Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 284 . mál.


523. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands“ í 21. gr. laganna og í stað sömu orða í 25. gr. kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Bændasamtök Íslands.
    Í stað orðanna „sker Búnaðarfélag Íslands úr“ í 3. málsl. 26. gr. laganna kemur: skera Bændasamtök Íslands úr.
    Í stað orðanna „Búnaðarfélag Íslands úrskurðar“ í 4. málsl. 41. gr. laganna kemur: Bændasamtök Íslands úrskurða.

2. gr.


    3. mgr. 66. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur með reglugerð falið Bændasamtökum Íslands að hafa umsjón með samræmingu á gerð og útgáfu markaskráa og upptöku nýrra marka og ákveðið að öll mörk í landinu skuli sameiginlega færð í tölvu í umsjá þeirra. Kostnað af starfi Bændasamtaka Íslands vegna þessa verkefnis greiðir stjórn hvers fjallskilaumdæmis í hlutfalli við markafjölda.

3. gr.


    2. málsl. 2. mgr. 69. gr. laganna orðast svo:
    Skal einn skipaður eftir tilnefningu Bændasamtaka Íslands, annar eftir tilnefningu yfirdýralæknis og sá þriðji án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, eru Búnaðarfélagi Íslands falin ýmis verkefni. Þau helstu eru:
    Búnaðarfélag Íslands tilnefnir einn fulltrúa í þriggja manna ítölunefnd sem sýslumaður skipar, sbr. 21. gr.
    Til þess að gera ítölu í land, sem er innan tveggja eða fleiri lögsagnarumdæma eða er eign fleiri en eins lögsagnarumdæmis, tilnefnir landbúnaðarráðherra einn mann í nefnd og er hann formaður, stjórn Búnaðarfélags Íslands annan og landgræðslustjóri hinn þriðja, sbr. 25. gr.
    Búnaðarfélag Íslands sker úr ágreiningi um reikning ítölunefndar eða skiptingu kostnaðar á milli sveitarfélaga, sbr. 26. gr.
    Búnaðarfélag Íslands úrskurðar um kostnaðarreikninga vegna fjallskila á eyðilöndum, sbr. 41. gr.
    Búnaðarfélag Íslands hefur með höndum ýmis verkefni í tengslum við útgáfu markaskráa, sbr. 66. gr.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að Bændasamtök Íslands, en svo nefnast heildarsamtök bænda, sbr. lög nr. 130/1994, um sameiningu Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í ein heildarsamtök bænda, taki við verkefnum sem Búnaðarfélagi Íslands eru falin í núgildandi lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
    Í áðurnefndum lögum nr. 130/1994 er gert ráð fyrir að endurskoðuð verði lagaákvæði þar sem vísað er til Búnaðarfélags Íslands eða Stéttarsambands bænda, sbr. 4. gr. Að því er nú unnið á vegum landbúnaðarráðuneytisins og er gert ráð fyrir að frumvarp þessa efnis verði lagt fyrir Alþingi á vorþinginu.
    Í 1. gr. frumvarpsins er, eins og áður er fram komið, lagt til að Bændasamtök Íslands taki við þeim verkefnum Búnaðarfélags Íslands sem tilgreind eru í 21., 25., 3. málsl. 26. gr. og 4. málsl. 41. gr. laganna. Sama er að segja um 3. mgr. 66. gr. laganna, en jafnframt eru lagðar til breytingar á ákvæðinu í samræmi við þá staðreynd að tölvuskráningu allra búfjármarka í landinu er nú lokið. Í 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 2. málsl. 2. mgr. 69. gr. sem fjallar um skipun markanefndar og þá aðila sem rétt eiga til að tilnefna aðila í markanefnd, en þeir eru samkvæmt núgildandi lögum Búnaðarfélag Íslands og sauðfjársjúkdómanefnd. Umboð markanefndar sem starfa á skv. 69. gr. laganna er runnið út og ber nauðsyn til að skipa nefndina sem allra fyrst vegna útgáfu á markaskrám í sýslum landsins á þessu ári, en í tengslum við þá útgáfu geta komið upp ýmis ágreiningsmál sem nefndin þarf að úrskurða um. Lagt er til að Bændasamtök Íslands tilnefni einn mann í markanefnd í stað Búnaðarfélags Íslands og yfirdýralæknir í stað sauðfjársjúkdómanefndar sem lögð var niður með lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Er það í samræmi við þá breytingu að samkvæmt nefndum lögum tók yfirdýralæknir við verkefnum sauðfjársjúkdómanefndar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa
:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl.


    Með lögum nr. 130/1994 voru Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda sameinuð í ein heildarsamtök bænda og þau nefnd Bændasamtök Íslands. Í frumvarpi þessu er lagt til að Bændasamtök Íslands taki við verkefnum Búnaðarfélags Íslands sem því eru ætluð samkvæmt lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
    Til viðbótar er í frumvarpinu lögð til breyting á 3. mgr. 66. gr. laganna þannig að felld er úr gildi heimild Búnaðarfélags Íslands sem það hafði að fenginni sérstakri fjárveitingu í fjárlögum til að greiða að hluta tölvuvinnslu markaskránna í fyrsta sinn. Er þessi breyting gerð í ljósi þess að tölvuskráningu allra búfjármarka í landinu er nú lokið. Einnig eru lagðar til breytingar á 2. málsl. 2. mgr. 69. gr. nefndra laga sem fjallar um skipun markanefndar og þá aðila sem rétt eiga til að tilnefna aðila í markanefnd. Þar er lagt til að í stað Búnaðarfélags Íslands skipi Bændasamtök Íslands einn mann og í stað fyrrum sauðfjársjúkdómanefndar skipi yfirdýralæknir annan. Alls sitja þrír menn í markanefnd og er sá þriðji skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins feli í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.