Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 275 . mál.


583. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um beiðnir um fjárnám hjá ábyrgðarmönnum fjárskuldbindinga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margar fjárnámsbeiðnir hafa verið teknar til meðferðar hjá sýslumannsembættum árlega sl. þrjú ár þar sem ábyrgðarmenn skuldabréfa eða útgefendur víxla og ábekingar eru gerðarþolar?
    Hversu hátt hlutfall eru þær af heildarfjölda fjárnámsbeiðna?


    Fjárnámsbeiðnir eru tölvuskráðar í málaskrár sýslumannsembætta. Þar eru beiðnir aðgreindar eftir aðfararheimildum þannig að unnt er að fá upplýsingar um fjölda beiðna á grundvelli dóma, sátta, skuldabréfa, á grundvelli opinberrar innheimtu o.fl. Sú flokkun byggist á reglugerð um málaskrár o.fl., nr. 17/1992. Við embætti sýslumannsins í Reykjavík voru skráðar samtals um 70.000 fjárnámsbeiðnir fyrir árin 1993–95, en áætla má að um 140.000 fjárnámsbeiðnir hafi verið skráðar á landinu öllu fyrir sama tímabil.
    Í málaskrám er ekki að finna upplýsingar um fjölda fjárnámsbeiðna sem beinast gegn ábyrgðarmönnum fjárskuldbindinga. Til að afla þeirra upplýsinga þarf að skoða hverja og eina beiðni með tilliti til þess hverjir eru gerðarþolar. Slík talning gæfi þó ekki tæmandi upplýsingar um gerðarþola þar sem dómsáttir sendar sýslumönnum greina almennt ekki hvort gerðarþolar eru aðalskuldarar eða ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga. Kostnaður samfara því að kanna hverja og eina þeirra um það bil 140.000 fjárnámsbeiðna getur numið allt að 1.000.000 króna. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum og skortir bæði mannafla og fjármuni til verksins.
    Af framansögðu má álykta að nokkuð erfitt getur reynst að svara fyrirspurninni. Að beiðni dómsmálaráðuneytisins tók sýslumannsembættið í Reykjavík til athugunar fjárnámsbeiðnir á árinu 1995, en á því ári voru teknar til meðferðar hjá því embætti samtals 22.272 beiðnir. Telja verður að fjárnám hjá ábyrgðarmönnum fjárskuldbindinga komi svo til eingöngu til álita þegar aðfararheimildir eru dómar, áritaðar stefnur, sáttir, skuldabréf, víxlar og tékkar. Þær aðfararheimildir nema um 26% af öllum fjárnámsbeiðnunum, eða 5.790 beiðnir. Með því að velja úrtök á nokkrum stöðum úr aðfararheimildum ársins 1995, flokka þar fjárnámsbeiðnir eftir þeim aðfararheimildum er að framan getur og síðan í 100 mála úrtök kom í ljós að um 31,5% af þessum fjárnámsbeiðnum beindust gegn ábyrgðarmönnum fjárskuldbindinga. Miðað við að fjárnámsbeiðnir á grundvelli dóma, áritaðra stefna, sátta, skuldabréfa, víxla og tékka voru samtals 26% af öllum fjárnámsbeiðnum á árinu 1995 eða 5.790 má af þessu úrtaki álykta að um 1.800 beiðnir á því ári hafi beinst gegn ábyrgðarmönnum fjárskuldbindinga.
    Árlega eru teknar saman upplýsingar um fjölda fjárnámsbeiðna á landinu öllu. Upplýsingar um fjölda þeirra fyrir árið 1995 liggja ekki fyrir nú, en árið 1994 voru þær samtals 46.143. Ef miðað er við að 26% þeirra hafi verið á grundvelli dóma, áritaðra stefna, sátta, skuldabréfa, víxla og tékka hafa þær verið samtals 11.997, en af því má álykta að um 3.800 hafi verið gegn ábyrgðarmönnum fjárskuldbindinga.
    Rétt er að árétta að ýmsir óvissuþættir eru samfara framangreindri úrtaksathugun og getur hún því einungis gefið vísbendingu um fjölda beiðna.