frekari aðgerðum í máli þessu, sbr. bréf þjóðminjaráðs til ráðuneytisins dags. 22. júní 1994.“
    Í þessu bréfi felast málalok að því er kemur til kasta menntamálaráðuneytisins.

    Er ætlunin að varðveita silfursjóðinn á Minjasafni Austurlands í framtíðinni?
    Samkvæmt 26. gr. þjóðminjalaga, nr. 88/1989, sbr. lög nr. 98/1994, eru forngripir, sem þar er nánar skilgreindir, eign ríkisins. Skulu þeir varðveittir í Þjóðminjasafni eða í hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni. Ef upp kemur ágreiningur um hvar varðveita skuli forngripi sker þjóðminjaráð úr.
    Ekki mun að svo komnu hafa verið tekin nein ákvörðun um vörslu silfursjóðsins frá Miðhúsum annars staðar en í Þjóðminjasafni Íslands, hvað sem síðar kann að verða.
    Menntamálaráðherra hefur í svari við annarri fyrirspurn á Alþingi nýlega lýst því áliti að ekki sé óeðlilegt að starfsemi byggðasafna verði styrkt með því að heimila þeim, þegar svo ber undir, að geyma forngripi sem finnast í nágrenni þeirra. Menntamálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að settar verði reglur um skilyrði fyrir slíkum langtímalánum forngripa frá Þjóðminjasafni til byggðasafna.


Fylgiskjal.


Úr skýrslu danska þjóðminjasafnsins, 1995,


„Sølvskatten fra Midhus, Island, Analyser af


metallegeringer, fremstillingsteknik og typologi“.


(Íslensk þýðing á textanum fylgir.)






(4 síður myndaðar.)