Ferill 280. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 280 . mál.


516. Tillaga til þingsályktunar



um miðlun upplýsinga um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta gera fræðslubækling um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 115. og 118. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Tillagan er nú endurflutt óbreytt. Svohljóðandi greinargerð fylgdi henni:
    „Algengt er að upp komi vandamál í sambandi við eignalegan og fjárhagslegan rétt fólks við sambúðarslit eða andlát annars aðilans í vígðri eða óvígðri sambúð. Við slíkar aðstæður kemur oft í ljós að það sem fólk hélt að væri réttur þess er það alls ekki. Þessar ranghugmyndir, sem á lagamáli eru kallaðar lögvilla, eru sennilega tilkomnar vegna nokkurra lagaákvæða sem til eru um óvígða sambúð og snerta tryggingalög, skattalög og lög um húsaleigusamninga. Í þeim lögum er sambúðarfólki áskilinn réttur til bóta frá Tryggingastofnun hafi sambúð varað í a.m.k. tvö ár eða hafi sambúðarfólk átt barn saman. Raunveruleikinn er hins vegar sá að ef fólk í óvígðri sambúð hefur ekki gert skriflega lögformlega samninga sín á milli um eignir eða erfðaskrá getur sá sem skrifaður er fyrir eignunum farið með þær sem sína eign við sambúðarslit og ef um andlát er að ræða ganga eignir hins látna til lögerfingja hans sem er þá ekki sá sambúðaraðili sem eftir lifir. Fólki, sem býr í óvígðri sambúð, verður einna helst líkt við tvo aðila sem stofna með sér fyrirtæki, fjárfesta í fasteignum og tækjum og stofna til skulda. Þegar slíta á fyrirtækinu verður hvor um sig að sanna sitt fjárframlag og gera grein fyrir sinni skuldastöðu.
    Munurinn á hjónabandi og óvígðri sambúð er í aðalatriðum þessi:
—    Í óvígðri sambúð eru engar reglur um helmingaskipti eigna og skulda.
—    Enginn erfðaréttur er milli sambúðarfólks.
—    Enginn réttur er til setu í óskiptu búi.
—    Engin gagnkvæm framfærsluskylda er fyrir hendi.
    Það er ekki aðeins í sambandi við óvígða sambúð sem ranghugmyndir eða lögvilla ríkir, heldur er einnig um það að ræða varðandi réttindi í hjónabandi, einkum í sambandi við hjúskapareignir, lögskilnað og erfðamál.
    Almenn er sú skoðun að engu máli skipti hvort hjóna sé skráð fyrir eignum, svo sem fasteignum og bifreið. Þetta er rangt. Hvort hjóna um sig á sínar eignir og ábyrgist sínar skuldir. Þær eignir, er einstaklingur flytur með sér í hjónaband eða eignast síðar, verða hjúskapareignir hans og standa undir hans skuldum. Þetta hefur þá þýðingu að þær eignir, sem skráðar eru á nafn annars hjóna, eru hjúskapareignir þess sama aðila. Hitt hjóna á í raun ekki þessar eignir, heldur kemur til svokölluð helmingaskiptaregla þegar um hjónaskilnað eða búskipti vegna andláts er að ræða. Málum er sem sé þannig háttað að sá sem er skráður eigandi hefur rétt til að ráðstafa eignum sínum, selja þær og veðsetja að vild, þó með þeirri mikilvægu undantekningu að samþykki maka þarf til sölu eða veðsetningar fasteigna sem fjölskyldan býr í eða notuð er við atvinnurekstur hjónanna.
    Til frekari skýringa má nefna að ef hjón eiga íbúð sem þau búa ekki í eða atvinnuhúsnæði sem þau leigja öðrum og þessar eignir eru t.d. skráðar á nafn mannsins má hann selja þær eða veðsetja án þess að samþykki konunnar þurfi til.
