Ferill 222. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 222 . mál.


548. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um símahleranir.

    Hvaða lagaákvæði hafa gilt eða gilda um símahleranir hér á landi?
    Samkvæmt 15. gr. laga um fjarskipti, nr. 73/1984, má ekki án undangengins dómsúrskurðar veita óviðkomandi mönnum aðgang að því að hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau.
    Núgildandi lagaákvæði um heimild til símahlerana í þágu rannsóknar opinbers máls er að finna í a-lið 1. mgr. 86. gr., sbr. 87. og 88. gr., laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Fyrir gildistöku þeirra laga var ákvæði um símahleranir að finna í 47. gr. laga nr. 74/1974, en það ákvæði var óbreytt í lögum um meðferð opinberra mála allt frá árinum 1951, sbr. 47. gr. laga nr. 27/1951, 47. gr. laga nr. 82/1961 og 47. gr. laga nr. 73/1973.
    Þá er í 19. gr. laga um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, að finna heimild til að hlusta á símtöl við fanga en það skal þó ávallt gert með vitneskju hans.
    Önnur ákvæði um hlerun símtala er ekki að finna í gildandi lögum.

    Hversu oft hafa heimildir verið veittar til símahlerana á ári undanfarin tíu ár og hve mörg símanúmer hafa verið hleruð?
    Með gildistöku laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, 1. júlí 1992 var dómstólaskipan breytt verulega hér á landi sem kunnugt er. Þá voru settir á stofn átta héraðsdómstólar og í fyrsta sinn hafin skipuleg tölvuskráning upplýsinga um dómsmál, þar á meðal rannsóknarúrskurði, svo sem úrskurði um símahleranir. Fyrir þann tíma voru dómstólar á héraðsdómsstigi um 30 talsins og ekki um samræmda skráningu að ræða á úrskurðum af þessu tagi. Upplýsingar um símahlerunarúrskurði fyrir 1. júlí 1992 eru því svo brotakenndar og torsóttar að ráðuneytið hefur ekki treyst sér til að taka þær saman.
    Í kjölfar fyrirspurnarinnar var héraðsdómstólum send beiðni um svör við einstökum spurningum hennar og byggist svar ráðuneytisins á svörum héraðsdómstólanna sem aftur sækja upplýsingar sínar í tölvutækar málaskrár. Svörin taka þó sem fyrr segir aðeins til tímabilsins frá 1. júlí 1992 til ársloka 1995 eða þriggja ára og sex mánaða.
    Alls hafa á þessu tímabili verið kveðnir upp 29 úrskurðir um hleranir á samtals 42 símanúmerum eða að meðaltali 8,3 úrskurðir á ári um hlerun á að meðaltali 12 símanúmerum, á landinu öllu.
    Nánar tiltekið voru úrskurðir sem hér segir:

Úrskurðir

Símanúmer



Árið 1992
Héraðsdómur Reykjavíkur     
2
2
Héraðsdómur Reykjaness     
1
1

Árið 1993
Héraðsdómur Reykjavíkur     
8
10
Héraðsdómur Reykjaness     
1
1

Árið 1994
Héraðsdómur Reykjavíkur     
9
16

Árið 1995
Héraðsdómur Reykjavíkur     
8
12

Samtals     
29
42


    Í hve langan tíma hafa heimildirnar verið veittar
         
    
    lengst,
         
    
    að meðaltali?

    Lengst hafa heimildir verið veittar í tvo mánuði. Að meðaltali hafa þær verið veittar í 29,5 daga.

    Eru einhver dæmi um aðrar símahleranir á vegum ráðuneytanna en þær sem að framan eru nefndar?
    Hefur utanríkisráðuneytið látið stunda símahleranir? Ef svo er, hverjar og af hvaða tilefni?
    Dómsmálaráðuneytinu er ekki kunnugt um neinar aðrar símahleranir en þær sem getið er um hér að framan.