Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 307 . mál.


547. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Kristján Pálsson, Pétur H. Blöndal, Vilhjálmur Egilsson,


Guðjón Guðmundsson.



1. gr.


         Í stað 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur nýr töluliður er orðast svo: Erlendir aðilar mega eiga allt að 49% hlut í fyrirtækjum sem vinna sjávarafurðir hér á landi og/eða stunda fiskveiðar.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


     Með þessum lögum er verið að heimila beina fjárfestingu erlendra aðila í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar og fiskvinnslu. Skorður eru þó settar við slíkri fjárfestingu og má hún ekki verða meiri en 49%.
    Íslenskur sjávarútvegur hefur á síðustu árum átt í verulegum erfiðleikum vegna samdráttar í þorskveiðum. Innan greinarinnar hefur verið brugðist við breyttri stöðu með endurskipulagningu framleiðslunnar, sameiningu fyrirtækja, endurfjármögnun lána og með skráningu sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Allar þessar aðgerðir hafa orðið til þess að efla fyrirtækin í greininni og þau snúið vörn í sókn. Ljóst er að velflestar greinar fiskvinnslunnar eru reknar með töluverðu tapi og ekki er fyrirsjáanlegt að það breytist. Það er áhyggjuefni í ljósi þess að launafólk í fiskvinnslu hefur tekið mikið af þessum erfiðleikum á sínar herðar með hógværð í launakröfum. Ekki er hægt að búast við því að slík þolinmæði verði viðvarandi og eru þegar brögð að því að íslenskt fiskvinnslufólk leiti til útlanda eftir vinnu í fiski.
    Búast má við miklum breytingum á stöðu fiskvinnslu og útgerðar á Íslandi ef frumvarp þetta verður að lögum. Þar ber helst að nefna að áhættufjármagn kemur inn í greinina, meiri möguleika til markaðsöflunar, breyttar aðferðir í fiskvinnslunni og sterkari fyrirtæki í sjávarútvegi.
    Með tilkomu samninga um Evrópska efnahagssvæðið var gert ráð fyrir að fjárfesting aðila innan þess yrði heimil á Íslandi með undantekningum í orkufyrirtækjum, flugi og sjávarútvegi. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um erlenda fjárfestingu, sem lagt hefur verið fram, er gert ráð fyrir að bein fjárfesting erlendra aðila í flugrekstri á Íslandi sé heimil allt að 49%. Ekki er hægt að sjá nein rök fyrir því að mismuna fyrirtækjum á Íslandi að þessu leyti. Ástæður eins og að sjálfstæði landsins sé stefnt í hættu eiga ekki við lengur enda öryggisákvæði 6. gr. frumvarps ríkisstjórnarinnar, sem heimilar viðskiptaráðherra að stöðva erlenda fjárfestingu ógni hún öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði, sett til að koma í veg fyrir slíkt.
    Á síðustu áratugum hefur verið reynt að fá erlenda fjárfestingu til landsins og þá sérstaklega til orkufrekrar starfsemi, t.d. álvera. Þrátt fyrir mikla fyrirhöfn hefur miðað hægt í þeim málum. Á síðustu árum hefur einnig verið opnað fyrir aðra erlenda fjárfestingu með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í þeim tilfellum var miðað við að hámarksfjárfesting erlends aðila í einu fyrirtæki yrði ekki hærri en 250 millj. kr. án sérstakrar heimildar ráðherra. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er nú gert ráð fyrir að fella það ákvæði út því að að ásókn útlendinga er mjög lítil og fjárhæðir lágar. Erlendir fjárfestar leita ekki hingað nema þeir sjái hagnaðarvon og að hingað sé eitthvað nýtt að sækja. Í sjávarútvegi eru Íslendingar fremstir meðal jafningja og íslenskir ráðgjafar eftirsóttir um heim allan. Það sem við höfum helst að bjóða erlendum fjárfestum er því tengt sjávarútveginum, bæði þekking og framleiðsla. Þetta verður að hafa í huga ef auka á áhuga erlendra aðila fyrir fjárfestingu á Íslandi. Frumvarp ríkisstjórnarinnar er aðeins breyting á lögunum í átt til ríkjandi ástands á óbeinni eignaraðild erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi.
    Ekki er hægt að sjá að sú þróun verði stöðvuð að fyrirtæki renni meira og minna saman fjárhagslega þvert á landamæri ríkja ef atvinnurekstur og þjóðfélag hefur hag af því. Þannig hafa komist á legg hliðarfyrirtæki sem beinlínis verða til við fjárfestingu nýrra aðila. Þessi þróun hefur t.d. orðið mjög áberandi á Írlandi þar sem blómleg fyrirtæki og menntasetur hafa risið með tilkomu frísvæða.
    Því fyrr sem stór skref verða stigin í átt til frjálsari samskipta við erlenda fjárfesta og íslenskum fyrirtækjum er gefinn kostur á að tileinka sér breytingar sem nú eiga sér stað í hinum vestræna heimi því betur gengur að bæta kjör almennings á Íslandi.