    Þá er útbreidd sú skoðun að ári eftir að gengið er frá skilnaði hjóna að borði og sæng gangi lögskilnaður sjálfkrafa fyrir sig í kerfinu. Þetta er ekki rétt. Fólk verður sjálft að afla sér prestsvottorðs aftur og ganga fyrir borgardómara eða sýslumann vegna skilnaðarins. Í framhaldi af því gefur síðan dómsmálaráðuneytið út lögskilnaðarleyfi. Ókunnugleiki um þetta getur haft alvarlegar afleiðingar.
    Enn einn útbreiddur misskilningur er varðandi arf. Margir halda að börnum þeirra beri að fá arf og gengur þetta stundum svo langt að gamalt fólk þorir ekki að ganga á sparifé sitt af því að það heldur að börn þess, ef til vill miðaldra fólk í góðum efnum, eigi heimtingu á arfi. Að sjálfsögðu eru börn og eftirlifandi maki skylduerfingjar en arfur er eins konar vonarpeningar og eingöngu það sem eftir er og ekki hefur verið eytt þegar arfláti fellur frá.
    Mjög margir hafa heldur ekki hugmynd um að þeim er heimilt að ráðstafa einum þriðja hluta eigna sinna með erfðaskrá. Þessum hluta er viðkomandi heimilt að ráðstafa til stofnana og einstaklinga þótt til staðar séu börn eða maki. Margir nota sér þessa heimild til að bæta við arfhluta sem eftirlifandi maki á rétt á eða til að bæta stöðu einstakra barna. Í erfðaskrá er einnig hægt að setja inn ákvæði þess efnis að þegar börn taka arf samkvæmt henni verði sá arfur séreign þeirra.
    Ýmsar umtalsverðar breytingar hafa orðið á erfðalögunum á undanförnum árum, flestar til að bæta hag eftirlifandi maka og auðvelda setu í óskiptu búi. Þessar breytingar hafa greinilega farið fram hjá mörgum sem þekkja þá ekki rétt sinn þegar þessar aðstæður koma upp. Sama gildir um fólk í óvígðri sambúð. Það virðist alls ekki átta sig á réttleysi sínu við sömu aðstæður. Munurinn er aðeins sá að eftirlifandi sambúðaraðili fær að vita um réttleysi sitt, t.d. þegar þær aðstæður koma upp að óskað er eftir makalífeyri eða til kemur erfðaréttur eftirlifandi barna eða erfðaréttur hins opinbera. Réttur eftirlifandi ekkju eða ekkils getur hins vegar farið fram hjá þeim þar sem afskipti hins opinbera varða á engan hátt þann rétt.
    Af framangreindu má sjá að hér er um alvarlega brotalöm að ræða sem stjórnvöldum ber að taka á. Flutningsmenn telja að það verði best gert með því að gerður verði fræðslubæklingur með upplýsingum um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Bækling þennan ætti að afhenda fólki þegar það hefur samband við prest, borgardómara eða sýslumann vegna væntanlegs hjónabands og mætti t.d. fela Hagstofunni og/eða Tryggingastofnun ríkisins að koma honum til þeirra sem eru í óvígðri sambúð. Einnig kæmi til greina að láta hann fylgja skattskýrslum til þeirra er telja fram saman. Enn fremur mætti hugsa sér að hann yrði notaður sem námsefni í samfélagsfræði í efstu bekkjum grunnskóla og/eða framhaldsskólum. Slíkur bæklingur gæti auk þess komið að góðum notum hjá fjölskylduráðgjöf kirkjunnar. Ljóst er að til þess að fræðslubæklingurinn komi að fullum notum má hann ekki vera á of fræðilegu máli heldur auðveldur og aðgengilegur öllum. Fólki þarf að vera ljóst að ef það óskar eftir að tryggja betur réttarstöðu sína í hjónabandi eða óvígðri sambúð er hægt að gera það.“
    Nýlega var bent á í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga að þörf væri á heildstæðri löggjöf um óvígða sambúð. Kvennalistakonur taka undir það sjónarmið, en engu að síður er mjög miklvægt að kynna muninn á hjónabandi og óvígðri sambúð nú þegar.