Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 286 . mál.


525. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkja og Slóveníu.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli EFTA-ríkja og Slóveníu, sem gerður var í Bergen 13. júní 1995.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Hinn 13. júní 1995 var undirritaður í Bergen fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkja og Slóveníu.
    Fríverslunarsamningurinn er hliðstæður þeim fríverslunarsamningum, sem EFTA-ríkin hafa gert við ríki í Mið- og Austur-Evrópu. Samningurinn kveður á um fríverslun milli EFTA-ríkja og Slóveníu með iðnaðarvörur (25.–97. kafli í samræmdri vörulýsinga- og vöruheitaskrá). Einnig nær samningurinn til fisks og fiskafurða, sbr. II. viðauka samningsins, og til vara sem unnar eru að hluta til eða öllu leyti úr landbúnaðarvörum (unnar landbúnaðarvörur). Þessar vörur eru sérstaklega tilgreindar og nánar kveðið á um framkvæmd viðskipta með þær í bókun A við samninginn.
    EFTA-ríki og Slóvenía afnema alla innflutningstolla á iðnaðarvörum, sem upprunnar eru í þessum löndum, og gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif. Fyrir vissar iðnaðarvörur fær Slóvenía aðlögunartíma fyrir niðurfellingu tolla en að öðru leyti falla tollar niður strax við gildistöku samningsins. Tollar falla niður á fiski og fiskafurðum strax við gildistöku samningsins með örfáum undantekningum, þar sem um aðlögunartíma er að ræða. Tekur aðlögunartími einkum til vatnafisks.
    Varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur lýsa samningsríkin sig reiðubúin að því marki, sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samfelldri þróun viðskipta með landbúnaðarvörur. Í tengslum við fríverslunarsamninginn gerðu EFTA-ríkin tvíhliða samninga um landbúnaðarmál við Slóveníu.
    Fríverslunarsamningur EFTA-ríkja og Slóveníu er birtur sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.
    Árið 1994 fluttu Íslendingar út vörur til Slóveníu fyrir 17,9 milljónir króna. Innflutningur frá Slóveníu nam á sama ári 1,9 milljónum króna.

..........



    Með tillögunni var fríverslunarsamningurinn prentaður ásamt eftirtöldum gögnum:
    I. viðauki sem um getur í a-lið 2. gr. Gildissvið.
    Bókun A, um vörur sem um getur í b-lið 2. gr. Gildissvið.
    II. viðauki sem um getur í c-lið 2. gr. Gildissvið.
    Bókun B, um upprunareglur.
    III. viðauki sem um getur í 2. mgr. 4. gr. Innflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif.
    IV. viðauki sem um getur í 3. mgr. 4. gr. Innflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif.
    Bókun D sem um getur í 1. mgr. 6. gr. Fjáröflunartollar.
    V. viðauki sem um getur í 3. mgr. 7. gr. Útflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif.
    VI. viðauki sem um getur í 2. mgr. 8. gr. Magntakmarkanir á innflutningi eða útflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif.
    Bókun D, um einokun sem stendur óbreytt við gildistöku samningsins þrátt fyrir 10. gr.
    VII. viðauki sem um getur í 16. gr. Vernd hugverka.
    VIII. viðauki, um túlkun 18. gr.
    IX. viðauki. Reglur um framkvæmd 3. mgr. 18. gr. samnings EFTA-ríkjanna og Slóveníu.
    X. viðauki. Stofnun og starfsemi gerðardómstóls.
    Samþykkt fundargerð við undirritun fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og lýðveldisins Slóveníu.
    Bókun um samkomulag varðandi samning milli EFTA-ríkjanna og Slóveníu.
    Samningurinn á ensku ásamt bókunum og viðaukum.
    Um þessi gögn vísast til þingskjalsins ( lausaskjalsins). Einnig verður samningurinn prentaður í C-deild Stjórnartíðinda ásamt viðaukum og bókunum.