Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 272 . mál.


507. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Einarsson.



1. gr.


    Við 26. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sé innskattur að jafnaði hærri en útskattur er skattstjóra heimilt að krefja viðkomandi um tryggingu fyrir endurgreiddum virðisaukaskatti, enda verði ekki talið að hagsmunir ríkissjóðs verði tryggðir með öðrum hætti. Fjármálaráðherra skal í reglugerð setja nánari skilyrði um tilhögun þessarar tryggingar.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Að undanförnu hafa fallið dómar vegna sviksamlegrar háttsemi manna við að fá virðisaukaskatt ranglega greiddan úr ríkissjóði. Þegar er upplýst um nokkur slík skattsvik þar sem fjárhæðir svo mörgum tugum milljóna skiptir hafa verið sviknar út úr skattkerfinu. Er þar skemmst að minnast svokallaðs „Vatnsberamáls“, en í því eina máli voru 38 millj. kr. sviknar út úr ríkissjóði.
    Hér er um nýja tegund skattsvika að ræða og hætta á misferli er veruleg. Uppbygging skattsins er þannig að innskattur getur alloft orðið hærri en útskattur. Oft á tíðum hafa aðilar því fengið umtalsverðar fjárhæðir ranglega endurgreiddar áður en í ljós hefur komið að um skattsvik hafi verið að ræða.
    Efni þessa frumvarps er að skattstjórum sé heimilt að krefjast trygginga vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts úr ríkissjóði. Nauðsyn ber til að sporna við tilhneigingu af þessu tagi og því er gert ráð fyrir að unnt verði að krefja aðila, sem fá greiddar verulegar fjárhæðir úr ríkissjóði, um tryggingu, t.d. bankaábyrgð eða veðsetningar. Með þeim hætti ættu hagsmunir ríkissjóðs að vera betur tryggðir ef í ljós kemur að forsendur endurgreiðslu virðisaukaskatts standast ekki. Þá verður að telja líkur á að unnt verði að draga úr tilhneigingu af þessu tagi þegar aðilar þurfa að leggja fram tryggingar. Þessu ákvæði mætti beita þegar innskattur er að jafnaði hærri en útskattur. Er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um í reglugerð hvernig að þessu skuli standa.
    Gróflega má áætla að um 10% framteljenda virðisaukaskatts fái endurgreiðslur þegar innskattur reynist hærri en útskattur. Er það í þeim tilvikum þegar um er að ræða fjárfestingar, útflutning eða breytingu á eignarhaldi.
    Ákvæði efnislega samhljóða þessu var í frumvarpi sem flutt var á 118. löggjafarþingi, en náði þá ekki fram að ganga. Skattrannsóknarstjóri ríkisins gaf þá efnahags- og viðskiptanefnd svohljóðandi umsögn um ákvæðið:
    „Það er reynsla embættis skattrannsóknarstjóra ríkisins að virðisaukaskatturinn opni nýja svikamöguleika. Þar er sérstaklega um að ræða innskattinn sem er þess eðlis að strangt aðhald þarf að vera með honum. Ný tegund skattsvika hefur litið dagsins ljós sem eru fjölbreytileg innskattssvik og hætta á misferli er umtalsverð. Í málum sem komið hafa til kasta embættisins hafa aðilar í nokkrum tilfellum fengið umtalsverðar fjárhæðir ranglega endurgreiddar áður en við rannsókn hefur komið í ljós að grundvöllur slíkrar endurgreiðslu var enginn. Má í þessu sambandi benda á dóm héraðsdóms Reykjanesumdæmis sem kveðinn var upp 31. desember 1993 þar sem fiskkaupandi gerði tilraun til þess að fá röskar sex millj. kr. endurgreiddar úr ríkissjóði án þess að nokkur fiskkaup hefðu átt sér stað. Þá má nefna fleiri dóma sem eru á sama veg. Verður því að telja að full ástæða sé til að gæta mjög vel að innskattinum og þeirri misnotkun sem þar er möguleg. Frumvarp það sem hér liggur fyrir gerir kleift að setja ákveðnar tryggingar ef á þarf að halda. Ekki er vafi á að ákvæði þetta mun draga úr skattsvikum af þessum toga en einkum gera ríkissjóði kleift að endurheimta oftekinn skatt.“
    Skattrannsóknarstjóri ríkisins mælti þá með samþykkt ákvæðisins sem í frumvarpinu felst.