Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 363 . mál.


632. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Hjörleifur Guttormsson,


Kristinn H. Gunnarsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Ragnar Arnalds,


Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson.



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
    Í stað 1.–3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Námslán skal greiða út mánaðarlega meðan námsmaður stundar nám.
                  Námslán skal þó ekki greitt út fyrr en námsmaður hefur lokið einu missiri af námi sínu með tilskildum árangri. Þegar námsmaður hefur lokið einu missiri með tilskildum árangri fær hann lán fyrir það missiri og svo áfram mánaðarlega meðan hann stundar nám.
    7. mgr. fellur brott.

2. gr.


    2. mgr. 15. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Árlegur rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist af ráðstöfunarfé sjóðsins.

3. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fyrir 1. september 1996 skal lokið heildarendurskoðun á lögum þessum. Menntamálaráðherra skipar nefnd með fulltrúum þingflokka og samtaka námsmanna sem geri tillögur um breytingar á lögum og reglum um námslán. Í þeirri endurskoðun skal sérstaklega tekið á eftirfarandi þáttum:
—    reglum um námsframvindukröfur,
—    ákvæðum um endurgreiðslubyrði,
—    kröfum um ábyrgðarmenn,
—    úthlutunarreglum og framsetningu þeirra.
    Menntamálaráðherra leggi fram tillögur til breytinga á lögunum, sem byggist á endurskoðun þessari, eigi síðar en þegar þing kemur saman að hausti árið 1996.

4. gr.


         Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp svipaðs efnis var flutt tvisvar á síðasta kjörtímabili og aftur á vorþingi 1995 en náði ekki fram að ganga.
    Vorið 1992 gjörbreytti ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þá voru teknar upp svokallaðar „eftirágreiðslur“ námslána sem höfðu í för með sér stórfelldar hækkanir vaxtakostnaðar námsmanna. Þessar breytingar hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska námsmenn. Hluti námslána sem ætluð eru námsmönnum til framfærslu fer nú í að greiða vexti af bankalánum og dýrum þarflausum millilið hefur verið bætt inn í námslánakerfið. Námsmenn þurfa að framfleyta sér á yfirdráttarlánum í bönkum á meðan þeir bíða afgreiðslu námslána, en meðallánþegi sem nær prófum ber um 7.000 kr. kostnað vegna þessa. Nái hann ekki prófum fyrr en að hausti hækkar þessi kostnaður í 20.000 kr. Með þeim reglum sem nú gilda er ljóst að sjóðurinn gegnir ekki lengur hlutverki sínu sem er að vera:
—    félagslegur jöfnunarsjóður sem stuðlar að jafnrétti til náms óháð búsetu og efnahag,
—    fjárfestingarsjóður þjóðarinnar í menntun landsmanna og
—    framfærslusjóður lántakenda í námi.
    Ljóst er að breytingar á úthlutunarreglum sjóðsins, sem gerðar voru árið 1992, hafa haft afdrifaríkar afleiðingar og bera tölur um samsetningu námsmanna í Háskóla Íslands það glöggt með sér. Síðan breytingarnar tóku gildi hefur barnafólki í námi fækkað um 34%, einstæðum foreldrum í námi hefur fækkað um 42% og námsmönnum af Vestur- og Austurlandi hefur fækkað um 30–40%. Þess ber að geta að í kjölfar aukins atvinnuleysis hefur námsmönnum fjölgað í HÍ. Samkvæmt nýlegum könnunum, sem Stúdentaráð HÍ hefur látið gera, þurfa námsmenn, sem búa við núgildandi reglur um endurgreiðslur námslána, að hafa himinháar tekjur til að eiga möguleika á að eignast húsnæði að loknu námi.
    Því er ljóst að ekki má bíða lengur með breytingar á reglum um námslán. Mikilvægast er að taka nú þegar upp samtímagreiðslur námslána en einnig er nauðsynlegt að taka fleiri reglur til endurskoðunar. Því er lagt til að við lögin um LÍN bætist bráðabirgðaákvæði sem tryggi að endurskoðun fari fram fyrir haustið 1996 og er henni einkum ætlað að beinast að tilteknum þáttum í reglum um námslán. Fyrst ber að nefna reglur um námsframvindukröfur en nú gerir stjórn sjóðsins kröfu um 100% námsárangur, óháð því hvaða kröfur viðkomandi skóli gerir til námsframvindu. Eðlilegt er að stjórn sjóðsins hafi sama mælikvarða og viðkomandi skóli og rúmist námsárangur innan þeirra marka sem skólinn setur sé skylt að veita nemandanum námslán. Þá er mikilvægt að taka endurgreiðslureglur til endurskoðunar, en núgildandi reglur gera ungu fólki sem kemur úr námi svo til ókleift að eignast húsnæði. Til greina gæti komið að gera endurgreiðslu námslána frádráttarbæra frá skatti til að auðvelda endurgreiðslubyrðina.
    Þá er nauðsynlegt að endurskoða reglur um ábyrgðarmenn, en samkvæmt núgildandi lögum er þess krafist að fasteignareigandi ábyrgist með sjálfskuldarábyrgð endurgreiðslu lánsins. Ljóst er að slíkar kröfur útiloka marga frá því að taka lán úr sjóðnum. Hugsanlegt væri að veita ríkisábyrgð fyrir lánum úr sjóðnum á þeirri forsendu að sjóðurinn sé fjárfestingarsjóður í menntun námsmanna.
    Einnig er í bráðabirgðaákvæðinu lagt til að úthlutunarreglur og framsetning þeirra séu teknar til skoðunar. Samkvæmt núgildandi reglum mótar stjórn sjóðsins úthlutunarreglurnar og framsetningu þeirra. Reglurnar eru óskýrar og þyrfti að kveða mun skýrar á um þær í lögum og reglugerð en nú er.
    Alþýðubandalagið hefur frá upphafi lýst andstöðu sinni við herferðina gegn námsmönnum og LÍN er hófst árið 1992. Flokkarnir sem voru í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili lýstu því reyndar allir yfir fyrir síðustu alþingiskosningar að þeir hygðust gangast fyrir því að samtímagreiðslur námslána yrðu teknar upp á ný kæmust þeir til valda og tók Alþýðuflokkurinn að lokum undir þessi sjónarmið. Því er ljóst að meiri hluti ætti að vera fyrir því á Alþingi að samþykkja breytingu þá sem hér er lögð til og felur í sér afnám eftirágreiðslna.
    Frumvarpið er að efni til flutt óbreytt frá síðasta ári að undanskildu bráðabirgðaákvæðinu.